Browsed by
Author: Atli

Trúir þú á álfasögur?

Trúir þú á álfasögur?

skuggasundTók mig loksins til og las Skuggasund eftir Arnald Indriðason, næstum því ári eftir að hún kom út.

Í Skuggasundi er fléttað saman frásögnum frá tveimur tímum, annars vegar úr nútímanum (eða nýliðnum árum, u.þ.b. 2009-2010 skv. mínum útreikningum) og hins vegar frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar, einkum frá árinu 1944. Aðdáendur Arnaldar Indriðasonar þekkja svona flakk á milli ólíkra tímaskeiða úr fyrri bókum hans, til dæmis úr Grafarþögn og Kleifarvatni.

Í Skuggasundi er ekki fylgst með Erlendi og félögum, heldur kynnumst við nýjum persónum. Í fortíðinni er sögð saga af lögreglumönnunum Flóvent og Thorson, sem rannsaka morð á ungri stúlku sem finnst látin á bak við Þjóðleikhúsið vetrardag einn árið 1944. Í nútíðinni er fylgst með Konráði, lögreglumanni á eftirlaunum, sem tekur að sér að aðstoða rannsóknarlögregluna við rannsókn á morði gamals manns sem finnst látinn í íbúð sinni í Skuggahverfinu í Reykjavík. Í íbúð gamla mannsins finnast blaðaúrklippur sem greina frá andláti stúlkunnar á bak við Þjóðleikhúsið næstum því 70 árum áður. Eftir því sem sögunni vindur fram kynnist Konráð sögu stúlkunnar og kemst að því hvers vegna gamli maðurinn hefur áhuga á máli hennar.

Rannsóknir á dauða stúlkunnar og gamla mannsins eru í forgrunni sögunnar. En eins og í flestum fyrri skáldsögum Arnaldar er fjallað um ýmis önnur mál. Í Skuggasundi er sagt frá gamla íslenska sveitasamfélaginu sem er smám saman að líða undir lok. Íslendingar eru nýskriðnir út úr moldarkofunum árið 1944. Borgarsamfélagið í Reykjavík er smám saman að taka við af sveitasamfélaginu, en ennþá eimir eftir af ruddamennsku, lúðaskap og molbúahætti Íslendinga. Gamla samfélagið og viðhorf þess eru þó sínálæg og það er óvíst hvort að þau muni nokkurn tíma hverfa alveg, hvort sem það eru viðhorf til fóstureyðinga, kynjajafnréttis, samkynhneigðra eða óútskýrðra mannshvarfa eða dauðsfalla.

Í sögunni eru áberandi vangaveltur um það hvernig þjóðsögur af álfum og huldufólki hafa orðið til. Þær hafa líklega ekki orðið til úr engu, heldur hljóta einhverjir raunverulegir og stundum alvarlegir atburðir að búa að baki þeim. Konu er til dæmis nauðgað af einhverjum manni, verður ólétt eftir nauðgara sinn, en í stað þess að segja frá því sem raunverulega gerðist býr hún til sögu um að álfur eða huldumaður hafi lagst með henni:

„Það var auðvitað erfið reynsla og huldufólks­sög­urnar fegruðu hana og deyfðu sársaukann. Í sögunum eignast konur börn með glæsilegum og blíðum huldumönnum, sem eru algjör andstæða við mennsku rustana, og börnin eru borin út til þeirra. Þau alast svo upp hjá feðrum sínum við gott atlæti og snúa jafnvel aftur til mannheima síðar. Þannig eru sögurnar í og með notaðar til þess að milda sársaukafulla reynslu.“

Skuggasund gerist að mestu leyti í Reykjavík stríðsáranna, og þá á nokkuð afmörkuðum stað í borginni, þ.e. í Skuggahverfinu. Bandaríkjaher er með miðstöðvar í Reykjavík, og birgðageymsla hersins er í hálfkláruðaðri byggingu Þjóðleikhússins.

Það er skemmtilegt hverng Þjóðleikhúsið er notað sem rammi utan um þjóðsögurnar. Leikhúsið er manngerð „hamraborg sem minna skyldi á íslensku þjóð­sög­urnar um álfa og huldufólk. Leikhúsgestir áttu að ímynda sér að þeir gengju í björg þegar þeir stigju inn í þetta mikla leikhús og hyrfu inn í glitsali ævintýranna.“ Einnig kemur fram skemmtileg pæling um hvort að bandarísku hermennirnir í Reykjavík í seinni heimsstyrjöldinni hafi tekið við hlutverki álfa og huldufólks fyrr á öldum. Amerískir hermenn og álfar eru andstæður við íslenska karlmenn og rustaskap og sveitalubbahátt þeirra.

