Browsed by
Category: Simpsons

Að heiman um jólin

Að heiman um jólin

Gleðileg jól
Gleðileg jól

Níundi þáttur í 26. þáttaröð er sá síðasti fyrir jól. Upphafsstefið er því í sérstakri jólaútgáfu, sem er reyndar keimlík þeirri sem var notuð í jólaþætti ársins 2013, en þó ekki alveg eins.

Hómer er í aðalhlutverki í þættinum ásamt fjölskyldunni. Einnig er sögð lítil saga af Maggie að föndra jólastjörnu til að setja á jólatréð.

Hómer er á leið heim eftir vinnu á aðfangadagskvöldi og Marge er að ljúka við að skreyta heimilið. Á leiðinni heim festir Hómer bílinn í snjóskafli fyrir utan krána hjá Moe. Hann ákveður að kasta jólakveðju á Moe. Moe er einmana um jólin, Hómer sýnir honum samúð með því að fá sér einn bjór hjá honum. (Bjórarnir verða fjórir að lokum).

Hómer kemur því ekki heim fyrr en nokkrum mínútum fyrir klukkan tólf á miðnætti. Marge verður vonsvikin vegna þess. Systur hennar ráðleggja henni (einu sinni sem oftar) að skilja við hann. Marge ákveður að henda Hómer út vegna seinkomunnar.

Hómer fer aftur á krána til Moe, en þar er lokað og læst, því Moe er að skemmta sér við að syngja í karókí. Næsti viðkomustaður hans er búðin hans Apu, þar sem hann kaupir skafmiða, án nokkurs vinnings.

Á meðan hafa Bart og Lísa áhyggjur af pabba sínum og ákveða að fara að leita hans. Þau segja móður sinni frá áhyggjum sínum. Skömmu síðar kemur Moe niður skorsteininn og tekur á sig sökina á því að Hómer skuli hafa komið seint heim. Marge reynir að hringja í Hómer, en síminn verður batteríslaus. Auk þess er hann inni í bílnum, sem verið er að draga í burtu.

Hómer fær sér göngutúr um verslunargötu Springfield, þar sem allar búðir eru lokaðar. Eini staðurinn sem er opinn er bíóið, þar sem Hómer borgar sig inn á niðurdrepandi jólamynd og hittir þar helstu einfara bæjarins. Hann vill ekki umgangast þau og fer út. Áður gefur þeim hins vegar poppið og gosið sem hann hefur keypt í bíóinu.

Næst hittir hann Ned Flanders, sem er að loka sölubásnum sínum fyrir jólin. Til að gleðja Flanders kaupir hómer af honum augnhárasnyrti fyrir örvhenta. Hann vill hins vegar ekki vera of góður vinur Flanders og flýr af hólmi þegar Flanders byrjar að tala um hversu góðir vinir og nágrannar þeir eru orðnir. Hómer leggst á bekk og sofnar.

Marge og krakkarnir fara á elliheimilið að leita að Hómer. En þar hita þau bara afa og gamla fólkið og gleðja þau með að hlusta á sögurnar sem fólkið hefur að segja.

Hómer er vakinn af dularfullum starfsmanni verslunargötunnar sem er klæddur eins og Hnotubrjóturinn. Þessi starfsmaður býður Hómer með sér í jólaveislu, þar sem allir eru klæddir sem einhvers konar jólaverur. Þar fær Hómer að borða piparkökuhús. Í jólaveislunni finnur Marge Hómer og fjölskyldan sameinast á ný.

Þættinum lýkur á jóladagsmorgni þegar Bart og Lísa stelast til að opna jólagjafir. Einnig fylgjumst við með því þegar guð gefur Jesú afmælisgjöf. Jesú er óánægður með að eiga afmæli á jólunum, því þá fær hann færri gjafir.

Hversu oft hefur Marge orðið reið við Hómer út af einhverju smáatriði, einhverjum mistökum sem honum verða á? Ótal sinnum í gegnum árin. (Ég ætla ekki að fara að telja þau saman hér). En hversu oft hefur Hómer orðið reiður við Marge vegna mistaka sem henni verða á? Kannski tvisvar sinnum eða þrisvar sinnum. (Ætla heldur ekki að telja þau saman hér). Hann segir henni a.m.k. mun sjaldnar til syndanna heldur en hún honum. Þetta er dæmi um hvað þættirnir hafa verið pólitískt réttsýnir í gegnum árin. Konan má vera reið við karlinn þegar hann gerir mistök, komi fullur heim o.s.frv., það er fyndið og skemmtilegt; en karlinn má ekki vera reiður við konuna þó að hún geri mistök, reyni við aðra karlmenn t.d., það yrði líklega flokkað sem karlremba eða ofbeldi gegn konum. (Kynbundið ofbeldi?)

Í grunninnn var þetta sem sagt einn af þessum þáttum þar sem Marge verður reið við Hómer vegna mistaka eða yfirsjóna hans. Þar er ekkert nýtt á ferðinni. Í grunninn var þema þáttarins ófrumlegt og söguþráðurinn nokkuð fyrirsjáanlegur þegar upp var staðið. En af því að þetta var jólaþáttur ætla ég að fyrirgefa framleiðendunum í þetta sinn. Þetta var ágætis jólaþáttur. Jólaþáttur með ágætum boðskap, sem er sá að kannski er mesta ánægjan fólgin í því að gefa af sjálfum sér og gleðja aðra í kringum sig, eins og Hómer gerir í þessum þætti. Hann gleður alla nema sjálfan sig. Sælla er að gefa en þiggja.

Lærdómur þáttarins er líka skemmtilegur: The place to get drunk is at home. (Og það er satt – ef maður vill vera fullur einn. Ef maður vill vera fullur með einhverjum á maður hins vegar að fara út á sína Móakrá, hver sem hún er).

Nokkur skemmtileg atriði í þættinum:
-Hans Moleman býr fyrir ofan Myndasögubúðina.
-Kjarnaofninum í orkuverinu er læst með einföldum krók.
-Skilti á búð: Lego Simpsons 90% off.
-Af einhverjum ástæðum er salatblað fast í kóngulóarvef uppi í loftinu í stofunni.
-Símanúmer Hómers er 5550001. (Áður hefur hr. Burns verið með þetta símanúmer).
-Marge klæðist útifötunum undir náttsloppnum.
-Hómer: „The nutcracker. Every child’s favorite christmas character“.
-Homer: You know how everyone hates being with their family on christmas?
Hnotubrjóturinn: Uh-huh.
Hómer: Well, being without them is worse.
-Ljósaskilti í bakgrunni á meðan Marge og krakkarnir leita að Hómer reynast vera hluti af skiltabúð.
-Og það er klassískur brandari og alltaf jafn fyndið þegar eitthvað er fast á milli lofts á neðri hæðinni og gólfs á efri hæðinni. Í þetta sinn sjáum við beinagrindur af jólaálfunum Prep og Landing.

Hljómsveitabransinn

Hljómsveitabransinn

Covercraft
Covercraft

Í áttunda þætti 26. þáttaraðar er sögð saga af Hómer í tónlistarbransanum.

