Browsed by
Category: Myndbönd

Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass. (Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Mnozil brass.
(Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Á mánudaginn kemur, 13. október, heldur austurríski málmblásaraseptettinn Mnozil brass tónleika í Háskólabíói.

Hljómsveitin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og tónleikagesta. Sögu hennar má rekja til ársins 1992. Þá spilaði hún nokkrum sinnum á Mnozil-kránni í 1. hverfinu í Vín. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru haldnir í Vín 23. janúar 1993, fyrir framan fámennan hóp vina og kunningja. Á þeim tíma voru hljómsveitarmeðlimir ekki með vinsældir í huga, höfðu ekki í hyggju að öðlast „költ-status“ og enginn bjóst við því að hljómsveitin ætti eftir að ferðast um allan heiminn.

Nú heldur Mnozil brass meira en 120 tónleika á ári víðs vegar um heiminn. Þeir hafa m.a. spilað í Rússlandi, Kína, Taívan og í Royal Albert Hall í London. Þeir hafa gefið út átta geisladiska og sex DVD-diska með tónleikaupptökum. Frá árinu 2000 hafa þeir sett upp næstum því eina tónleikasýningu á ári, samið tónlist við þrjár óperettur og eina kvikmynd.

Í dag er hljómsveitin skipuð trompetleikurunum Tomas Gansch, Robert Rother og Roman Rindberger, bassatrompet- og básúnuleikaranum Leonhard Paul, básúnleikurunum Gerhard Füssl og Zoltan Kiss og túbuleikaranum Wilfred Brandstötter. Allir hafa þeir stundað nám í tónlistarháskólanum í Vín. Samhliða starfi sínu í Mnozil brass sinna þeir tónlistarkennslu og öðrum störfum í tónlistargeiranum.

Mnozil brass spilar afar fjölbreytta tegund tónlistar, frá barrokki til popptónlistar og allt þar á milli, m.a. jazz, kvikmyndatónlist, þjóðlög og marsa, allt í sínum eigin útsetningum. Þrátt fyrir, eða kannski vegna akademísks uppruna finnst hljómsveitarmeðlimum mikilvægt, og jafnvel nauðsynlegt að skemmta sér. Mnozil Brass er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu. Húmorinn á tónleikum er allsráðandi. Þeir spila ekki bara á hljóðfæri á tónleikum, heldur syngja þeir stundum, flytja leik- og dansatriði, nota hljóðfærin þá stundum sem leikmuni og eru með almennan fíflagang á sviðinu á meðan þeir spila.

Tónleikarnir verða haldnir í Háskólabíói mánudagskvöldið 13. október og hefjast þeir klukkan 20:00. Það verður vel þess virði að mæta á tónleikana. Þetta verða tónleikar sem allir ættu að geta skemmt sér á – ekki bara lúðrasveitanördar heldur líka venjulegt fólk.

Hægt er að kaupa miða á tónleikana á miði.is.

Að lokum nokkur tóndæmi í boði Youtube:

Alvöru októberfest

Alvöru októberfest

Októberfest
Októberfest

Annað kvöld, föstudaginn 10. október heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar sitt árlega októberfest á Enska barnum í Hafnarfirði. Þar verða fluttir slagarar úr grænu möppu LH, sem hefur að geyma það besta úr þýska bjórlitteratúrnum. Polkar, valsar, þýsk þjóðlagatónlist og bjór eins og menn geta í sig látið.

Sérstakir gestir lúðrasveitarinnar verða stelpurnar í Die Jodlerinnen.

Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20:30 og aðgangur er ókeypis.

Tóndæmi:

Vonda Evrópusambandið

Vonda Evrópusambandið

Þau sem fylgjast með mér á Facebook vita sjálfsagt að stóran hluta júnímánaðar var ég í könnunarleiðangri um vonda Evrópusambandið. Hér eru nokkrar myndir úr leiðangrinum ásamt stuttri ferðasögu.

