Myndaannállinn 2021
Ætlar þetta hræðilega ár aldrei að enda???
Hvað er hægt að segja um þig, 2021? Þú varst engu skárra en forveri þinn.
Þú heilsaðir og kvaddir með Covid. Það mátti næstum því ekkert hittast og hafa gaman fyrir þessari veiru!
Svo fengum við jarðskjálfta. Ég kippi mér ekki lengur upp við þá, þó þeir séu stundum óþægilegir. Það er eitthvað súrt við það að vita upp á hár hvað þeir eru stórir og hvar þeir eiga upptök sín, eftir því úr hvaða átt þeir koma. En við fengum þó þetta glæsilega eldgos líka, í bónus frá öllum skjálftunum.
Þú byrjaðir af bjartsýni. Komið bóluefni gegn þessum hræðilega smitsjúkdómi! En þetta reyndist skammvinn bjartsýni. Því bóluefnið reyndist ekki virka eins vel og við vonuðum. Enn eru menn að smitast. Íslandsmeistaramótið í Covid stendur nú sem hæst og ekkert útlit fyrir að því ljúki. Og sumir láta ekki bólusetja sig. Sumir af góðum og gildum heilsufarsástæðum. En sumir eru bara hálfvitar. Eða kóvitar.
Og það sem hægt er að rífast um bólusetningar og sóttvarnarráðstafanir! Við erum ekkert saman í þessu lengur! Þessi faraldur hefur sundrað okkur meira en að sameina. Sumir verða bara að hafa frelsi einstaklingsins til að sleppa við sóttkví, ganga um óáreittir og taka áhættuna á því að smita aðra!
Stundum nenni ég bara ekki Íslandi!
Og kosningar. Tækifæri til breytinga. En við kusum sama fólkið yfir okkur aftur. Eða þið, en ekki ég! Stundum nenni ég ekki Íslendingum! Og við komumst að því að Borgnesingar kunna ekki að telja.
Ný Metoo-bylgja. Gamlir hræddir karlar af öllum kynjum, á öllum aldri, ósáttir við að það megi ekkert lengur (það hefur aldrei mátt, það vita það bara fleiri núna!) og jafnvel… að konur séu að taka af þeim völdin. Það yrði nú hræðilegt!
Þetta er svona það helsta sem ég man eftir úr fréttum.
En fyrir mig hefur þetta ár verið sæmilegt þrátt fyrir allt. Ég fékk ekki Covid. En það er bara tímaspursmál hvenær það verður. Ég verð illa svikinn ef frú Ómíkron bankar ekki upp á hjá mér áður en næsta ár verður hálfnað. Hef heldur ekki misst neinn nákominn úr veirunni.
Náði líka að ferðast eitthvað. Þó bara innanlands. Mig langar að komast til útlanda aftur!
Náði meira að segja að spila og syngja á tónleikum og njóta nokkurra menningarviðburða og fara á barinn á meðan veiran hvíldi sig aðeins.
Og hvað meira? Myndir segja víst meira en þúsund orð. Og svona var árið í myndum:
Það byrjaði ekki í Borgarnesi eins og venjulega, heldur heima, í Hafnarfirði, vegna Covid-samkomutakmarkana.
Mætti í skírnarveislu hjá þessari stúlku.
Mættti aftur til vinnu eftir að hafa verið að vinna heima í næstum því fjóra mánuði.
Prófaði að snorkla í Silfru á Þingvöllum. Ég reyndi þó að minnsta kosti. En komst að því að þetta er ekki fyrir mig. Ég hugsa að ég haldi mig við sundlaugarnar í framtíðinni!
Nýtti tækifæri á milli samkomutakmarkana til að fara í leikhús.
Fór Upp í Borgarnes um páskana
Fór að skoða eldgosið
Gekk nokkrum sinnum upp á Helgafell. Mun þó ekki hafa komið þangað upp nema 48 sinnum á árinu, sem er óvenju lítið miðað við undanfarin ár!
Fór aftur að skoða gosið, skegglaus í þetta sinn!
Tók þátt í hátíðarhöldum 17. júní í Hafnarfirði
Fór í bað í Borgarfirði
Fór í hringferð um Ísland, með áherslu á Austurland:
Skoðaði nýja miðbæinn á Selfossi.
Stoppaði á Vík.
Sá Reynisdranga – samt naumlega fyrir þoku.
Skoðaði Þórbergssetrið.
Gekk langleiðina að Fláajökli.
Heimsótti Höfn í Hornafirði. Horfði m.a. á hluta af fótboltaleik. Reyndi fyrir mér sem íþróttaljósmyndari í fyrsta sinn.
Staldraði við á Djúpavogi
Skoðaði eggin í Gleðivík, á Djúpavogi.
Heimsótti Mjóafjörð.
Í Brekkuþorpi í Mjóafirði heita allir Vilhjálmur eða Hjálmar, eða eru Vilhjálmssynir/Vilhjálmsdætur eða Hjálmarssynir/Hjálmarsdætur.
Meira að segja hundarnir. Þessi hundur heitir Villi.
Heimsótti Seyðisfjörð
Skoðaði Álfaborg á Borgarfirði eystri
Skoðaði lunda á Borgarfirði
Stoppaði í Atlavík.
Skoðaði Skriðuklaustur
Leit yfir Stuðlagil.
Gisti á Syðra-Lóni.
Fór út á Font, í blíðskaparveðri.
Naut sólarinnar…
…og sólarlagsins, úti við heimskautsins baug.
Gisti á gistiheimilinu Himnasvölum í Skagafirði. Var einn af síðustu gestunum þar, því gestgjafinn lést bara rúmri viku síðar.
Skoðaði gosið í fjarlægð á þaksvölunum – frá miðbæ Hafnarfjarðar.
Náði nokkrum októberfestgiggum á meðan veiran tók sér frí.
Þetta var ferðamáti ársins:
Sá Bubba í Borgarleikhúsinu.
Mætti á kjörstað.
Bílafrekjan: Bílum lagt upp á gangstétt.
Við eigum nýja stjórnarskrá!
Söng á tónleikum með þessu fólki:
Og spilaði á tónleikum með þessu fólki:
Sá þennan krumma:
Undirbjó jólin, svona eins og ég nennti.
Sá Baggalút í Háskólabíói.
Hélt upp á jól og hækkandi sólargang síðustu helgi ársins.
Já, og allur bjórinn sem ég drakk! Við yfirferð á Flickr kemur í ljós að stór hluti af myndum sem ég tók á þessu ári eru allskonar bjórmyndir. Það lætur mig líta illa út að birta þær allar. En hér er bara ein, af handahófi:
Og um það bil þannig lýkur þessu ári.
Ég vona að við eigum fleiri samverustundir á næsta ári. Og þá meina ég samverustundir í þrívídd. Þó að einhverfuhlutinn af mér og introvertinn ég séum að vissu leyti ánægð með samkomutakmarkanir vil ég líka fara út að hitta fólk, djamma og djúsa, spila rassinn úr buxunum og koma ekki heim fyrr en klukkan 5-6 um morguninn. Ég vona að svo geti orðið sem fyrst á nýju ári.
Hafið það gott um áramótin og takk fyrir gamla árið.