Browsed by
Category: Tónlist

Segulbandstækið

Segulbandstækið

Brúnt Fisher price segulbandstæki
Fisher price segulbandstæki. Mynd fengin af postcardsfromwonderland.com
Árið 1984 eða 1985 fór ég í aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég vil segja að það hafi verið hálskirtlataka, en er þó ekki viss. Ég var a.m.k. svæfður fyrir aðgerðina.

Það sem mestu máli skiptir er að eftir aðgerðina gáfu pabbi og mamma mér forláta Fisher-Price segulbandstæki fyrir að vera duglegur á sjúkrahúsinu. Þannig er sagan a.m.k. í minningunni af því hvernig ég fékk kassettutækið, en mig gæti þó verið að misminna.

Segulbandstækið var rafhlöðudrifið. Það var bæði hægt að hlusta á og taka upp spólur með því. Aftan á því var hátalari en framan á því var lítill hljóðnemi. Ég notaði það mikið næstu árin.

Með tækinu fylgdi gul segulbandsspóla með nokkrum lögum. Hún entist lengi eftir að segulbandstækið varð ónýtt og ég hætti að nota það. Í fyllingu tímans tók ég yfir lögin sem voru á henni. Ekki man ég hvað það var.

En þökk sé nútímatækni rakst ég á þessa spólu á dögunum. Því einhver snillingur hefur sett hana á Youtube. Ég tengi lögin ennþá við að liggja veikur uppi í rúmi.

Fyrsti hluti:

Annar hluti:

Þriðji hluti:

Tónleikatilkynning

Tónleikatilkynning

Auglýsingaplakat Kammerkórs Hafnarfjarðar, vor 2016
Fuglar og fiðrildi – og aðrir vorboðar
Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hafnarborg í Hafnarfirði í kvöld, sunnudaginn 8. apríl og hefjast klukkan 20:00.

Miðaverð er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir námsmenn og eldri borgara.

Á tónleikunum verða fluttir vorboðar af ýmsum toga, allt frá frönskum madrígölum til laga eftir Billy Joel og Bítlana.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Fiðrildið er eitt af lögunum sem verður á dagskránni:

Tilkynning dagsins

Tilkynning dagsins

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju á morgun, laugardaginn 9. apríl kl. 14.

Stærsta verkið á efnisskránni að þessu sinni er Sinfóníetta nr. 3 eftir góðvin sveitarinnar, Philip Sparke, en einnig má nefna verk eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og marsa eftir Árna Björnsson, John Philip Sousa og Kenneth Alford. Þá stígur brasskvintett fram og leikur gamla ragtime slagarann That’s a plenty við undirleik lúðrasveitarinnar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Athugið að það verður ekki posi á staðnum.

Hér er sýnishorn af því sem verður á dagskránni:

Ó, Grýla

Ó, Grýla

Árið 1980 kom út platan „Ég fæ jólagjöf“ með barnastjörnunni Kötlu Maríu.

Hún ber þess skýr merki að hafa vera verið gefin út á diskótímabilinu. Því flest lögin á henni eru í léttum djassskotnum diskóstíl. En í bland má finna reggítónlist og ljúfar ballöður. Söngkonur úr Silfurkórnum syngja bakraddir. Og öll eru lögin í frábærum útsetningum Ólafs Gauks.

Um það bil helmingurinn af plötunni hefur verið gefinn út á geisladiskum, í formi ýmissa safndiska. En hinn helmingurinn hefur aldrei verið gefinn út á geisladiski eða stafrænu formi, svo ég viti.

Það er því löngu kominn tími til að endurútgefa alla þessa plötu. Því hún hefur allt! Til dæmis þessa útsetningu Ólafs Gauks af „Ó, Grýla“ – með básúnum, jólabjöllum og sexundarhljómum – sem hefur ekki komið út síðan 1980:

Hvað var það sem þú sást í honum?

Hvað var það sem þú sást í honum?

Í september var haldin Magga-Eiríks-lagakeppni á Rás tvö, í tilefni 70 ára afmælis Magnúsar Eiríkssonar.

Ég ákvað að taka þátt í keppninni og dustaði rykið af gamalli upptöku, sem ég átti frá árinu 2011.

Lagið heitir Hvað var það sem þú sást í honum, og er þekktast í flutningi Baggalúts. Það tók þátt í Laugardagslögunum árið 2008, sem var forkeppni Íslands fyrir Júróvísjón-söngvakeppnina.

Lagið komst ekki í tíu laga úrslit í keppninni. Engu að síður hefur það verið spilað a.m.k. einu sinni á Rás tvö – í þættinum Langspili, 1. október. (Það byrjar á 1:48:54)

Hér fyrir neðan má líka hlusta á það:

Sækja til niðurhals.

Októberfest

Októberfest

Eina alvöru októberfestið í Hafnarfirði verður haldið næstkomandi laugardag.

Októberfest snýst ekki bara um að drekka bjór í október, þó að hann sé vissulega mikilvægur. Það snýst líka um leðurhosur, dirndla og þýska þjóðlagatónlist.

Öll þessi blanda verður á Ölstofu Hafnarfjarðar (áður Enska barnum í Hafnarfirði) laugardaginn 10. október, þegar Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur sitt árlega októberfest. Talið verður í fyrsta lagið klukkan 20:00.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Í þetta skiptið mætir stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson á svæðið og syngur með!

Aðgangur er ókeypis.

Anton frá Týról verður á staðnum.

Nauðgaralagið

Nauðgaralagið

Sumarið 1997 var ég að vinna í sláttuflokki Hafnarfjarðarbæjar. Ég hlustaði mikið á útvarpið við vinnuna. Það var betra en að hafa suð í eyrunum frá orfum og sláttuvélum.

Fyrir hádegi var Tvíhöfði í útvarpinu.

Eftir hádegi hlustaði ég oft á Bjarna Ara á Aðalstöðinni/Gull 90,9. Við vinnufélagarnir hringdum stundum í beina útsendingu, báðum um óskalög og sendum kveðjur. Í og með til þess að gera grín að öllum miðaldra húsmæðrunum sem hringdu í þáttinn.

Þá um sumarið kom út diskurinn Sveitaperlur. Fyrsta lagið á diskinum er sungið af Ragnari Bjarnasyni. Það hljómaði gjarnan í útvarpsþættinum hjá Bjarna Ara. Það heitir Augun segja já. Meðal vinnufélaganna gekk það undir nafninu Nauðgaralagið. Nafngiftin skýrir sig sjálf þegar hlustað er á textann.

Um haustið þetta sama ár var ég í fjölmiðlafræðiáfanga í Flensborg. Eitt af verkefnum áfangans var að sjá um útvarpsþætti í Útvarpi Hafnarfjarðar. Ég spilaði lagið sem upphafs- og lokalag hvers þáttar.

Mér datt þetta lag í hug núna út af nauðgunarumræðunni um verslunarmannahelgina. Í tónlistarspilaranum hér fyrir neðan má hlusta á það:

17. maí

17. maí

Í dag er þjóðhátíðardagur Norðmanna.
Fyrirheitna landsins.
Því ber að fagna.

Vorið eftir Grieg verður til dæmis flutt á tónleikum Kammerkórs Hafnarfjarðar sem hefjast kl. 20:30 í kvöld. Sissel verður ekki með, en Hallveig Rúnarsdóttir syngur með í staðinn.

Í dag er líka alþjóðlegur bökunardagur.
Þá er ætlast til þess að fólk baki kökur handa vinum og vandamönnum.

Túbudagurinn

Túbudagurinn

Það er ekki bara verkalýðsdagurinn í dag.

Í dag er líka alþjóðlegi túbudagurinn.
Hann hefur verið haldinn árlega, fyrsta föstudag í maí síðan árið 1979, til að heiðra túbuleikara, sem þurfa að ganga í gegnum allt vesenið sem fylgir því að spila á túbu, til dæmis það að ferðast með þetta þunga hljóðfæri. Dagurinn er líka haldinn til að minnast þess að túban er ekki bara hljóðfæri sem spilar ómerkilegt úm-pa úm-pa í skrúðgöngum, og til að berjast á móti staðalímyndum sem túbuleikarar hafa á sér, t.d. þeirri að vera ekki alvöru tónlistarmenn heldur bara stórir feitir karlar með bollukinnar og sterk lungu.

Enda ekki vanþörf á.

Túbuleikarar eru líka fólk!

Til hamingju með daginn, túbuleikarar.

Þriðjudagskvöld í Reykjavík

Þriðjudagskvöld í Reykjavík

Á þriðjudagskvöldi er skemmtilegt að mæta á Kex-hostel og hlusta á jazztónleika.
Jafnvel yfir einu eða tveimur bjórglösum. Og þykjast í leiðinni vera útlenskur túristi eða 101-miðbæjar-lattélepjandi-listamannapakk.
Í gær spilaði Quartet Birgisson nokkra vel valda jazzstandarda.

Þetta er eitthvað sem maður þyrfti að gera meira af.
kex