Minnispunktar

Minnispunktar

Minni karla og kvenna
Minni karla og kvenna.
(Mynd fengin af mybraintest.org)
Þorrinn er nú í hámarki, með tilheyrandi þorrablótum og skemmtunum. Á þorrablótum eru gjarnan fluttar ræður um minni karla og kvenna. Í tilefni þorrablóta- og árshátíðavertíðarinnar er hér hugmynd að rannsóknarefni, t.d fyrir þjóðfræðinga, sagnfræðinga eða bókmenntafræðinga.

Rannsóknarspurningin gæti orðið: Hefur orðið einhver þróun eða breyting á ræðum um minni kvenna og minni karla í gegnum árin? Og ef svo er, hvernig er þá þróunin?

Er til dæmis endalaust hægt koma með orðaleiki í ræðum um minni kvenna um það hversu gott minni konur hafa, (skammtíma- eða langtímaminni) eða hvernig ræðan á einkum að höfða til minni kvenna, en ekki stærri kvenna? Eða telja upp ástæður fyrir því að bílar/bjór/hundar eru betri en konur?

Skrípamynd
Úr Heimilistímanum 14. mars 1974.
Og í ræðum um minni karla; er endalaust hægt að segja klisjukennda brandara, eins og úr blöðum og tímaritum frá um 1970-1980, um samskipti kynjanna, um samskipti kúgaðra eiginmanna við ráðríkar eiginkonur og tengdamæður? (Svona brandara um konur sem berja mennina sína með kökukefli þegar þeir koma fullir heim). Eða brandara um það að karlar séu „sterkara kynið“ af því að konur leyfa þeim að halda það, greyjunum?

Eða er ennþá, árið 2016, hægt að tala um það í ræðum um minni karla, að konur eigi að vera körlum undirgefnar, þær eigi að þóknast eiginmönnum sínum á allan hátt og stjana endalaust við þá, þá verði allt í lagi með ástarsambandið/hjónabandið? (Þær eigi að vera tilbúnar með matinn þegar karlinn kemur heim, ekki hringja í hann þegar hann er í vinnunni, ekki láta hann sjá þig í morgunsloppnum o.s.frv.) Ég sat í alvöru undir svoleiðis ræðu á þorrablóti fyrir einu ári. Og það var kona sem flutti hana. 100 ára kvennabarátta fór í vaskinn á nokkrum mínútum.

Hér er hugmyndin komin, fræðimenn framtíðarinnar. Ykkar er að nota hana og vinna úr henni.

Comments are closed.