Moe barþjónn lendir í útistöðum við nágranna sinn, King Toot (Will Forte), eiganda hljóðfærabúðarinnar, sem hefur verið við hliðina á kránni síðan í þættinum Lisa’s pony, vegna þess að sá síðarnefndi hendir rusli í ruslagáminn hans Moe. Útistöðurnar leiða til slagsmála inni í hljóðfærabúðinni og í kjölfar þeirra þarf að loka búðinni vegna viðgerða. Hómer og Lísa neyðast þess vegna til þess að fara í hljóðfærabúðina Guitar central, sem rekin er af vondu stórfyrirtæki.

Afgreiðslumanninum í hljóðfærabúðinni tekst að selja Hómer rafmagnsbassa og ýmsa fylgihluti, meðal annars reykvél, og ljósabúnað. Hómer byrjar að æfa sig á bassann, meðal annars í bílskúrnum, undir stýri, í rúminu og við matarborðið.

Marge þolir það ekki og kvartar við vinkonur sínar; Helen Lovejoy, Bernice Hibbert, og Louanne van Houten. (Manjula situr líka við borðið með þeim, en segir ekki neitt, kannski af augljósum ástæðum). Í ljós kemur að þær eru í sömu stöðu: mennirnir þeirra eru að æra þær út af hljóðfæraleik. Marge dettur því í hug að sameina mennina og fá þá til að stofna hljómsveit.

Hómer, séra Lovejoy, Kirk van Houten og dr. Hibbert koma saman á hljómsveitaræfingu. Fljótlega bætist Apu í hópinn og gerist söngvari hljómsveitarinnar. Hann hefur æft sig í vinnunni við að syngja með undirleik hljómsveitarinnar Sungazer. Bílskúrsbandið þeirra fær nafnið Covercraft.

Hljómsveitin spilar á ýmsum samkomum og hátíðum. Í fyrstu er Apu haldinn sviðsótta, en Hómer hjálpar honum að losna við óttann, með því að fá hann til að klæðast búðarskyrtunni og ímynda sér að hann standi á bakvið afgreiðsluborðið. Þegar hljómsveitin er orðin fræg og vinsæl og myndbönd komin á netið koma fjórir eftirlifandi meðlimir hljómsveitarinnar Sungazer á æfingu til þeirra og fá Apu til liðs við sig sem söngvara.

Hómer verður öfundsjúkur (ekki afbrýðisamur) út í Apu og velgengni hans. Látnu rokkguðirnir John, Lennon, Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sammy Hagar, hæðast að honum. (Sammy Hagar er reyndar ekki alveg dáinn, það hefur bara staðið jalapeno-biti í hálsinum á honum). Þessar tilfinningar Hómers verða til þess að hann ákveður að leysa hljómsveitina sína upp.

Eftir að hljómsveitin hættir fær Hómer boðsmiða og baksviðspassa á tónleika frá Apu, þegar hljómsveitin Sungazer spilar á tónleikum í Springfield. Þegar fjölskyldan er mætt á tónleikana dettur Hómer í hug að fara baksviðs í búningsklefa Apus og stela búðarskyrtunni frá honum. Í miðju kafi koma Apu og hljómsveitin inn í búningsklefann. Hómer felur sig inni í fataskápnum og kemst að því að Apu vill losna undan störfum sínum í hljómsveitinni. Hljómsveitin vill ekki leyfa honum það og Hómer sættist við klemmuna sem Apu er í.

Hómer dettur í hug ráð til að leysa Apu frá hljómsveitinni. Hann ákveður að kaupa allar pylsurnar úr Kwik-E-mart og bjóða hljómsveitinni upp á þær. Þess vegna fá þeir „dularfulla“ matareitrun og geta ekki spilað á tónleikunum. Í stað þess að aflýsa tónleikunum fær Apu Covercraft til að spila á tónleikunum. Þannig rætist frægðardraumur Hómers að lokum.

Lögreglan kemst að því að það er Apu og Hómer að kenna að Sungazer fékk matareitrun og handtekur þá. Sungazer stígur að lokum á svið, ennþá með matareitrun, og klárar tónleikana. Þættinum lýkur á því að Hómer, Apu, Moe og King Toot eru í sama fangaklefa, með Sammy Hagar, að hlusta á hvernig hann komst í fangelsið.

Þáttur af Hómer í hljómsveit og tónlistarbransanum kallar á samanburð við aðra þætti þar sem Hómer hefur verið í popptónlistarbransanum. Til dæmis þætti eins og Homer’s barbershop quartet eða jafnvel That 90’s show (sem er einn af verstu Simpsons-þáttum sem gerðir hafa verið, en það er nú önnur saga). Enda koma fram vísanir í báða þessa þætti. Báðir þessir þættir eiga það sameiginlegt að aðalsagan í þeim er sögð í gegnum endurlit. Sá nýjasti gerist hins vegar í nútímanum og þarf að segja söguna frá upphafi. Ef fyrrnefndi þátturinn er 10 og sá síðarnefndi 0 fær þessi nýjasti 6,5.

Þetta er ekkert slæmur þáttur. En þó bara í meðallagi. Það var gaman að sjá hluti sem ekki hafa sést áður. Ég minnist þess til dæmis ekki að hafa séð bakdyrainnganginn hjá Moe áður. Eigandi hjlóðfærabúðarinnar, King Toot sjálfur hefur heldur ekki komið fram í þáttunum, svo ég muni. Það hefði mátt gera meira úr honum, fyrst að hann kom fram. Hann hlýtur að eiga sér einhverja sögu.

Skemmtileg smáatriði og tilvitnanir úr þættinum, sem vert er að taka eftir:

-Afgreiðslumaður í hljóðfærabúðinni við Hómer: „You are aldready one of the greatest bass players of all time.“
-Milhouse lendir undir hillunni hjá Bart.
-Smáauglýsingar í blaðinu:
Band dissolution notices:
The B Sharps
Sadgasm

-Gabbo og Arthur Crandall eru meðal gesta í afmælisveislu Sideshow Mel.
-Hómer: „My mind is full of ideas for great songs I could write… down the names of and then cover.“
-Það er mynd af The Be sharps í búningsklefa Apus

Furðulegt ferðalag

Furðulegt ferðalag

Jack Lassen
Jack Lassen

Simpson-fjölskyldan fær að mestu leyti að njóta sín ein í 7. þætti 26. þáttaraðar. Bart er þó í aðalhlutverki og Milhouse er aðstoðarmaður hans. Í þættinum eru sagðar tvær sögur sem fléttast saman í lokin.

Einhvernveginn þarf Bart að geta verið í skólanum þó að kennarans mrs. Krabbappel njóti ekki lengur við. (Eins og aðdáendur muna lést leikkonan Marcia Wallace, rödd kennslukonunnar, fyrir rúmlega ári). Og hvernig er það gert? Með því að fá gestaleikara til að tala fyrir nýja kennarann.

Skólastjórar af Springfield-svæðinu hittast á árlegum fundi til að skipta á verstu kennurum hvers skóla. Springfield-grunnskólinn fær Jack Lassen til starfa (leikinn af Willem Dafoe). Það kemur í hlut hans að kenna fjórða bekk, bekknum hans Barts.

