Myndaannállinn 2020

Myndaannállinn 2020

Kæra 2020.

Takk fyrir ekkert. Þú varst ömurlegt ár.

Verkföll. Jarðskjálftar. Aurskriður. Snjóflóð. Næstum því eldgos. Deyfð og dapurleiki yfir þjóðfélaginu. Veira. Covid. Kreppa. Gjaldþrot. Atvinnuleysi. Drepsóttir. Kynþáttafordómar. Öfgaþjóðernishyggja. Nasismi að rísa upp aftur. Fengum ekki að hittast nema á fjarfundum. Urðum að vera ein heima og máttum ekki gera neitt skemmtilegt. Öllu frestað eða aflýst nema sumum íþróttum.

Ég vona að arftaki þinn verði betri. Það þarf nú ekki mikið til að toppa þig.

En jæja, ókei þá. Sumt af því sem þú bauðst upp á, kæra 2020, var gott. Appelsínuguli maðurinn í hvíta húsinu kosinn í burtu. Rafrænum samskiptaleiðum fleytir fram. Íslenskar verslanir virðast vera að læra að það er líka hægt að versla á netinu. Og það er byrjað að bólusetja fók fyrir Veirunni. Það er nú eitthvað.

Þú hefur líka alveg stundum verið gott við mig, þrátt fyrir allt. Ég fékk (líklega) ekki Covid. Þurfti ekki að vera í sóttkví – nema sjálfskipaðri. Hef ekki misst neinn nákominn úr Veirunni. Og hef haft nóg að gera allt árið.

Introvertinn ég var m.a.s. að mörgu leyti ánægður með „ástandið í þjóðfélaginu“. Hraðinn minnkaði í samfélaginu á tímabili. Því það þurfti ekki að mæta neitt. Þurfti ekki að skálda upp afsakanir fyrir því að nenna ekki að mæta á samkomur eða viðburði. Því stundum er gott að vera bara einn heima að glápa á Netflix.

En mig langar samt alveg líka að fara út og hitta fólk annars staðar en bara á Teams- eða Zoom. Ég vil mæta til vinnu og fá mér kaffi með vinnufélögum. Ég vil fara á barinn og vera þar til kl. 3. Ég vil fara í partý eins og allir ráðherrar mega, fara síðastur heim úr partýinu og fara ekki að sofa fyrr en klukkan 6 að morgni! Því ég hef verið of mikið aleinn heima allt árið. Hef ekki haft neinn félagsskap og er búinn að gleyma hvernig á að hafa mannleg samskipti í þrívíddarheiminum. Og mig langar til útlanda, því við erum of einangruð á þessu landi!

Þó að stafræn samskipti og fjarfundir séu oft góð er þreytandi að hitta fólk bara í rafrænu formi. Tæknin kemur aldrei í staðinn fyrir mannlegu nándina.

Ég gerði samt mitt besta, kæra 2020, til að gera þig bærilegt. En það er bara nóg komið af þér. Og ég vil bara láta þig vita að þér er hér með sagt upp störfum frá og með miðnætti í kvöld!

En svona varstu fyrir mér:

Þú byrjaðir í Borgarnesi, eins og síðustu 20-30 forverar þínir.

Áramótaflugeldar í Borgarnesi.

Hélt áfram störfum í Háskólanum. Hafði m.a.s. of mikið að gera þar, í 150-160% starfi framan af árinu, sem er ákveðið lúxusvandamál á þessum síðustu og verstu tímum.

Útsýnið frá skrifstofuglugganum í þoku í janúar.

2007 kom aftur í janúar, þegar ég keypti sjónvarp.

Bjór, popp og Netflixgláp

Mætti á árlega ættarþorrablótið í febrúar – að þessu sinni í Borgarnesi

Gestir á þorrablóti Syðra-Lónsættar

Náði að klæðast leðurhosunum og drekka bjór í þeim!

Einhversstaðar, einhverntíma aftur…

Og svo kom Kófið. Öllu skemmtilegu var frestað eða aflýst.

