Browsed by
Category: Ljóð

Ljóð dagsins

Ljóð dagsins

Sumardagurinn frysti

Menn elta sífelt ólar
við öfl sem landið hrista:
Enginn sá til sólar
á sumardaginn frysta.

Í veðri alveg óðu
átti að halda daginn.
Fánar stífir stóðu
á stöngum víða um bæinn.

Skrúðgöngurnar skröltu
skjálfandi um stræti,
í halarófu töltu
og reyndu að sýna kæti.

Mjóir menn og feitir
marga hlutu gusu.
Léku lúðrasveitir
lög sem úti frusu.

–Þórarinn Eldjárn

Jólin

Jólin

Gleðileg jól
Til hamingju með jólin!

Hljóða nótt
Lag: Franz Gruber
Texti: Matthías Jochumsson

Hljóða nótt. Heilaga nótt!
Hvílir þjóð þreyttan hvarm,
nema hin bæði sem blessuðu hjá
barninu vaka, með fögnuð á brá.
Hvíldu við blíðmóður barm.

Hljóða nótt. Heilaga nótt!
Hjarðlið, þei, hrind þú sorg:
Ómar frá hæðunum englanna kór:
„Yður er boðaður fögnuður stór:
Frelsari í Betlehemsborg.“

Hljóða nótt. Heilaga nótt!
Jesú kær, jólaljós
leiftrar þér, Guðsbarn, um ljúfasta brá
ljómar nú friður um jörð og um sjá,
himinsins heilaga rós.

(Smelltu til að ná þér í eintak af laginu).

Á afmæli kattarins

Á afmæli kattarins

Ronja, 5 ára 19. nóvember 2013

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,
geymir á bak við sig marga dul,
óargadýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér reyndist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Fimm voru systkinin fædd í heim,
fagnar þú degi hið eina af þeim;
hinum var öllum í æsku drekkt,
ósköp er kattlífið dapurlegt.

Lifað nú hefur þú árið eitt,
oddhvöss er vígtönnin, klóin beitt;
stundum á kvöldin með kurteis hljóð
kveðurðu af munni fram ástaljóð.

Andvakan þykir mér yfrið löng
unz ég í garðinum heyri söng,
hugurinn glaðnar þá heldur til,
hlægir mig dillandi raddarspil.

Til munu þeir sem það tónverk lízt
tilkomulítið, en eitt er víst:
læðan sem kúrir í leyndum stað
leggur við eyrun að hlusta á það.

Mjúkur, með kirfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár,
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.

Trýnið þitt starfar og titrar kvikt,
tekst því að skynja svo marga lykt,
þar sem mér ekki með allt mitt nef
unnt er að greina hinn minnsta þef.

Bugðast af listfengi loðið skott,
lyftist með tign er þú gengur brott;
aldrei fær mannkindin aftanverð
á við þig jafnazt að sundurgerð.

-Jón Helgason