Nú eru menn allsstaðar á landinu að mynda meirihluta. Þessar meirihlutamyndanir eru afleiðingar þess að á laugardaginn voru kosnir fulltrúar til að sitja í stjórnum sveitarfélaga.
Við (þ.e. við sem mættum á kjörstað á annað borð) vorum að kjósa ákveðinn fjölda fulltrúa til að vinna saman í stjórn viðkomandi sveitarfélags. Við vorum ekki að kjósa þessa 12 eða 6 til að vinna saman og 11 eða 5 til að sitja hjá og firra sig ábyrgð af því að þeir eru í minnihluta.
Það ætti ekki að þurfa að hafa ákveðna meiri- eða minnihluta í sveitarstjórnum. Enga stjórn eða stjórnarandstöðu. Þessir 23 eða 11, eða hver sem fjöldi fulltrúa er, eiga bara að vinna saman. Allir. Til þess voru þau kosin.
Þetta er ekki eins og á alþingi, þar sem meirihluti þess verður að styðja, eða a.m.k. að sætta sig við ríkisstjórnina.
Ég finn a.m.k. ekkert við lauslega yfirferð á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 um að í stjórn sveitarfélags skuli vera fyrirfram skilgreindir meiri- og minnihlutar. Ef einhver getur bent mér á hvar það stendur í lögum skal ég kannski skipta um skoðun.
Svo eru sveitarstjórnarfulltrúar að fjalla um málefni sem þeir eru 90% sammála um. Held ég. Um hin 10 prósentin mega menn svo rífast og komast að einhverju samkomulagi um.
Þannig að:
Vinnið meira saman.
Því það er meira gaman.
Þorrinn er nú í hámarki, með tilheyrandi þorrablótum og skemmtunum. Á þorrablótum eru gjarnan fluttar ræður um minni karla og kvenna. Í tilefni þorrablóta- og árshátíðavertíðarinnar er hér hugmynd að rannsóknarefni, t.d fyrir þjóðfræðinga, sagnfræðinga eða bókmenntafræðinga.
Rannsóknarspurningin gæti orðið: Hefur orðið einhver þróun eða breyting á ræðum um minni kvenna og minni karla í gegnum árin? Og ef svo er, hvernig er þá þróunin?
Er til dæmis endalaust hægt koma með orðaleiki í ræðum um minni kvenna um það hversu gott minni konur hafa, (skammtíma- eða langtímaminni) eða hvernig ræðan á einkum að höfða til minni kvenna, en ekki stærri kvenna? Eða telja upp ástæður fyrir því að bílar/bjór/hundar eru betri en konur?
Og í ræðum um minni karla; er endalaust hægt að segja klisjukennda brandara, eins og úr blöðum og tímaritum frá um 1970-1980, um samskipti kynjanna, um samskipti kúgaðra eiginmanna við ráðríkar eiginkonur og tengdamæður? (Svona brandara um konur sem berja mennina sína með kökukefli þegar þeir koma fullir heim). Eða brandara um það að karlar séu „sterkara kynið“ af því að konur leyfa þeim að halda það, greyjunum?
Eða er ennþá, árið 2016, hægt að tala um það í ræðum um minni karla, að konur eigi að vera körlum undirgefnar, þær eigi að þóknast eiginmönnum sínum á allan hátt og stjana endalaust við þá, þá verði allt í lagi með ástarsambandið/hjónabandið? (Þær eigi að vera tilbúnar með matinn þegar karlinn kemur heim, ekki hringja í hann þegar hann er í vinnunni, ekki láta hann sjá þig í morgunsloppnum o.s.frv.) Ég sat í alvöru undir svoleiðis ræðu á þorrablóti fyrir einu ári. Og það var kona sem flutti hana. 100 ára kvennabarátta fór í vaskinn á nokkrum mínútum.
Hér er hugmyndin komin, fræðimenn framtíðarinnar. Ykkar er að nota hana og vinna úr henni.
