Minnispunktar
(Mynd fengin af mybraintest.org)
Rannsóknarspurningin gæti orðið: Hefur orðið einhver þróun eða breyting á ræðum um minni kvenna og minni karla í gegnum árin? Og ef svo er, hvernig er þá þróunin?
Er til dæmis endalaust hægt koma með orðaleiki í ræðum um minni kvenna um það hversu gott minni konur hafa, (skammtíma- eða langtímaminni) eða hvernig ræðan á einkum að höfða til minni kvenna, en ekki stærri kvenna? Eða telja upp ástæður fyrir því að bílar/bjór/hundar eru betri en konur?
Eða er ennþá, árið 2016, hægt að tala um það í ræðum um minni karla, að konur eigi að vera körlum undirgefnar, þær eigi að þóknast eiginmönnum sínum á allan hátt og stjana endalaust við þá, þá verði allt í lagi með ástarsambandið/hjónabandið? (Þær eigi að vera tilbúnar með matinn þegar karlinn kemur heim, ekki hringja í hann þegar hann er í vinnunni, ekki láta hann sjá þig í morgunsloppnum o.s.frv.) Ég sat í alvöru undir svoleiðis ræðu á þorrablóti fyrir einu ári. Og það var kona sem flutti hana. 100 ára kvennabarátta fór í vaskinn á nokkrum mínútum.
Hér er hugmyndin komin, fræðimenn framtíðarinnar. Ykkar er að nota hana og vinna úr henni.