Browsed by
Category: Minningabrot

Segulbandstækið

Segulbandstækið

Brúnt Fisher price segulbandstæki
Fisher price segulbandstæki. Mynd fengin af postcardsfromwonderland.com
Árið 1984 eða 1985 fór ég í aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég vil segja að það hafi verið hálskirtlataka, en er þó ekki viss. Ég var a.m.k. svæfður fyrir aðgerðina.

Það sem mestu máli skiptir er að eftir aðgerðina gáfu pabbi og mamma mér forláta Fisher-Price segulbandstæki fyrir að vera duglegur á sjúkrahúsinu. Þannig er sagan a.m.k. í minningunni af því hvernig ég fékk kassettutækið, en mig gæti þó verið að misminna.

Segulbandstækið var rafhlöðudrifið. Það var bæði hægt að hlusta á og taka upp spólur með því. Aftan á því var hátalari en framan á því var lítill hljóðnemi. Ég notaði það mikið næstu árin.

Með tækinu fylgdi gul segulbandsspóla með nokkrum lögum. Hún entist lengi eftir að segulbandstækið varð ónýtt og ég hætti að nota það. Í fyllingu tímans tók ég yfir lögin sem voru á henni. Ekki man ég hvað það var.

En þökk sé nútímatækni rakst ég á þessa spólu á dögunum. Því einhver snillingur hefur sett hana á Youtube. Ég tengi lögin ennþá við að liggja veikur uppi í rúmi.

Fyrsti hluti:

Annar hluti:

Þriðji hluti:

Lilli api

Lilli api

Lilli api var átrúnaðargoð æsku minnar.

Ég átti í ástar-haturssambandi við hann.

Platan með Brúðubílnum var spiluð í gegn þegar ég var 5-6 ára.
Hún er enn greypt í huga mér. Því mér detta reglulega í hug einhverjar tilvitnanir af plötunni.

Svo varð ég níu ára.
Þá byrjaði Lilli api í sjónvarpinu – í Stundinni okkar.
Mér fannst það ekki skemmtilegt og hætti smám saman að horfa á Stundina.

Í dag sá ég svo Lilla við æfingar í Hallargarðinum í miðbæ Reykjavíkur.
Ég hef aftur tekið hann í sátt eftir allt saman.

Lilli api
Lilli api

Jól á réttum tíma

Jól á réttum tíma

Jólin mín byrja í desember.
Jólin mín byrja í desember.
Á síðasta áratug háði ég baráttu við snemmbúinn jólaundirbúning. Fyrir hver jól á árunum 2003-2008 setti ég upp vefsíðu með lista yfir ýmis fyrirtæki sem hófu jólaundirbúning í september, október og nóvember og hvatti fólk til að sniðganga þau í jólavertíðinni.

Ég hlaut mína fimmtán mínútna frægð fyrir þetta uppátæki. Eitt árið var fjallað um listann í Íslandi í dag á Stöð tvö. Tvö ár í röð komst þetta í dagblöð, í DV árið 2005 og í Fréttablaðið 2006.

Ákveðinn fjöldi manns hefur spurt hvort ég ætli að setja svona lista aftur upp á þessu ári. Stutta svarið er: Nei, ég nenni því ekki.

Langa svarið er hins vegar:

  • Ég horfi lítið sem ekkert á sjónvarp.
  • Ég fletti dagblöðum sjaldan.
  • Ég er með hugbúnað í tölvunni sem felur auglýsingar á stærstu íslensku fréttavefjunum.
  • Auk þess er ég haldinn svokallaðri bannerblindu, sem gerir það að verkum að ég læt flestar auglýsingar á vefnum fara framhjá mér.

Þessi atriði valda því að auglýsingar sem ættu að ná til mín gera það ekki, hvort sem þær eru jólatengdar eða ekki.

Auk þess er ég námsmaður. Það er allt brjálað að gera í skólanum og því enginn tími til að sinna jólamótmælunum almennilega.

Svona snemmbúinn jólaundirbúningur og markaðs- og græðgivæðing jólanna fara samt enn í taugarnar á mér.

Vonandi getur einhver annar tekið upp þráðinn. Því það er eflaust full ástæða til þess ennþá.

Nauðgaralagið

Nauðgaralagið

Sumarið 1997 var ég að vinna í sláttuflokki Hafnarfjarðarbæjar. Ég hlustaði mikið á útvarpið við vinnuna. Það var betra en að hafa suð í eyrunum frá orfum og sláttuvélum.

Fyrir hádegi var Tvíhöfði í útvarpinu.

Eftir hádegi hlustaði ég oft á Bjarna Ara á Aðalstöðinni/Gull 90,9. Við vinnufélagarnir hringdum stundum í beina útsendingu, báðum um óskalög og sendum kveðjur. Í og með til þess að gera grín að öllum miðaldra húsmæðrunum sem hringdu í þáttinn.