Á þessum árstíma er í tísku að birta völvuspár fyrir árið. Hér er ein:
Stjórnmálin
Ólafur Ragnar Grímsson hættir við að hætta vegna fjölda áskorana og verður kosinn forseti Íslands til fjögurra ára í viðbót. Hann fær stuðning úr óvæntri átt. Í aðdraganda kosninganna í sumar láta bloggarar og virkir í athugasemdum í sér heyra. Skítkast, skætingur og dónaskapur í umræðum þeirra rata í fréttir og verða til þess að venjulegir Íslendingar nenna ekki að fylgjast með umræðunni. Þetta bitnar á kjörsókninni, sem verður afar dræm.
Aðrir frambjóðendur eiga ekki séns í Ólaf. Þrýst verður á Katrínu Jakobsdóttur að bjóða sig fram í embættið, en hún verður ekki við þeim áskorunum.
Ríkisstjórnin heldur vitleysisgangi sínum áfram. Ríkir verða ríkari og fátækir fátækari, en þingmenn hennar og ráðherrar þræta fyrir það og segja að allt sé í lagi. Ísland – bezt í heimi. Haldið verður áfram í átt að einkavæðingu ríkisstofnana. Ríkisstjórnin lifir árið af, því stjórnarandstaðan á alþingi er aum og ósýnileg og gerir ekki neitt.
Nokkrir mótmælafundir verða haldnir á Austurvelli en þeir minna fremur á 17.-júní-samkomu heldur en mótmæli.
Píratar halda sigurgöngu sinni áfram í skoðanakönnunum. Það kemur smá bakslag hjá þeim á vormánuðum, en þeir rétta úr kútnum með haustinu. Fylgið heldur áfram að hrynja af Samfylkingunni. Árni Páll formaður verður hvattur til að segja af sér með haustinu, en situr sem fastast út árið. Björt framtíð og Samfylkingin ræða samstarf eða sameiningu sín á milli en ekkert verður úr þeim áformum.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra sýnir af sér hroka og dónaskap og sakar fjölmiðla og fréttamenn um eineltistilburði í garð Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn apa þetta háttarlag upp eftir honum.
Íslenskur stjórnmálamaður vekur athygli fyrir fremur óvenjulegt uppátæki.
Náttúran
Það verða jarðskjálftar á suðurlandi eða á Reykjanesi og hugsanlega á norðurlandi. Þeir valda litlu tjóni. Það verður lítið eldgos einhversstaðar á sunnanverðu landinu.
Mikið verður um lægðir og óveður fram á vorið og fá íbúar á norðan- og austanverðu landinu og á Vestfjörðum einkum að kenna á þeim. Á höfuðborgarsvæðinu verður snjór þangað til í apríl. Það snjóar líka í maí. Sumarið verður kalt og nokkuð votviðrasamt sunnan til á landinu. Það verður samt líka gott veður stundum. Það verður ekki eins blautt á norðurlandi. Haustið verður milt, en í desember skellur veturinn á af fullum þunga.
Lista- og menningarlífið
Íslenskur listamaður hlýtur stóra alþjóðlega viðurkenningu á árinu. Útrás íslenskra tónlistarmanna heldur áfram. Þekktar íslenskar hljómsveitir verða á tónleikaferðalögum í Bandaríkjunum og í Evrópu.
Ísland tekur þátt í Júróvísjón samkvæmt venju, en árangurinn verður ekki jafn góður og búist verður við.
Erlendar stórstjörnur og listamenn halda áfram að heimsækja landið. Justin Bieber heldur tónleika á landinu í september. Einhverjir embættismenn verða ósáttir við að fá ekki frímiða á tónleikana í krafti embættis síns. Meðan á dvöl Biebers hér stendur sýnir hann af sér hegðun sem eftir verður tekið. Íslendingar verða hneykslaðir af framkomu hans.
Erlendir kvikmyndagerðarmenn sýna landinu áhuga. Í það minnsta ein stórmynd verður tekin upp að hluta til hér á landi í sumar eða í haust. Íslenskir leikarar fá bitastæð hlutverk í fleiri erlendum stórmyndum og sjónvarpsþáttum.
Eldri tónlistarmenn sem lítið hafa verið í sviðsljósinu undanfarin ár vekja athygli á sér hér heima. Mikið verður um hvers konar afmælis- og endurkomutónleika.
Færri íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar á árinu en á síðasta ári. Bókaútgáfa verður í meðallagi, en engin stórtíðindi gerast á því sviði. Arnaldur og Yrsa keppa áfram um hylli lesenda. Nokkur lægð verður yfir útgáfu nýrrar íslenskrar tónlistar, en gömul tónlist, safnplötur og endurútgefið íslenskt efni seljast sem aldrei fyrr.
