Tré fyrir tappa og flipa

Tré fyrir tappa og flipa

Leggjum rækt við landið – Tré fyrir tappa og flipa var einn af fyrstu verðlauna-/auglýsingaleikjunum sem ég tók þátt í. Bylgjan, Stöð tvö, Coca Cola á Íslandi og Skógrækt ríkisins stóðu fyrir honum. Leikurinn gekk út á að safna töppum og flipum af kókdósum og -flöskum. Tappar/flipar af Diet-Coke, Fanta, Tab, Fresca og Sprite voru líka gjaldgengir. Fyrir hverja fimm flipa/tappa sem skilað var inn átti að gróðursetja eitt tré. Ég veit ekki hvernig fór með þessa gróðursetningu eða hvort skógurinn er til núna. En aðalmálið voru vinningarnir í leiknum. Í verðlaun voru vasaútvörp og bolir – allt merkt Bylgjunni og Coka-Cola.

Fliparnir af áðurnefndum gosdósum þekktust á því að þeir voru minni en flipar af öðrum gosdósum. Þá voru opnarar á gosdósum ekki áfastir eins og þeir eru núna, heldur var hægt að rífa þá af og henda þeim.

Á tímabilinu sem leikurinn var haldinn (4.-24. júlí 1988) fór ég oft út, gagngert með það að markmiði að finna tappa og flipa sem einhverjir höfðu kastað úti á víðavangi. Einnig fékk ég tappa og flipa sem til féllu af heimilinu. Ég ætlaði að safna mér fyrir vasaútvarpi, en til þess þurfti a.m.k. 40 stykki.

Dag einn (líklega síðasta dag leiksins, sem var 24. júlí) mættum við bræðurnir tveir ásamt föður okkar í Bylgjuportið á Snorrabraut að leysa út vinningana. Flestir Íslendingar fengu þessa sömu hugmynd þennan sama dag. Og við biðum í dágóðan tíma á meðan röðin af Íslendingum mjakaðist áfram eftir Snorrabrautinni – ég vil segja a.m.k. í einn til einn og hálfan klukkutíma. Loks kom röðin að okkur og við fengum vinningana afhenta.

Fyrirfram vissi ég að tapparnir og fliparnir mínir nægðu ekki fyrir vasaútvarpi eins og takmarkið var. Ég fékk þó rauðan bol með Coca-Cola-merkinu. Ég vann heldur enga utanlandsferð, eins og auglýsingin hér fyrir neðan lofaði. Bolurinn var samt biðarinnar virði – á sínum tíma.

Síðar komst ég að því að vasaútvarpið var aðeins stillt á Bylgjuna og það var ekki segulbandstæki í því. Með dálítilli fyrirhöfn var þó hægt að taka það í sundur og stilla á einhverja aðra útvarpsstöð ef viljinn var fyrir hendi, en það kostaði of mikið vesen.

Síðar þetta sama ár fékk ég svo alvöru Sony-Walkman-vasadiskó í afmælisgjöf frá pabba og mömmu. Það var líklega ódýrara en að kaupa 40-60 kókdósir/-flöskur og bætti upp fyrir vasaútvarpsleysið frá Bylgjunni. Í því var hægt að hlusta á allar útvarpsstöðvar landsins, og fleiri til, sem og á segulbandsspólur.

Þetta sama sumar voru svo haldnir ýmsir skafmiðaleikir, m.a. Lukkutríó, þar sem hægt var að vinna gasgrill og Kodak-leikur, sem ég tók líka þátt í og vann sundbolta, sundtösku og fleira, (en ekki stærsta vinninginn – sem hefur líklega verið myndavél) en það er önnur saga.

Ég mun líklega aldrei hafa verið jafn ginnkeyptur fyrir auglýsingum og gylliboðum eins og sumarið 1988.

Tré fyrir tappa og flipa
Geysiskemmtilegur leikur
Comments are closed.