Bart hefur undirbúið hrekkjabrögð til að hrekja nýja kennaran í burtu frá skólanum. (Af einhverjum ástæðum er grein um hann á Wiccapediu (Springfield-útgáfunni af Wikipediu)). Krakkarnir komast strax að því að kennarinn er algjör martröð. Milhouse hvetur Bart til að hætta við hrekkinn, en Bart stendur fast á sínu. Hr. Lassen hefnir sín á Bart með því að raka hárið af honum.

Við kvöldmatarborðið hlæja Hómer, Lísa og Maggie að nýju hárgreiðslunni. Marge stendur með Bart og segir að hann muni kætast í útilegunni um verkamannahelgina (labour day weekend). Í ljós kemur að Hómer átti að taka frá tjaldstæði fyrir fjölskylduna með árs fyrirvara en hann gleymdi því. (Kemur á óvart…?) Hómer lofar Marge að bæta fyrir þessi mistök sín. Hann reynir í örvæntingu að finna tjaldstæði á síðustu stundu en allt er uppbókað.

Í skólanum heldur Bart áfram að hrekkja hr. Lassen, sem hefnir sín alltaf á hrekkjunum. Bart er samt staðráðinn í að vinna hrekkjakeppnina. Með því að fela myndavél á kennarastofunni kemst hann að því að Lassen vill gerast vinur mrs. Hoover á Facelook (Springfield-útgáfan af Facebook). Hann stofnar því gerviaðgang á Facelook á nafni mrs. Hoover til að njósna um hagi hr. Lassen.

Þegar Bart og Milhouse eru orðnir vinir hr. Lassens á Facelook komast þeir að því að hann tekur þátt í einhvers konar helgiathöfnum. Athafnirnar tengjast útihátíðinni Blazing Guy, sem haldin er í nokkra daga á ári. Í þetta sinn er Jack „hinn útvaldi“ á hátíðinni og hefur það hlutverk í lokaathöfninni að kveikja í stóru trélíkneski. Svo heppilega vill til að lokakvöld hátíðarinnar er um verkamannahelgina. Bart þarf að fara þangað til að geta niðurlægt hr. Lassen, þannig að útilegu Simpson-fjölskyldunnar er borgið.

Á hátíðinni hittir fjölskyldan ýmsa furðufugla sem allir eru klæddir í búninga eða furðuföt. Lísa hrífst af listrænu, anarkísku hlið hátíðarinnar, Hómer verður hrifinn af bílum sem líta út eins og smákökur og Marge ánetjast tei sem inniheldur skynörvandi vímuefni.

Bart og Milhouse ákveða að bera eldvarnarefni á stóra líkneskið. Þannig getur Lasson ekki kveikt í því og verður niðurlægður fyrir framan fólksfjöldann. Þó að líkneskið sé í miðju tjaldstæðisins tekur enginn eftir uppátæki strákanna nema maður sem er sjónhverfing.

Lokaathöfn hátíðarinnar fer eins og Bart áætlaði: hr. Lassen getur ekki kveikt í líkneskinu. Honum er refsað með því að hann er klæddur í föt. (Annars er hann nakinn og málaður meðan á athöfninni stendur).

Lassen kemst að því að Bart stóð á bakvið hrekkinn og ákveður að kveikja í honum í staðinn. Honum mistekst það. Líkneskið hrynur eftir að Hómer reynir að bjarga Bart, Lassen er settur inn í mannlegt fangelsi í fimm daga og Bart og Milhouse fagna sigrinum.

Skinner og Chalmers komast að niðurlægingu hr. Lassens og segja honum upp störfum í skólanum. Lassen fær loks vinnu sem hentar honum mun betur: sem fangavörður í Springfield-fangelsinu. (Og Sideshow Bob bregður fyrir í lok þáttarins).

Þættir um Bart og hrekkjabrögðuin hans eru sígilt umfjöllunarefni. Maður hefði haldið að búið væri að nota allar hugmyndir að hrekkjabrögðum en svo er greinilega ekki. Hrekkirnir hans verða sífellt þróaðri. (Hvernig komst hann til dæmis inn á kennarastofuna til að fela vefmyndavél?) Og sögur af Bart að hrekkja kennarana eru líka yfirleitt skemmtilegar.

Samt var þetta frekar fyrirsjáanlegur og ófrumlegur þáttur. Við vitum að Bart vinnur allar svona hrekkjakeppnir. Og við vitum að hann hrekur aðstoðarkennara úr starfi að lokum. Og í þessum þætti urðu engar undantekningar.

Þetta var líka einn af furðulegustu þáttum um Simpson-fjölskylduna. (Lýsingin „He’s still funny, but not ha-ha-funny“ á vel við þennan þátt). Á tímabili minnir hann á þáttinn El Viaje Misterioso de Nuestro Homer, sérstaklega þegar fylgst er með ofskynjunum hjá Marge. Handritshöfundarnir hafa verið meðvitaðir um það sjálfir, því að talandi sléttuúlfinum úr áðurnefndum þætti (sem Johnny Cash ljáði rödd sína) bregður fyrir í einni af ofskynjunum hennar.

En þrátt fyrir að þátturinn hafi verið fyrirsjáanlegur og ófrumlegur var hann ekki leiðinlegur. Samt ekki sá besti heldur. Ýmsir skemmtilegir punktar koma fram í honum. Til dæmis:

-Kennarafélagið vann sér inn rétt til að raka hárið af krökkunum í síðasta verkfalli.
-Hómer tæmir sósuskálina og stingur henni í vasann.
-Milhouse stingur hleðslutækinu upp í munninn á Bart til að hlaða símann sinn eftir að Bart fær raflost.
-Milhouse að auglýsa vefslóðina www.nzfilmhere.nz. (Smellið á vefslóðina).
-Willie að stelast í nesti Skinners.
-Mrs. Hoover að lesa bókina To saur with love.
-Bart lítur út eins og Hómer þegar búið er að raka hárið af honum.
-Milhouse: Your’e starting to look like your dad.
Bart: No!
Milhouse: I’m lucky. I look just like my mum.
-Hómer á lendaskýlu að hoppa yfir klofháa kaktusa.
-Marge (við Hómer): You always save me, trombone elephant.

Fjarlæg framtíð

Fjarlæg framtíð

Simpsorama
Simpsorama

Í 6. þætti 26. þáttaraðar sameinast Simpson-fjölskyldan Futurama-þáttunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Simpson-fjölskyldan sameinast öðrum þáttum. Árið 1995 mætti t.d. gagnrýnandinn Jay Sherman í þáttinn. Og raunar er þetta annar sameiningarþátturinn sem gula fjölskyldan mætir í á þessu ári, því að hún heimsótti Peter Griffin í Family Guy.

Við upphaf þáttarins sést texti sem gæti útlagst á íslensku: „Hugmyndasnauður þáttur sameinast þætti sem er hættur.“
Það er þó gott að handritshöfundar hafa húmor fyrir sjálfum sér.