Fæstar persónur koma á óvart eftir að búið er að kynna þær til sögunar. Við fáum að kynnast bakgrunni flestra aðalpersónanna en þær eru frekar flatar og einsleitar – kannski steríótýpur. Undantekning frá þessu er þó gamli maðurinn, Stefán, sem finnst látinn á heimili sínu. Við fáum að kynnast honum og lífi hans og margt óvænt kemur í ljós um hann eftir því sem sögunni vindur fram. Engin persóna er samt það eftirminnilegt að hún eigi eftir að lifa með þjóðinni og fá sömu stöðu og til dæmis Erlendur lögreglumaður.

Maður veit orðið nokkurn veginn hvar maður hefur Arnald ef maður hefur lesið einhverjar af bókum hans. Skuggasund er þar engin undantekning. Hún er þó ekki leiðinleg, öðru nær. Skuggasund er vel skrifuð bók, ein af þeim skemmtilegri eftir Arnald. Sögufléttan er skemmtileg. Ég hef alltaf gaman af því þegar hann flakkar með frásögnina fram og aftur í tíma. Og það er skemmtilegt hvernig fortíðin og nútíðin fléttast saman, nútíðin eltir fortíðina og tímarnir tveir mætast að lokum þegar öll kurl eru komin til grafar.

Vandræði í veitingabransanum

Vandræði í veitingabransanum

margeÍ þriðja þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar um Simpson-fjölskylduna er engin aukasaga. Bara ein aðalsaga. Enginn gestaleikari. Fjölskyldan fær að njóta sín saman, með Marge í forgrunni.

Eftir að Ned Flanders kemst að því að Hómer notar rafmagnið hans, m.a. til að halda frystikistunni hans í gangi, neyðist Marge til þess að búa til samlokur úr öllu kjötinu úr frystinum, sem annars hefði farið til spillis.

Samlokurnar verða vinsælar. Bart og Lísa taka upp á því að selja samlokurnar í skólanum í skiptum fyrir ýmislegt annað (m.a. sígarettur). Varaforstjóri samlokukeðju fær Marge til að opna samlokuveitingastað undir merkjum keðjunnar og telur henni trú um að fjárhagur hennar muni batna.

Starfsmenn veitingastaðarins eru Shauna, „Squeeky voiced teen“ og Gil. Prófessor Frink kemur einnig í atvinnuviðtal, en er ekki ráðinn. Enginn starfsmannanna stendur sig nógu vel og missa þau því öll vinnuna. Marge fær því alla fjölskylduna til þess að hlaupa í skarðið.

Viðskiptin ganga vel til að byrja með, eða þangað til nýr staður undir sömu keðju tekur til starfa hinum megin við götuna. Sá staður er rekinn af Cletus og fjölskyldu hans.

Brátt fer að ganga svo illa að Marge ákveður að skreppa á krána til Moe. Moe gefur Marge góð ráð til að hætta rekstrinum án þess að tapa á því. Fjölskyldan setur upp leikrit fyrir varaforstjóra keðjunnar. Hómer er í hlutverki óheppins viðskiptavinar sem fær lélega þjónustu hjá óþjálfuðu afgreiðslumönnunum Bart og Lísu. Að sögn varaforstýrunnar ber keðjan ekki ábyrgð á óförum Hómers, heldur eigandi staðarins. Marge snýr hins vegar á varaforstýruna og segir að samkvæmt rekstrarsamningnum skuli keðjan útvega starfsmönnum viðeigandi þjálfun, sem Bart og Lísa hafa ekki fengið. Þannig fær Marge leyfisféð sitt endurgreitt af því að keðjan hefur ekki staðið við samninginn. Og fjölskyldan verður sátt að lokum.