Sunnudagur 8. júní:
Fór til Berlínar með Kammerkór Hafnarfjarðar. Komum þangað um hádegisbilið. Gistum á Hótel Berlín Berlín. Fórum í smá skoðunarferð um nánasta umhverfi hótelsins þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu.

Nokkrir kórfélagar í Berlín.

Mánudagur 9. júní
Sungum í tveimur kirkjum í Berlín:
í annars-í-hvítasunnumessu í dómkirkjunni og á tónleikum í Maríukirkjunni.
Fór upp í kúpulinn á dómkirkjunni eftir messuna og skoðaði útsýnið yfir Berlín.
Könnuðum svo matar- og bjórmenningu Berlínar eftir tónleikana.

Altarið í dómkirkjunni í Berlín.

Þriðjudagur 10. júní
Stór hluti kórfélaga fór í hjólatúr um Berlín með leiðsögumanni og skoðaði helstu ferðamannastaði og kennileiti borgarinnar. Fékk mér Bratwurst og súrkál eftir hjólatúrinn. (Maður kemur ekki til Þýskalands án þess að fá sér svoleiðis. Það er bara þannig).
Fórum svo í sameiginlegan kvöldmat á Clärchens Ballhaus.

Hjólahópurinn fyrir utan þinghúsið í Berlín.

Miðvikudagur 11. júní
Veðrið var ekkert sérstakt þennan dag. Gekk á með skúrum og þrumuveðri. Þannig að stórum hluta dagsins var eytt inni í verslanamiðstöðvum og í búðarápi um Berlínarborg, ásamt nauðsynlegum bjór- og matarstoppum.

Kaufhaus des Westens.

Fimmtudagur 12. júní
Kórinn fór heim til Íslands. Ég hélt ferðinni hins vegar áfram og fór með rútu frá Berlín til Hannover. Gisti á Vahrenwalder Hotel Hannover í eina nótt. Skoðaði mig um í miðborg Hannover seinni partinn og um kvöldið.

Aðalbrautarstöðin í Hannover.

Föstudagur 13. júní
Fór frá Hannover. Dagurinn fór meira og minna í lestarferðir og bið eftir fleiri lestum vegna seinkana. Og vegna seinkana urðu skiptingar fleiri en planið gerði ráð fyrir. (Þurfti að hlusta á læti í þýskum fótboltabullum alla leiðina, í öllum lestunum). Komst þó í tæka tíð á Stadtshotel am Bühnenhaus í Kevelaer til að skila af mér farangrinum. Þurfti að hlaupa yfir í Konzert- und Bühnenhaus til að mæta á réttum tíma á tónleika með Mnozil brass. Þetta voru stórkostlegir tónleikar og bættu svo sannarlega upp fyrir hrakfarirnar í lestakerfinu. Þeir tóku meðal annars þetta atriði:

Laugardagur 14. júní
Fór í smávegis skoðunargöngutúr um miðbæ Kevelaer áður en ég yfirgaf borgina (og þar með Þýskaland). Hef líklega aldrei séð jafn margar kirkjur og kapellur á jafn litlu svæði. Og í húsum þar sem ekki eru kirkjur eru búðir þar sem hægt er að kaupa messuklæði fyrir presta og ýmisleg áhöld til messuhalds.
Frá Kevelaer var förinni heitið til Den Haag í Hollandi (með stuttu stoppi til lestaskiptinga í Düsseldorf og Utrecht). Kom þangað um fjögurleytið. Skoðaði Kínahverfið í borginni. Fór í smá skoðunarferð og kráarölt um borgina um kvöldið ásamt Kathy (gestgjafanum mínum í Den Haag – gisti hjá henni í heimagistingu í gegnum airbnb).

Gnadenkapellan í Kevelaer.

Sunnudagur 15. júní
Skoðaði Madurodam-garðinn í Den Haag. Þar eru líkön af öllum frægustu byggingum og mannvirkjum Hollands. Garðurinn er nokkurs konar sýnishorn af Hollandi. Það er frábært að heimsækja Madurodam ef maður hefur ekki tíma til að ferðast um allt Holland.
Um kvöldið hitti ég Eyjólf Eyjólfsson, fór með honum í skoðunarferð um borgina (í birtu í þetta sinn). Hann bauð upp á grillmat, rauðvín og hvítvín um kvöldið.

