Browsed by
Category: Óflokkað

Herdís Guðmundsdóttir

Herdís Guðmundsdóttir

Fædd 11. desember 1930
Dáin 22. janúar 2024.

Herdís Guðmundsdóttir

Hún amma er dáin. Þó að ég hafi verið búinn undir það nýlega að svona skyldi fara einhvern næstu daga var ég samt svo óviðbúinn því. Amma var kona sem ég hélt innst inni að yrði alltaf til staðar! En svona er þetta líf. Það er nú samt sæmilegur árangur hjá henni að ná þessum háa aldri. Því ná nú ekki allir!

Amma var sú yngsta af tólf systkinum sem fæddust og ólust upp á Syðra-Lóni á Langanesi á fyrri helmingi síðustu aldar og sú síðasta sem var eftirlifandi úr systkinahópnum. Þau ólust upp lengst norður á landi. Svo kynntist hún afa. Hann var fæddur og uppalinn vestast á Vestfjörðum. Lengra út á landið í hvora áttina er varla hægt að komast. En einhvernveginn það æxlaðist að þau hittust, komandi hvort úr sínum fjarlæga landshlutanum. Og þau hófu búskap í enn einum landshlutanum, í Borgarnesi. Þaðan man ég eftir þeim. Ömmu og afa í Borgó.

Syðra-Lón á Langanesi. Um 90 árum eftir að amma fæddist.

Í Borgarnes var gott að fara til að komast í burt frá þessu öllu. Burt frá raunveruleikanum, hversdagslífinu og áhyggjum daglegs lífs. Þórólfsgatan var Borgarnes. Borgarnes var Þórólfsgatan. Þar var öryggi æskuáranna.

Þórólfsgata 20 í Borgarnesi. Þórólfsgatan var Borgarnes. Borgarnes var Þórólfsgatan.

Í Borgarnesi gisti ég í fyrsta skipti að heiman, fjarri pabba og mömmu. Í skáparúminu í svefnherberginu hjá ömmu og afa. Og líklega öll barnabörnin sem á eftir komu. Við elskuðum öll skáparúmið. Þangað til við vorum orðin of stór til að sofa í því.

Í ömmu var öryggið. Hún sá til þess að ég hefði það sem best á meðan ég gisti hjá henni. En hún var líka hæfilega frjálsleg í uppeldinu, eins og ömmur eiga að vera. Hvar annars staðar en hjá ömmu fékk maður kókópuffs í morgunmat á þriðjudegi eða appelsín, kók eða sykrað appelsínudjús með hversdagskvöldmatnum?

Með ömmu í Borgarnesi, líklega jólin 1979.

Amma var sáttasemjarinn. Hún vildi hafa öll barnabörnin jöfn og að þau sætu öll við sama borð. Jæja, ókei þá. Litlu stelpurnar máttu vera með á fundum Leynifélagsins. En stóru krakkarnir áttu það samt og réðu. Litlu stelpurnar fengu að vera með, af því að amma sagði það. En þó bara að nafninu til, á pappírunum.

Hún naut þess að ferðast. Hvort sem það voru skreppitúrar upp í bústað eða ferðalög til framandi landa. Eða eitthvað þar á milli. Amma og afi fóru í ótal ferðalög til nálægra og fjarlægra landa, að mér fannst. Og þau kunnu að tala útlensku! Og fram að unglingsárum gat maður verið viss um að fá frá þeim einhverja minjagripi frá þessum útlöndum þegar þau kæmu heim.

Hlaðhamar. Bústaðurinn.

Ég fór eitt skipti með þeim til Stokkhólms, ásamt hluta fjölskyldunnar. Siglingar um sænsku skerjagarðana. Dagsferð til Álandseyja. Gisting í aflögðu fangelsi á Långholmen. Stokkhólmur var snilld.

Í Stokkhólmi 2006. Frá vinstri: Ægir, Gunnhildur, Atli, Gréta, Herdís og Páll.
Afi og amma í Stokkhólmi. Fá sér smá hressingu í göngutúr um Långholmen.

Svo var Þórólfsgatan ekki lengur. Amma og afi ákváðu að minnka við sig og fluttu í Hamravíkina. Nýja húsinu fylgdi þó sama hlýjan og öryggistilfinning æskuáranna sem maður fékk við að koma upp í Borgarnes. Þó að fullorðinsárin væru nú tekin við. Þar var afi með henni í tæpt ár, áður en hann dó. En stórfjölskyldan hélt áfram að hittast heima hjá ömmu. Hamravíkin var nógu stór til að við kæmumst þar öll fyrir. Nýja húsið tók við sem félagsheimili fjölskyldunnar.