Fjölmiðlar
Lestur dagblaða minnkar, sem og áhorf á hefðbundna, línulega sjónvarpsdagskrá, einkum hjá yngra fólki.
Það verða áfram niðurskurður og uppsagnir hjá ríkisútvarpinu. Hefðbundnum sjónvarpsstöðvum og útvarpsstöðvum gengur illa vegna nýrri leiða til að nálgast afþreyngarefni. Dagskrárgerð flyst í auknum mæli yfir á internetið.
Virkir í athugasemdum og hlustendur Útvarps sögu fá óþarflega mikla athygli. Mikið verður um kynþáttafordóma þeirra á meðal í tengslum við umræður um trúarbrögð, innflytjendamál og jafnréttismál.
Íþróttir
Íslendingar keppa á EM í handbolta í janúar, en árangur þeirra verður lakari en oft áður.
Nokkrir Íslendingar keppa á ólympíuleikunum, en komast ekki á verðlaunapalla.
Íslendingar fara á EM í fótbolta í sumar. Árangurinn verður ekki í samræmi við væntingar. Íslendingar líta þó á hann sem sigur, hvernig sem úrslitin verða og kemur höfðatalan þar við sögu. Íþróttaspekúlantar réttlæta árangurinn með því að minnast á að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt karlalandslið tekur þátt í keppni af þessari stærð.
Að minnsta kosti einn íslenskur íþróttamaður vinnur þó sigur erlendis, en af því að viðkomandi er ekki í boltaíþróttum vekur það litla sem enga athygli.
Fræga fólkið
Fyrrverandi stjórnmálamaður deyr á árinu. Einnig einstaklingur sem hefur verið viðloðandi skemmtanabransann.
Þekktur sjónvarpsmaður gengur í hjónaband á árinu. Einnig þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum.
Einhver frægur eignast barn á árinu.
Einhver annar frægur skiptir um starfsvettvang.
Íslenskt par eða hjón sem hafa verið milli tannanna á fólki slíta samvistum á árinu.
Á síðasta áratug háði ég baráttu við snemmbúinn jólaundirbúning. Fyrir hver jól á árunum 2003-2008 setti ég upp vefsíðu með lista yfir ýmis fyrirtæki sem hófu jólaundirbúning í september, október og nóvember og hvatti fólk til að sniðganga þau í jólavertíðinni.
Ég hlaut mína fimmtán mínútna frægð fyrir þetta uppátæki. Eitt árið var fjallað um listann í Íslandi í dag á Stöð tvö. Tvö ár í röð komst þetta í dagblöð, í DV árið 2005 og í Fréttablaðið 2006.
Ákveðinn fjöldi manns hefur spurt hvort ég ætli að setja svona lista aftur upp á þessu ári. Stutta svarið er: Nei, ég nenni því ekki.
Langa svarið er hins vegar:
Ég horfi lítið sem ekkert á sjónvarp.
Ég fletti dagblöðum sjaldan.
Ég er með hugbúnað í tölvunni sem felur auglýsingar á stærstu íslensku fréttavefjunum.
Auk þess er ég haldinn svokallaðri bannerblindu, sem gerir það að verkum að ég læt flestar auglýsingar á vefnum fara framhjá mér.
Þessi atriði valda því að auglýsingar sem ættu að ná til mín gera það ekki, hvort sem þær eru jólatengdar eða ekki.
Auk þess er ég námsmaður. Það er allt brjálað að gera í skólanum og því enginn tími til að sinna jólamótmælunum almennilega.
Svona snemmbúinn jólaundirbúningur og markaðs- og græðgivæðing jólanna fara samt enn í taugarnar á mér.
Vonandi getur einhver annar tekið upp þráðinn. Því það er eflaust full ástæða til þess ennþá.
Í dag er því fagnað að íslenskar konur hafa haft kosningarétt og kjörgengi til alþingis í 100 ár. Áður höfðu þær þó haft takmarkaðan kosningarétt til sveitastjórna og safnaðarstjórna frá árinu 1882.
