Að heiman um jólin

Að heiman um jólin

Gleðileg jól
Gleðileg jól

Níundi þáttur í 26. þáttaröð er sá síðasti fyrir jól. Upphafsstefið er því í sérstakri jólaútgáfu, sem er reyndar keimlík þeirri sem var notuð í jólaþætti ársins 2013, en þó ekki alveg eins.

Hómer er í aðalhlutverki í þættinum ásamt fjölskyldunni. Einnig er sögð lítil saga af Maggie að föndra jólastjörnu til að setja á jólatréð.

Hómer er á leið heim eftir vinnu á aðfangadagskvöldi og Marge er að ljúka við að skreyta heimilið. Á leiðinni heim festir Hómer bílinn í snjóskafli fyrir utan krána hjá Moe. Hann ákveður að kasta jólakveðju á Moe. Moe er einmana um jólin, Hómer sýnir honum samúð með því að fá sér einn bjór hjá honum. (Bjórarnir verða fjórir að lokum).

Hómer kemur því ekki heim fyrr en nokkrum mínútum fyrir klukkan tólf á miðnætti. Marge verður vonsvikin vegna þess. Systur hennar ráðleggja henni (einu sinni sem oftar) að skilja við hann. Marge ákveður að henda Hómer út vegna seinkomunnar.

Hómer fer aftur á krána til Moe, en þar er lokað og læst, því Moe er að skemmta sér við að syngja í karókí. Næsti viðkomustaður hans er búðin hans Apu, þar sem hann kaupir skafmiða, án nokkurs vinnings.

Á meðan hafa Bart og Lísa áhyggjur af pabba sínum og ákveða að fara að leita hans. Þau segja móður sinni frá áhyggjum sínum. Skömmu síðar kemur Moe niður skorsteininn og tekur á sig sökina á því að Hómer skuli hafa komið seint heim. Marge reynir að hringja í Hómer, en síminn verður batteríslaus. Auk þess er hann inni í bílnum, sem verið er að draga í burtu.

Hómer fær sér göngutúr um verslunargötu Springfield, þar sem allar búðir eru lokaðar. Eini staðurinn sem er opinn er bíóið, þar sem Hómer borgar sig inn á niðurdrepandi jólamynd og hittir þar helstu einfara bæjarins. Hann vill ekki umgangast þau og fer út. Áður gefur þeim hins vegar poppið og gosið sem hann hefur keypt í bíóinu.

Næst hittir hann Ned Flanders, sem er að loka sölubásnum sínum fyrir jólin. Til að gleðja Flanders kaupir hómer af honum augnhárasnyrti fyrir örvhenta. Hann vill hins vegar ekki vera of góður vinur Flanders og flýr af hólmi þegar Flanders byrjar að tala um hversu góðir vinir og nágrannar þeir eru orðnir. Hómer leggst á bekk og sofnar.

Marge og krakkarnir fara á elliheimilið að leita að Hómer. En þar hita þau bara afa og gamla fólkið og gleðja þau með að hlusta á sögurnar sem fólkið hefur að segja.

Hómer er vakinn af dularfullum starfsmanni verslunargötunnar sem er klæddur eins og Hnotubrjóturinn. Þessi starfsmaður býður Hómer með sér í jólaveislu, þar sem allir eru klæddir sem einhvers konar jólaverur. Þar fær Hómer að borða piparkökuhús. Í jólaveislunni finnur Marge Hómer og fjölskyldan sameinast á ný.

Þættinum lýkur á jóladagsmorgni þegar Bart og Lísa stelast til að opna jólagjafir. Einnig fylgjumst við með því þegar guð gefur Jesú afmælisgjöf. Jesú er óánægður með að eiga afmæli á jólunum, því þá fær hann færri gjafir.

Hversu oft hefur Marge orðið reið við Hómer út af einhverju smáatriði, einhverjum mistökum sem honum verða á? Ótal sinnum í gegnum árin. (Ég ætla ekki að fara að telja þau saman hér). En hversu oft hefur Hómer orðið reiður við Marge vegna mistaka sem henni verða á? Kannski tvisvar sinnum eða þrisvar sinnum. (Ætla heldur ekki að telja þau saman hér). Hann segir henni a.m.k. mun sjaldnar til syndanna heldur en hún honum. Þetta er dæmi um hvað þættirnir hafa verið pólitískt réttsýnir í gegnum árin. Konan má vera reið við karlinn þegar hann gerir mistök, komi fullur heim o.s.frv., það er fyndið og skemmtilegt; en karlinn má ekki vera reiður við konuna þó að hún geri mistök, reyni við aðra karlmenn t.d., það yrði líklega flokkað sem karlremba eða ofbeldi gegn konum. (Kynbundið ofbeldi?)

Í grunninnn var þetta sem sagt einn af þessum þáttum þar sem Marge verður reið við Hómer vegna mistaka eða yfirsjóna hans. Þar er ekkert nýtt á ferðinni. Í grunninn var þema þáttarins ófrumlegt og söguþráðurinn nokkuð fyrirsjáanlegur þegar upp var staðið. En af því að þetta var jólaþáttur ætla ég að fyrirgefa framleiðendunum í þetta sinn. Þetta var ágætis jólaþáttur. Jólaþáttur með ágætum boðskap, sem er sá að kannski er mesta ánægjan fólgin í því að gefa af sjálfum sér og gleðja aðra í kringum sig, eins og Hómer gerir í þessum þætti. Hann gleður alla nema sjálfan sig. Sælla er að gefa en þiggja.

Lærdómur þáttarins er líka skemmtilegur: The place to get drunk is at home. (Og það er satt – ef maður vill vera fullur einn. Ef maður vill vera fullur með einhverjum á maður hins vegar að fara út á sína Móakrá, hver sem hún er).

Nokkur skemmtileg atriði í þættinum:
-Hans Moleman býr fyrir ofan Myndasögubúðina.
-Kjarnaofninum í orkuverinu er læst með einföldum krók.
-Skilti á búð: Lego Simpsons 90% off.
-Af einhverjum ástæðum er salatblað fast í kóngulóarvef uppi í loftinu í stofunni.
-Símanúmer Hómers er 5550001. (Áður hefur hr. Burns verið með þetta símanúmer).
-Marge klæðist útifötunum undir náttsloppnum.
-Hómer: „The nutcracker. Every child’s favorite christmas character“.
-Homer: You know how everyone hates being with their family on christmas?
Hnotubrjóturinn: Uh-huh.
Hómer: Well, being without them is worse.
-Ljósaskilti í bakgrunni á meðan Marge og krakkarnir leita að Hómer reynast vera hluti af skiltabúð.
-Og það er klassískur brandari og alltaf jafn fyndið þegar eitthvað er fast á milli lofts á neðri hæðinni og gólfs á efri hæðinni. Í þetta sinn sjáum við beinagrindur af jólaálfunum Prep og Landing.

Comments are closed.