Í skólanum fær bekkurinn hans Barts það verkefni að búa til tímakistu, sem verður grafin í jörðu í 1000 ár. Allir í bekknum eiga að setja einhvern hlut í kistuna. Milhouse setur kanínufót í hana. Bart hefur gleymt verkefninu. Framlag hans er þess vegna hálfétin samloka sem hann snýtir sér í. Þegar tímakistan er grafin á ráðhústorginu finnst kjarnorkuúrgangur. Öllum stendur á sama um það og kistan er sett niður í gröfina.

SKömmu eftir athöfnina brestur á óveður og dularfullur hlutur fellur til jarðar frá himnum, beint niður í garðinn hjá Simpson-fjölskyldunni. Þegar Hómer og Marge eru komin upp í rúm verða þau vör við dularfullt hljóð í húsinu. Hómer fer að leita að upptökum þess, sem reynast vera í kjallaranum.

Hómer þorir ekki að fara niður í kjallara. Fyrst reynir hann að senda hundinn niður, en Bart reynist meðfærilegra fórnarlamb. Í ljós kemur að dularfulla hljóðið kemur frá hlutnum sem féll til jarðar í garðinum, sem er vélmennið Bender úr Futurama-þáttunum. Hann situr í kjallaranum og drekkur bjórinn hans Hómers.

Hómer vingast brátt við Bender, fer með hann út á krána og í keilu. (Þar sjást Pin-pals-skyrturnar og stigatafla með nafni Jacqes, keilukennarans sem Marge átti í stuttu ástarsambandi við. Á sömu stigatöflu sést einnig nafn liðsins Holy rollers). En það býr eitthvað meira að baki vináttu Hómers og Bender.

Lísa fer með Bender á tilraunastofuna til dr. Frinks til að láta skoða hann og komast að því hvers vegna hann er kominn til nútímans. Bender man ekki hvers vegna hann er kominn, en prófessorinn kann einfalt ráð til að komast að sannleikanum: að slökkva á vélmenninu og kveikja á því aftur.

Þegar Bender er kominn í gang aftur rifjast það upp fyrir honum hvert verkefni hans er: Hann á að drepa Hómer Simpson. Hann gugnar hins vegar á verkefninu vegna þess að þeir Hómer eru orðnir of góðir vinir.

Eftir að Bender hefur gugnað á verkefni sínu ná félagar hans sambandi við hann til að athuga hvort að verkefni hans sé lokið. Þau segja frá ástæðu þess að Hómer þarf að deyja: Kanínur sem bera erfðaefni hans eru að eyðileggja New New York-borg í framtíðinni. Vinir Benders (Leela, Fry, og prófessor Farnsworth) koma að lokum til Springfield til að klára að koma Hómer fyrir kattarnef.

Prófessorarnir tveir ákveða að finna ráð til að koma í veg fyrir að drepa þurfi Hómer og fá Lísu í lið með sér. Á meðan fara Leela, Fry og Bender með Hómer og skoða sig um í Springfield (og komast að því hvers vegna fólk borgar fyrir að spila ókeypis tölvuleiki).

Þegar liðið er komið í heimsókn til Simpson-fjölskyldunnar tilkynna prófessorarnir niðurstöðu sína. Kanínurnar í framtíðini (sem nú hafa breyst í lítil skrímsli sem minna á Gremlins) eru aðeins að hálfu leyti með erfðaefni Hómers. Hinn helmingur erfðaefnisins er frá Marge. Skömmu síðar kemur í ljós að Bart á sökina á litlu skrímslunum. Þau hafa orðið til við samruna horsins úr Bart, kanínufótar Milhouse og kjarnorkuúrgangsins úr gröf tímakistunnar.

Lausnin er því sú að grafa tímakistuna upp til að koma í veg fyrir að skrímslin verði til í framtíðinni. En sagan er ekki búin því að þegar þau eru komin að gröf tímakistunnar kemur í ljós að litlu skrímslin eru búin að eyðileggja innganginn að tímagöngunum sem Futurama-gengið notaði til að ferðast á milli tíma. Simpson-fjölskyldan og Futurama-gengið ferðast því til framtíðarinnar, að undanskildum Bender og Maggie. (Bender er hinn inngangurinn að tímagöngunum). Afgangurinn af Simpson-fjölskyldunni er því fastur í framtíðinni.

Hómer og Fry er falið að gera við tímahliðið. Hin ætla að fara út til að gefast upp og sættast við örlög sín. Lísa neitar þó að gefast upp. Þess vegna er skrímslunum að lokum safnað saman (í Madison cube garden) og þeim kastað út í geiminn (eins og tapliðinu í Superbowl-leiknum).

Þegar búið er að losa New New York við skrímslin (borgin heitir núna New New New York eftir eyðileggingu og uppbyggingu) er tímahliðið komið í lag. Fjölskyldan kemst því heilu og höldnu til fortíðarinnar (þ.e. nútíðar sinnar).

En Bender á enn eftir að komast til framtíðarinnar. Hann er hluti af tímahliðinu og kemst ekki í gegnum sjálfan sig. Hann ákveður að nota gamaldags aðferðina: Hann slekkur á sér og lætur vekjaraklukkuna hringja eftir 1000 ár. Á meðan er honum hent niður í kjallara hjá gömlu jólaskrauti. (Eitthvað segir mér að hann eigi eftir að birtast aftur við og við eins og aðrir hlutir úr gömlum Simpsons-þáttum).

Að lokum sést áfangastaður litlu skrímslanna. Þau hafa lent á stjörnunni Omicron Persei 8 (úr Futurama). Þar sjáum við íbúa hennar (Lrrr og Ndnd) bíða komu Johnson-fjölskyldunnar. Johnson-fjölskyldan reynist vera geimverurnar Kang og Kodos. (Framkoma þeirra er n.k. sárabót fyrir þau sem söknuðu þeirra úr hrekkjavökuþættinum).

Þættinum lýkur á Futurama-stefinu þar sem búið er að setja inn ýmis atriði sem vísa í Simpson-fjölskylduna, einkum í formi skilta sem ekki er hægt að lesa nema að spilunin sé stöðvuð.

Ég er ekki jafn vel að mér í Futurama og í Simpson-fjölskyldunni. Þess vegna má vera að ég hafi misst af einhverjum bröndurum. En flestir brandarar fara eiginlega framhjá áhorfendum við fyrsta áhorf, því þátturinn er meira og minna byggður á frostbröndurum (freeze-frame-jokes). Söguþráðurinn er þó skemmtilegur (ég er alltaf pínulítið veikur fyrir sögum með tímaferðalögum og tímavélum). En þættinum mistekst eiginlega að vera fyndinn, að undanskildum áðurnefndum frostbröndurum. Það þarf að kafa miklu dýpra í hann til að finna skemmtileg atriði. Það þýðir þó ekki að þátturinn hafi verið alveg húmorslaus. Það var til dæmis fyndið þegar Kent Brockman las texta af bilaðri textavél, þegar Marge og Leela hittust í fyrsta skipti, eða þegar Wiggum lögreglustjóri útskýrði hvers vegna hann er alltaf í einkennisbúningnum, líka þegar hann er ekki í vinnunni.

