Jól á réttum tíma

Jól á réttum tíma

Jólin mín byrja í desember.
Jólin mín byrja í desember.
Á síðasta áratug háði ég baráttu við snemmbúinn jólaundirbúning. Fyrir hver jól á árunum 2003-2008 setti ég upp vefsíðu með lista yfir ýmis fyrirtæki sem hófu jólaundirbúning í september, október og nóvember og hvatti fólk til að sniðganga þau í jólavertíðinni.

Ég hlaut mína fimmtán mínútna frægð fyrir þetta uppátæki. Eitt árið var fjallað um listann í Íslandi í dag á Stöð tvö. Tvö ár í röð komst þetta í dagblöð, í DV árið 2005 og í Fréttablaðið 2006.

Ákveðinn fjöldi manns hefur spurt hvort ég ætli að setja svona lista aftur upp á þessu ári. Stutta svarið er: Nei, ég nenni því ekki.

Langa svarið er hins vegar:

  • Ég horfi lítið sem ekkert á sjónvarp.
  • Ég fletti dagblöðum sjaldan.
  • Ég er með hugbúnað í tölvunni sem felur auglýsingar á stærstu íslensku fréttavefjunum.
  • Auk þess er ég haldinn svokallaðri bannerblindu, sem gerir það að verkum að ég læt flestar auglýsingar á vefnum fara framhjá mér.

Þessi atriði valda því að auglýsingar sem ættu að ná til mín gera það ekki, hvort sem þær eru jólatengdar eða ekki.

Auk þess er ég námsmaður. Það er allt brjálað að gera í skólanum og því enginn tími til að sinna jólamótmælunum almennilega.

Svona snemmbúinn jólaundirbúningur og markaðs- og græðgivæðing jólanna fara samt enn í taugarnar á mér.

Vonandi getur einhver annar tekið upp þráðinn. Því það er eflaust full ástæða til þess ennþá.

Comments are closed.