Jólabaksturinn
Uppskriftin af þessum kökum gekk manna á milli í árdaga internetsins, í kringum 1996. Með uppskriftinni fylgdi saga af viðskiptavini sem var rukkaður um 250 dollara fyrir kökuuppskrift frá Neiman Marcus og hefndi sín með því að dreifa uppskriftinni með tölvupósti. Þess vegna eru þessar kökur kallaðar Neiman Marcus kökur eða Netkökur.
Sagan á bak við kökurnar er reyndar ekki sönn og hún hefur verið til í ýmsum útgáfum miklu lengur en þetta svokallaða internet. En kökurnar eru góðar. Hér er þýdd og staðfærð útgáfa af uppskriftinni:
200 g smjör
2 egg
2 dl púðursykur
1 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk lyftiduft
6 dl haframjöl
5 dl hveiti
60-100 g saxaðar hnetur
200-300 g súkkulaðibitar (Hershey’s chocolate chips eða venjulegir Hershey’s dropar sem eru saxaðir niður í bita – eða bara íslenskt suðusúkkulaði, því íslenzkt er bezt, eins og við vitum).
1. Hitaðu ofninn í 180°C
2. Hrærðu linu smjöri, eggjum, púðursykri og sykri saman í hrærivél.
3. Bættu þurrefnunum og vanilludropunum við og hrærðu í stuttan tíma.
4. Settu hnetur og súkkulaði út í skálina og hrærðu saman við (með sleif).
5. Búðu til kúlur úr deiginu og bakaðu þær í u.þ.b. 10-12 mínútur.
Þetta verða u.þ.b. 90 kökur.
Það má minnka uppskriftina um helming.