Fjarlæg framtíð
Í 6. þætti 26. þáttaraðar sameinast Simpson-fjölskyldan Futurama-þáttunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Simpson-fjölskyldan sameinast öðrum þáttum. Árið 1995 mætti t.d. gagnrýnandinn Jay Sherman í þáttinn. Og raunar er þetta annar sameiningarþátturinn sem gula fjölskyldan mætir í á þessu ári, því að hún heimsótti Peter Griffin í Family Guy.
Við upphaf þáttarins sést texti sem gæti útlagst á íslensku: „Hugmyndasnauður þáttur sameinast þætti sem er hættur.“
Það er þó gott að handritshöfundar hafa húmor fyrir sjálfum sér.
Í skólanum fær bekkurinn hans Barts það verkefni að búa til tímakistu, sem verður grafin í jörðu í 1000 ár. Allir í bekknum eiga að setja einhvern hlut í kistuna. Milhouse setur kanínufót í hana. Bart hefur gleymt verkefninu. Framlag hans er þess vegna hálfétin samloka sem hann snýtir sér í. Þegar tímakistan er grafin á ráðhústorginu finnst kjarnorkuúrgangur. Öllum stendur á sama um það og kistan er sett niður í gröfina.
SKömmu eftir athöfnina brestur á óveður og dularfullur hlutur fellur til jarðar frá himnum, beint niður í garðinn hjá Simpson-fjölskyldunni. Þegar Hómer og Marge eru komin upp í rúm verða þau vör við dularfullt hljóð í húsinu. Hómer fer að leita að upptökum þess, sem reynast vera í kjallaranum.
Hómer þorir ekki að fara niður í kjallara. Fyrst reynir hann að senda hundinn niður, en Bart reynist meðfærilegra fórnarlamb. Í ljós kemur að dularfulla hljóðið kemur frá hlutnum sem féll til jarðar í garðinum, sem er vélmennið Bender úr Futurama-þáttunum. Hann situr í kjallaranum og drekkur bjórinn hans Hómers.
Hómer vingast brátt við Bender, fer með hann út á krána og í keilu. (Þar sjást Pin-pals-skyrturnar og stigatafla með nafni Jacqes, keilukennarans sem Marge átti í stuttu ástarsambandi við. Á sömu stigatöflu sést einnig nafn liðsins Holy rollers). En það býr eitthvað meira að baki vináttu Hómers og Bender.
Lísa fer með Bender á tilraunastofuna til dr. Frinks til að láta skoða hann og komast að því hvers vegna hann er kominn til nútímans. Bender man ekki hvers vegna hann er kominn, en prófessorinn kann einfalt ráð til að komast að sannleikanum: að slökkva á vélmenninu og kveikja á því aftur.
Þegar Bender er kominn í gang aftur rifjast það upp fyrir honum hvert verkefni hans er: Hann á að drepa Hómer Simpson. Hann gugnar hins vegar á verkefninu vegna þess að þeir Hómer eru orðnir of góðir vinir.
Eftir að Bender hefur gugnað á verkefni sínu ná félagar hans sambandi við hann til að athuga hvort að verkefni hans sé lokið. Þau segja frá ástæðu þess að Hómer þarf að deyja: Kanínur sem bera erfðaefni hans eru að eyðileggja New New York-borg í framtíðinni. Vinir Benders (Leela, Fry, og prófessor Farnsworth) koma að lokum til Springfield til að klára að koma Hómer fyrir kattarnef.
Prófessorarnir tveir ákveða að finna ráð til að koma í veg fyrir að drepa þurfi Hómer og fá Lísu í lið með sér. Á meðan fara Leela, Fry og Bender með Hómer og skoða sig um í Springfield (og komast að því hvers vegna fólk borgar fyrir að spila ókeypis tölvuleiki).
Þegar liðið er komið í heimsókn til Simpson-fjölskyldunnar tilkynna prófessorarnir niðurstöðu sína. Kanínurnar í framtíðini (sem nú hafa breyst í lítil skrímsli sem minna á Gremlins) eru aðeins að hálfu leyti með erfðaefni Hómers. Hinn helmingur erfðaefnisins er frá Marge. Skömmu síðar kemur í ljós að Bart á sökina á litlu skrímslunum. Þau hafa orðið til við samruna horsins úr Bart, kanínufótar Milhouse og kjarnorkuúrgangsins úr gröf tímakistunnar.
Lausnin er því sú að grafa tímakistuna upp til að koma í veg fyrir að skrímslin verði til í framtíðinni. En sagan er ekki búin því að þegar þau eru komin að gröf tímakistunnar kemur í ljós að litlu skrímslin eru búin að eyðileggja innganginn að tímagöngunum sem Futurama-gengið notaði til að ferðast á milli tíma. Simpson-fjölskyldan og Futurama-gengið ferðast því til framtíðarinnar, að undanskildum Bender og Maggie. (Bender er hinn inngangurinn að tímagöngunum). Afgangurinn af Simpson-fjölskyldunni er því fastur í framtíðinni.
