Hrekkjavakan XXV
Í 25. hrekkjavökuþætti Simpson-fjölskyldunnar koma geimverurnar Kang og Kodos ekkert fram. Samkvæmt lauslegri athugun mun þetta vera annar hrekkjavökuþátturinn þar sem þeim er sleppt. (Í fyrsta sinn mun þeim hafa verið sleppt í 23. hrekkjavökuþættinum). Raddirnar þeirra heyrðust reyndar í upphafi þáttarins, en geimverurnar sjást aldrei, ekki einu sinni í inngangi þáttarins, þar sem brot úr gömlum hrekkjavökuþáttum renna yfir skjáinn á meðan gestastjörnur þáttarins eru kynntar. (Að upptalningu lokinni reynast stjörnurnar hanga dauðar/limlestar uppi á vegg).
Í fyrstu sögunni fara Bart og Lísa til helvítis eftir að hafa lesið fornar rúnir, sem Bart finnur í eftirsetu í skólanum (þýddar með forritinu iRunes), meðal annars fyrir að setja steinsteypu í sandkassann á skólalóðinni og fyrir að ljúga því að nakin matsölukona muni afgreiða hádegismatinn. Í skólanum í helvíti stendur Bart sig vel og vill fá að vera þar áfram. Systkinin koma aftur upp á yfirborð jarðarinnar í gegnum vítishlið á skrifstofu hr. Burns. Hómer og Marge leyfa syni sínum að vera í skólanum í eina önn. Lokaprófið hans frá skólanum felst í því að pynta Hómer. Bart útskrifast svo með láði frá skólanum.
Annar hluti þáttarins er paródía af kvikmyndinni A clockwork orange, sem í Simpsons-útgáfunni heitir A clockwork yellow. (Þetta er ekki fyrsta sinn sem mynd eftir Stanley Kubrick er tekin fyrir í hrekkjavökuþætti. Aðdáendur ættu að muna eftir útúrsnúningi á The Shining). Moe barþjónn er í hlutverki Malcolm McDowell sem sögumaður myndarinnar. Í genginu hans eru Lenny, Carl og Hómer. Þarna sjást ýmsar tilvísanir, einkum í myndina A clockwork orange, eins og gefur að skilja, en líka í aðrar myndir eftir Kubrick, og í eldri Simpsons-þætti. Meðal annars sjást Duff-mjólkurflöskur sem nefndar eru eftir „The seven Duffs“ (úr 13. þætti 4. þáttaraðar). Og Shary Bobbins bjargar Moe þegar hann dettur út um Big Ben. Á tímabili kemur svo mikið af tilvísunum að Hasarblaðagaurnum verður að orði: „m.a.s. ég man ekki í hvað þetta á að vísa“. Þarna er meðal annars skemmtileg notkun á öllum bresku slangur- og bullorðunum, eins og í myndinni. Þegar paródíunni er lokið sést Stanley Kubrick sitja við klippiborðið þar sem hann ákveður að byrja alla vinnuna við myndina upp á nýtt.
Þriðja og síðasta sagan heitir „The others“. (Þarna býst maður við því gert sé grín að samnefndri kvikmynd með Nicole Kidman í aðalhlutverki, en svo er ekki). Simpson-fjölskyldan verður vör við draugagang á heimili sínu. Fyrstu merki um draugaganginn eru blóðskrift á baðherbergisspeglinum, dularfullur mjólkurhristingur í eldhúsinu og sjónvarpið sýnir bara þættina „Married with children“ (sem hafa áður verið teknir fyrir í þáttunum). Í ljós kemur að draugarnir eru eldri útgáfur af fjöldkyldunni, eins og hún leit út á upphafsárum sínum, í Tracy Ullman-þáttunum. Hómer líst betur á drauga-Marge heldur en lifandi Marge, sem verður til þess að lifandi útgáfan ákveður að fremja sjálfsmorð. Að lokum fer svo að fjölskyldan deyr öll og sameinast þannig draugunum. Þegar þau hafa sameinast fer Lísa að velta því fyrir sér hvers vegna vond markaðsfyrirtæki hafa ekki endurframleitt og markaðssett öðruvísi útgáfur af fjölskyldunni, fyrst hún er nú þegar til í tveimur útgáfum. Í kjölfarið birtist fjölskyldan m.a. í þrívíddarútgáfu, manga-teiknimyndaútgáfu, South-park-útgáfu, Sylvain Chomet-útgáfu (þau birtust þannig í sófaatriði í 12. þætti 25. þáttaraðar), Lego-útgáfu, Despiceable-me-útgáfu og sem dýr úr sögunni Island of Dr. Hibbert (úr hrekkjavökuþætti nr. 13).
