Browsed by
Category: Tilkynningar

Er bloggið dautt?

Er bloggið dautt?

Nei. Það er bara í pásu.

Þó að þessi vefur hafi verið óvirkur undanfarnar vikur hef ég samt verið duglegur að tjá mig á öðrum vettvangi; nefnilega á þessum vef, þar sem fluttar eru fréttir af gangi lokaverkefnisins sem ég er að vinna að í skólanum.

Lokaafurð verkefnisins verður vefurinn orðabókin.is, auk greinargerðar um framkvæmd og vinnslu vefsins. Þetta á allt saman að verða tilbúið til afhendingar 16. janúar næstkomandi og verður því í vinnslu þangað til.

Tónleikatilkynning

Tónleikatilkynning

Auglýsingaplakat Kammerkórs Hafnarfjarðar, vor 2016
Fuglar og fiðrildi – og aðrir vorboðar
Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hafnarborg í Hafnarfirði í kvöld, sunnudaginn 8. apríl og hefjast klukkan 20:00.

Miðaverð er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir námsmenn og eldri borgara.

Á tónleikunum verða fluttir vorboðar af ýmsum toga, allt frá frönskum madrígölum til laga eftir Billy Joel og Bítlana.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Fiðrildið er eitt af lögunum sem verður á dagskránni:

Tilkynning dagsins

Tilkynning dagsins

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju á morgun, laugardaginn 9. apríl kl. 14.

Stærsta verkið á efnisskránni að þessu sinni er Sinfóníetta nr. 3 eftir góðvin sveitarinnar, Philip Sparke, en einnig má nefna verk eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og marsa eftir Árna Björnsson, John Philip Sousa og Kenneth Alford. Þá stígur brasskvintett fram og leikur gamla ragtime slagarann That’s a plenty við undirleik lúðrasveitarinnar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Athugið að það verður ekki posi á staðnum.

Hér er sýnishorn af því sem verður á dagskránni:

Tilkynningaskyldan

Tilkynningaskyldan

Áfram halda tónleikatilkynningarnar, því aðventu- og jólatónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hásölum, sal Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, þriðjudaginn 1. desember og miðvikudaginn 2. desember kl. 20.00.

Á tónleikunum syngur Kammerkórinn úrval aðventu- og jólalaga auk annarra söng- og kórverka og lofar að koma öllum í hátíðarskap.

Gestir kórsins að þessu sinni eru Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran og Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari.

Að venju sitja tónleikagestir til borðs og þiggja kaffi og konfekt í hléi.

Aðgangseyrir er kr. 2.000 og 1.500 fyrir eldri borgara.

Auglýsing fyrir aðventu- og jólatónleika Kammerkórs Hafnarfjarðar 2015
Upphaf aðventu í rólegheitum
Tónleikar á morgun

Tónleikar á morgun

Á morgun, laugardaginn 28. nóvember kl. 14:00 verða aðventutónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar haldnir í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.

Á efnisskránni verða meðal annars verk eftir Leonard Bernstein, George og Ira Gershwin og Philip Sparke, auk marsa og jólatónlistar. Góðkunningi lúðrasveitaraðdáenda, John Philip Sousa, verður einnig á dagskránni.

Sérstakur gestur á tónleikunum verður Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir söngkona, sem meðal annars syngur lagið Skyfall, úr samnefndri kvikmynd um James Bond.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Athugið að það verður ekki posi á staðnum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar fyrir utan Víðistaðakirkju
Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Menningarbræðingur 2015

Menningarbræðingur 2015

Auglýsing fyrir Menningarbræðing 2015Nemar í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands blása til ráðstefnu á morgun, föstudaginn 6. nóvember.

Þar munu áheyrendur bráðna fyrir stuttum og snjöllum erindum um margvísleg menningarmál.

Fyrirlesarar koma úr öllum áttum með mismunandi veganesti af sviði menningar og lista. Hvert erindi tekur 5 mínútur í flutningi. Hægt er að líta við til að hlusta á valin erindi af vandaðri dagskrá og fá sér kaffibolla og kannski kleinu. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Á dagskránni eru m.a. erindi um tónlist fyrir fagott, bókasöfn Lundúnaborgar, matjurtarækt, listaverk í Flateyjarkirkju, sjóferð og sjálfsmynd Magnúsar Stephensen, ólöglegt niðurhal og eskimóa.

Dagskrá málþingsins má nálgast á vef námsleiðarinnar.

Októberfest

Októberfest

Eina alvöru októberfestið í Hafnarfirði verður haldið næstkomandi laugardag.

Októberfest snýst ekki bara um að drekka bjór í október, þó að hann sé vissulega mikilvægur. Það snýst líka um leðurhosur, dirndla og þýska þjóðlagatónlist.

Öll þessi blanda verður á Ölstofu Hafnarfjarðar (áður Enska barnum í Hafnarfirði) laugardaginn 10. október, þegar Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur sitt árlega októberfest. Talið verður í fyrsta lagið klukkan 20:00.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Í þetta skiptið mætir stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson á svæðið og syngur með!

Aðgangur er ókeypis.

Anton frá Týról verður á staðnum.

Skólinn

Skólinn

Skólinn er byrjaður af krafti og fyrsti dagurinn afstaðinn.
Næstu vikur og mánuði gæti þessi síða því litast eitthvað af því sem ég verð að fást við þar.
Kemur bara í ljós.

Háskóli Íslands, aðalbygging.
Háskóli Íslands, aðalbygging.