Þó að þátturinn eigi ef til vill ekki eftir að verða að klassískri snilld þegar fram í sækir á minning hans þó eftir að lifa fyrir það að þarna kemur fram að geimverurnar Kang og Kodos eru báðar kvenkyns. (Við vitum að Kodos er kvenkyns eftir Hrekkjavökuþátt nr. VII). Í lok þáttarins kemur einnig fram að Ralph Wiggum deyr árið 2017. (Al Jean, einn af framleiðendum þáttanna, segir að það hafi þó bara verið léttur brandari, það sé ekki vísbending um að Ralph verði skrifaður út úr þáttunum í framtíðinni – Sjá hér).

Nokkur atriði sem vert er að taka eftir:
-Skrifað á töfluna í skólanum: „Time capsule: Sounds cool, but it’s just að box we bury.“
-Hómer les bókina „How to read a book in bed“ í rúminu.
-Á Móakrá sést vínflaska merkt „Moe et Chandon“.
-Kanína í New New York skrifar „Crossovers are hell“ á vegginn.
-Auglýsingaskilti í Springfield: Canyonero 2014 Hybrid – 11 miles per gallon. (Tilvísun í þáttinn „Last temptation of Krust“).
-Litlu skrímslin skrifa „El Barto“ á vegginn.
-Madison cube garden eyðileggur gervihnött merktan FXXX. (þetta er í annað skiptið í þáttaröðinni þar sem gert er grín að FXX-sjónvarpsstöðinni).
-Tapliðið í Superbowl-keppninni árið 3014 heitir Buffalo Bills.

Áletranir á nokkrum skiltum í New New York:
-Buzz-cola: With cocaine again.
-Duff-holo-beer: All the rage but none of the calories.
-The androids penthouse: Take me to your comic books & baceballs cards.
-Re-elect Mayor Quimby head.
-Freeze frame industries.
-Milhouse of ill repute.
-Kang and Kodo’s b-tentacle massage.
-Prof. Frinks carbon dating service.
-Stonecutters world HQ.
-The eBook of mormon.

Vandræðalegt vökvabrot

Vandræðalegt vökvabrot

Vandræðalegt lokaatriði
Vandræðalegt lokaatriði

Fimmti þáttur í 26. þáttaröð Simpson-fjölskyldunnar tekur á svokölluðu fracking (vökvabroti), sem er umdeild aðferð við að vinna gas (og olíu og heitt vatn) úr jörðinni. Aðferðin felst í stuttu máli í því að vatni er dælt ofan í borholur, sem liggja láréttar þegar ákveðnu dýpi er náð. Vatnið sprengir upp bergið og losar um vökvann (gasið/olíuna/heita vatnið), sem annars sæti fastur ofan í jörðinni. Aðferðin hefur verið umdeild, m.a. vegna þess að hún gæti mengað vatnsból sem notuð eru til manneldis. (Heimild: Wikipedia)

Það er ekkert sófaatriði – bara byrjað beint á þættinum. Marge dekrar við Hómer því að systur hennar, Patty og Selma þurfa að gista heima hjá þeim í nokkra daga. Hómer er ekki ánægður með að þær reyki í kringum börnin og bannar þeim að reykja í húsinu. Hann setur upp reykskynjara úti um allt hús til að fylgjast nógu vel með þeim. Þær stelast samt til að reykja inni á klósetti (sem er inni í rými þar sem hingað til hefur verið geymsla eða skápur, þar sem gjarna sjást ýmsir hlutir tengdir eldri þáttum). Því að inni á klósetti er enginn reykskynjari.

Þetta leynimakk fer ekki betur en svo að herbergið springur vegna óvæntrar gasmengunar og það kviknar í kranavatninu. Hómer hendir systrunum út; fer með þær á hundaveðhlaupabrautina og skilur þær þar eftir fyrir utan hjá öllu hinu reykingafólkinu.

Lísa ákveður að grafast fyrir um hvers vegna kranavatnið brennur. Hana grunar að einhver sé að beita vökvabrotsaðferð undir hverfinu til að bora eftir gasi og hugsar um ríka Texasbúann. Hann er hins vegar saklaus. (Ef það er ekki hægt að dansa undir því er það ekki þess virði að bora eftir því).

Með aðstoð Oogle-maps finnur Lísa vinnslustöðina í hverfinu, sem reynist vera dulbúin sem frægðarhöll körfuboltakvenna. Eigandi stöðvarinnar er hr. Burns. Lísa ákveður að fá Maxine Lombard (leikin af Jane Fonda), stjórnmálakonu og umhverfisverndarsinna, í lið með sér til að stöðva gasvinnslu hr. Burns. Frú Lombard kemur til Springfield með rafmagnsbíl.

Burns er kallaður á fund nefndar undir forystu frú Lombard, en hann neitar ásökunum. Þrátt fyrir það lætur hún loka gasvinnslunni. Burns fer á fund hennar, sem verður til þess að þau verða ástfangin. Þau ákveða hins vegar að vera áfram óvinir opinberlega en halda ást sinni og vináttu á bakvið tjöldin.

Burns ákveður að fá leyfi allra íbúanna í hverfinu til að halda gasvinnslunni áfram. Hann fær Hómer til að kynna gasvinnsluna og kosti hennar fyrir íbúum hverfisins og fá þá til að samþykkja vinnsluleyfið. Lísa og Marge mótmæla þessu harðlega og, að því er virðist, allir íbúar hverfisins eru á móti því að Burns fái vinnsluleyfi, þangað til Hómer lofar hverjum sem skrifar undir leyfið 5000 dölum. Loforðið um peninga verður til þess að allir samþykkja leyfið.

Þó að leyfið sé fyrir hendi er Burns með hugann við það hvernig hann á að vinna ástir frú Lombard. Hann hefur áhyggjur af því að þau eigi ekkert sameiginlegt og biður Hómer um að hjálpa sér. Hómer gefur honum þau heilræði að einhver muni fara særður út úr sambandinu og því sé best að slíta því.

Þar næst er komið að enduropnun gasvinnslustöðvarinnar. Rétt áður en stöðin er tekin í notkun kemur í ljós að Marge hefur ekki skrifað undir leyfið. (Allir íbúar verða að samþykkja leyfið til að stöðin fái að starfa). Allir verða óánægðir með það, því nú fær enginn pening frá hr. Burns. Og Hómer verður reiður við Marge. Burns verður sömuleiðis reiður við frú Lombard.

Hómer fer til Burns og segir kynningarstarfi sínu lausu. Hann kennir Marge um öll mistökin, því þau eigi ekkert sameiginlegt. Á meðan Hómer útskýrir vandamálið fyrir hr. Burns er byrjað að rífa Burns-höllina, því samkvæmt skipun frú Lombard á að breyta henni í umhverfisverndarmiðstöð. Þetta gerir hún til að hefna sín á því að Burns skildi slíta ástarsambandi þeirra.

Burns ákveður að hefna sín á hefndinni og setur gasvinnslustöðina í gang með aðstoð Hómers, þrátt fyrir að leyfið vanti. Vatnsdælingin framkallar stóran jarðskjálfta. Eftir að vinnslustöðin hrynur hlustar Hómer loks á mótmælin í Marge og ákveður að rústa því sem eftir er af vinnslustöðinni og allir verða sáttir á ný.