Það var gott við þennan þátt að þurfa ekki að fylla upp í söguþráðinn með aukasögu. Það var fátt sem kom á óvart í þættinum en samt nokkur atriði sem var hægt að brosa yfir. Til dæmis Hómer að skemmta sér við að hlusta á tónlistina úr parísarhjólinu. Hómer öfundar hundinn yfir að vita ekki hvenær hann á að hætta að éta. Flanders sér eftir því að taka frystikistuna sína frá Hómer og leyfir fjölskyldunni að geyma samlokurnar í frystikistunni. Hómer setur Pizza-Hut á hausinn með því að misnota ókeypis áfyllingu af gosi. Marge gleðst yfir sínum eigin steikarspaða. Gil í fötunum sem pabbi hans var í þegar hann dó. Dr. Frink að reyna að koma frá sér setningu án furðuorða. Að minnsta kosti fyrstu ellefu dalirnir sem Marge græðir eru hengdir innrammaðir upp á vegg. Afinn að vinna í bílalúgunni – en það er engin bílalúga á staðnum. Og það er alltaf fyndið þegar það er gert grín að FOX-sjónvarpsstöðinni í Simpsons-þáttunum. („Það er sem þeim sé sama þótt þú græðir á meðan þeir græða. Hvers konar stórfyrirtæki gerir slíkt?“ Spurningunni er svarað með broti úr 20th century fox-stefinu.)

Það virðist vera ný þróun í þáttunum að láta þá enda á stuttum, sjálfstæðum þætti eða atriði, oft einhverju sem tengist efni aðalþáttarins. (Fyrsta slíka sagan mun hafa verið „Everyone loves Ned Flanders“). Í þetta skipti er Hómer í hlutverki steinaldarmanns sem finnur upp samlokuna.

Maður er kannski hættur að búast við einhverju frumlegu og fyndnu frá Simpson-fjölskyldunni. Nema kannski í sófaatriðinu í upphafi þáttanna. (Í þetta sinn heyrðist lagið Tea for the Tillerman með Cat Stevens). Þættirnir eru farnir að endurtaka sig dálítið. Við höfum til dæmis séð Marge áður í veitingarekstri, bæði með stuðnings mafíunnar og án hans. Þetta er þó besti þátturinn í 26. þáttaröðinni – hingað til. Sjáum til hvort hrekkjavökuþátturinn getur skákað honum í næstu viku.

Sambandsskipið

Sambandsskipið

Bart Simpson
Bart Simpson

Í öðrum þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar Simpson-fjölskyldunnar eru Hómer og Bart í aðalhlutverkum. Þátturinn fjallar um það hvernig þeir reyna (einu sinni enn) að bæta samband sitt og samskipti.

Bart ber ekki virðingu fyrir uppeldishlutverki föður síns og óhlýðnast honum. Hómer þrjóskast svo við að ala Bart upp að hann gleymir fótboltaleiknum sem hann spilar á netinu.

Marge skráir Hómer og Bart í sjóferð í von um að bæta samband þeirra. Úti á sjó kynnast þeir skrýtna skipstjóranum Bowditch (Nick Offerman). Hómer fær skyrbjúg eftir einn dag á sjónum. Á meðan hann jafnar sig fær Bart að fara í líkamsræktar- og klifuræfingar. Við sjáum nokkur myndbrot af skipinu undir stefi úr óperunni HMS pinafore (aðdáendur þáttanna muna kannski þegar Sideshow-Bob söng alla óperuna fyrir Bart).

Þegar nokkuð er liðið á sjóferðina er Bart gerður að aðstoðarskipstjóra og getur hann því sagt Hómer fyrir verkum sem yfirmaður hans. Þegar Bowdich skipstjóri fer á fyllerí með Hómer verður Bart æðsti yfirmaður á skipinu. Hómer svarar því syni sínum í sömu mynt og neitar að taka við skipunum frá honum. Það kemur sér illa fyrir Bart þegar óveður brestur á. Bart ákveður því að sýna föður sínum virðingu og borðar spergilkálsbitann, (sem hann geymir í vasanum af einhverjum ástæðum), og verður það til þess að feðgarnir sættast, fara að bera virðingu fyrir hvor öðrum og komast heilir til hafnar.

Aukasagan í þættinum er um Marge, sem tekur þátt í fantasíufótbolta fyrir hönd Hómers. Það er reyndar ekki minnst mikið á fótbolta, heldur er sagt frá hegðun karlmannanna í Springfield sem stunda þennan leik. Þeir tala illa um vini sína í netspjalli, eins og konur tala vel um óvini sína, og hlæja að tilvitnunum í gömul grínatriði.

Það eru líka skemmtilegar minni sögur sem sagt er frá: Martin Prince hefur til dæmis farið á sjálfsvarnarnámskeið og gengur frá Nelson. Einnig er vert að taka eftir því að það er spergilkál á himninum en ekki tungl og sól. Hundurinn sest upp á Hómer í eitt skipti þegar hann veltist með Bart á gólfinu. Og þráðlausi beinirinn í kirkjunni er geymdur í fangi Maríustyttunnar. (Hugmyndin um opið þráðlaust net í kirkjunni er skemmtileg út af fyrir sig).