Hamravík 2 í Borgarnesi. Þar bjó amma síðustu árin.

Amma tók húsmóðurhlutverkið alvarlega. Enda var hún húsmæðraskólakennari. Öll matarboðin á gamlárskvöld og grillveislurnar á sumrin. Og reyndar á öllum öðrum árstímum líka. Hún leit á það sem sitt hlutverk að sjá til þess að allt væri komið á borðið og öll væru með nógan mat á disknum. Það kom ekki til greina hjá henni að setjast niður og slaka á. Jafnvel þó við værum orðin fullorðin og gætum bjargað okkur sjálf. Undir stjórn ömmu skyldu allir vera með nóg að borða og drekka. Alltaf!

Stórfjölskyldan í Würzburg 2010.
Stórfjölskyldan í Würzburg 2010

Ferðalögin urðu fleiri. Fjöruferðir um páskana voru fastur liður hjá stórfjölskyldunni. En ferðir til fjarlægari staða voru líka á dagskrá. Til Würzburgar í Þýskalandi og Edinborgar í Skotlandi. Og útilegur víða um landið. Til dæmis á Snæfellsnesi. Í einni útilegunni stoppuðum við í Rauðfeldsgjá á Snæfellsnesi. Mér fannst það töff hjá áttræðri konunni að ganga alla þessa leið upp í gjána. Öll þessi ferðalög með ömmu með í för hafa skapað ógleymanlegar minningar.

Með hluta af stórfjölskyldunni 2015.

En nú er þessu lokið hjá ömmu. Hér væri hægt að minnast á svo margt annað. En hér er bara stiklað á stóru. Örfá minningabrot sem koma upp í hugann, svona rétt eftir að hún er farin. Nú er hún ef til vill einhversstaðar á göngu inni í eilífðinni með afa, þ.e. ef við trúum á líf eftir þessa jarðvist. Eða að skemmta sér einhversstaðar með systkinum sínum, öllum saman.

Ég er þakklátur fyrir þennan tíma sem hún var hluti af lífi mínu. Takk fyrir allt saman, amma! „Að hugsa til þín, það gerir mér gott. Ég finn styrk í því þó sért farin á brott,“ söng Mugison nýlega. Það ættu allir að eiga svona ömmu!

Nú ganga þau saman inn í eilífðina!
Myndaannállinn 2023

Myndaannállinn 2023

2023 er senn liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Kannski því miður? En kannski sem betur fer? Hvernig var svo þetta ár, svona í stóra samhenginu?

Jarðskjálftar. Eldgos. Meiri jarðskjálftar. Meira eldgos. Grindavík ónýt. Allir þessir jarðskjálftar og svo bara tvö lítil og aumingjaleg eldgos! Mér finnst ég hafa verið svikinn. Að upplifa alla þessa jarðskjálfta til einskis!

Stríð. Þjóðernishreinsanir – og enginn sem vald hefur gerir neitt í því! Útlendingahatur á Íslandi. Fólk sem er ekki nógu hvítt fyrir Ísland sent út á götuna. Eða til útlanda út í dauðann. Eða handtekið fyrir að vera of hörundsdökkt.

Verkföll, ef ég man rétt. Spilltir pólitíkusar. Vanhæf ríkisstjórn. Ónýt ríkisstjórn. Stýrivaxtahækkanir. Ónýtur gjaldmiðill og endalaust dýrt að lifa á Íslandi. Hvenær fáum við evru á Íslandi? Nei… bara djók. Það má ekki tala um það. Því svona viljum við hafa það.

Að öðru leyti man ég ekki, frekar en venjulega, hvað hefur verið í fréttum á árinu. Og við skulum ekkert vera að rifja upp fréttatengd málefni. Er það ekki bara ávísun upp á fýlu og þunglyndi?

En þrátt fyrir allt hefur þetta verið ágætis ár fyrir mig. Ég gerði mér engar vonir í upphafi. Kannski það hafi haft eitthvað að segja?

Rifjum nú upp hvernig þetta var hjá mér, a.m.k. út frá nokkrum myndum og myndböndum sem ég tók á árinu.

Það hófst á sama stað og því síðasta lauk: Í Hafnarfirði.

Flugeldar í Birkibergi í Hafnarfirði
Flugeldar og svifriksmengun í Birkibergi.

Djammaði með Gylfa Ægis.

Við Ægissynir á Ölhúsinu, einu sinni sem oftar þetta árið.

