Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass á Íslandi

Mnozil brass. (Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Mnozil brass.
(Mynd fengin af mnozilbrass.at)
Á mánudaginn kemur, 13. október, heldur austurríski málmblásaraseptettinn Mnozil brass tónleika í Háskólabíói.

Hljómsveitin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og tónleikagesta. Sögu hennar má rekja til ársins 1992. Þá spilaði hún nokkrum sinnum á Mnozil-kránni í 1. hverfinu í Vín. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru haldnir í Vín 23. janúar 1993, fyrir framan fámennan hóp vina og kunningja. Á þeim tíma voru hljómsveitarmeðlimir ekki með vinsældir í huga, höfðu ekki í hyggju að öðlast „költ-status“ og enginn bjóst við því að hljómsveitin ætti eftir að ferðast um allan heiminn.

Nú heldur Mnozil brass meira en 120 tónleika á ári víðs vegar um heiminn. Þeir hafa m.a. spilað í Rússlandi, Kína, Taívan og í Royal Albert Hall í London. Þeir hafa gefið út átta geisladiska og sex DVD-diska með tónleikaupptökum. Frá árinu 2000 hafa þeir sett upp næstum því eina tónleikasýningu á ári, samið tónlist við þrjár óperettur og eina kvikmynd.

Í dag er hljómsveitin skipuð trompetleikurunum Tomas Gansch, Robert Rother og Roman Rindberger, bassatrompet- og básúnuleikaranum Leonhard Paul, básúnleikurunum Gerhard Füssl og Zoltan Kiss og túbuleikaranum Wilfred Brandstötter. Allir hafa þeir stundað nám í tónlistarháskólanum í Vín. Samhliða starfi sínu í Mnozil brass sinna þeir tónlistarkennslu og öðrum störfum í tónlistargeiranum.

Mnozil brass spilar afar fjölbreytta tegund tónlistar, frá barrokki til popptónlistar og allt þar á milli, m.a. jazz, kvikmyndatónlist, þjóðlög og marsa, allt í sínum eigin útsetningum. Þrátt fyrir, eða kannski vegna akademísks uppruna finnst hljómsveitarmeðlimum mikilvægt, og jafnvel nauðsynlegt að skemmta sér. Mnozil Brass er þekkt fyrir líflega sviðsframkomu. Húmorinn á tónleikum er allsráðandi. Þeir spila ekki bara á hljóðfæri á tónleikum, heldur syngja þeir stundum, flytja leik- og dansatriði, nota hljóðfærin þá stundum sem leikmuni og eru með almennan fíflagang á sviðinu á meðan þeir spila.

Tónleikarnir verða haldnir í Háskólabíói mánudagskvöldið 13. október og hefjast þeir klukkan 20:00. Það verður vel þess virði að mæta á tónleikana. Þetta verða tónleikar sem allir ættu að geta skemmt sér á – ekki bara lúðrasveitanördar heldur líka venjulegt fólk.

Hægt er að kaupa miða á tónleikana á miði.is.

Að lokum nokkur tóndæmi í boði Youtube:

Comments are closed.