Það er léttara yfir þessum þætti en yfir þeim fyrsta í þáttaröðinni, enda kemur ekkert dauðsfall hér við sögu. Þar sem þessi þáttur gerist að mestu á skipi úti á sjó býst maður við því að sjá skipstjórann McAllister. Honum bregður þó ekki fyrir nema rétt í lok þáttarins, eftir að landi er náð. Þættinum lýkur á skemmtilegum sjómannasöng. (Skyldi annars ekki vera komið nóg efni í nýjan disk með lögum úr þáttunum?) Það hefði mátt gera meira úr aukapersónunum sem voru með á skipinu: Cletus, Flanders og Apu. Þátturinn er betri en sá fyrsti í þáttaröðinni. Hann er ágætis skemmtun, en svossum ekkert meira. Hann er þó bara í meðallagi miðað við gömlu góðu klassísku Simpsons-þættina.

Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass. (Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Mnozil brass.
(Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Á mánudaginn kemur, 13. október, heldur austurríski málmblásaraseptettinn Mnozil brass tónleika í Háskólabíói.

Hljómsveitin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og tónleikagesta. Sögu hennar má rekja til ársins 1992. Þá spilaði hún nokkrum sinnum á Mnozil-kránni í 1. hverfinu í Vín. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru haldnir í Vín 23. janúar 1993, fyrir framan fámennan hóp vina og kunningja. Á þeim tíma voru hljómsveitarmeðlimir ekki með vinsældir í huga, höfðu ekki í hyggju að öðlast „költ-status“ og enginn bjóst við því að hljómsveitin ætti eftir að ferðast um allan heiminn.

Nú heldur Mnozil brass meira en 120 tónleika á ári víðs vegar um heiminn. Þeir hafa m.a. spilað í Rússlandi, Kína, Taívan og í Royal Albert Hall í London. Þeir hafa gefið út átta geisladiska og sex DVD-diska með tónleikaupptökum. Frá árinu 2000 hafa þeir sett upp næstum því eina tónleikasýningu á ári, samið tónlist við þrjár óperettur og eina kvikmynd.

Í dag er hljómsveitin skipuð trompetleikurunum Tomas Gansch, Robert Rother og Roman Rindberger, bassatrompet- og básúnuleikaranum Leonhard Paul, básúnleikurunum Gerhard Füssl og Zoltan Kiss og túbuleikaranum Wilfred Brandstötter. Allir hafa þeir stundað nám í tónlistarháskólanum í Vín. Samhliða starfi sínu í Mnozil brass sinna þeir tónlistarkennslu og öðrum störfum í tónlistargeiranum.

Mnozil brass spilar afar fjölbreytta tegund tónlistar, frá barrokki til popptónlistar og allt þar á milli, m.a. jazz, kvikmyndatónlist, þjóðlög og marsa, allt í sínum eigin útsetningum. Þrátt fyrir, eða kannski vegna akademísks uppruna finnst hljómsveitarmeðlimum mikilvægt, og jafnvel nauðsynlegt að skemmta sér. Mnozil Brass er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu. Húmorinn á tónleikum er allsráðandi. Þeir spila ekki bara á hljóðfæri á tónleikum, heldur syngja þeir stundum, flytja leik- og dansatriði, nota hljóðfærin þá stundum sem leikmuni og eru með almennan fíflagang á sviðinu á meðan þeir spila.

Tónleikarnir verða haldnir í Háskólabíói mánudagskvöldið 13. október og hefjast þeir klukkan 20:00. Það verður vel þess virði að mæta á tónleikana. Þetta verða tónleikar sem allir ættu að geta skemmt sér á – ekki bara lúðrasveitanördar heldur líka venjulegt fólk.

Hægt er að kaupa miða á tónleikana á miði.is.

Að lokum nokkur tóndæmi í boði Youtube:

Alvöru októberfest

Alvöru októberfest

Októberfest
Októberfest

Annað kvöld, föstudaginn 10. október heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar sitt árlega októberfest á Enska barnum í Hafnarfirði. Þar verða fluttir slagarar úr grænu möppu LH, sem hefur að geyma það besta úr þýska bjórlitteratúrnum. Polkar, valsar, þýsk þjóðlagatónlist og bjór eins og menn geta í sig látið.

