Lúðraþytur í Hörpu

Lúðraþytur í Hörpu

plakat_mars2014
Lúðrasveit Hafnarfjarðar ætlar í menningarútrás til Reykjavíkur og heldur tónleika í Norðurljósum, Hörpu á morgun, þriðjudaginn 18. mars kl. 20:00.

Þetta eru fimmtu og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Lúðraþytur í Hörpu, sem lúðrasveitir af suðvesturhorni landsins hafa staðið fyrir í vetur. Lúðrasveitin verður ekki ein því hún hefur fengið Flensborgarkórinn til liðs við sig, undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg, og mun kórinn syngja nokkur lög með lúðrasveitinni.
Samtals munu því um 80 manns koma fram á tónleikunum.

Á efnisskrá tónleikanna verða nýleg lúðrasveitaverk fyrirferðarmikil. Má þar meðal annars nefna verkin Suite Arktica II eftir Pál Pampichler Pálsson og Sleep eftir Eric Whitacre. Einnig verður leikin hefðbundin lúðrasveitatónlist, svo sem Sousa-marsar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.
Kynnir á tónleikunum verður Halla Margrét Jóhannesdóttir, leikkona.

Miðaverð er 2000 krónur. Miða á tónleikana má kaupa á heimasíðu Hörpu, harpa.is.

Comments are closed.