Hómer og Fry er falið að gera við tímahliðið. Hin ætla að fara út til að gefast upp og sættast við örlög sín. Lísa neitar þó að gefast upp. Þess vegna er skrímslunum að lokum safnað saman (í Madison cube garden) og þeim kastað út í geiminn (eins og tapliðinu í Superbowl-leiknum).
Þegar búið er að losa New New York við skrímslin (borgin heitir núna New New New York eftir eyðileggingu og uppbyggingu) er tímahliðið komið í lag. Fjölskyldan kemst því heilu og höldnu til fortíðarinnar (þ.e. nútíðar sinnar).
En Bender á enn eftir að komast til framtíðarinnar. Hann er hluti af tímahliðinu og kemst ekki í gegnum sjálfan sig. Hann ákveður að nota gamaldags aðferðina: Hann slekkur á sér og lætur vekjaraklukkuna hringja eftir 1000 ár. Á meðan er honum hent niður í kjallara hjá gömlu jólaskrauti. (Eitthvað segir mér að hann eigi eftir að birtast aftur við og við eins og aðrir hlutir úr gömlum Simpsons-þáttum).
Að lokum sést áfangastaður litlu skrímslanna. Þau hafa lent á stjörnunni Omicron Persei 8 (úr Futurama). Þar sjáum við íbúa hennar (Lrrr og Ndnd) bíða komu Johnson-fjölskyldunnar. Johnson-fjölskyldan reynist vera geimverurnar Kang og Kodos. (Framkoma þeirra er n.k. sárabót fyrir þau sem söknuðu þeirra úr hrekkjavökuþættinum).
Þættinum lýkur á Futurama-stefinu þar sem búið er að setja inn ýmis atriði sem vísa í Simpson-fjölskylduna, einkum í formi skilta sem ekki er hægt að lesa nema að spilunin sé stöðvuð.
Ég er ekki jafn vel að mér í Futurama og í Simpson-fjölskyldunni. Þess vegna má vera að ég hafi misst af einhverjum bröndurum. En flestir brandarar fara eiginlega framhjá áhorfendum við fyrsta áhorf, því þátturinn er meira og minna byggður á frostbröndurum (freeze-frame-jokes). Söguþráðurinn er þó skemmtilegur (ég er alltaf pínulítið veikur fyrir sögum með tímaferðalögum og tímavélum). En þættinum mistekst eiginlega að vera fyndinn, að undanskildum áðurnefndum frostbröndurum. Það þarf að kafa miklu dýpra í hann til að finna skemmtileg atriði. Það þýðir þó ekki að þátturinn hafi verið alveg húmorslaus. Það var til dæmis fyndið þegar Kent Brockman las texta af bilaðri textavél, þegar Marge og Leela hittust í fyrsta skipti, eða þegar Wiggum lögreglustjóri útskýrði hvers vegna hann er alltaf í einkennisbúningnum, líka þegar hann er ekki í vinnunni.
Þó að þátturinn eigi ef til vill ekki eftir að verða að klassískri snilld þegar fram í sækir á minning hans þó eftir að lifa fyrir það að þarna kemur fram að geimverurnar Kang og Kodos eru báðar kvenkyns. (Við vitum að Kodos er kvenkyns eftir Hrekkjavökuþátt nr. VII). Í lok þáttarins kemur einnig fram að Ralph Wiggum deyr árið 2017. (Al Jean, einn af framleiðendum þáttanna, segir að það hafi þó bara verið léttur brandari, það sé ekki vísbending um að Ralph verði skrifaður út úr þáttunum í framtíðinni – Sjá hér).
Nokkur atriði sem vert er að taka eftir:
-Skrifað á töfluna í skólanum: „Time capsule: Sounds cool, but it’s just að box we bury.“
-Hómer les bókina „How to read a book in bed“ í rúminu.
-Á Móakrá sést vínflaska merkt „Moe et Chandon“.
-Kanína í New New York skrifar „Crossovers are hell“ á vegginn.
-Auglýsingaskilti í Springfield: Canyonero 2014 Hybrid – 11 miles per gallon. (Tilvísun í þáttinn „Last temptation of Krust“).
-Litlu skrímslin skrifa „El Barto“ á vegginn.
-Madison cube garden eyðileggur gervihnött merktan FXXX. (þetta er í annað skiptið í þáttaröðinni þar sem gert er grín að FXX-sjónvarpsstöðinni).
-Tapliðið í Superbowl-keppninni árið 3014 heitir Buffalo Bills.
Áletranir á nokkrum skiltum í New New York:
-Buzz-cola: With cocaine again.
-Duff-holo-beer: All the rage but none of the calories.
-The androids penthouse: Take me to your comic books & baceballs cards.
-Re-elect Mayor Quimby head.
-Freeze frame industries.
-Milhouse of ill repute.
-Kang and Kodo’s b-tentacle massage.
-Prof. Frinks carbon dating service.
-Stonecutters world HQ.
-The eBook of mormon.