Herdís Guðmundsdóttir

Herdís Guðmundsdóttir

Fædd 11. desember 1930
Dáin 22. janúar 2024.

Herdís Guðmundsdóttir

Hún amma er dáin. Þó að ég hafi verið búinn undir það nýlega að svona skyldi fara einhvern næstu daga var ég samt svo óviðbúinn því. Amma var kona sem ég hélt innst inni að yrði alltaf til staðar! En svona er þetta líf. Það er nú samt sæmilegur árangur hjá henni að ná þessum háa aldri. Því ná nú ekki allir!

Amma var sú yngsta af tólf systkinum sem fæddust og ólust upp á Syðra-Lóni á Langanesi á fyrri helmingi síðustu aldar og sú síðasta sem var eftirlifandi úr systkinahópnum. Þau ólust upp lengst norður á landi. Svo kynntist hún afa. Hann var fæddur og uppalinn vestast á Vestfjörðum. Lengra út á landið í hvora áttina er varla hægt að komast. En einhvernveginn það æxlaðist að þau hittust, komandi hvort úr sínum fjarlæga landshlutanum. Og þau hófu búskap í enn einum landshlutanum, í Borgarnesi. Þaðan man ég eftir þeim. Ömmu og afa í Borgó.

Syðra-Lón á Langanesi. Um 90 árum eftir að amma fæddist.

Í Borgarnes var gott að fara til að komast í burt frá þessu öllu. Burt frá raunveruleikanum, hversdagslífinu og áhyggjum daglegs lífs. Þórólfsgatan var Borgarnes. Borgarnes var Þórólfsgatan. Þar var öryggi æskuáranna.

Þórólfsgata 20 í Borgarnesi. Þórólfsgatan var Borgarnes. Borgarnes var Þórólfsgatan.

Í Borgarnesi gisti ég í fyrsta skipti að heiman, fjarri pabba og mömmu. Í skáparúminu í svefnherberginu hjá ömmu og afa. Og líklega öll barnabörnin sem á eftir komu. Við elskuðum öll skáparúmið. Þangað til við vorum orðin of stór til að sofa í því.

Í ömmu var öryggið. Hún sá til þess að ég hefði það sem best á meðan ég gisti hjá henni. En hún var líka hæfilega frjálsleg í uppeldinu, eins og ömmur eiga að vera. Hvar annars staðar en hjá ömmu fékk maður kókópuffs í morgunmat á þriðjudegi eða appelsín, kók eða sykrað appelsínudjús með hversdagskvöldmatnum?

Með ömmu í Borgarnesi, líklega jólin 1979.

Amma var sáttasemjarinn. Hún vildi hafa öll barnabörnin jöfn og að þau sætu öll við sama borð. Jæja, ókei þá. Litlu stelpurnar máttu vera með á fundum Leynifélagsins. En stóru krakkarnir áttu það samt og réðu. Litlu stelpurnar fengu að vera með, af því að amma sagði það. En þó bara að nafninu til, á pappírunum.

Hún naut þess að ferðast. Hvort sem það voru skreppitúrar upp í bústað eða ferðalög til framandi landa. Eða eitthvað þar á milli. Amma og afi fóru í ótal ferðalög til nálægra og fjarlægra landa, að mér fannst. Og þau kunnu að tala útlensku! Og fram að unglingsárum gat maður verið viss um að fá frá þeim einhverja minjagripi frá þessum útlöndum þegar þau kæmu heim.

Hlaðhamar. Bústaðurinn.

Ég fór eitt skipti með þeim til Stokkhólms, ásamt hluta fjölskyldunnar. Siglingar um sænsku skerjagarðana. Dagsferð til Álandseyja. Gisting í aflögðu fangelsi á Långholmen. Stokkhólmur var snilld.

Í Stokkhólmi 2006. Frá vinstri: Ægir, Gunnhildur, Atli, Gréta, Herdís og Páll.
Afi og amma í Stokkhólmi. Fá sér smá hressingu í göngutúr um Långholmen.

Svo var Þórólfsgatan ekki lengur. Amma og afi ákváðu að minnka við sig og fluttu í Hamravíkina. Nýja húsinu fylgdi þó sama hlýjan og öryggistilfinning æskuáranna sem maður fékk við að koma upp í Borgarnes. Þó að fullorðinsárin væru nú tekin við. Þar var afi með henni í tæpt ár, áður en hann dó. En stórfjölskyldan hélt áfram að hittast heima hjá ömmu. Hamravíkin var nógu stór til að við kæmumst þar öll fyrir. Nýja húsið tók við sem félagsheimili fjölskyldunnar.

Hamravík 2 í Borgarnesi. Þar bjó amma síðustu árin.

Amma tók húsmóðurhlutverkið alvarlega. Enda var hún húsmæðraskólakennari. Öll matarboðin á gamlárskvöld og grillveislurnar á sumrin. Og reyndar á öllum öðrum árstímum líka. Hún leit á það sem sitt hlutverk að sjá til þess að allt væri komið á borðið og öll væru með nógan mat á disknum. Það kom ekki til greina hjá henni að setjast niður og slaka á. Jafnvel þó við værum orðin fullorðin og gætum bjargað okkur sjálf. Undir stjórn ömmu skyldu allir vera með nóg að borða og drekka. Alltaf!

Stórfjölskyldan í Würzburg 2010.
Stórfjölskyldan í Würzburg 2010

Ferðalögin urðu fleiri. Fjöruferðir um páskana voru fastur liður hjá stórfjölskyldunni. En ferðir til fjarlægari staða voru líka á dagskrá. Til Würzburgar í Þýskalandi og Edinborgar í Skotlandi. Og útilegur víða um landið. Til dæmis á Snæfellsnesi. Í einni útilegunni stoppuðum við í Rauðfeldsgjá á Snæfellsnesi. Mér fannst það töff hjá áttræðri konunni að ganga alla þessa leið upp í gjána. Öll þessi ferðalög með ömmu með í för hafa skapað ógleymanlegar minningar.

Með hluta af stórfjölskyldunni 2015.

En nú er þessu lokið hjá ömmu. Hér væri hægt að minnast á svo margt annað. En hér er bara stiklað á stóru. Örfá minningabrot sem koma upp í hugann, svona rétt eftir að hún er farin. Nú er hún ef til vill einhversstaðar á göngu inni í eilífðinni með afa, þ.e. ef við trúum á líf eftir þessa jarðvist. Eða að skemmta sér einhversstaðar með systkinum sínum, öllum saman.

Ég er þakklátur fyrir þennan tíma sem hún var hluti af lífi mínu. Takk fyrir allt saman, amma! „Að hugsa til þín, það gerir mér gott. Ég finn styrk í því þó sért farin á brott,“ söng Mugison nýlega. Það ættu allir að eiga svona ömmu!

Nú ganga þau saman inn í eilífðina!
Comments are closed.