Þessi þáttur tekur á umhverfismálum og baráttu stóriðju gegn umhverfisverndarsinnum. Þarna sjáum við líka ástfanginn hr. Burns. (Ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti). Við sjáum baráttu á mili kynjanna (Hómer og Burns á móti Marge og frú Lombard). Samband Hómers og Marge í þættinum er hliðstæða við samband Burns og frú Lombard. Og þarna sést líka heimskur ginkeyptur almenningur sem samþykkir öll rök þegar ókeypis peningum er lofað. (Við könnumst við það frá Íslandi síðasta eitt og hálfa árið).

Nokkur brosleg atriði komu í þessum þætti. Til dæmis var fyndið að sjá fiskana deyja smám saman eftir að Patty og Selma hentu sígarettunum í fiskabúrið. Eða Bart að brenna plasthermann með loganum frá vatninu. Svo sést Ríki Texasbúinn að pússa 100 dala seðil. Hómer les tímaritið Food hider, sem inniheldur m.a. greinina The drumstick issue (Vandamálið með kjúklingalæri), á meðan hann situr með fötu af kjúklingalærum í fanginu. Frú Lombard lætur taka mynd af sér með barni (Maggie) hjá brennandi vatninu. (Dæmigert atferli stjórnmálamanna). Og Hómer hendir sjálfum sér út gegnum fallhlerann á skrifstofu hr. Burns.

En þrátt fyrir þessi atriði vantar alveg húmorinn í þennan þátt. Húmorinn víkur eiginlega algjörlega fyrir söguþræðinum og of pólitísku umfjöllunarefni þáttarins. Þættinum lýkur á vandræðalegu samtali hr. Burns og frú Lombard, þar sem þau sitja uppi í rúmi, hvort með sína spjaldtölvuna. Ég vissi eiginlega ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta yfir þessu atriði. Þetta er án efa versti þáttur 26. þáttaraðar hingað til.

Það hlýtur að vera hægt að gera betur.

Hrekkjavakan XXV

Hrekkjavakan XXV

Treehouse of horror XXVÍ 25. hrekkjavökuþætti Simpson-fjölskyldunnar koma geimverurnar Kang og Kodos ekkert fram. Samkvæmt lauslegri athugun mun þetta vera annar hrekkjavökuþátturinn þar sem þeim er sleppt. (Í fyrsta sinn mun þeim hafa verið sleppt í 23. hrekkjavökuþættinum). Raddirnar þeirra heyrðust reyndar í upphafi þáttarins, en geimverurnar sjást aldrei, ekki einu sinni í inngangi þáttarins, þar sem brot úr gömlum hrekkjavökuþáttum renna yfir skjáinn á meðan gestastjörnur þáttarins eru kynntar. (Að upptalningu lokinni reynast stjörnurnar hanga dauðar/limlestar uppi á vegg).

Í fyrstu sögunni fara Bart og Lísa til helvítis eftir að hafa lesið fornar rúnir, sem Bart finnur í eftirsetu í skólanum (þýddar með forritinu iRunes), meðal annars fyrir að setja steinsteypu í sandkassann á skólalóðinni og fyrir að ljúga því að nakin matsölukona muni afgreiða hádegismatinn. Í skólanum í helvíti stendur Bart sig vel og vill fá að vera þar áfram. Systkinin koma aftur upp á yfirborð jarðarinnar í gegnum vítishlið á skrifstofu hr. Burns. Hómer og Marge leyfa syni sínum að vera í skólanum í eina önn. Lokaprófið hans frá skólanum felst í því að pynta Hómer. Bart útskrifast svo með láði frá skólanum.

Annar hluti þáttarins er paródía af kvikmyndinni A clockwork orange, sem í Simpsons-útgáfunni heitir A clockwork yellow. (Þetta er ekki fyrsta sinn sem mynd eftir Stanley Kubrick er tekin fyrir í hrekkjavökuþætti. Aðdáendur ættu að muna eftir útúrsnúningi á The Shining). Moe barþjónn er í hlutverki Malcolm McDowell sem sögumaður myndarinnar. Í genginu hans eru Lenny, Carl og Hómer. Þarna sjást ýmsar tilvísanir, einkum í myndina A clockwork orange, eins og gefur að skilja, en líka í aðrar myndir eftir Kubrick, og í eldri Simpsons-þætti. Meðal annars sjást Duff-mjólkurflöskur sem nefndar eru eftir „The seven Duffs“ (úr 13. þætti 4. þáttaraðar). Og Shary Bobbins bjargar Moe þegar hann dettur út um Big Ben. Á tímabili kemur svo mikið af tilvísunum að Hasarblaðagaurnum verður að orði: „m.a.s. ég man ekki í hvað þetta á að vísa“. Þarna er meðal annars skemmtileg notkun á öllum bresku slangur- og bullorðunum, eins og í myndinni. Þegar paródíunni er lokið sést Stanley Kubrick sitja við klippiborðið þar sem hann ákveður að byrja alla vinnuna við myndina upp á nýtt.

Þriðja og síðasta sagan heitir „The others“. (Þarna býst maður við því gert sé grín að samnefndri kvikmynd með Nicole Kidman í aðalhlutverki, en svo er ekki). Simpson-fjölskyldan verður vör við draugagang á heimili sínu. Fyrstu merki um draugaganginn eru blóðskrift á baðherbergisspeglinum, dularfullur mjólkurhristingur í eldhúsinu og sjónvarpið sýnir bara þættina „Married with children“ (sem hafa áður verið teknir fyrir í þáttunum). Í ljós kemur að draugarnir eru eldri útgáfur af fjöldkyldunni, eins og hún leit út á upphafsárum sínum, í Tracy Ullman-þáttunum. Hómer líst betur á drauga-Marge heldur en lifandi Marge, sem verður til þess að lifandi útgáfan ákveður að fremja sjálfsmorð. Að lokum fer svo að fjölskyldan deyr öll og sameinast þannig draugunum. Þegar þau hafa sameinast fer Lísa að velta því fyrir sér hvers vegna vond markaðsfyrirtæki hafa ekki endurframleitt og markaðssett öðruvísi útgáfur af fjölskyldunni, fyrst hún er nú þegar til í tveimur útgáfum. Í kjölfarið birtist fjölskyldan m.a. í þrívíddarútgáfu, manga-teiknimyndaútgáfu, South-park-útgáfu, Sylvain Chomet-útgáfu (þau birtust þannig í sófaatriði í 12. þætti 25. þáttaraðar), Lego-útgáfu, Despiceable-me-útgáfu og sem dýr úr sögunni Island of Dr. Hibbert (úr hrekkjavökuþætti nr. 13).

Þættinum lýkur á endurgerð af stuttu atriði þar sem báðar útgáfur fjölskyldunnar eru í misheppnaðri fjölskyldumyndatöku.