Lífið fór smám saman að færast í eðlilegt horf eftir Covid-smit og samkomutakmarkanir undanfarinna ára. Mætti loksins aftur á Þorrablót Syðra-Lónsætttar.

Þorrablótsnefndin 2021-2023 (eða hluti af henni): Herborg, Aldís Eva og Atli.

Tók nokkra sundspretti í Vesturbæjarlauginni.

Vesturbæjarlaug 8. febrúar. Eitt af merkjum um að þú búir á Íslandi: Það þykir eðlilegt og sjálfsagt að fara í sund úti í stormi og hríðarbyl.

Mætti á og tók þátt í Háskóladeginum.

Grágás, lukkudýr laganema við HÍ.
Grágás, lukkudýr laganema við HÍ, til sýnis á háskóladeginum 4. mars.

Spilaði með þessu fólki í Hörpu:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar fyrir tónleika í Norðurljósum, Hörpu, 13. mars 2023.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar fyrir tónleika í Norðurljósum, Hörpu, 13. mars.

Sá Mugison á tónleikum.

Mugison á tónleikum í hátíðarsal Háskóla Íslands 24. mars 2023.
Mugison á tónleikum í hátíðarsal Háskóla Íslands 24. mars.

Hitti Guðna okkar á öðrum tónleikum.

Við Guðni forseti á tónleikum Lúðrasveitar Verkalýðsins
Við Guðni forseti á tónleikum Lúðrasveitar Verkalýðsins í Hörpu 26. mars.

Labbaði nokkrum sinnum upp á Helgafell. Mun hafa komið á toppinn 18 sinnum þetta sumarið.

Yðar einlægur uppi á Helgafelli.
Yðar einlægur uppi á Helgafelli í fyrsta sinn á þessu ári, 6. apríl.

Fékk ekki páskaegg um páskana, heldur bara súkkulaði. Og nóg af því! Því ég nenni ekki öllu þessu hlaupi og lakkrís sem er inni í páskaeggjum núna.

Súkkulaði og málsháttabók.
Ósamsett IKEA-páskaegg: Súkkulaði og málsháttabók.

Spilaði í skrúðgöngu í fullum fjólubláum skrúða á sumardaginn fyrsta.

Í skrúðgöngu í Hafnarfirði á sumardaginn fyrsta.
Í skrúðgöngu í Hafnarfirði á sumardaginn fyrsta.

En þetta var stutt sumar, því það kom eiginlega strax vetur aftur!

Ísland, ertu ekki að grínast??? Þessi mynd er frá 27. apríl! Ekki febrúar, heldur apríl!!!

Sá Valdimar í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

Valdimar í Bæjarbói 30. apríl 2023.
Valdimar í Bæjarbói 30. apríl.

Fór í jarðfræðiferð um Reykjanes ásamt starfsfólki í stjórnsýslu Háskóla Íslands, undir leiðsögn Ármanns Höskuldssonar.

Yðar einlægur að spila á píanó úti ár Reykjanestá, þau sömu og voru notuð í Júróvísjón-myndinni.
Yðar einlægur að spila á píanó úti ár Reykjanestá, þau sömu og voru notuð í Júróvísjón-myndinni.

Lærði ýmislegt skemmtilegt og áhugavert um Ísland og Reykjanes í þessu ferðalagi. Tvö myndbönd, tekin í Eldvörpum:

Næsta eldgos á Reykjanesi að mati jarðfræðings.
Á landamærum Evrópu og Ameríku!

Hélt bíllausa lífstílnum áfram:

Bíllausi lífstíllinn að gefa!

Komst upp í 3000 kílómetra…

3000 kílómetrar hjólaðir 7. ágúst 2023.
3000 kílómetrar hjólaðir 7. ágúst.

… og 4000 kílómetra.

4000 hjólaðir kílómetrar 3. október 2023.
4000 kílómetrar hjólaðir 3. október.

Fór upp í bústað við Geysi um hvítasunnuhelgina.

Sumarbústaður við Geysi, séður frá trampólíninu.
Sumarbústaður við Geysi, séður frá trampólíninu, eina góðviðrisdaginn þá vikuna.

Skoðaði Friðheima

Tómatabjór í Friðheimum
Tómatabjór í Friðheimum.

Þessi kvaddi á árinu:

Ronja
Ronja – 2008-2023.

Fór með þessu fólki til Ítalíu:

Kammerkór Hafnarfjarðar og stuðningsfulltrúar fyrir utan dómkirkjuna í Lucca á Ítalíu.
Kammerkór Hafnarfjarðar og stuðningsfulltrúar fyrir utan dómkirkjuna í Lucca á Ítalíu.