Líkan af Friðarhöllinni, höfuðstöðvum alþjóðastríðsglæpadómstólsins í Den Haag.

Mánudagur 16. júní
Skoðaði mig um á strandlengjunni og í bryggjuhverfinu við Scheveningen í Den Haag. Það viðraði samt illa til sól- og strandbaða þennan dag.
Yfirgaf Den Haag seinnipartinn og hélt af stað til Amersfoort, þar sem ég var í heimagistingu í tvær nætur. Seinniparturinn og kvöldið fóru í skoðunarferð um miðborg Amersfoort.

Hluti af strandlengjunni við Scheveningen.

Þriðjudagur 17. júní
Fór í skoðunarferð til Amsterdam. Fór í Hop-on-hop-off-strætó til að fá smá sýnishorn af borginni. Skoðaði Vesturkirkjuna. Ætlaði að skoða Önnu Frank húsið, en nennti ekki að bíða í röð í tvo til þrjá klukkutíma. Skoðaði Heineken experience safnið í staðinn og lærði um sögu Heineken-bjórsins, hvernig hann er bruggaður og hvernig á að hella honum í glas af dælu. Fór svo í smá göngutúr um miðborg Amsterdam og nágrenni hennar áður en ferðinni var heitið aftur til Amersfoort.
Þetta var bara hinn fínasti þjóðhátíðardagur. Og engin rigning.

Dam-torg í Amsterdam.

Miðvikudagur 18. júní
Einkaferðalaginu lauk þennan dag þegar Lúðrasveit Hafnarfjarðar kom til Amersfoort. Gistum á Mercure-hótelinu í Amersfoort.
Fórum í skoðunarferð um miðborg Amersfoort undir leiðsögn leiðsögumanns. Settumst niður á krá að göngutúrnum loknum og horfðum á leik Hollands og Ástralíu á HM í fótbolta. Könnuðum svo kráar- og veitingastaðamenningu Amersfoort að leik loknum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í skoðunarferð um Amersfoort.

Fimmtudagur 19. júní
Stór hluti lúðrasveitarinnar fór til Rotterdam og skoðaði sig um í borginni undir leiðsögn Andrésar trompetleikara. Auk þess urðu nokkur nauðsynleg bjórstopp. Borðuðum kvöldmat á veitingastaðnum Los Toros.
Að kvöldmat loknum var bjórmenning Rotterdam skoðuð. Var með þeim sem tóku síðustu lest til Amersfoort um kvöldið. Það var stuð í lestinni, en við vorum samt ekki vinsælustu farþegarnir í ferðinni.

Hluti af hópnum sem fór til Rotterdam.

Föstudagur 20. júní
Fórum með rútu í dagsferð til Ghent í Belgíu. Fórum í siglingu um síki Ghent-borgar. Héldum stutta tónleika á Sint-Baafsplein í Ghent. Það var rok. Og nótur fuku. En tónleikagestir voru ánægðir og nokkrir fóru m.a.s. að dansa. Margir fóru og kynntu sér belgíska bjórmenningu fyrir kvöldmatinn. Borðuðum sameiginlegan kvöldmat á veitingastað við Sint-Baafsplein áður en haldið var aftur heim. En kvöldinu var ekki lokið þegar heim var komið, heldur var haldið villt herbergispartý áður en farið var að sofa.

Tónleikar á Sint-Baafsplein í Ghent í Belgíu.

Laugardagur 21. júní
Héldum tvenna tónleika í Amersfoort: á Euterpeplein-torginu og á Groenmarkt-torginu.
Skiluðum hljóðfærunum upp á hótel að loknum tónleikum. Flestir fengu sér kvöldmat á Groenmarkt-torginu. Svo var eitthvað kráarölt eftir kvöldmatinn.

