Hvað gerist á árinu 2014?
Það er í tísku að birta völvuspár þessa dagana og segja til um það sem mun gerast á árinu 2014. Hér er ein:
Það verða einhverjir jarðskjálftar, annað hvort á suðurlandi, Reykjanesi eða á norðurlandi. Þeir valda þó ekki manntjóni. Kannski verður eldgos.
Jón Gnarr stígur úr borgarstjórastólnum og snýr aftur í skemmtanabransann. Reykvíkingar fá nýjan borgarstjóra í vor.
Nýr útvarpsstjóri verður ráðinn á ríkisútvarpið í janúar eða febrúar. Ráðning hans veldur nokkrum deilum, en þær fjara út á tveimur til þremur vikum.
Nýr íslenskur sjónvarpsþáttur á eftir að vekja nokkrar umræður.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður í sviðsljósinu mestan part ársins. Líka Bjarni Ben og Ólafur Ragnar.
Jóhanna Sigurðardóttir verður lítið sem ekkert í fréttum.
Vigdís Hauksdóttir verður umdeild á árinu.
Eitthvað stórt hneykslismál kemur upp. Virkir í athugasemdum verða virkari en nokkru sinni áður og bloggheimar munu loga.
Einhverjir íslenskir listamenn vekja athygli utan landsteinanna. Líklega eru þetta listamenn sem eru lítið þekktir á Íslandi, en vinsældir þeirra hér heima aukast í kjölfarið.
Ný metsölubók verður gefin út fyrir jólin. Höfundur hennar er gamalreyndur rithöfundur.
Erlendir kvikmyndagerðarmenn munu sýna landinu áhuga.
Íslenskir íþróttamenn ná góðum árangri á erlendri grundu.
Einhver frægur Íslendingur ákveður að stíga út úr sviðsljósinu um stundarsakir.
Einhver annar frægur Íslendingur eignast barn á árinu.
Og enn annar frægur Íslendingur deyr á árinu.
Það verður snjór í janúar, febrúar og mars. En það verður sól í sumar. Og líka rigning.
Svo er nú það.