Aðeins meira frá Ítalíu:

Ponte Vecchio í Flórens
Ponte Vecchio í Flórens.
Riomaggiore, eitt af þorpunum á Cinqueterre-svæðinu.
Riomaggiore, eitt af þorpunum á Cinqueterre-svæðinu.
Útsýni frá öðru þorpi á Cinqueterre-svæðinu. Man ekki hvað það heitir.
Útsýni frá öðru þorpi á Cinqueterre-svæðinu. Man ekki hvað það heitir.
Bjór- og tásumynd frá ströndinni í Massa á Ítalíu.
Bjór- og tásumynd frá ströndinni í Massa á Ítalíu. Eitthvað hljóta stýrivextirnir nú að fara að hækka!

Frá Ítalíu lá leiðin til Zürich í Sviss, í ferðalag með þessu fólki:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar á útitónleikum í Zürich.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar á útitónleikum í Zürich.
Svipmynd frá Zürichvatni.
Svipmynd frá Zürichvatni.
Trompetdeild LH (eða hluti af henni) í Zürich.
Trompetdeild LH (eða hluti af henni) í Zürich: Andrés, Eiríkur og Atli.

Skoðuðum vínbúgarðinn og fórum í vínsmökkun hjá Höskuldi.

Höskuldur frændi.
Höskuldur frændi.
Dvergkindurnar sem aðstoða við vínræktina.

Það er til flutningafyrirtæki í Þýskalandi/Austurríki sem heitir Transkona. Varð bara að koma því að hér:

Flutningabíll frá Austurríska/Þýska fyrirtækinu Transkona.
Flutningabíll frá Þýska/Austurríska fyrirtækinu Transkona.

Fer ekki með lúðrasveitinni til útlanda án þess að koma við í München:

Atli með Augustiner-bjór
Á uppáhalds-staðnum mínum í München: Augustiner-bjórgarðinum.
Með hinum hlutanum af trompetdeild LH: Þorleikur, Þórhildur og Atli.

Spilaði í Augustiner-bjórgarðinum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar að loknum tónleikum í Augustiner-garðinum.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar að loknum tónleikum í Augustiner-garðinum.

Kom svo heim frá útlöndum og mætti í Tjaldið í Hjarta Hafnarfjarðar. Hékk þar næstum því allar helgar í júlí:

Papaball í Tjaldinu í Hjarta Hafnarfjarðar.
Papaball í Tjaldinu í Hjarta Hafnarfjarðar.

Meira úr Hjarta Hafnarfjarðar. Og allt þetta fólk sem var þarna líka! Sjáum nokkur þeirra:

Nokkrir LH-félagar í Hjarta Hafnarfjarðar.
Nokkrir LH-félagar í Hjarta Hafnarfjarðar.
Atli og Camilla
Atli og Camilla
Valli og Atli
Valli og Atli
Eva Björk og Atli
Eva Björk og Atli

Fór líka upp á Betri stofuna, í turninum í Firði.

Kyrrlátt kvöld við Fjörðinn. Útsýnið frá turninum í Firði.
Kyrrlátt kvöld við Fjörðinn. Útsýnið frá turninum í Firði.

Fór í bað í Kraumu í Borgarfirði.

Krauma í Borgarfirði.
Krauma í Borgarfirði.

Sá reykinn af fyrra eldgosi ársins frá toppi Helgafells.

Atli á toppi Helgafells. Reykurinn frá eldgosinu í bakgrunni.
Á toppi Helgafells. Reykurinn frá júlí-eldgosinu í bakgrunni.

Mætti á Menningarnótt í Reykjavík

Lúðrabardagi…

Lúðrasveitir fyrir utan Hörpu.
Lúðrabardagi fyrir utan Hörpu.

…Porsche-sýning…

Svartur Porsche, með einkanúmerið TURBO.
Flottur Porsche í gamla Kolaportinu.

…og bjór. Hvað þarf maður meira á Menningarnótt?

Kaldi í stóru glasi.
Bjór er nauðsynlegur á löngum göngutúrum um miðborg Reykjavíkur.

Mætti á og tók þátt í árgangagöngu á Ljósanótt í Reykjanesbæ, í hávaðaroki og rigningu.

Fulltrúar Hafnarfjarðar í árgangagöngunni á Ljósanótt í Reykjanesbæ: Ásgeir, Brynjar og Atli.
Fulltrúar Hafnarfjarðar í árgangagöngunni á Ljósanótt í Reykjanesbæ: Ásgeir, Brynjar og Atli.

Spilaði á nokkrum októberfestum, eins og venjulega.