Tónleikar í tjaldi á Euterpeplein í Amersfoort.

Sunnudagur 22. júní
Tvö síðustu gigg ferðarinnar: Á markaðstorginu Wagenwerkplaats fyrir hádegi. Eftir hádegi var spilað við þjóðhátíðahöld Íslendinga í Amersfoort og nágrenni.
Tók bjórstopp ásamt nokkrum félögum á leiðinni heim á hótel.
Fór út að borða á sushistað ásamt nokkrum sem entust ekki lengi í bjórstoppinu.

Spilað við þjóðhátíðarhöld Íslendinga í Amersfoort.

Mánudagur 23. júní
Fórum í dagsferð til Amsterdam, til að byrja með undir leiðsögn Rúnars stjórnanda.
Flestir fóru í síkjasiglingu um borgina.
Skoðaði krána Café Gollem. Hefði getað verið þar allan daginn að smakka hollenska og belgíska bjóra.
Borðuðum sameiginlegan kvöldmat á Het Zwaantje.
Smakkaði kannabissleikjó, sem var eina „fíkniefnið“ sem ég prófaði.
Fór svo bara á hótelbarinn eftir að heim var komið.

Götulistaverk í Amsterdam.

Þriðjudagur 24. júní
Mestallur dagurinn fór í verslunar- og göngutúra í Amersfoort, með nauðsynlegum bjór- og matarstoppum.
Seinnipartinn hópuðust flestir saman á veitinga- og brugghúsinu De drie ringen.
Kvöldinu lauk með villtu trylltu lokapartýi uppi á herbergi og á hótelbarnum.

Panorama-mynd frá De drie ringen.

Miðvikudagur 25. júní
Heimferð.
Dagurinn fór allur í lestar- og flugferðir á leið heim.
Kom aftur til landsins kalda og blauta um tvöleytið.

Niðurstaða könnunarleiðangursins:
Evrópusambandið er ekkert vont, öfugt við það sem margir halda, og ég væri alveg til í að hafa það á Íslandi líka. Ísland er ekkert best í heimi. Fjarri því.

Fleiri myndir úr könnunarleiðangrinum má skoða með því að smella á viðkomandi tengla:
Kammerkór Hafnarfjarðar í Berlín.
Einkaferðalagið um Evrópu.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Amersfoort.

Það sem vantar í kosningabaráttuna

Það sem vantar í kosningabaráttuna

er meiri tónlist.
Hvar er til dæmis kjánahrollur eins og frá þessari snilld:

Framsóknarsamba:

Árangur áfram, ekkert stopp:

Það er bara einn flokkur á Íslandi (Samfylking):

T-listalagið:

Sjálfstæðismenn á Ísafirði:

Meira plögg

Meira plögg

jol2013_stort
Hátíð ber að höndum bjarta,
hverfur undan myrkrið svarta,
glaðna tekur guðhrædd þjóð,
geislum lýsist hugarslóð.

Aðventu- og jólatónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hásölum mánudaginn 2. desember og þriðjudaginn 3. desember kl. 20.00.

Í þetta sinn flytur Kammerkórinn úrval aðventu- og jólalaga og lofar að koma öllum í hátíðarskap.

Að venju sitja tónleikagestir til borðs og þiggja kaffi og konfekt.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og 1.500 fyrir eldri borgara.

Nánari upplýsingar eru á síðunni www.kammerkor.is.

Tóndæmi:

Októberfest

Októberfest

Í kvöld heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar sitt árlega Oktoberfest á Enska barnum í Hafnarfirði.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Leðurhosur, dirndlar, þýskar pylsur, bjór og lúðrasveit er blanda sem getur ekki klikkað.

Aðgangur ókeypis.
oktoberfest2013

Tóndæmi:

Tommi og Jenni

Tommi og Jenni

Syrpa af lögum úr nokkrum teiknimyndum um Tomma og Jenna.

Tónlist eftir Scott Bradley. Útsetning eftir Peter Morris og John Wilson.