Eins og af öðrum þáttum í þessari þáttaröð (og frá undanförnum þremur til fjórum árum, ef út í það er farið) bjóst maður ekki við miklu af þessum þætti. Það varð líka raunin. Því að í heildina var þetta frekar aumur og fyrirsjáanlegur hrekkjavökuþáttur. En þó að þættirnir séu orðnir frekar þunnir og fyrirsjáanlegir í seinni tíð verður það ekki tekið af þeim að þeir hafa ennþá skemmtilegan húmor. Í þessum þætti kom ýmislegt skemmtilegt fram. Eins og til dæmis:

*Chalmers bíður eftir nöktu matsölukonunni ásamt strákunum í skólanum.
*Nafni Barts í helvíti er breytt í Beelzebart.
*Svartsýnisraus í Hómer: „Foreldrar fá 20 tölvupósta frá skólanum á dag og allir svara þeim öllum með „reply to all“. (En svoleiðis hegðun er óþolandi, eins og allir tölvupóstnotendur vita).
*Hómer: „Þú fórst til helvítis og snerir aftur sem sigurvegari. Eins og Jesús.“
*Pomp and circumstance-lagstúfurinn sunginn af drungalegum karlakórsröddum.
*Noah Webster er í helvíti fyrir að breyta stafsetningunni á theatre í theater.
*Kwik-E-mart heitir Uk wik-e-mart.
*Duff-mjólkurdósirnar.
*Ýmiss konar matur undir rúminu þeirra Hómers og Marge.
*Hómer heldur á „The car-sellers bible“.
*Bart illa teiknaður, þar sem andlitið hreyfist, en augun ekki, eins og á upphafsárum þáttanna.
*Hómer (Við gömlu útgáfuna af Marge): „By the way: Nice melons.“
Marge (Nýja útgáfan): „Those are in the kitchen.“
*Drauga-Hómer drepur lifandi Hómer með því að slá hann í hausinn með brauðristinni þegar hann hefði getað hent ristinni í baðkarið og drepið hann þannig.
*Dr. Marvin Monroe, sem við vitum ekki hvort er lífs eða liðinn, kemur fram í þættinum.

Að lokum nokkur skemmtileg smáatriði sem vert er að taka eftir:
*Martin heldur á bókinni Naked Lunch eftir William Burroughs.
*Í helvíti sést kleinuhringjapyntingatækið sem Hómer var pyntaður með í 4. hrekkjavökuþættinum.
*Í útúrsnúningi á kynlífsorgíuatriðinu í Clockwork orange, sem sýnt er hratt, sést Marge lesa bókina A clockwork orange. Hómer fær sér appelsínu á meðan.
*Fyrsta sjónvarpsstöðin sem Hómer skoðar í „The others“ heitir FXXXXXX“.
*Í fjölskyldumyndatökunni er Lísa að lesa bókina „Fifty shades of grade school“. Gamla útgáfan af henni er að lesa bókina „Sweet valley high“.

Vandræði í veitingabransanum

Vandræði í veitingabransanum

margeÍ þriðja þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar um Simpson-fjölskylduna er engin aukasaga. Bara ein aðalsaga. Enginn gestaleikari. Fjölskyldan fær að njóta sín saman, með Marge í forgrunni.

Eftir að Ned Flanders kemst að því að Hómer notar rafmagnið hans, m.a. til að halda frystikistunni hans í gangi, neyðist Marge til þess að búa til samlokur úr öllu kjötinu úr frystinum, sem annars hefði farið til spillis.

Samlokurnar verða vinsælar. Bart og Lísa taka upp á því að selja samlokurnar í skólanum í skiptum fyrir ýmislegt annað (m.a. sígarettur). Varaforstjóri samlokukeðju fær Marge til að opna samlokuveitingastað undir merkjum keðjunnar og telur henni trú um að fjárhagur hennar muni batna.

Starfsmenn veitingastaðarins eru Shauna, „Squeeky voiced teen“ og Gil. Prófessor Frink kemur einnig í atvinnuviðtal, en er ekki ráðinn. Enginn starfsmannanna stendur sig nógu vel og missa þau því öll vinnuna. Marge fær því alla fjölskylduna til þess að hlaupa í skarðið.

Viðskiptin ganga vel til að byrja með, eða þangað til nýr staður undir sömu keðju tekur til starfa hinum megin við götuna. Sá staður er rekinn af Cletus og fjölskyldu hans.

Brátt fer að ganga svo illa að Marge ákveður að skreppa á krána til Moe. Moe gefur Marge góð ráð til að hætta rekstrinum án þess að tapa á því. Fjölskyldan setur upp leikrit fyrir varaforstjóra keðjunnar. Hómer er í hlutverki óheppins viðskiptavinar sem fær lélega þjónustu hjá óþjálfuðu afgreiðslumönnunum Bart og Lísu. Að sögn varaforstýrunnar ber keðjan ekki ábyrgð á óförum Hómers, heldur eigandi staðarins. Marge snýr hins vegar á varaforstýruna og segir að samkvæmt rekstrarsamningnum skuli keðjan útvega starfsmönnum viðeigandi þjálfun, sem Bart og Lísa hafa ekki fengið. Þannig fær Marge leyfisféð sitt endurgreitt af því að keðjan hefur ekki staðið við samninginn. Og fjölskyldan verður sátt að lokum.

Það var gott við þennan þátt að þurfa ekki að fylla upp í söguþráðinn með aukasögu. Það var fátt sem kom á óvart í þættinum en samt nokkur atriði sem var hægt að brosa yfir. Til dæmis Hómer að skemmta sér við að hlusta á tónlistina úr parísarhjólinu. Hómer öfundar hundinn yfir að vita ekki hvenær hann á að hætta að éta. Flanders sér eftir því að taka frystikistuna sína frá Hómer og leyfir fjölskyldunni að geyma samlokurnar í frystikistunni. Hómer setur Pizza-Hut á hausinn með því að misnota ókeypis áfyllingu af gosi. Marge gleðst yfir sínum eigin steikarspaða. Gil í fötunum sem pabbi hans var í þegar hann dó. Dr. Frink að reyna að koma frá sér setningu án furðuorða. Að minnsta kosti fyrstu ellefu dalirnir sem Marge græðir eru hengdir innrammaðir upp á vegg. Afinn að vinna í bílalúgunni – en það er engin bílalúga á staðnum. Og það er alltaf fyndið þegar það er gert grín að FOX-sjónvarpsstöðinni í Simpsons-þáttunum. („Það er sem þeim sé sama þótt þú græðir á meðan þeir græða. Hvers konar stórfyrirtæki gerir slíkt?“ Spurningunni er svarað með broti úr 20th century fox-stefinu.)

Það virðist vera ný þróun í þáttunum að láta þá enda á stuttum, sjálfstæðum þætti eða atriði, oft einhverju sem tengist efni aðalþáttarins. (Fyrsta slíka sagan mun hafa verið „Everyone loves Ned Flanders“). Í þetta skipti er Hómer í hlutverki steinaldarmanns sem finnur upp samlokuna.

Maður er kannski hættur að búast við einhverju frumlegu og fyndnu frá Simpson-fjölskyldunni. Nema kannski í sófaatriðinu í upphafi þáttanna. (Í þetta sinn heyrðist lagið Tea for the Tillerman með Cat Stevens). Þættirnir eru farnir að endurtaka sig dálítið. Við höfum til dæmis séð Marge áður í veitingarekstri, bæði með stuðnings mafíunnar og án hans. Þetta er þó besti þátturinn í 26. þáttaröðinni – hingað til. Sjáum til hvort hrekkjavökuþátturinn getur skákað honum í næstu viku.