Hluti af trompetdeild Lúðrasveitar Hafnarfjarðar á einu af októberfestum haustsins: Atli, Björk og Ingibjörg.

Spilaði með þessu fólki á tónleikum í Víðistaðakirkju:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar á æfingu fyrir tónleika í Víðistaðakirkju.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar á æfingu fyrir tónleika í Víðistaðakirkju.

Sá Baggalút á tónleikum.

Baggalútur á tónleikum í Háskólabíói.
Baggalútur á tónleikum í Háskólabíói.

Gerði laufabrauð

Fjögur laufabrauð með stöfum sem mynda orðið ATLI.
Hefðbundna laufabrauðs-nafnamyndin.

Söng á tónleikum með þessu fólki:

Kammerkór Hafnarfjarðar á æfingu í Hásölum.
Kammerkór Hafnarfjarðar á æfingu í Hásölum.

Sá bjarmann af desembergosinu frá þaksvölunum:

Bjarminn af eldgosinu í Sundhnúkagígaröðinni 18. desember, séður frá miðbæ Hafnarfjarðar.
Bjarminn af eldgosinu í Sundhnúkagígaröðinni 18. desember, séður frá miðbæ Hafnarfjarðar.

Borðaði skötu á Þorláksmessu.

Þorláksmessuskatan.
Þorláksmessuskatan.

Hélt upp á hækkandi sólargang síðustu viku ársins.

Jólatréð í stofu stendur...
Jólatréð í stofu stendur…

Um það bil þannig endar þetta ár.

Hér vantar reyndar fleiri bjórmyndir. En það lætur mig líta illa út að birta allar þessar bjórmyndir sem ég tók á árinu. Hér er þó ein, valin af handahófi:

Einn fallegur og góður Augustiner!

Að lokum vil ég þakka ykkur öllum sem komuð við sögu hjá mér á árinu, sama hversu lítið eða mikið það var, og sama hvort þið lentuð í þessum myndaannál eða ekki.

Eins og síðast ætla ég ekki að jinxa þetta og segja ég að ég sé til í tuttuguogfjögur. Nei – ég ætla ekki að gera mér neinar vonir um næsta ár. Það sem kemur mun koma og við verðum að takast á við það.

En ég vona að næsta ár færi okkur ennþá meiri gleði, hamingju, meiri og betri samverustundir og samskipti heldur en árið sem er að líða. Og bara alls konar gott og skemmtilegt.

Því ég lifi í voninni!

Ást og friður, krakkar mínir – við þurfum svo sannarlega á hvoru tveggja að halda nú um stundir.

Takk fyrir mig 2023!

Sjúkrasagan

Sjúkrasagan

Frétt í framvindu

Hvernig byrjaði þetta?

Það var fimmtudaginn 5. maí 2022.

Ég var búinn að vera með smá verk í hnénu þennan dag, eins og ég fæ stundum. Kannski eitthvað vitlaust álag eftir sundið sem ég fór í daginn áður. Ég fór í göngutúr eftir vinnu, til að reyna að ná verknum úr mér, eins og hefur virkað þegar þessi verkur tekur sig upp.

Ég var kominn niður á Austurvöll. Þá finn ég að það brakar og brestur eitthvað í hnénu. Eins og ég sé að fara úr lið, eða eitthvað. Og það verður allt í einu ógeðslega vont að stíga í fótinn.

Ég náði þó að skakklappast yfir í Stóra gula bílinn og fara með honum heim. Þegar heim var komið setti ég eitthvað teygjuband utan um hnéð. Það styður aðeins við. En ég er ennþá jafn aumur.

Slysó

Helgina notaði ég til að spila á tónleikum og fara í partý eftir tónleikana. Það kom ekki til greina að sleppa þessum viðburðum þrátt fyrir meiðslin. Ég var búinn að komast að því hvernig ég ætti að stíga í fótinn án þess að það yrði sárt.

Mánudaginn 9. maí fór ég svo upp á bráðamóttöku til að láta líta á þetta. Ég fór í röntgenmyndatöku. Niðurstöður hennar voru þær að þetta væri svokölluð liðmús. Þ.e. bein- eða brjóskflís sem flækist út í liðamótin.

Læknirinn á bráðamóttökunni ráðlagði mér að panta tíma hjá heimilislækni, til að fá vísun til bæklunarlæknis. Nánast strax við heimkomu panta ég tíma hjá heimilislækninum. En bara símatíma. Því ég held að það sé nóg. Líður nú og bíður.

Hvað segir læknirinn?