En það voru ekki bara konur sem fengu kosningarétt á þessum degi fyrir 100 árum. Raunar voru það bara konur 40 ára og eldri, en líka vinnumenn á sama aldri, auk þess sem krafa um útsvarsgreiðslu var afnumin. Það var ekki fyrr en 1920 sem þessir hópar fengu kosningarétt við 25 ára aldur, til jafns við „venjulega“ karla.
Áður hafði kosningarétturinn aðeins náð til sjálfráða karlmanna 25 ára og eldri sem áttu eignir en engar skuldir.
Hvert er þetta þjóðfélag komið þegar það þarf að hrópa „vanhæf ríkisstjórn“ undir þjóðrembingsræðu forsætisráðherra á 17. júní?
Og hvert er þetta þjóðfélag komið þegar það þarf að leggja mótmælendum línurnar um það hvenær má mótmæla og hvenær má ekki mótmæla?
Það er eitthvað svo rotið og rangt við þetta þjóðfélag.
Og hvað vilja menn fá út úr þessum mótmælum?
Og þá ekki bara þeim sem voru á Austurvelli í dag, heldur líka svipuðum mótmælum sem hafa verið haldin undanfarið eitt til eitt og hálft ár?
Ókei – við viljum losna við núverandi ríkisstjórn. Hún hefur staðið sig illa og á ekki samleið með hinum venjulega Íslendingi.
En hvað svo?
Viljum við eitthvað frekar nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna? Eða einhverja aðra samsetningu af þessum fjórum flokkum?
Fara svo aftur að mótmæla á Austurvelli þegar sú ríkisstjórn er búin að glata vinsældum sínum? Og þannig hjakka í sama farinu endalaust?
Nei. Það þarf eitthvað meira. Það þarf að bylta öllu kerfinu. Ekki bara ríkisstjórninni. Segja öllum opinberum embættismönnum upp störfum. Fá nokkra erlenda sérfræðinga, hvern á sínu sviði, til að sinna störfum ráðherra, þingmanna og forseta Íslands, a.m.k. á meðan verið er að setja saman nýja stjórnarskrá, stokka spilin og gefa þau upp á nýtt. Því ekki geta Íslendingar stjórnað þessu landi sjálfir.
Annars er ég bara nokkuð hress í dag, sko.
Og til hamingju með 17. júní!
Það verða einhverjar náttúruhamfarir, m.a. stór jarðskjálfti á suðurlandi eða á Reykjanesi og snjóflóð á Vestfjörðum. Engar þeirra valda þó manntjóni, en eignatjón gæti orðið eitthvað. Eldgosinu í Holuhrauni lýkur á seinni hluta ársins. Bárðarbunga lætur áfram á sér kræla. Jarðskjálftar þar verða daglegt brauð eitthvað fram eftir árinu.
Það verður snjór fram í apríl. Sumarið verður rigningasamt, a.m.k. á suðvesturhorni landsins en nokkuð kalt á norðanverðu landinu. Haustið verður milt, en kalt.
Það koma einhverjir brestir í ríkisstjórnarsamstarfið. Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn verða sífellt ósáttari við að vera númer tvö, bara hjól undir vagni Framsóknarflokksins. Árið verður Sigmundi Davíð forsætisráðherra líka erfitt og álagið á hann verður mikið. Hann fer í veikindafrí sem eftir verður tekið. Þegar hann er ekki í veikindafríi verður hann mikið í felum, sýnir af sér hroka sem aldrei fyrr og gefur ekki kost á sér í viðtöl við fjölmiðla. Stjórnarþingmenn og aðrir ráðherrar munu apa þessa takta upp eftir honum. Ríkisstjórnin lifir árið samt af, því stjórnarandstaðan á alþingi verður aum og næstum því ósýnileg.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, verður lítið í sviðsljósinu, fyrir utan hefðbundin embættisstörf. Hann er orðinn þreyttur og aldurinn farinn að segja til sín. Hann gefur samt í skyn að hann ætli að bjóða sig fram til endurkjörs einu sinni enn árið 2016. Hann gefur einnig í skyn að hann muni ekki bjóða sig fram árið 2016. Jón Gnarr mun láta í ljós sífellt meiri áhuga á að gerast eftirmaður hans.