Sambandsskipið

Sambandsskipið

Bart Simpson
Bart Simpson

Í öðrum þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar Simpson-fjölskyldunnar eru Hómer og Bart í aðalhlutverkum. Þátturinn fjallar um það hvernig þeir reyna (einu sinni enn) að bæta samband sitt og samskipti.

Bart ber ekki virðingu fyrir uppeldishlutverki föður síns og óhlýðnast honum. Hómer þrjóskast svo við að ala Bart upp að hann gleymir fótboltaleiknum sem hann spilar á netinu.

Marge skráir Hómer og Bart í sjóferð í von um að bæta samband þeirra. Úti á sjó kynnast þeir skrýtna skipstjóranum Bowditch (Nick Offerman). Hómer fær skyrbjúg eftir einn dag á sjónum. Á meðan hann jafnar sig fær Bart að fara í líkamsræktar- og klifuræfingar. Við sjáum nokkur myndbrot af skipinu undir stefi úr óperunni HMS pinafore (aðdáendur þáttanna muna kannski þegar Sideshow-Bob söng alla óperuna fyrir Bart).

Þegar nokkuð er liðið á sjóferðina er Bart gerður að aðstoðarskipstjóra og getur hann því sagt Hómer fyrir verkum sem yfirmaður hans. Þegar Bowdich skipstjóri fer á fyllerí með Hómer verður Bart æðsti yfirmaður á skipinu. Hómer svarar því syni sínum í sömu mynt og neitar að taka við skipunum frá honum. Það kemur sér illa fyrir Bart þegar óveður brestur á. Bart ákveður því að sýna föður sínum virðingu og borðar spergilkálsbitann, (sem hann geymir í vasanum af einhverjum ástæðum), og verður það til þess að feðgarnir sættast, fara að bera virðingu fyrir hvor öðrum og komast heilir til hafnar.

Aukasagan í þættinum er um Marge, sem tekur þátt í fantasíufótbolta fyrir hönd Hómers. Það er reyndar ekki minnst mikið á fótbolta, heldur er sagt frá hegðun karlmannanna í Springfield sem stunda þennan leik. Þeir tala illa um vini sína í netspjalli, eins og konur tala vel um óvini sína, og hlæja að tilvitnunum í gömul grínatriði.

Það eru líka skemmtilegar minni sögur sem sagt er frá: Martin Prince hefur til dæmis farið á sjálfsvarnarnámskeið og gengur frá Nelson. Einnig er vert að taka eftir því að það er spergilkál á himninum en ekki tungl og sól. Hundurinn sest upp á Hómer í eitt skipti þegar hann veltist með Bart á gólfinu. Og þráðlausi beinirinn í kirkjunni er geymdur í fangi Maríustyttunnar. (Hugmyndin um opið þráðlaust net í kirkjunni er skemmtileg út af fyrir sig).

Það er léttara yfir þessum þætti en yfir þeim fyrsta í þáttaröðinni, enda kemur ekkert dauðsfall hér við sögu. Þar sem þessi þáttur gerist að mestu á skipi úti á sjó býst maður við því að sjá skipstjórann McAllister. Honum bregður þó ekki fyrir nema rétt í lok þáttarins, eftir að landi er náð. Þættinum lýkur á skemmtilegum sjómannasöng. (Skyldi annars ekki vera komið nóg efni í nýjan disk með lögum úr þáttunum?) Það hefði mátt gera meira úr aukapersónunum sem voru með á skipinu: Cletus, Flanders og Apu. Þátturinn er betri en sá fyrsti í þáttaröðinni. Hann er ágætis skemmtun, en svossum ekkert meira. Hann er þó bara í meðallagi miðað við gömlu góðu klassísku Simpsons-þættina.

Tár í auga trúðsins

Tár í auga trúðsins

Ath.: Inniheldur spilli um nýjasta þátt Simpson-fjölskyldunnar. Lesendur sem vilja ekki vita hvað gerist í þættinum ættu ekki að lesa lengra.

Trúðurinn Krusty
Trúðurinn Krusty

Tuttugasta og sjötta þáttaröð Simpson-fjölskyldunnar er byrjuð. Alveg frá því að 25. þáttaröð lauk í vor hafa verið byggðar upp væntingar til fyrsta þáttarins í röðinni með því að greina frá því að einhver persóna úr þáttunum muni deyja, allt til þess að laða sem flesta áhorfendur að skjánum. Dauðsfallið í fyrsta þættinum var líklega það sem flestir biðu eftir.

Trúðurinn Krusty er í aðalhlutverki í þættinum. Hann er hér í hlutverki útbrunna skemmtikraftsins sem engum finnst fyndinn lengur – allir gera grín að honum fyrir það hvað hann er ófyndinnn. Bart Simpson stendur þó með Krusty og ráðleggur honum að tala við rabbínann föður sinn til að hressa sig. Í miðju samtali feðganna gefur faðir Krustys upp öndina.

Í jarðarförinni byrjar Lísa Simpson að fá áhyggjur af heilsu föður síns. Aukasagan segir frá tilraunum Lísu til að vernda Hómer og breyta heilsu hans til betri vegar, meðal annars með því að pakka honum inn í bóluplast.

Krusty þarf að lifa með því að ekki einu sinni föður hans þótti hann fyndinn og ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Í draumi hittir Krusty föður sinn í gyðingahimnaríki, sem segir honum að vakna til lífsins og hjálpa fólki. Að lokum kemst Krusty að því að föður hans þótti hann fyndinn þrátt fyrir allt.

Í þessum þætti má finna stef úr eldri Simpsons-þáttum. Krusty ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Faðir hans er ekki ánægður með starfsvettvang hans. Þetta var bara venjulegur þáttur um Krusty og ekki sá besti. Meira að segja hálfþunn byrjun á þáttaröðinni. Gullaldarár Simpson-fjölskyldunnar eru liðin fyrir löngu. Kannski ekki við öðru að búast af sjónvarpsþáttum sem hafa enst í 25 ár samfleytt. Þetta margumtalaða dauðsfall var frekar átakalaust og auðvelt þegar allt kom til alls. Hyman Krustofsky var aldrei neinn af mínum uppáhalspersónum. Kannski má líta á Krusty í þessum þætti sem einhvers konar tákn fyrir þættina um Simpson-fjölskylduna og Bart er þá tákn fyrir harða aðdáendur þáttanna, sem fylgjast með þeim hvað sem á dynur.

Það voru samt líka nokkrir góðir smellir í þættinum. Sófabyrjunin var sú furðulegasta sem sést hefur. Svo var til dæmis fyndið að sjá Arthur Crandall og Gabbo ganga út af meðferðarstöð fyrir sorgmædda trúða.

Eins og Bart Simpson er einlægur aðdáandi trúðsins Krusty er ég einlægur aðdáandi Simpson-fjölskyldunnar og reyni að sjá nýja þætti eins fljótt og ég get. Þó að ég sé kannski hættur að búast við einhverjum stórvirkjum hlakka ég samt til í hvert skipti sem nýr Simpsons-þáttur birtist á skjánum.