Browsed by
Author: Atli

Tilraunaeldhúsið

Tilraunaeldhúsið

Kökur dagsins eru ættaðar frá Noregi. Þær koma við sögu í einu af höfuðverkum norskra leikbókmennta: Dýrunum í Hálsaskógi. Þetta eru piparkökur Hérastubbs bakara, bakaðar eftir Piparkökusöngnum:

Þegar piparkökur bakast kökugerðarmaður tekur
fyrst af öllu steikarpottinn og eitt kíló margarín,
bræðir yfir eldi smjörið en það næsta sem hann gjörir
er að hræra kíló sykurs saman við það, heillin mín.

Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjarauður
saman við og kíló hveitis hrærist og í potti vel.
Síðan á að setja í þetta eina litla teskeið pipar,
svo er þá að hnoða deigið, breiða það svo út á fjöl.

Þetta er dálítið stór uppskrift, enda notuð af faglærðum bakara í bakaríi. Hér er búið að minnka hana niður í 1/8 af því sem segir í söngnum og þá lítur hún svona út:

piparkokur
Piparkökur Hérastubbs

125 g smjör
125 g sykur
1 eggjarauða
125 g hveiti
1/8 tsk pipar

1. Smjörið brætt í potti ef það er ekki lint.
2. Smjör og sykur hrærð saman.
3. Eggjarauðunni bætt út í.
4. Hveitið sett saman við og allt hrært vel.
5. Pipar bætt við.
6. Deigið sett á bökunarplötu með teskeið. U.þ.b. ein teskeið fyrir hverja köku. (Það er ekki hægt að fletja það út, eins og gert var í leikritinu og ekki heldur hægt að móta karla og kerlingar úr deiginu).
7. Bakað við 180° í 10-12 mínútur.

Jólabaksturinn

Jólabaksturinn

Uppskriftin af þessum kökum gekk manna á milli í árdaga internetsins, í kringum 1996. Með uppskriftinni fylgdi saga af viðskiptavini sem var rukkaður um 250 dollara fyrir kökuuppskrift frá Neiman Marcus og hefndi sín með því að dreifa uppskriftinni með tölvupósti. Þess vegna eru þessar kökur kallaðar Neiman Marcus kökur eða Netkökur.

Sagan á bak við kökurnar er reyndar ekki sönn og hún hefur verið til í ýmsum útgáfum miklu lengur en þetta svokallaða internet. En kökurnar eru góðar. Hér er þýdd og staðfærð útgáfa af uppskriftinni:

neimanmarcus
Neiman Marcus kökur

200 g smjör
2 egg
2 dl púðursykur
1 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk lyftiduft
6 dl haframjöl
5 dl hveiti
60-100 g saxaðar hnetur
200-300 g súkkulaðibitar (Hershey’s chocolate chips eða venjulegir Hershey’s dropar sem eru saxaðir niður í bita – eða bara íslenskt suðusúkkulaði, því íslenzkt er bezt, eins og við vitum).

1. Hitaðu ofninn í 180°C
2. Hrærðu linu smjöri, eggjum, púðursykri og sykri saman í hrærivél.
3. Bættu þurrefnunum og vanilludropunum við og hrærðu í stuttan tíma.
4. Settu hnetur og súkkulaði út í skálina og hrærðu saman við (með sleif).
5. Búðu til kúlur úr deiginu og bakaðu þær í u.þ.b. 10-12 mínútur.

Þetta verða u.þ.b. 90 kökur.
Það má minnka uppskriftina um helming.

Lottóvinningur

Lottóvinningur

Tölur gærkvöldsins voru:
1 – 6 – 15 – 23 – 29 – 36

Röð E er svo sannarlega vinningsröð, með þrjár af þessum tölum.
Vinningsupphæðin er samtals 1.090 krónur.
(Upplýsingar af lotto.is).

20131215-134413.jpg

Sálmurinn um blómið

Sálmurinn um blómið

Ríkisstjórn Íslands. Mynd fengin af stjornarrad.is
Ríkisstjórn Íslands. Mynd fengin af stjornarrad.is. Myndin tengist færslunni ekki beint.

„Svona eru margir menn. Þeir eru alltaf að reyna að gera það, sem þeir geta ekki gert öðruvísi en illa, en þeir vilja ekki gera það, sem þeir geta gert vel. Þetta er skrýtið. Ég þekkti mann, sem var kennari, og hann var sæmilega góður kennari. En þegar hann var búinn að vera nokkur ár kennari, þá vildi hann ekki lengur gera þetta, sem hann gat vel gert. Og hvað heldurðu hann hafi viljað fara að gera?“

„Ég veit það ekki,“ svarar litla manneskjan.