Sérstakir gestir lúðrasveitarinnar verða stelpurnar í Die Jodlerinnen.

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:30 og aðgangur er ókeypis.

Tóndæmi:

Ökukennsla fyrir byrjendur

Ökukennsla fyrir byrjendur

Ökumenn athugið:

Stöngin þarna vinstra megin á bakvið stýrið (sjá myndina hér fyrir neðan) er staðalbúnaður í flestum nýlegum bílum.
Hún er notuð til að kveikja og slökkva ljósin á bílnum.

Ef henni er ýtt niður er hægt að gefa öðrum ökumönnum merki um að þú ætlir að beygja til vinstri.
Ef henni er ýtt upp er hægt að gefa öðrum ökumönnum merki um að þú ætlir að beygja til hægri.

Þessi merki heita stefnuljós.

Nú vitið þið hvernig stöngin virkar.
Notið hana!

Stefnuljós eru til margra hluta nytsamleg.
Stefnuljós eru til margra hluta nytsamleg.
Tár í auga trúðsins

Tár í auga trúðsins

Ath.: Inniheldur spilli um nýjasta þátt Simpson-fjölskyldunnar. Lesendur sem vilja ekki vita hvað gerist í þættinum ættu ekki að lesa lengra.

Trúðurinn Krusty
Trúðurinn Krusty

Tuttugasta og sjötta þáttaröð Simpson-fjölskyldunnar er byrjuð. Alveg frá því að 25. þáttaröð lauk í vor hafa verið byggðar upp væntingar til fyrsta þáttarins í röðinni með því að greina frá því að einhver persóna úr þáttunum muni deyja, allt til þess að laða sem flesta áhorfendur að skjánum. Dauðsfallið í fyrsta þættinum var líklega það sem flestir biðu eftir.

Trúðurinn Krusty er í aðalhlutverki í þættinum. Hann er hér í hlutverki útbrunna skemmtikraftsins sem engum finnst fyndinn lengur – allir gera grín að honum fyrir það hvað hann er ófyndinnn. Bart Simpson stendur þó með Krusty og ráðleggur honum að tala við rabbínann föður sinn til að hressa sig. Í miðju samtali feðganna gefur faðir Krustys upp öndina.

Í jarðarförinni byrjar Lísa Simpson að fá áhyggjur af heilsu föður síns. Aukasagan segir frá tilraunum Lísu til að vernda Hómer og breyta heilsu hans til betri vegar, meðal annars með því að pakka honum inn í bóluplast.

Krusty þarf að lifa með því að ekki einu sinni föður hans þótti hann fyndinn og ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Í draumi hittir Krusty föður sinn í gyðingahimnaríki, sem segir honum að vakna til lífsins og hjálpa fólki. Að lokum kemst Krusty að því að föður hans þótti hann fyndinn þrátt fyrir allt.

Í þessum þætti má finna stef úr eldri Simpsons-þáttum. Krusty ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Faðir hans er ekki ánægður með starfsvettvang hans. Þetta var bara venjulegur þáttur um Krusty og ekki sá besti. Meira að segja hálfþunn byrjun á þáttaröðinni. Gullaldarár Simpson-fjölskyldunnar eru liðin fyrir löngu. Kannski ekki við öðru að búast af sjónvarpsþáttum sem hafa enst í 25 ár samfleytt. Þetta margumtalaða dauðsfall var frekar átakalaust og auðvelt þegar allt kom til alls. Hyman Krustofsky var aldrei neinn af mínum uppáhalspersónum. Kannski má líta á Krusty í þessum þætti sem einhvers konar tákn fyrir þættina um Simpson-fjölskylduna og Bart er þá tákn fyrir harða aðdáendur þáttanna, sem fylgjast með þeim hvað sem á dynur.

Það voru samt líka nokkrir góðir smellir í þættinum. Sófabyrjunin var sú furðulegasta sem sést hefur. Svo var til dæmis fyndið að sjá Arthur Crandall og Gabbo ganga út af meðferðarstöð fyrir sorgmædda trúða.

Eins og Bart Simpson er einlægur aðdáandi trúðsins Krusty er ég einlægur aðdáandi Simpson-fjölskyldunnar og reyni að sjá nýja þætti eins fljótt og ég get. Þó að ég sé kannski hættur að búast við einhverjum stórvirkjum hlakka ég samt til í hvert skipti sem nýr Simpsons-þáttur birtist á skjánum.