Sálmurinn um blómið
„Svona eru margir menn. Þeir eru alltaf að reyna að gera það, sem þeir geta ekki gert öðruvísi en illa, en þeir vilja ekki gera það, sem þeir geta gert vel. Þetta er skrýtið. Ég þekkti mann, sem var kennari, og hann var sæmilega góður kennari. En þegar hann var búinn að vera nokkur ár kennari, þá vildi hann ekki lengur gera þetta, sem hann gat vel gert. Og hvað heldurðu hann hafi viljað fara að gera?“
„Ég veit það ekki,“ svarar litla manneskjan.
„Það er ekki von þú vitir það. Það er svo ónáttúrlegt. Hann langaði til að ráða yfir fólkinu, og til þess að geta það vildi hann verða ráðherra. Og hann varð ráðherra. En hann var ekki nógu vitur maður og ekki nógu góður maður og ekki nógu sterkur maður til þess að vera góður ráðherra. Hann var vondur ráðherra.
Ef hann hefði bara verið kennari, þá hefði fólkið alltaf hugsað gott um hann og sagt: Hann var bara góður kennari. En hann vildi ekki vera kennari. Hann vildi vera ráðherra. Og nú segir fólkið um hann og heldur áfram að segja alla tíð: Hann var versti ráðherra, sem verið hefur á Íslandi. Hann gerði íslenzku þjóðinni mikið illt. Hann gaf sig Djöflinum, og Djöfullinn hjálpaði honum til að eyðileggja íslenzku þjóðina.
Þetta er ljót saga. Hún er hræðileg. Heldurðu, að þú gerir nokkurntíma svona, þegar þú ert orðin stór?“
„Nei,“ svarar litla manneskjan.
„Nei, ég vona það. Maður á alltaf að spyrja sjálfan sig, áður en maður tekur að sér að vinna verk, sem erfitt er að vinna: Get ég gert þetta nógu vel? Er ég nógu vitur og nógu góður og nógu duglegur til þess að geta gert þetta svo vel, að fólkið hafi gott af því?
Svona eiga menn að spyrja. Og ef allir menn spyrðu svona, þá væri allt í góðu lagi í heiminum. Og þá væri gaman að lifa í heiminum.
En menn spyrja ekki svona. Þeir spyrja svona: Hvað get ég grætt mikla peninga á að taka að mér þetta verk? Eða: Hvað get ég náð í mikil völd og ráðið mikið yfir fólki með því að taka að mér þetta verk? Eða: Verð ég ekki frægur og afarfínn maður og tala ekki allir mikið um mig, ef ég vinn þetta verk? Afskaplega held ég, að ég taki mig þá vel út.
Svona spyrja flestir, og þess vegna er svo margt vitlaust og botnlaust í heiminum, Hegga mín! Og þessvegna er svo leiðinlegt að lifa í heiminum.““
(Þórbergur Þórðarson: Sálmurinn um blómið – 22. kafli).