Túbudagurinn

Túbudagurinn

Það er ekki bara verkalýðsdagurinn í dag.

Í dag er líka alþjóðlegi túbudagurinn.
Hann hefur verið haldinn árlega, fyrsta föstudag í maí síðan árið 1979, til að heiðra túbuleikara, sem þurfa að ganga í gegnum allt vesenið sem fylgir því að spila á túbu, til dæmis það að ferðast með þetta þunga hljóðfæri. Dagurinn er líka haldinn til að minnast þess að túban er ekki bara hljóðfæri sem spilar ómerkilegt úm-pa úm-pa í skrúðgöngum, og til að berjast á móti staðalímyndum sem túbuleikarar hafa á sér, t.d. þeirri að vera ekki alvöru tónlistarmenn heldur bara stórir feitir karlar með bollukinnar og sterk lungu.

Enda ekki vanþörf á.

Túbuleikarar eru líka fólk!

Til hamingju með daginn, túbuleikarar.

Þriðjudagskvöld í Reykjavík

Þriðjudagskvöld í Reykjavík

Á þriðjudagskvöldi er skemmtilegt að mæta á Kex-hostel og hlusta á jazztónleika.
Jafnvel yfir einu eða tveimur bjórglösum. Og þykjast í leiðinni vera útlenskur túristi eða 101-miðbæjar-lattélepjandi-listamannapakk.
Í gær spilaði Quartet Birgisson nokkra vel valda jazzstandarda.

Þetta er eitthvað sem maður þyrfti að gera meira af.
kex

Ljóð dagsins

Ljóð dagsins

Sumardagurinn frysti

Menn elta sífelt ólar
við öfl sem landið hrista:
Enginn sá til sólar
á sumardaginn frysta.

Í veðri alveg óðu
átti að halda daginn.
Fánar stífir stóðu
á stöngum víða um bæinn.

Skrúðgöngurnar skröltu
skjálfandi um stræti,
í halarófu töltu
og reyndu að sýna kæti.

Mjóir menn og feitir
marga hlutu gusu.
Léku lúðrasveitir
lög sem úti frusu.

–Þórarinn Eldjárn

Stolin stef

Stolin stef

PLÖGG DAGSINS:

stolinstef_stortÍ kvöld heldur Kammerkór Hafnarfjarðar tónleika í Hafnarborg, Hafnarfirði, undir yfirskriftinni Stolin stef. Lögin sem sungin verða á tónleikunum eru öll útsett af Gunnari Gunnarssyni, píanóleikara.

Efnisskráin samanstendur af öllu frá sálmum yfir í djassskotnar dægurlagaútsetningar. Um helmingur laganna er eftir Tómas R. Einarsson, bassaleikara. Því þykir við hæfi að Gunnar og Tómas verði gestahljóðfæraleikarar kórsins á þessum tónleikum.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00. Aðgangseyrir er 2000 krónur.

Bæverskar kjötbollur

Bæverskar kjötbollur

Þjóðverjar kunna að búa til góðar kjötbollur, öfugt við Íslendinga, sem búa þær til úr kjötfarsi eða einhverju sem inniheldur ekki kjöt. Hér eru bæverskar kjötbollur:
kjotbollur

INNIHALD:
500 gr hakk (má vera blandað, t.d. nauta- og svínahakk).
1-2 harðar brauðsneiðar
smá mjólkurdreitill
1 stór laukur
1 tsk tómatpúrra
2 tsk meðalsterkt sinnep
1 egg
pipar
salt
1 hvítlauksgeiri
Marjoram (kryddmæra)
smjörklípa eða olía til steikingar

AÐFERÐ:
1. Bleytið upp í harða brauðinu með mjólkinni þangað til það er orðið lint.
2. Skerið laukinn í bita
3. Setjið hakkið í skál ásamt bleyttu brauði, lauk, hvítlauk, tómatpúrru, sinnepi og eggi. Bætið kryddinu við út í eftir smekk. Hrærið svo allt vel saman.
4. Hnoðið kúlur úr hakkblöndunni og steikið á pönnu í um 15 mínútur, eða þar til bollurnar eru orðnar gegnsteiktar.