Níu dagar. Ég er misjafn. Get stundum gengið með teygjubandið utan um mig. En bara hægt. Jafnvel gengið stuttar vegalengdir innandyra án þess að vera með hlífina. Get tekið til, þurrkað af, ryksugað og skúrað heima hjá mér. Aðrir dagar eru verri. Þá vildi ég helst vera með staf, hækju eða hjólastól.

Að morgni miðvikudagsins 18. maí hringir læknirinn í mig. Ég falast strax eftir þessari tilvísun sem bráðamóttökulæknirinn mælti með. En heimilislæknirinn hefur strax sínar efasemdir.

Það er margra mánaða bið eftir að komast að hjá bæklunarlækni. Næsta skref er því að fara í segulómskoðun á heilsugæslunni til að skoða þetta betur. Því röntgenmyndir segja ekki endilega alla söguna. Enn tekur við bið, takk fyrir. Eða fram til 30. maí. Og ég hef á tilfinningunni að þetta sé ekki síðasta biðin í þessari sögu.

Hjá Heilsugæslunni

Bið, endalaus bið, sem bara styttist ei neitt.

Þessir tólf dagar líða. En ég er samt allur að skána. Er samt alltaf með stuðningshlífina utan um hnéð.

Ég get gengið sífellt lengri vegalengdir innanbæjar, á jafnsléttu, og líka stuttar, aflíðandi brekkur. Get líka gengið upp og niður tröppur, og jafnvel án þess að styðja mig við handrið. Fer í stutta göngu úti í guðsgrænni náttúrunni einn daginn.

Er sífellt minna og minna haltrandi ef ég er með stuðningshlífina. En stíg samt ennþá laust í fótinn. Treysti mér líka til að vera án hlífarinnar innanhúss, heima hjá mér.

Og það kemur að læknisheimsókninni.

Ég afklæðist og sýni lækninum hnéð. Hún þuklar það, beygir og sveigir, en ég finn ekkert til á meðan. Hún sér því ekki ástæðu til að ég fari í áðurnefnda segulómskoðun – a.m.k. ekki strax. Tekur þó eftir einhverri bólgu eða liðvökva og skrifar upp á bólgueyðand lyf. Vill ekki fara út í frekari aðgerðir, t.d. stinga á bólguna, af ótta við að það geri illt verra. Gefur mér líka tilvísun í myndgreiningu. Ég ætti þó ekki að nýta mér hana strax. Heldur bíða og sjá hvernig þetta þróast með sumrinu.

Ég ætti því að geta haldið áfram að ganga – jafnvel farið í sund og fjallgöngur aftur – ef ég bara byrja rólega – eftir því sem tíminn líður.

Framhald síðar.

Fjarlæg framtíð

Fjarlæg framtíð

Simpsorama
Simpsorama

Í 6. þætti 26. þáttaraðar sameinast Simpson-fjölskyldan Futurama-þáttunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Simpson-fjölskyldan sameinast öðrum þáttum. Árið 1995 mætti t.d. gagnrýnandinn Jay Sherman í þáttinn. Og raunar er þetta annar sameiningarþátturinn sem gula fjölskyldan mætir í á þessu ári, því að hún heimsótti Peter Griffin í Family Guy.

Við upphaf þáttarins sést texti sem gæti útlagst á íslensku: „Hugmyndasnauður þáttur sameinast þætti sem er hættur.“
Það er þó gott að handritshöfundar hafa húmor fyrir sjálfum sér.

Í skólanum fær bekkurinn hans Barts það verkefni að búa til tímakistu, sem verður grafin í jörðu í 1000 ár. Allir í bekknum eiga að setja einhvern hlut í kistuna. Milhouse setur kanínufót í hana. Bart hefur gleymt verkefninu. Framlag hans er þess vegna hálfétin samloka sem hann snýtir sér í. Þegar tímakistan er grafin á ráðhústorginu finnst kjarnorkuúrgangur. Öllum stendur á sama um það og kistan er sett niður í gröfina.

SKömmu eftir athöfnina brestur á óveður og dularfullur hlutur fellur til jarðar frá himnum, beint niður í garðinn hjá Simpson-fjölskyldunni. Þegar Hómer og Marge eru komin upp í rúm verða þau vör við dularfullt hljóð í húsinu. Hómer fer að leita að upptökum þess, sem reynast vera í kjallaranum.

Hómer þorir ekki að fara niður í kjallara. Fyrst reynir hann að senda hundinn niður, en Bart reynist meðfærilegra fórnarlamb. Í ljós kemur að dularfulla hljóðið kemur frá hlutnum sem féll til jarðar í garðinum, sem er vélmennið Bender úr Futurama-þáttunum. Hann situr í kjallaranum og drekkur bjórinn hans Hómers.

