Browsed by
Category: Uppskriftir

Súkkulaðipylsa

Súkkulaðipylsa

Súkkulaðipylsa
Súkkulaðipylsa

Tilraunamennska í eldhúsinu fyrir jólin. Fljótlegur og einfaldur eftirréttur. Uppskrift fengin héðan.

Innihald

  • 100 g smjör
  • 100 g kakó
  • 1 egg
  • 100 g flórsykur
  • Lófafylli af pistasíukjörnum
  • Lófafylli af kókosmjöli
  • 100 g mulið sætt kex (t.d. Tomma-og-Jenna-kex)

Aðferð

  1. Bræddu smjörið í potti.
  2. Blandaðu kakóinu saman við smjörið.
  3. Geymdu kakóblönduna við lágan hita.
  4. Settu flórsykur í skál og hrærðu egginu saman við.
  5. Myldu kexið í litla bita (ekki í mylsnu) og blandaðu því saman við kókosmjölið og pistasíuhneturnar.
  6. Blandaðu öllu út í súkkulaðiblönduna í pottinum og hrærðu vel saman við lágan hita.
  7. Settu blönduna á plastfilmu og hnoðaðu vel, þangað til hún lítur út eins og pylsa.
  8. Settu pylsuna í frysti.
  9. Stráðu flórsykri yfir pylsuna þegar hún er komin úr frystinum
  10. Að lokum er pylsan skorin niður í hæfilega stórar sneiðar. Geymist áfram í frysti ef hún klárast ekki.
Súkkulaðikaka

Súkkulaðikaka

Áður en árstíðabundið heilsuátak byrjar eftir jólin er vel þess virði að smakka þessa kaloríusprengju. Upphaflega er þetta After eight kaka, fengin héðan. Uppskriftinni hefur verið breytt lítillega, vegna þess að svo virðist sem After eight sé ófáanlegt á þessum árstíma. Þess vegna var notað Pipp með piparmyntubragði í staðinn.

Súkkulaðikaka, skreytt með jarðarberjum
Súkkulaðikaka

Innihald:
200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
3 egg
2 1/2 dl sykur
3 dl hveiti
nokkur jarðarber, til skreytingar

krem:
25 gr smjör
1 dl rjómi
200 gr Pipp með piparmyntubragði

Aðferð:

  1. Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman í skál yfir vatnsbaði.
  2. Þeytið egg og sykur vel saman.
  3. Bætið hveitinu við blönduna og hrærið saman við.
  4. Bætið loks súkkulaðibræðingnum við og hrærið vel.
  5. Setjið deigið í smurt, kringlótt form, sem er u.þ.b. 24 cm í þvermál.
  6. Bakið við 175°C í 25-30 mínútur. Kakan á að vera nokkuð blaut.
  7. Bræðið innihald kremsins saman í skál yfir vatnsbaði.
  8. Smyrjið kreminu á kökuna.
  9. Skreytið með jarðarberjum.
Bananabrauð

Bananabrauð

Það er óþarfi að henda banönum þó að þeir séu orðnir gamlir og hýðið á þeim orðið svart. Það er hægt að baka úr þeim, til dæmis þetta bananabrauð:

Bananabrauð
Bananabrauð

Innihald:
1 egg
150 g sykur
2 þroskaðir bananar
250 g hveiti
1/2 tsk matarsódi
1 tsk salt

Aðferð:
1. Þeytið eggið og bætið sykrinum saman við í skömmtum. Þeytið eggið og sykurinn vel saman í hrærivél.
2. Merjið bananana með gaffli og hrærið saman við eggið og sykurinn.
3. Sigtið saman hveiti, matarsóda og salt og hrærið saman við bananablönduna.
4. Setjið í vel smurt aflangt form, (1 1/2 lítra), og bakið við 180°C en 160° með blæstri í 45 mínútur.

Bæverskar kjötbollur

Bæverskar kjötbollur

Þjóðverjar kunna að búa til góðar kjötbollur, öfugt við Íslendinga, sem búa þær til úr kjötfarsi eða einhverju sem inniheldur ekki kjöt. Hér eru bæverskar kjötbollur:
kjotbollur

INNIHALD:
500 gr hakk (má vera blandað, t.d. nauta- og svínahakk).
1-2 harðar brauðsneiðar
smá mjólkurdreitill
1 stór laukur
1 tsk tómatpúrra
2 tsk meðalsterkt sinnep
1 egg
pipar
salt
1 hvítlauksgeiri
Marjoram (kryddmæra)
smjörklípa eða olía til steikingar

AÐFERÐ:
1. Bleytið upp í harða brauðinu með mjólkinni þangað til það er orðið lint.
2. Skerið laukinn í bita
3. Setjið hakkið í skál ásamt bleyttu brauði, lauk, hvítlauk, tómatpúrru, sinnepi og eggi. Bætið kryddinu við út í eftir smekk. Hrærið svo allt vel saman.
4. Hnoðið kúlur úr hakkblöndunni og steikið á pönnu í um 15 mínútur, eða þar til bollurnar eru orðnar gegnsteiktar.

Úr þessari uppskrift verða u.þ.b. tíu bollur.

Það má líka leika sér með tilbrigði af uppskriftinni.
Til dæmis má bæta steinselju við út í hakkblönduna eða auka skammtinn af hvítlauknum og sinnepinu, allt eftir smekk.

