Meirihlutinn og minnihlutinn

Meirihlutinn og minnihlutinn

Nú eru menn allsstaðar á landinu að mynda meirihluta. Þessar meirihlutamyndanir eru afleiðingar þess að á laugardaginn voru kosnir fulltrúar til að sitja í stjórnum sveitarfélaga.

Dæmi 1: Í Reykjavík voru kosnir 23 borgarfulltrúar. Nú hafa borist fréttir af því að 12 af þeim vilji hugsanlega vinna saman.

Dæmi 2: Í Hafnarfirði voru kosnir 11 bæjarfulltrúar. 6 þeirra hafa samþykkt að vinna saman.

Við (þ.e. við sem mættum á kjörstað á annað borð) vorum að kjósa ákveðinn fjölda fulltrúa til að vinna saman í stjórn viðkomandi sveitarfélags. Við vorum ekki að kjósa þessa 12 eða 6 til að vinna saman og 11 eða 5 til að sitja hjá og firra sig ábyrgð af því að þeir eru í minnihluta.

Það ætti ekki að þurfa að hafa ákveðna meiri- eða minnihluta í sveitarstjórnum. Enga stjórn eða stjórnarandstöðu. Þessir 23 eða 11, eða hver sem fjöldi fulltrúa er, eiga bara að vinna saman. Allir. Til þess voru þau kosin.

Þetta er ekki eins og á alþingi, þar sem meirihluti þess verður að styðja, eða a.m.k. að sætta sig við ríkisstjórnina.

Ég finn a.m.k. ekkert við lauslega yfirferð á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 um að í stjórn sveitarfélags skuli vera fyrirfram skilgreindir meiri- og minnihlutar. Ef einhver getur bent mér á hvar það stendur í lögum skal ég kannski skipta um skoðun.

Svo eru sveitarstjórnarfulltrúar að fjalla um málefni sem þeir eru 90% sammála um. Held ég. Um hin 10 prósentin mega menn svo rífast og komast að einhverju samkomulagi um.

Þannig að:
Vinnið meira saman.
Því það er meira gaman.

Comments are closed.