Jóhannes Reykdal sýnir gott fordæmi.

Opnaði heimaskrifstofu. Vann heima rúmlega helming ársins.

Háskóli Íslands Hafnarfirði, góðan daginn.

Bakaði súrdeigsbrauð eins og, að því er virðist, helmingur snemmmiðaldra karlmanna á Íslandi.

Súrdeigsbrauð

Og sumarið kom með betri tíð og blóm í haga. Allt varð aftur gott í smá stund. Þá klæddi ég mig í fjólublá föt og spilaði með þessu fólki:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar við Ásvallalaug 17. júní.

Náði einu góðu kvöldi/síðdegi í miðborg Reykjavíkur.

Kaldi-bar á meðan allt lék í lyndi.

Fór í ferðalag um Norðurland. Byrjaði á Akureyri.

Akureyrarkirkja og Hótel KEA.

Kom við á Húsavík.

Húsavík við Skjálfanda

Heimsótti Jaja ding dong barinn.

Líklega vinsælasti ferðamannastaður sumarsins.

Dvaldi á Syðra-Lóni í nokkra daga.

Syðra-Lón

Skoðaði Ásbyrgi.

Nestisstund í Ásbyrgi.

Heimsótti Vopnafjörð.

Vopnafjörður, eða hluti af honum.

Skoðaði Siglufjörð

Frá Siglufirði

Gisti á Ólafsfirði

Fucking Ólafsfjörður!

Að ógleymdum öllum Helgafellsgöngum sumarsins. Mun hafa komið 50 sinnum á toppinn á árinu. Sem er frekar í minna lagi miðað við undanfarin ár. Það verður þá markmið að koma þangað upp oftar á næsta ári.

Yðar einlægur á Helgafelli, í Hafnarfirði.

Og haustið kom. Veiran náði sér á strik aftur. Með fleiri samkomutakmarkanir. Allt lokað. Fór aftur að vinna heima og hef næstum því ekki mætt til vinnu, eða gert neitt síðan í september. Hef í mesta lagi farið út í búð og í göngutúra innanbæjar.

Og er búinn að klára Netflix.

Þegar ég skoða myndir sem ég hef tekið frá september til desember eru það mest einhverjar bjórmyndir! Ætla ekki að birta þær allar, því það lætur mig líta illa út!

En hér er sýnishorn:

Sumarbjór úti á svölum

Náði þó að spila nokkur jólagigg með þessu fólki:

Félagar í Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Hellisgerði. (Mynd: Rúnar Óskarsson).

Hélt svo upp á hækkandi sólargang og endalok ársins 2020 síðustu vikuna í desember.

Jólatréð í stofu stendur.

Og um það bil þannig endar þetta ár.

Ég vona að næsta ár verði myndríkara. Og viðburðaríkara.

Ef þið saknið einhvers úr þessu yfirliti er það líklega af því að ég á ekki myndir af því. Og það leiðir mig að einu af markmiðum næsta árs: Að ganga meira með og taka fleiri myndir með alvöru myndavél, en ekki bara símanum. Því ég hef komist að því að ég vanda mig miklu betur við að taka myndir með alvöru myndavél heldur en síma.

Þakka ykkur að lokum öllum fyrir samskipti og samveru á árinu, þrátt fyrir allt, hvort sem þau voru rafræn eða raunveruleg. Ég vona að við fáum að vera meira saman í þrívídd árið 2021 en við fengum að vera á þessu ári!

Njótið gamlárskvöldsins, hvar sem þið eruð. Munið að þið þurfið ekki að kaupa flugelda ef þið viljið styrkja björgunarsveitirnar. Þið getið líka gefið þeim pening án þess að þurfa að fá nokkuð í staðinn, nema gleðina og ánægjuna. Gangið bara hægt um gleðinnar hurð.

Og vonandi verður 2021 miklu skemmtilegra. Ég held að það sé engin hætta á öðru! Við erum öll (nema sum) í þessari baráttu saman!

Comments are closed.