„Það er ekki von þú vitir það. Það er svo ónáttúrlegt. Hann langaði til að ráða yfir fólkinu, og til þess að geta það vildi hann verða ráðherra. Og hann varð ráðherra. En hann var ekki nógu vitur maður og ekki nógu góður maður og ekki nógu sterkur maður til þess að vera góður ráðherra. Hann var vondur ráðherra.

Ef hann hefði bara verið kennari, þá hefði fólkið alltaf hugsað gott um hann og sagt: Hann var bara góður kennari. En hann vildi ekki vera kennari. Hann vildi vera ráðherra. Og nú segir fólkið um hann og heldur áfram að segja alla tíð: Hann var versti ráðherra, sem verið hefur á Íslandi. Hann gerði íslenzku þjóðinni mikið illt. Hann gaf sig Djöflinum, og Djöfullinn hjálpaði honum til að eyðileggja íslenzku þjóðina.

Þetta er ljót saga. Hún er hræðileg. Heldurðu, að þú gerir nokk­urntíma svona, þegar þú ert orðin stór?“

„Nei,“ svarar litla manneskjan.

„Nei, ég vona það. Maður á alltaf að spyrja sjálfan sig, áður en maður tekur að sér að vinna verk, sem erfitt er að vinna: Get ég gert þetta nógu vel? Er ég nógu vitur og nógu góður og nógu duglegur til þess að geta gert þetta svo vel, að fólkið hafi gott af því?

Svona eiga menn að spyrja. Og ef allir menn spyrðu svona, þá væri allt í góðu lagi í heiminum. Og þá væri gaman að lifa í heiminum.

En menn spyrja ekki svona. Þeir spyrja svona: Hvað get ég grætt mikla peninga á að taka að mér þetta verk? Eða: Hvað get ég náð í mikil völd og ráðið mikið yfir fólki með því að taka að mér þetta verk? Eða: Verð ég ekki frægur og afarfínn maður og tala ekki allir mikið um mig, ef ég vinn þetta verk? Afskaplega held ég, að ég taki mig þá vel út.

Svona spyrja flestir, og þess vegna er svo margt vitlaust og botn­laust í heiminum, Hegga mín! Og þessvegna er svo leiðinlegt að lifa í heiminum.““

(Þórbergur Þórðarson: Sálmurinn um blómið – 22. kafli).

Meira plögg

Meira plögg

jol2013_stort
Hátíð ber að höndum bjarta,
hverfur undan myrkrið svarta,
glaðna tekur guðhrædd þjóð,
geislum lýsist hugarslóð.

Aðventu- og jólatónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hásölum mánudaginn 2. desember og þriðjudaginn 3. desember kl. 20.00.

Í þetta sinn flytur Kammerkórinn úrval aðventu- og jólalaga og lofar að koma öllum í hátíðarskap.

Að venju sitja tónleikagestir til borðs og þiggja kaffi og konfekt.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og 1.500 fyrir eldri borgara.

Nánari upplýsingar eru á síðunni www.kammerkor.is.

Tóndæmi:

Plögg dagsins

Plögg dagsins

Plöggvertíðin er byrjuð.
Hér er það fyrsta:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur aðventutónleika í Víðistaðakirkju laugardaginn 30. nóvember kl. 14:00.

Á efnisskránni er meðal annars að finna svítu fyrir lúðrasveit eftir Gustav Holst, tvo kafla úr svítu fyrir sviðshljómsveit eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og íslenskan jólaforleik eftir Sigurð I. Snorrason – auk hefðbundinna marsa.

Einleikarar á tónleikunum verða trompetleikarinn Andrés Björnsson sem leikur tangó eftir Astor Piazzola og hornleikarinn Erna Ómarsdóttir sem leikur rondókafla úr einum hornkonserta Mozarts. Auk þess stígur básúnudeildin á svið og leikur Lustige Polka eftir Hans Hartwig.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð er 1500 kr. en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára.

Tóndæmi:

Á afmæli kattarins

Á afmæli kattarins

Ronja, 5 ára 19. nóvember 2013

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér reyndist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.

Lifað nú hefur þú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástaljóð.

Andvakan þykir mér yfrið löng
unz ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.

Til munu þeir sem það tónverk lízt
tilkomulítið, en eitt er víst:
læðan sem kúrir í leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.

Mjúkur, með kirfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.

Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.

Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnazt að sundurgerð.

-Jón Helgason

Sólheimajökull

Sólheimajökull

Göngutúr á Sólheimajökul og um fleiri staði á suðurlandi sunnudaginn 27. október.

Ekki erfið ganga, en þrælskemmtileg.

Það er magnað að fylgjast með náttúrunni að störfum.

Sé smellt á myndina má sjá þær fleiri.

Útsýni af Sólheimajökli.