Súrkál

Súrkál

Súrkál er eitt af aðalsmerkjum þýska eldhússins. Það hentar vel með góðum pylsum (og þá ekki íslenskum SS pylsum). Mæli með Pylsumeistaranum við Laugalæk.

Súrkál
Súrkál

Innihald:
1 kg súrkál (til dæmis Krautboy í 500 g pokum, fæst m.a. í Fjarðarkaupum)
1 stór laukur
1 grænt epli
100 g beikon
150-200 ml eplasafi (eða sætt hvítvín á tyllidögum)
15-20 einiber
1-2 msk kúmen
smjörklípa til steikingar.

Aðferð:
1. Beikon skorið í bita og brúnað í potti í nokkrar mínútur. Síðan er það veitt upp úr pottinum og geymt.
2. Laukurinn skorinn í bita og látinn krauma í beikonfeitinni í nokkrar mínútur. Gætið þess að allar skófir leysist upp.
3. Súrkálinu og einiberjunum bætt við laukinn, öllu blandað vel saman og látið krauma í u.þ.b. 20 mínútur. Ef lítill vökvi er í pottinum má hella hluta af eplasafanum saman við.
4. Eplið er kjarnhreinsað, skorið í bita og þeim bætt við út í pottinn ásamt kúmeni. Látið malla í aðrar 20 mínútur.
5. Beikoninu bætt út í og hrært saman við allt.
6. Svo er þetta smakkað til og eplasafa, kúmeni, einiberjum, salti eða pipar bætt við eftir smekk. Einnig má bæta svínasoðsteningi út í ef þess þarf.
7. Að lokum er þetta látið malla í u.þ.b. 10 mínútur í viðbót áður en það er borið fram.

Súrkálið er ekki síðra upphitað og því er hentugt að útbúa það kvöldið áður en á að borða það eða fyrr um daginn. Við upphitun gæti þurft að bæta meiri vökva út í það. (Eplasafa, hvítvíni eða vatni).

Tilraunaeldhúsið

Tilraunaeldhúsið

Kökur dagsins eru ættaðar frá Noregi. Þær koma við sögu í einu af höfuðverkum norskra leikbókmennta: Dýrunum í Hálsaskógi. Þetta eru piparkökur Hérastubbs bakara, bakaðar eftir Piparkökusöngnum:

Þegar piparkökur bakast kökugerðarmaður tekur
fyrst af öllu steikarpottinn og eitt kíló margarín,
bræðir yfir eldi smjörið en það næsta sem hann gjörir
er að hræra kíló sykurs saman við það, heillin mín.

Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjarauður
saman við og kíló hveitis hrærist og í potti vel.
Síðan á að setja í þetta eina litla teskeið pipar,
svo er þá að hnoða deigið, breiða það svo út á fjöl.

Þetta er dálítið stór uppskrift, enda notuð af faglærðum bakara í bakaríi. Hér er búið að minnka hana niður í 1/8 af því sem segir í söngnum og þá lítur hún svona út:

piparkokur
Piparkökur Hérastubbs

125 g smjör
125 g sykur
1 eggjarauða
125 g hveiti
1/8 tsk pipar

1. Smjörið brætt í potti ef það er ekki lint.
2. Smjör og sykur hrærð saman.
3. Eggjarauðunni bætt út í.
4. Hveitið sett saman við og allt hrært vel.
5. Pipar bætt við.
6. Deigið sett á bökunarplötu með teskeið. U.þ.b. ein teskeið fyrir hverja köku. (Það er ekki hægt að fletja það út, eins og gert var í leikritinu og ekki heldur hægt að móta karla og kerlingar úr deiginu).
7. Bakað við 180° í 10-12 mínútur.

Jólabaksturinn

Jólabaksturinn

Uppskriftin af þessum kökum gekk manna á milli í árdaga internetsins, í kringum 1996. Með uppskriftinni fylgdi saga af viðskiptavini sem var rukkaður um 250 dollara fyrir kökuuppskrift frá Neiman Marcus og hefndi sín með því að dreifa uppskriftinni með tölvupósti. Þess vegna eru þessar kökur kallaðar Neiman Marcus kökur eða Netkökur.

Sagan á bak við kökurnar er reyndar ekki sönn og hún hefur verið til í ýmsum útgáfum miklu lengur en þetta svokallaða internet. En kökurnar eru góðar. Hér er þýdd og staðfærð útgáfa af uppskriftinni:

neimanmarcus
Neiman Marcus kökur

200 g smjör
2 egg
2 dl púðursykur
1 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk lyftiduft
6 dl haframjöl
5 dl hveiti
60-100 g saxaðar hnetur
200-300 g súkkulaðibitar (Hershey’s chocolate chips eða venjulegir Hershey’s dropar sem eru saxaðir niður í bita – eða bara íslenskt suðusúkkulaði, því íslenzkt er bezt, eins og við vitum).

1. Hitaðu ofninn í 180°C
2. Hrærðu linu smjöri, eggjum, púðursykri og sykri saman í hrærivél.
3. Bættu þurrefnunum og vanilludropunum við og hrærðu í stuttan tíma.
4. Settu hnetur og súkkulaði út í skálina og hrærðu saman við (með sleif).
5. Búðu til kúlur úr deiginu og bakaðu þær í u.þ.b. 10-12 mínútur.

Þetta verða u.þ.b. 90 kökur.
Það má minnka uppskriftina um helming.