Þá um sumarið kom út diskurinn Sveitaperlur. Fyrsta lagið á diskinum er sungið af Ragnari Bjarnasyni. Það hljómaði gjarnan í útvarpsþættinum hjá Bjarna Ara. Það heitir Augun segja já. Meðal vinnufélaganna gekk það undir nafninu Nauðgaralagið. Nafngiftin skýrir sig sjálf þegar hlustað er á textann.

Um haustið þetta sama ár var ég í fjölmiðlafræðiáfanga í Flensborg. Eitt af verkefnum áfangans var að sjá um útvarpsþætti í Útvarpi Hafnarfjarðar. Ég spilaði lagið sem upphafs- og lokalag hvers þáttar.

Mér datt þetta lag í hug núna út af nauðgunarumræðunni um verslunarmannahelgina. Í tónlistarspilaranum hér fyrir neðan má hlusta á það:

Tré fyrir tappa og flipa

Tré fyrir tappa og flipa

Leggjum rækt við landið – Tré fyrir tappa og flipa var einn af fyrstu verðlauna-/auglýsingaleikjunum sem ég tók þátt í. Bylgjan, Stöð tvö, Coca Cola á Íslandi og Skógrækt ríkisins stóðu fyrir honum. Leikurinn gekk út á að safna töppum og flipum af kókdósum og -flöskum. Tappar/flipar af Diet-Coke, Fanta, Tab, Fresca og Sprite voru líka gjaldgengir. Fyrir hverja fimm flipa/tappa sem skilað var inn átti að gróðursetja eitt tré. Ég veit ekki hvernig fór með þessa gróðursetningu eða hvort skógurinn er til núna. En aðalmálið voru vinningarnir í leiknum. Í verðlaun voru vasaútvörp og bolir – allt merkt Bylgjunni og Coka-Cola.

Fliparnir af áðurnefndum gosdósum þekktust á því að þeir voru minni en flipar af öðrum gosdósum. Þá voru opnarar á gosdósum ekki áfastir eins og þeir eru núna, heldur var hægt að rífa þá af og henda þeim.

Á tímabilinu sem leikurinn var haldinn (4.-24. júlí 1988) fór ég oft út, gagngert með það að markmiði að finna tappa og flipa sem einhverjir höfðu kastað úti á víðavangi. Einnig fékk ég tappa og flipa sem til féllu af heimilinu. Ég ætlaði að safna mér fyrir vasaútvarpi, en til þess þurfti a.m.k. 40 stykki.

Dag einn (líklega síðasta dag leiksins, sem var 24. júlí) mættum við bræðurnir tveir ásamt föður okkar í Bylgjuportið á Snorrabraut að leysa út vinningana. Flestir Íslendingar fengu þessa sömu hugmynd þennan sama dag. Og við biðum í dágóðan tíma á meðan röðin af Íslendingum mjakaðist áfram eftir Snorrabrautinni – ég vil segja a.m.k. í einn til einn og hálfan klukkutíma. Loks kom röðin að okkur og við fengum vinningana afhenta.

Fyrirfram vissi ég að tapparnir og fliparnir mínir nægðu ekki fyrir vasaútvarpi eins og takmarkið var. Ég fékk þó rauðan bol með Coca-Cola-merkinu. Ég vann heldur enga utanlandsferð, eins og auglýsingin hér fyrir neðan lofaði. Bolurinn var samt biðarinnar virði – á sínum tíma.

Síðar komst ég að því að vasaútvarpið var aðeins stillt á Bylgjuna og það var ekki segulbandstæki í því. Með dálítilli fyrirhöfn var þó hægt að taka það í sundur og stilla á einhverja aðra útvarpsstöð ef viljinn var fyrir hendi, en það kostaði of mikið vesen.

Síðar þetta sama ár fékk ég svo alvöru Sony-Walkman-vasadiskó í afmælisgjöf frá pabba og mömmu. Það var líklega ódýrara en að kaupa 40-60 kókdósir/-flöskur og bætti upp fyrir vasaútvarpsleysið frá Bylgjunni. Í því var hægt að hlusta á allar útvarpsstöðvar landsins, og fleiri til, sem og á segulbandsspólur.

Þetta sama sumar voru svo haldnir ýmsir skafmiðaleikir, m.a. Lukkutríó, þar sem hægt var að vinna gasgrill og Kodak-leikur, sem ég tók líka þátt í og vann sundbolta, sundtösku og fleira, (en ekki stærsta vinninginn – sem hefur líklega verið myndavél) en það er önnur saga.

Ég mun líklega aldrei hafa verið jafn ginnkeyptur fyrir auglýsingum og gylliboðum eins og sumarið 1988.

Tré fyrir tappa og flipa
Geysiskemmtilegur leikur