Orð dagsins

Orð dagsins

Brúðgumasveinn.
Sbr. frétt á DV.is í dag.

Brúðgumasveinar
Brúðgumasveinar. Mynd: Wikipedia

Margir, þ.á.m. Virkir í athugasemdum, virðast halda að þetta orð sé tilbúningur hjá blaðamönnum DV. Það er svossum góð ástæða til þess að halda það, þar sem til eru margir sem eru betur máli farnir en blaðamenn DV. En í þetta sinn hefur viðkomandi fréttaritari betur.

Orðið brúðgumasveinn er nefnilega til í íslenskri orðabók. Orðabókarskýringin á því er „sá sem leiðir brúðguma til brúðar fyrir altarinu og þjónar honum yfir borðum“. (Íslensk orðabók, 2007).

Við leit á vefnum Tímarit.is kemur í ljós að elsta dæmið um orðið er frá árinu 1896. Það kemur fyrir í greininni „Um minni í brúðkaupsveizlum og helztu brúðkaupssiði á Íslandi á 16. og 17. öld“ eftir Sæmund Eyjólfsson, sem birtist í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags, 17. árgangi, 1896:

„Þá er brúðurin kemur að kirkjudyrunum, kemur siðamaður móti henni, og leiðir hana í »hjónastólinn« hjá brúðgumanum. Er þá þegar hafin messa og brúðhjónin vígð saman í messunni. Eptir hjónavígsluna standa brúðarsveinar og brúðgumasveinar fyrir aptan hjónastólinn þangað til messunni er lokið.“
(bls. 108)

Orðið virðist þó hafa verið lítið notað síðan 1896, a.m.k. ef Tímarit.is er notað sem heilagur sannleikur, því þar birtast aðeins 22 önnur dæmi, flest þeirra eru frá árunum 1933-1942.

Ætli svaramenn hafi ekki verið fleiri en brúðgumasveinar í gegnum tíðina?

Comments are closed.