Edinborg á aðventunni
Um síðustu helgi, frá fimmtudegi til þriðjudags, var ég í Edinborg ásamt stórfjölskyldunni. Hér eru tíu handahófskenndar staðreyndir sem ég komst að um Edinborg og Skotland í þessari ferð:
-
1. Edinborgarbúum virðist vera alvara með að ganga í jólapeysum á þessum árstíma.
2. Elsta bygging borgarinnar er í Edinborgarkastala. Það er St. Margrétarkapellan, byggð um 1130.
3. Á salernunum á barnum Whistlebinkies er hægt að kaupa kynlífsleiktæki.
4. Skotar eru stoltir af þjóðarréttum sínum, á borð við haggis. Þar er hægt að fá ýmis tilbrigði við haggis, allt frá djúpsteiktu á veitingastöðum yfir í innpakkað í umbúðir fyrir túrista. Eitthvað sem Íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar, í stað þess að bjóða endalaust upp á pizzur, hamporgara og samlokur.
5. Alvöru sekkjapípur kosta allt að 1000 pundum. Það er líka hægt að fá byrjendahljóðfæri sem kosta um 120 pund og hljóðfæri í barnastærð, sem kosta um 20 pund. Ég fékk mér eina fyrir byrjendur.
6. Skemmtanamenningin er öðruvísi en á Íslandi. Í Edinborg mæta menn á djammið snemma um kvöldið. Flestum vínveitingahúsum og krám er lokað á miðnætti. Aðeins klúbbar með háværri danstónlist eru opnir lengur.
7. Það var óvenjuleg hitabylgja í Edinborg fyrir þennan árstíma. Rigning og rok og fimm til tíu stiga hiti er ekki venjulegt veður í Edinborg fyrir jólin.
8. Það er til hljómsveit sem heitir Red hot chilli pipers. Meðlimir hennar eru þrír og spila allir á sekkjapípur.
9. Á jólamarkaðnum og í búðum hljómar stanslaust sama jólatónlistin. Um eina helgi fyrir jólin í Edinborg er vel hægt að fá of stóran skammt af jólalögum.
10. Þekktasti bjór borgarinnar er Tennents. Einu sinni var tekin upp auglýsing fyrir hann á Íslandi.