Hljómsveitabransinn
Í áttunda þætti 26. þáttaraðar er sögð saga af Hómer í tónlistarbransanum.
Moe barþjónn lendir í útistöðum við nágranna sinn, King Toot (Will Forte), eiganda hljóðfærabúðarinnar, sem hefur verið við hliðina á kránni síðan í þættinum Lisa’s pony, vegna þess að sá síðarnefndi hendir rusli í ruslagáminn hans Moe. Útistöðurnar leiða til slagsmála inni í hljóðfærabúðinni og í kjölfar þeirra þarf að loka búðinni vegna viðgerða. Hómer og Lísa neyðast þess vegna til þess að fara í hljóðfærabúðina Guitar central, sem rekin er af vondu stórfyrirtæki.
Afgreiðslumanninum í hljóðfærabúðinni tekst að selja Hómer rafmagnsbassa og ýmsa fylgihluti, meðal annars reykvél, og ljósabúnað. Hómer byrjar að æfa sig á bassann, meðal annars í bílskúrnum, undir stýri, í rúminu og við matarborðið.
Marge þolir það ekki og kvartar við vinkonur sínar; Helen Lovejoy, Bernice Hibbert, og Louanne van Houten. (Manjula situr líka við borðið með þeim, en segir ekki neitt, kannski af augljósum ástæðum). Í ljós kemur að þær eru í sömu stöðu: mennirnir þeirra eru að æra þær út af hljóðfæraleik. Marge dettur því í hug að sameina mennina og fá þá til að stofna hljómsveit.
Hómer, séra Lovejoy, Kirk van Houten og dr. Hibbert koma saman á hljómsveitaræfingu. Fljótlega bætist Apu í hópinn og gerist söngvari hljómsveitarinnar. Hann hefur æft sig í vinnunni við að syngja með undirleik hljómsveitarinnar Sungazer. Bílskúrsbandið þeirra fær nafnið Covercraft.
Hljómsveitin spilar á ýmsum samkomum og hátíðum. Í fyrstu er Apu haldinn sviðsótta, en Hómer hjálpar honum að losna við óttann, með því að fá hann til að klæðast búðarskyrtunni og ímynda sér að hann standi á bakvið afgreiðsluborðið. Þegar hljómsveitin er orðin fræg og vinsæl og myndbönd komin á netið koma fjórir eftirlifandi meðlimir hljómsveitarinnar Sungazer á æfingu til þeirra og fá Apu til liðs við sig sem söngvara.
Hómer verður öfundsjúkur (ekki afbrýðisamur) út í Apu og velgengni hans. Látnu rokkguðirnir John, Lennon, Jimi Hendrix, Jim Morrison og Sammy Hagar, hæðast að honum. (Sammy Hagar er reyndar ekki alveg dáinn, það hefur bara staðið jalapeno-biti í hálsinum á honum). Þessar tilfinningar Hómers verða til þess að hann ákveður að leysa hljómsveitina sína upp.
Eftir að hljómsveitin hættir fær Hómer boðsmiða og baksviðspassa á tónleika frá Apu, þegar hljómsveitin Sungazer spilar á tónleikum í Springfield. Þegar fjölskyldan er mætt á tónleikana dettur Hómer í hug að fara baksviðs í búningsklefa Apus og stela búðarskyrtunni frá honum. Í miðju kafi koma Apu og hljómsveitin inn í búningsklefann. Hómer felur sig inni í fataskápnum og kemst að því að Apu vill losna undan störfum sínum í hljómsveitinni. Hljómsveitin vill ekki leyfa honum það og Hómer sættist við klemmuna sem Apu er í.
Hómer dettur í hug ráð til að leysa Apu frá hljómsveitinni. Hann ákveður að kaupa allar pylsurnar úr Kwik-E-mart og bjóða hljómsveitinni upp á þær. Þess vegna fá þeir „dularfulla“ matareitrun og geta ekki spilað á tónleikunum. Í stað þess að aflýsa tónleikunum fær Apu Covercraft til að spila á tónleikunum. Þannig rætist frægðardraumur Hómers að lokum.
Lögreglan kemst að því að það er Apu og Hómer að kenna að Sungazer fékk matareitrun og handtekur þá. Sungazer stígur að lokum á svið, ennþá með matareitrun, og klárar tónleikana. Þættinum lýkur á því að Hómer, Apu, Moe og King Toot eru í sama fangaklefa, með Sammy Hagar, að hlusta á hvernig hann komst í fangelsið.
Þáttur af Hómer í hljómsveit og tónlistarbransanum kallar á samanburð við aðra þætti þar sem Hómer hefur verið í popptónlistarbransanum. Til dæmis þætti eins og Homer’s barbershop quartet eða jafnvel That 90’s show (sem er einn af verstu Simpsons-þáttum sem gerðir hafa verið, en það er nú önnur saga). Enda koma fram vísanir í báða þessa þætti. Báðir þessir þættir eiga það sameiginlegt að aðalsagan í þeim er sögð í gegnum endurlit. Sá nýjasti gerist hins vegar í nútímanum og þarf að segja söguna frá upphafi. Ef fyrrnefndi þátturinn er 10 og sá síðarnefndi 0 fær þessi nýjasti 6,5.
Þetta er ekkert slæmur þáttur. En þó bara í meðallagi. Það var gaman að sjá hluti sem ekki hafa sést áður. Ég minnist þess til dæmis ekki að hafa séð bakdyrainnganginn hjá Moe áður. Eigandi hjlóðfærabúðarinnar, King Toot sjálfur hefur heldur ekki komið fram í þáttunum, svo ég muni. Það hefði mátt gera meira úr honum, fyrst að hann kom fram. Hann hlýtur að eiga sér einhverja sögu.
Skemmtileg smáatriði og tilvitnanir úr þættinum, sem vert er að taka eftir:
-Afgreiðslumaður í hljóðfærabúðinni við Hómer: „You are aldready one of the greatest bass players of all time.“
-Milhouse lendir undir hillunni hjá Bart.
-Smáauglýsingar í blaðinu:
Band dissolution notices:
The B Sharps
Sadgasm
-Gabbo og Arthur Crandall eru meðal gesta í afmælisveislu Sideshow Mel.
-Hómer: „My mind is full of ideas for great songs I could write… down the names of and then cover.“
-Það er mynd af The Be sharps í búningsklefa Apus