Úr þessari uppskrift verða u.þ.b. tíu bollur.

Það má líka leika sér með tilbrigði af uppskriftinni.
Til dæmis má bæta steinselju við út í hakkblönduna eða auka skammtinn af hvítlauknum og sinnepinu, allt eftir smekk.

Völvuspáin 2015

Völvuspáin 2015

volvuspa2015Það verða einhverjar náttúruhamfarir, m.a. stór jarðskjálfti á suðurlandi eða á Reykjanesi og snjóflóð á Vestfjörðum. Engar þeirra valda þó manntjóni, en eignatjón gæti orðið eitthvað. Eldgosinu í Holuhrauni lýkur á seinni hluta ársins. Bárðarbunga lætur áfram á sér kræla. Jarðskjálftar þar verða daglegt brauð eitthvað fram eftir árinu.

Það verður snjór fram í apríl. Sumarið verður rigningasamt, a.m.k. á suðvesturhorni landsins en nokkuð kalt á norðanverðu landinu. Haustið verður milt, en kalt.

Það koma einhverjir brestir í ríkisstjórnarsamstarfið. Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn verða sífellt ósáttari við að vera númer tvö, bara hjól undir vagni Framsóknarflokksins. Árið verður Sigmundi Davíð forsætisráðherra líka erfitt og álagið á hann verður mikið. Hann fer í veikindafrí sem eftir verður tekið. Þegar hann er ekki í veikindafríi verður hann mikið í felum, sýnir af sér hroka sem aldrei fyrr og gefur ekki kost á sér í viðtöl við fjölmiðla. Stjórnarþingmenn og aðrir ráðherrar munu apa þessa takta upp eftir honum. Ríkisstjórnin lifir árið samt af, því stjórnarandstaðan á alþingi verður aum og næstum því ósýnileg.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, verður lítið í sviðsljósinu, fyrir utan hefðbundin embættisstörf. Hann er orðinn þreyttur og aldurinn farinn að segja til sín. Hann gefur samt í skyn að hann ætli að bjóða sig fram til endurkjörs einu sinni enn árið 2016. Hann gefur einnig í skyn að hann muni ekki bjóða sig fram árið 2016. Jón Gnarr mun láta í ljós sífellt meiri áhuga á að gerast eftirmaður hans.

Verkföll verða áberandi. Hver stéttin af annarri fer í verkfall og krefst betri kjara. Stórt allsherjarverkfall verður á seinni hluta ársins. Allsherjarverkfallið mun lama allt þjóðfélagið og valda því skaða sem ekki verður bættur næstu tvö til þrjú árin. Launadeila lækna mun leysast á fyrri hluta ársins, en heilbrigðiskerfið mun samt halda áfram að hrynja.

Margir hafa fengið sig fullsadda á framkomu ráðamanna og því hvernig landinu er stjórnað. Mótmæli gegn ríkisstjórninni og alþingi færast í aukana, og þá ekki bara mótmæli sem fara fram á netinu, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, heldur verða líka hávær mótmæli á Austurvelli, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum. Þessi mótmæli komast í fréttir en ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar munu hundsa þau og/eða snúa út úr tilgangi þeirra.

Það verður blóðugur niðurskurður á RÚV. Starfsmenn til margra ára verða látnir fjúka. Stjórnendur þar munu segja upp störfum. Gamalkunnir sjónvarps- og útvarpsþættir verða teknir af dagskrá. Rás eitt verður enn markaðsvænni og leiknum auglýsingum þar verður fjölgað. Dagskrárliðir á rás eitt og tvö verða sameinaðir.

Hefðbundnar sjónvarps- og útvarpsstöðvar (ekki bara RÚV) munu eiga undir högg að sækja vegna nýrri miðla og aðferða við að nálgast afþreyingarefni. Það styttist í að Netflix verði löglega í boði á Íslandi. Það er þó nokkur móða yfir því í kúlunni, þannig að það verður kannski ekki á þessu ári.

Þekktur íslenskur rithöfundur hlýtur aukna frægð erlendis. Fyrir jólin verður gefin út metsölubók sem vekur nokkurt umtal og hneyksli. Annars verður nokkur lægð yfir íslenskri bókaútgáfu og óvenju fáar nýjar bækur verða gefnar út á árinu.