Hómer vingast brátt við Bender, fer með hann út á krána og í keilu. (Þar sjást Pin-pals-skyrturnar og stigatafla með nafni Jacqes, keilukennarans sem Marge átti í stuttu ástarsambandi við. Á sömu stigatöflu sést einnig nafn liðsins Holy rollers). En það býr eitthvað meira að baki vináttu Hómers og Bender.

Lísa fer með Bender á tilraunastofuna til dr. Frinks til að láta skoða hann og komast að því hvers vegna hann er kominn til nútímans. Bender man ekki hvers vegna hann er kominn, en prófessorinn kann einfalt ráð til að komast að sannleikanum: að slökkva á vélmenninu og kveikja á því aftur.

Þegar Bender er kominn í gang aftur rifjast það upp fyrir honum hvert verkefni hans er: Hann á að drepa Hómer Simpson. Hann gugnar hins vegar á verkefninu vegna þess að þeir Hómer eru orðnir of góðir vinir.

Eftir að Bender hefur gugnað á verkefni sínu ná félagar hans sambandi við hann til að athuga hvort að verkefni hans sé lokið. Þau segja frá ástæðu þess að Hómer þarf að deyja: Kanínur sem bera erfðaefni hans eru að eyðileggja New New York-borg í framtíðinni. Vinir Benders (Leela, Fry, og prófessor Farnsworth) koma að lokum til Springfield til að klára að koma Hómer fyrir kattarnef.

Prófessorarnir tveir ákveða að finna ráð til að koma í veg fyrir að drepa þurfi Hómer og fá Lísu í lið með sér. Á meðan fara Leela, Fry og Bender með Hómer og skoða sig um í Springfield (og komast að því hvers vegna fólk borgar fyrir að spila ókeypis tölvuleiki).

Þegar liðið er komið í heimsókn til Simpson-fjölskyldunnar tilkynna prófessorarnir niðurstöðu sína. Kanínurnar í framtíðini (sem nú hafa breyst í lítil skrímsli sem minna á Gremlins) eru aðeins að hálfu leyti með erfðaefni Hómers. Hinn helmingur erfðaefnisins er frá Marge. Skömmu síðar kemur í ljós að Bart á sökina á litlu skrímslunum. Þau hafa orðið til við samruna horsins úr Bart, kanínufótar Milhouse og kjarnorkuúrgangsins úr gröf tímakistunnar.

Lausnin er því sú að grafa tímakistuna upp til að koma í veg fyrir að skrímslin verði til í framtíðinni. En sagan er ekki búin því að þegar þau eru komin að gröf tímakistunnar kemur í ljós að litlu skrímslin eru búin að eyðileggja innganginn að tímagöngunum sem Futurama-gengið notaði til að ferðast á milli tíma. Simpson-fjölskyldan og Futurama-gengið ferðast því til framtíðarinnar, að undanskildum Bender og Maggie. (Bender er hinn inngangurinn að tímagöngunum). Afgangurinn af Simpson-fjölskyldunni er því fastur í framtíðinni.

Hómer og Fry er falið að gera við tímahliðið. Hin ætla að fara út til að gefast upp og sættast við örlög sín. Lísa neitar þó að gefast upp. Þess vegna er skrímslunum að lokum safnað saman (í Madison cube garden) og þeim kastað út í geiminn (eins og tapliðinu í Superbowl-leiknum).

Þegar búið er að losa New New York við skrímslin (borgin heitir núna New New New York eftir eyðileggingu og uppbyggingu) er tímahliðið komið í lag. Fjölskyldan kemst því heilu og höldnu til fortíðarinnar (þ.e. nútíðar sinnar).

En Bender á enn eftir að komast til framtíðarinnar. Hann er hluti af tímahliðinu og kemst ekki í gegnum sjálfan sig. Hann ákveður að nota gamaldags aðferðina: Hann slekkur á sér og lætur vekjaraklukkuna hringja eftir 1000 ár. Á meðan er honum hent niður í kjallara hjá gömlu jólaskrauti. (Eitthvað segir mér að hann eigi eftir að birtast aftur við og við eins og aðrir hlutir úr gömlum Simpsons-þáttum).

Að lokum sést áfangastaður litlu skrímslanna. Þau hafa lent á stjörnunni Omicron Persei 8 (úr Futurama). Þar sjáum við íbúa hennar (Lrrr og Ndnd) bíða komu Johnson-fjölskyldunnar. Johnson-fjölskyldan reynist vera geimverurnar Kang og Kodos. (Framkoma þeirra er n.k. sárabót fyrir þau sem söknuðu þeirra úr hrekkjavökuþættinum).

