Browsed by
Author: Atli

Októberfest

Októberfest

Eina alvöru októberfestið í Hafnarfirði verður haldið næstkomandi laugardag.

Októberfest snýst ekki bara um að drekka bjór í október, þó að hann sé vissulega mikilvægur. Það snýst líka um leðurhosur, dirndla og þýska þjóðlagatónlist.

Öll þessi blanda verður á Ölstofu Hafnarfjarðar (áður Enska barnum í Hafnarfirði) laugardaginn 10. október, þegar Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur sitt árlega októberfest. Talið verður í fyrsta lagið klukkan 20:00.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Í þetta skiptið mætir stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson á svæðið og syngur með!

Aðgangur er ókeypis.

Anton frá Týról verður á staðnum.

Ljósanótt

Ljósanótt

Ljósanótt var haldin í Reykjanesbæ/Keflavík í dag.
Hér er Lúðrasveit Hafnarfjarðar í startholunum fyrir árgangagönguna.

LJósanótt 2015
Ljósanótt 2015

Skólinn

Skólinn

Skólinn er byrjaður af krafti og fyrsti dagurinn afstaðinn.
Næstu vikur og mánuði gæti þessi síða því litast eitthvað af því sem ég verð að fást við þar.
Kemur bara í ljós.

Háskóli Íslands, aðalbygging.
Háskóli Íslands, aðalbygging.

Fjallgöngusumarið gert upp

Fjallgöngusumarið gert upp

Fjallgöngusumrinu árið 2015 er opinberlega lokið. Rútínan er að fara aftur í gang, skólinn byrjar í næstu viku, frelsinu er lokið og því ekki tími til göngutúra, a.m.k. ekki daglega eins og í sumar. Ég útiloka þó ekki að fara í einn og einn göngutúr í haust eftir því sem tími, veður og færð leyfa.

Tímabilið hófst frekar seint þetta árið, ekki fyrr en 4. maí, því það var vetur fram í miðjan maí. Það mun því hafa staðið yfir í 119 daga. Hér koma nokkrar skemmtilegar tölfræðiupplýsingar, teknar saman með aðstoð Endomondo:

  • Samtals urðu gönguferðirnar 78, þar af 74 upp á Helgafell í Hafnarfirði.
  • Flestir dagar í röð voru 14, á tímabilinu 20. júlí til 2. ágúst.
  • Flestir dagar í röð án fjallgangna voru 10, frá 9.-18. maí.
  • Samtals eru 423,57 kílómetrar að baki eftir fjallgöngur sumarsins.
  • Og samtals hef ég varið 4 sólarhringum, 18 klukkutímum, 44 mínútum og 46 sekúndum á fjöllum þetta sumarið.
Kvaddi Helgafell í bili í dag, með þoku uppi á toppnum.
Kvaddi Helgafell í bili í dag, með þoku uppi á toppnum.
Með Volkswagen í fjallgöngu

Með Volkswagen í fjallgöngu

Einhverjum (kannski markaðs- eða auglýsingastjóra Heklu) fannst góð hugmynd að setja þetta segulskilti á landmælingastöpulinn uppi á Helgafelli í Hafnarfirði.

Á leið up?
Á leið up?
Nauðgaralagið

Nauðgaralagið

Sumarið 1997 var ég að vinna í sláttuflokki Hafnarfjarðarbæjar. Ég hlustaði mikið á útvarpið við vinnuna. Það var betra en að hafa suð í eyrunum frá orfum og sláttuvélum.

Fyrir hádegi var Tvíhöfði í útvarpinu.

Eftir hádegi hlustaði ég oft á Bjarna Ara á Aðalstöðinni/Gull 90,9. Við vinnufélagarnir hringdum stundum í beina útsendingu, báðum um óskalög og sendum kveðjur. Í og með til þess að gera grín að öllum miðaldra húsmæðrunum sem hringdu í þáttinn.

Þá um sumarið kom út diskurinn Sveitaperlur. Fyrsta lagið á diskinum er sungið af Ragnari Bjarnasyni. Það hljómaði gjarnan í útvarpsþættinum hjá Bjarna Ara. Það heitir Augun segja já. Meðal vinnufélaganna gekk það undir nafninu Nauðgaralagið. Nafngiftin skýrir sig sjálf þegar hlustað er á textann.

Um haustið þetta sama ár var ég í fjölmiðlafræðiáfanga í Flensborg. Eitt af verkefnum áfangans var að sjá um útvarpsþætti í Útvarpi Hafnarfjarðar. Ég spilaði lagið sem upphafs- og lokalag hvers þáttar.

Mér datt þetta lag í hug núna út af nauðgunarumræðunni um verslunarmannahelgina. Í tónlistarspilaranum hér fyrir neðan má hlusta á það:

Þetta árlega

Þetta árlega

Það er komið að því að pirra unga sjálfstæðismenn – bara af því að það er gaman – og birta upplýsingar úr álagningarseðlinum:

Svona lítur minn hluti út:

Gjöld:
Útsvar, tekjuskattur og álag: 1.642
Ofgr. staðgr.fjárm.tsk og álag: -4.909
Gjald í framkv.sjóð aldraðra: 10.159
Útvarpsgjald: 17.800

Eldri eftirstöðvar:
Þing- og sveitarsjóðsgjöld: 1

Samanlögð skuld er því 24.693 krónur.

Bananabrauð

Bananabrauð

Það er óþarfi að henda banönum þó að þeir séu orðnir gamlir og hýðið á þeim orðið svart. Það er hægt að baka úr þeim, til dæmis þetta bananabrauð:

Bananabrauð
Bananabrauð

Innihald:
1 egg
150 g sykur
2 þroskaðir bananar
250 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt

Aðferð:
1. Þeytið eggið og bætið sykrinum saman við í skömmtum. Þeytið eggið og sykurinn vel saman í hrærivél.
2. Merjið bananana með gaffli og hrærið saman við eggið og sykurinn.
3. Sigtið saman hveiti, matarsóda og salt og hrærið saman við bananablönduna.
4. Setjið í vel smurt aflangt form, (1 1/2 lítra), og bakið við 180°C en 160° með blæstri í 45 mínútur.