Verkföll verða áberandi. Hver stéttin af annarri fer í verkfall og krefst betri kjara. Stórt allsherjarverkfall verður á seinni hluta ársins. Allsherjarverkfallið mun lama allt þjóðfélagið og valda því skaða sem ekki verður bættur næstu tvö til þrjú árin. Launadeila lækna mun leysast á fyrri hluta ársins, en heilbrigðiskerfið mun samt halda áfram að hrynja.
Margir hafa fengið sig fullsadda á framkomu ráðamanna og því hvernig landinu er stjórnað. Mótmæli gegn ríkisstjórninni og alþingi færast í aukana, og þá ekki bara mótmæli sem fara fram á netinu, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, heldur verða líka hávær mótmæli á Austurvelli, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum. Þessi mótmæli komast í fréttir en ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar munu hundsa þau og/eða snúa út úr tilgangi þeirra.
Það verður blóðugur niðurskurður á RÚV. Starfsmenn til margra ára verða látnir fjúka. Stjórnendur þar munu segja upp störfum. Gamalkunnir sjónvarps- og útvarpsþættir verða teknir af dagskrá. Rás eitt verður enn markaðsvænni og leiknum auglýsingum þar verður fjölgað. Dagskrárliðir á rás eitt og tvö verða sameinaðir.
Hefðbundnar sjónvarps- og útvarpsstöðvar (ekki bara RÚV) munu eiga undir högg að sækja vegna nýrri miðla og aðferða við að nálgast afþreyingarefni. Það styttist í að Netflix verði löglega í boði á Íslandi. Það er þó nokkur móða yfir því í kúlunni, þannig að það verður kannski ekki á þessu ári.
Þekktur íslenskur rithöfundur hlýtur aukna frægð erlendis. Fyrir jólin verður gefin út metsölubók sem vekur nokkurt umtal og hneyksli. Annars verður nokkur lægð yfir íslenskri bókaútgáfu og óvenju fáar nýjar bækur verða gefnar út á árinu.
Stórt, alþjóðlegt fyrirtæki mun vekja athygli landsmanna á árinu fyrir óvenjulegt uppátæki.
Íslenskir íþróttamenn munu vekja athygli á árinu. Einkum er hér um að ræða íslenska íþróttamenn á erlendum vettvangi sem Íslendingar fylgjast með og halda þar af leiðandi að öll heimsbyggðin taki eftir. Það verða engir meiriháttar stórsigrar á íþróttasviðinu. Landskunnur og vinsæll íþróttamaður ákveður að draga sig í hlé frá íþrótt sinni.
Íslenskir listamenn munu vekja athygli á erlendri grundu. Þeir eru lítt þekktir á Íslandi þangað til þeir fá athygli erlendis.
Ísland tekur þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þrátt fyrir niðurskurð á RÚV, en nær ekki árangrinum sem vonast verður eftir (sem sagt einu af fimm efstu sætunum). Í kjölfarið spretta upp umræður um fyrirkomulag keppninnar og hvort Íslendingar skuli hætta þátttöku í henni. Engin niðurstaða fæst út úr þessari umræðu.
Stórt hneykslismál skekur þjóðina á árinu. Virkir í athugasemdum láta áfram í sér heyra. Ýmsar misgáfulegar athugasemdir verða látnar fjúka, einkum um þjóðernis-, kynþáttahyggju og trúmál. Þessi háværi minnihluti á eftir að hafa óþarflega mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Fyrir jólin verður rætt um hvort heimsóknir grunnskólabarna í kirkjur á aðventunni eigi rétt á sér. Forsvarsmenn þjóðkirkjunnar munu spila sig sem fórnarlömb í þessari umræðu.
Nýir „Íslandsvinir“ munu koma til sögunnar, í formi stórstjarna sem heimsækja landið.
Þekktur Íslendingur úr skemmtana- og afþreyingabransanum deyr á árinu. Einnig deyr þekktur fyrrverandi stjórnmálamaður.
Annar þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum gengur í hjónaband.
Og enn einn úr bransanum eignast barn.
Þið sem ætlið ekki að taka þátt í söfnuninni en viljið samt láta björgunarsveitirnar njóta góðs getið styrkt þær með því til dæmis að leggja tvöþúsund krónurnar ykkar inn á reikninginn þeirra: