Myndaannállinn 2024
Þetta er búið að vera skrýtið ár. Skemmtilegt og leiðinlegt í bland. Það hafa skipst á skin og skúrir. Árið gaf og árið tók. Eins og venjulega hef ég lagt mig fram við að fylgjast ekkert með fréttum. Því það að fylgjast með fréttum er bara ávísun upp á leiðindi og þunglyndi. En ég kemst þó ekki hjá því að vita hvað er að gerast í þjóðfélaginu.
Á alþjóðavettvangi: Stríð í Úkraínu. Þjóðarmorð í Palestínu. Og þetta á bara eftir að versna! Appelsínuguli karlinn aftur að verða forseti í Ameríkuhreppi. Of mikið af geðsjúklingum og brjálæðingum við völd í heiminum. Meira kynþáttahatur, meira hatur gagnvart minnihlutahópum. Útlendingar óvelkomnir allsstaðar – og sérstaklega þeir sem hafa ekki rétta húðlitinn.
Á Íslandi: Útlendinga-„vandamál“. Sem er samt ekkert vandamál, heldur bara skilgreint sem vandamál af þeim sem vilja ekki útlendinga á Íslandi, og vilja kenna útlendingum um allt sem aflaga fer í stjórnkerfi landsins. Nokkur eldgos. Veit ekki hversu mörg. Hnífaárásir. Ung stúlka myrt í miðbæ Reykjavíkur. Íslensk ungmenni að vopnbúast og særa og drepa hvert annað. Verðhækkanir framundan. Verðbólgan étur launin okkar. Nýr forseti. Alþingiskosningar. Ný ríkisstjórn. Sjáum til hvernig henni gengur. Ríku- og frekukallarnir eiga samt eftir að fara á yfirsnúning af reiði út af henni. Sem er gott á þá!
Ég man ekki meira, og vil ekki rifja upp fleiri fréttir úr fjölmiðlum.
Fyrir mig hefur þetta þó verið ágætis ár, þrátt fyrir allt, svona þannig séð. Það hefur dálítið einkennst af ferðalögum. Hef aldrei farið í jafn margar flugferðir á einu ári. Flugviskubitið dálítið farið að segja til sín.
En rifjum upp hvernig þetta ár hefur verið hjá mér. Sem er tilgangurinn með þessari árlegu færslu. Því þetta er ekki vettvangur fíflagangs. Það er ekkert gamanmál hér á ferðinni. Hér er mynda- og myndbandaannáll ársins 2024.
Það byrjaði á sama stað og 2023 endaði, í Birkiberginu í Hafnarfirði.
Amma kvaddi okkur í upphafi ársins.
Mætti á þessa tónleika í Hörpu.
Fylgdist með mótmælum á Austurvelli.
Tók reglulega sundspretti í Vesturbæjarlauginni.
Fylgdist með nokkrum eldgosum. Veit ekki hversu mörgum.
Mætti á árshátíð í Hörpu.
Mætti á þorrablót með þessu fólki (og fleirum).
Mætti á Háskóladaginn.
Hélt upp á páskana með súkkulaðiáti.
Fór til Kaupmannahafnar 16.-21. apríl. Það voru nítján ár síðan síðast. Sama dag og ég kom þangað varð stórbruni í kauphöllinni Børsen. Ég var samt ekki að fikta með eld þarna. Hrós til íslenksra fjölmiðla sem notuðu fyrirsögnina Eldur í Kaupinhafn. (Samstöðin, Viðskiptablaðið).
Með nokkrum af bestu vinnufélögum í heimi á NUASkom-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn (þeim sem ég náði á mynd):
Meira frá Kaupinhöfn:
Frá Kaupmannahöfn lá leiðin til Münchenar. Aðalmarkmið með komunni þangað var að heimsækja Frühlingsfest, sem er n.k. litla systir Októberfests.
Sá DJ Ötzi eitt kvöldið á Frühlingsfestinu.
Þessi mættu líka til Münchenar, en án hljóðfæranna:
Spilaði fullt með þessu fólki, s.s. í skrúðgöngum, októberfestum, á tónleikum og allskonar.
Söng með þessu fólki:
Passaði þessa í smá stund.
Skoðaði Þingvelli – í leiðindaroki og rigningu. Íslenska sumarveðrinu.
Labbaði nokkrum sinnum upp á Helgafell, eftir því sem veður leyfði þetta sumarið. Mun þó ekki hafa komið þangað upp nema 18 sinnum á árinu.
Hélt líka áfram að hjóla. Komst upp í rúmlega 7000 kílómetra á árinu. Þeir hefðu getað orðið rúmlega 8000. En það hlaut sviplegan endi 4. október þegar það var keyrt á mig og hjólið fór í hakk. Hef varla snert það síðan, einkum vegna veðurs og færðar. Það er samt allt í lagi með mig – og hjólið, eftir að það var búið í viðgerð og uppherslu. Tek þráðinn almennilega upp aftur þegar snjóa leysir og ófærðin verður yfirstaðin. Því það er ekki gert ráð fyrir öðru en bílaumferð yfir vetrartímann á Íslandi.
Hékk í Tjaldinu í Hjarta Hafnarfjarðar næstum því alla daga sem það var opið í júlí.
Tók þátt í lúðrabardaga á menningarnótt. Og vann!
Fór með þessu fólki til Bad Orb í Þýskalandi:
Meira frá Bad Orb, í formi Instagram-sögu
Mætti til Egilsstaða með þessu fólki, og fleirum, á landsmót lúðrasveita.
Fór til Akureyrar í október.
Sá Litlu hryllingsbúðina í Samkomuhúsinu á Akureyri
Undirbjó jólin, eftir því sem ég nennti.
Fór með þessu fólki til Glasgow, og smá til Edinborgar rétt fyrir jólin:
Sá Travis á tónleikum í Glasgow.
Meira frá Glasgow (og Edinborg) samsett úr Instagram-sögu.
Hélt svo samkvæmt venju upp á jól og hækkandi sólargang síðustu viku ársins, með tilheyrandi letikasti, ofáti og öllu sem ég leyfi mér ekki að gera svona dags- daglega…
…eins og að borða Kókópuffs með Baileys útá.
Og þannig var nú það.
Þakka ykkur öllum fyrir samskipti og samveru á árinu sem senn er liðið, hversu mikil eða lítil sem þau voru. Með von um að þau verði enn betri, meiri og skemmtilegri á næsta ári. Og bara allt saman.
Munið svo að missa ykkur ekki alveg í flugeldageðveikinni í kvöld. Því sum okkar hata flugelda og geta ekki þetta svifryk! Það er sko hægt að gera meira en kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitir. Eins og að kaupa rótarskot. Eða bara styrkja þær án þess að fá nokkuð í staðinn, nema gleðina og ánægjuna.
Ást og friður til ykkar allra.
Gangið hægt um gleðinnar hurð.
Gerið allt á næsta ári sem ég mundi gera!
Á sama tíma að ári!