Þættinum lýkur á Futurama-stefinu þar sem búið er að setja inn ýmis atriði sem vísa í Simpson-fjölskylduna, einkum í formi skilta sem ekki er hægt að lesa nema að spilunin sé stöðvuð.

Ég er ekki jafn vel að mér í Futurama og í Simpson-fjölskyldunni. Þess vegna má vera að ég hafi misst af einhverjum bröndurum. En flestir brandarar fara eiginlega framhjá áhorfendum við fyrsta áhorf, því þátturinn er meira og minna byggður á frostbröndurum (freeze-frame-jokes). Söguþráðurinn er þó skemmtilegur (ég er alltaf pínulítið veikur fyrir sögum með tímaferðalögum og tímavélum). En þættinum mistekst eiginlega að vera fyndinn, að undanskildum áðurnefndum frostbröndurum. Það þarf að kafa miklu dýpra í hann til að finna skemmtileg atriði. Það þýðir þó ekki að þátturinn hafi verið alveg húmorslaus. Það var til dæmis fyndið þegar Kent Brockman las texta af bilaðri textavél, þegar Marge og Leela hittust í fyrsta skipti, eða þegar Wiggum lögreglustjóri útskýrði hvers vegna hann er alltaf í einkennisbúningnum, líka þegar hann er ekki í vinnunni.

Þó að þátturinn eigi ef til vill ekki eftir að verða að klassískri snilld þegar fram í sækir á minning hans þó eftir að lifa fyrir það að þarna kemur fram að geimverurnar Kang og Kodos eru báðar kvenkyns. (Við vitum að Kodos er kvenkyns eftir Hrekkjavökuþátt nr. VII). Í lok þáttarins kemur einnig fram að Ralph Wiggum deyr árið 2017. (Al Jean, einn af framleiðendum þáttanna, segir að það hafi þó bara verið léttur brandari, það sé ekki vísbending um að Ralph verði skrifaður út úr þáttunum í framtíðinni – Sjá hér).

Nokkur atriði sem vert er að taka eftir:
-Skrifað á töfluna í skólanum: „Time capsule: Sounds cool, but it’s just að box we bury.“
-Hómer les bókina „How to read a book in bed“ í rúminu.
-Á Móakrá sést vínflaska merkt „Moe et Chandon“.
-Kanína í New New York skrifar „Crossovers are hell“ á vegginn.
-Auglýsingaskilti í Springfield: Canyonero 2014 Hybrid – 11 miles per gallon. (Tilvísun í þáttinn „Last temptation of Krust“).
-Litlu skrímslin skrifa „El Barto“ á vegginn.
-Madison cube garden eyðileggur gervihnött merktan FXXX. (þetta er í annað skiptið í þáttaröðinni þar sem gert er grín að FXX-sjónvarpsstöðinni).
-Tapliðið í Superbowl-keppninni árið 3014 heitir Buffalo Bills.

Áletranir á nokkrum skiltum í New New York:
-Buzz-cola: With cocaine again.
-Duff-holo-beer: All the rage but none of the calories.
-The androids penthouse: Take me to your comic books & baceballs cards.
-Re-elect Mayor Quimby head.
-Freeze frame industries.
-Milhouse of ill repute.
-Kang and Kodo’s b-tentacle massage.
-Prof. Frinks carbon dating service.
-Stonecutters world HQ.
-The eBook of mormon.

Eign þvottahúss spítalanna

Eign þvottahúss spítalanna

Eyddi mestöllum gærdeginum inni á fjársveltu ríkisstofnuninni Landspítalanum í Fossvogi, í hálskirtlatöku – á gamals aldri.

Maður finnur það ekki fyrr en af eigin raun hvað starfsmenn þessarar stofnunar leggja sig fram við vinnu sína og þjóna sjúklingum vel þrátt fyrir niðurskurð, fjársvelti, manneklu og lélega stjórnunarhætti hjá æðstu ráðamönnum.

IMG_0307.JPG

Á frídegi verslunarmanna

Á frídegi verslunarmanna

(örsaga)

„Mér finnst fáránlegt að allir skuli vera í fríi í dag nema verslunarmenn“, sögðu Íslendingarnir og fóru út í búð eða stoppuðu í þjóðvegasjoppum og keyptu eitthvað til að eiga í kvöldmatinn eða sem snarl á leið heim úr útilegunni.

ENDIR