Stórt, alþjóðlegt fyrirtæki mun vekja athygli landsmanna á árinu fyrir óvenjulegt uppátæki.

Íslenskir íþróttamenn munu vekja athygli á árinu. Einkum er hér um að ræða íslenska íþróttamenn á erlendum vettvangi sem Íslendingar fylgjast með og halda þar af leiðandi að öll heimsbyggðin taki eftir. Það verða engir meiriháttar stórsigrar á íþróttasviðinu. Landskunnur og vinsæll íþróttamaður ákveður að draga sig í hlé frá íþrótt sinni.

Íslenskir listamenn munu vekja athygli á erlendri grundu. Þeir eru lítt þekktir á Íslandi þangað til þeir fá athygli erlendis.

Ísland tekur þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þrátt fyrir niðurskurð á RÚV, en nær ekki árangrinum sem vonast verður eftir (sem sagt einu af fimm efstu sætunum). Í kjölfarið spretta upp umræður um fyrirkomulag keppninnar og hvort Íslendingar skuli hætta þátttöku í henni. Engin niðurstaða fæst út úr þessari umræðu.

Stórt hneykslismál skekur þjóðina á árinu. Virkir í athugasemdum láta áfram í sér heyra. Ýmsar misgáfulegar athugasemdir verða látnar fjúka, einkum um þjóðernis-, kynþáttahyggju og trúmál. Þessi háværi minnihluti á eftir að hafa óþarflega mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Fyrir jólin verður rætt um hvort heimsóknir grunnskólabarna í kirkjur á aðventunni eigi rétt á sér. Forsvarsmenn þjóðkirkjunnar munu spila sig sem fórnarlömb í þessari umræðu.

Nýir „Íslandsvinir“ munu koma til sögunnar, í formi stórstjarna sem heimsækja landið.
Þekktur Íslendingur úr skemmtana- og afþreyingabransanum deyr á árinu. Einnig deyr þekktur fyrrverandi stjórnmálamaður.
Annar þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum gengur í hjónaband.
Og enn einn úr bransanum eignast barn.

Árið 2014

Árið 2014

Svona var árið 2014 í myndum:

Það hófst í Borgarnesi samkvæmt venju.
IMG_0096

Varð löggildur bjórdrykkjumaður 6. janúar, sem staðfestist með útskriftarskírteini.
2014-01-06 12.08.29

Drakk bjór í tilefni útskriftarinnar.
IMG_0001

Púslaði með fjölskyldunni.
IMG_0002

Fékk hefðbundið kvef í lok janúar.
2014-01-31 16.54.50

Fór á ættarþorrablót með þessu fólki (og fleiri ættingjum).

Var á Ísafirði 18.-20. febrúar…

…til að vera viðstaddur brúðkaup þessarra tveggja, 19. febrúar

Sá Spamalot í Þjóðleikhúsinu 20. febrúar.
2014-02-20 20.41.34

Spilaði Sousa-marsa og fleira skemmtilegt í æfingabúðum 21. og 22. febrúar.
2014-02-21 21.55.41

Tók þátt í mottumars. Hér er Sgt. Peppers-lúkkið.
2014-03-01 19.56.02

Eldaði súrkál 7. mars.
Súrkál

Mætti á árshátíð með þessu fólki og fleiri félögum og fylgihlutum úr Kammerkór Hafnarfjarðar 8. mars.
IMG_0105

Spilaði á tónleikum í Hörpu með Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Flensborgarkórnum 18. mars.
2014-03-17 19.53.02

Fór upp á Helgafell í fyrsta sinn á árinu 2. apríl.
Alls urðu gönguferðirnar þangað upp 107 á árinu, sú síðasta 16. nóvember.
20140403-213102.jpg

Spilaði páskabingó á Austurvelli á föstudaginn langa, 18. apríl.