Þættinum lýkur á endurgerð af stuttu atriði þar sem báðar útgáfur fjölskyldunnar eru í misheppnaðri fjölskyldumyndatöku.
Eins og af öðrum þáttum í þessari þáttaröð (og frá undanförnum þremur til fjórum árum, ef út í það er farið) bjóst maður ekki við miklu af þessum þætti. Það varð líka raunin. Því að í heildina var þetta frekar aumur og fyrirsjáanlegur hrekkjavökuþáttur. En þó að þættirnir séu orðnir frekar þunnir og fyrirsjáanlegir í seinni tíð verður það ekki tekið af þeim að þeir hafa ennþá skemmtilegan húmor. Í þessum þætti kom ýmislegt skemmtilegt fram. Eins og til dæmis:
*Chalmers bíður eftir nöktu matsölukonunni ásamt strákunum í skólanum.
*Nafni Barts í helvíti er breytt í Beelzebart.
*Svartsýnisraus í Hómer: „Foreldrar fá 20 tölvupósta frá skólanum á dag og allir svara þeim öllum með „reply to all“. (En svoleiðis hegðun er óþolandi, eins og allir tölvupóstnotendur vita).
*Hómer: „Þú fórst til helvítis og snerir aftur sem sigurvegari. Eins og Jesús.“
*Pomp and circumstance-lagstúfurinn sunginn af drungalegum karlakórsröddum.
*Noah Webster er í helvíti fyrir að breyta stafsetningunni á theatre í theater.
*Kwik-E-mart heitir Uk wik-e-mart.
*Duff-mjólkurdósirnar.
*Ýmiss konar matur undir rúminu þeirra Hómers og Marge.
*Hómer heldur á „The car-sellers bible“.
*Bart illa teiknaður, þar sem andlitið hreyfist, en augun ekki, eins og á upphafsárum þáttanna.
*Hómer (Við gömlu útgáfuna af Marge): „By the way: Nice melons.“
Marge (Nýja útgáfan): „Those are in the kitchen.“
*Drauga-Hómer drepur lifandi Hómer með því að slá hann í hausinn með brauðristinni þegar hann hefði getað hent ristinni í baðkarið og drepið hann þannig.
*Dr. Marvin Monroe, sem við vitum ekki hvort er lífs eða liðinn, kemur fram í þættinum.
Að lokum nokkur skemmtileg smáatriði sem vert er að taka eftir:
*Martin heldur á bókinni Naked Lunch eftir William Burroughs.
*Í helvíti sést kleinuhringjapyntingatækið sem Hómer var pyntaður með í 4. hrekkjavökuþættinum.
*Í útúrsnúningi á kynlífsorgíuatriðinu í Clockwork orange, sem sýnt er hratt, sést Marge lesa bókina A clockwork orange. Hómer fær sér appelsínu á meðan.
*Fyrsta sjónvarpsstöðin sem Hómer skoðar í „The others“ heitir FXXXXXX“.
*Í fjölskyldumyndatökunni er Lísa að lesa bókina „Fifty shades of grade school“. Gamla útgáfan af henni er að lesa bókina „Sweet valley high“.