Hélt upp á páskana með páskaeggjaratleik og súkkulaðiáti 20. apríl.
IMG_0002

Spilaði í kröfugöngu 1. maí með þessu fólki (og fleira fólki í eins fjólubláum búningum). Fengum okkur bjór eftir gönguna.
2014-05-01 14.36.40

Tók þátt í morgungöngum Ferðafélags Íslands í maí:
Helgafell, Hafnarfirði 5. maí.

Mosfell 6. maí.

Helgafell, Mosfellsbæ 7. maí.

Vífilsfell 8. maí.

Vilborg Arna og yðar einlægur á Úlfarsfelli 9. maí.

Vígði íþróttahús í Kaplakrika 18. maí.
2014-05-18 12.46.42

Var með þessu fólki í Berlín 8.-12. júní (og fleiri kórfélögum úr Kammerkór Hafnarfjarðar, sem fóru ekki með í hjólatúrinn sem þessi mynd var tekin í).
(Fleiri myndir hér).

Þvældist einn um Þýskaland og Holland 12.-18. júní.
(Fleiri myndir hér).

Var með þessu fólki í Hollandi og Belgíu 18.-25. júní.
(Fleiri myndir hér).

Leitaði að merkjum í ratleik Hafnarfjarðar allt sumarið (á meðan ég var ekki á Helgafelli). Fann 18 merki. Skilaði samt ekki inn lausnum.
ratleikur2014

Fór á krána til að horfa á úrslitaleik HM í fótbolta 13. júlí.
2014-07-13 19.59.25

Labbaði upp á Vífilsfell 20. júlí, í annað sinn á árinu.
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Bjargaði fugli úr hremmingum 30. júlí. (Hann lenti ekki í kettinum, heldur flaug á glugga).
2014-07-30 19.47.46

Tók smá bjórsmökkun í Reykjavík um verslunarmannahelgina.
2014-08-02 15.13.15

Svaf á meðan (að því er virðist) allir aðrir hlupu í Reykjavíkurmaraþoni 23. ágúst.
IMG_0108.JPG

Spilaði í árgangagöngunni á Ljósanótt í Reykjanesbæ 6. september.
2014-09-06 13.39.12

Hélt upp á afmælið á Kex hostel. Fékk þessar líka fínu afmælisgjafir. Þær eru búnar núna.
IMG_0229.JPG

Söng á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík með sænskum vinum 27. september.
2014-09-27 15.14.32

Spilaði á októberfesti á Enska barnum í Hafnarfirði 10. október.
2014-10-10 22.33.56

Sá Mnozil Brass á tónleikum í Háskólabíói 13. október.
Mnozil brass. (Mynd fengin af mnozilbrass.at)

Fór í hálskirtlatöku á gamals aldri 24. október.
IMG_0308.JPG

Mótmælti á Austurvelli tvisvar sinnum í nóvember.

Spilaði á tónleikum í Víðistaðakirkju 29. nóvember
2014-11-29 13.37.01

og í jólaþorpinu í Hafnarfirði sama dag.
2014-11-29 16.29.29

Bakaði laufabrauð fyrir jólin.
2014-12-06 16.34.44

Fór á jólatónleika Baggalúts 12. desember.
2014-12-12 19.45.49

Sá Hobbitann 3 í bíó 12. desember.
2014-12-12 23.02.06

Bakaði nokkrar smákökutegundir fyrir jólin.
2014-12-16 22.45.56

Borðaði skötu á Þorláksmessu.
2014-12-23 13.17.58

Söng í aðfangadagsmessu á Kleppi…
2014-12-24 11.29.42

…annarri á Borgarspítalanum…
2014-12-24 14.30.39

…og hélt upp á jólin samkvæmt venju.
2014-12-24 00.30.57

Fór í partý með þessu fólki 27. desember í tilefni 20 ára útskriftarafmælis frá Setbergsskóla.
10891649_10152561606607966_5326634053937757305_n

Þannig var það nú.
Það eru eflaust fleiri viðburðir sem ættu heima í þessu yfirliti, en það eru þá viðburðir sem ég hef ekki verið með myndavél við höndina eða einfaldlega ekki nennt að taka myndir.

Takk fyrir árið 2014, krakkar mínir.
Með von um að 2015 verði miklu betra og skemmtilegra.
Og hananú.