Sambandsskipið
Í öðrum þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar Simpson-fjölskyldunnar eru Hómer og Bart í aðalhlutverkum. Þátturinn fjallar um það hvernig þeir reyna (einu sinni enn) að bæta samband sitt og samskipti.
Bart ber ekki virðingu fyrir uppeldishlutverki föður síns og óhlýðnast honum. Hómer þrjóskast svo við að ala Bart upp að hann gleymir fótboltaleiknum sem hann spilar á netinu.
Marge skráir Hómer og Bart í sjóferð í von um að bæta samband þeirra. Úti á sjó kynnast þeir skrýtna skipstjóranum Bowditch (Nick Offerman). Hómer fær skyrbjúg eftir einn dag á sjónum. Á meðan hann jafnar sig fær Bart að fara í líkamsræktar- og klifuræfingar. Við sjáum nokkur myndbrot af skipinu undir stefi úr óperunni HMS pinafore (aðdáendur þáttanna muna kannski þegar Sideshow-Bob söng alla óperuna fyrir Bart).
Þegar nokkuð er liðið á sjóferðina er Bart gerður að aðstoðarskipstjóra og getur hann því sagt Hómer fyrir verkum sem yfirmaður hans. Þegar Bowdich skipstjóri fer á fyllerí með Hómer verður Bart æðsti yfirmaður á skipinu. Hómer svarar því syni sínum í sömu mynt og neitar að taka við skipunum frá honum. Það kemur sér illa fyrir Bart þegar óveður brestur á. Bart ákveður því að sýna föður sínum virðingu og borðar spergilkálsbitann, (sem hann geymir í vasanum af einhverjum ástæðum), og verður það til þess að feðgarnir sættast, fara að bera virðingu fyrir hvor öðrum og komast heilir til hafnar.
Aukasagan í þættinum er um Marge, sem tekur þátt í fantasíufótbolta fyrir hönd Hómers. Það er reyndar ekki minnst mikið á fótbolta, heldur er sagt frá hegðun karlmannanna í Springfield sem stunda þennan leik. Þeir tala illa um vini sína í netspjalli, eins og konur tala vel um óvini sína, og hlæja að tilvitnunum í gömul grínatriði.
Það eru líka skemmtilegar minni sögur sem sagt er frá: Martin Prince hefur til dæmis farið á sjálfsvarnarnámskeið og gengur frá Nelson. Einnig er vert að taka eftir því að það er spergilkál á himninum en ekki tungl og sól. Hundurinn sest upp á Hómer í eitt skipti þegar hann veltist með Bart á gólfinu. Og þráðlausi beinirinn í kirkjunni er geymdur í fangi Maríustyttunnar. (Hugmyndin um opið þráðlaust net í kirkjunni er skemmtileg út af fyrir sig).
Það er léttara yfir þessum þætti en yfir þeim fyrsta í þáttaröðinni, enda kemur ekkert dauðsfall hér við sögu. Þar sem þessi þáttur gerist að mestu á skipi úti á sjó býst maður við því að sjá skipstjórann McAllister. Honum bregður þó ekki fyrir nema rétt í lok þáttarins, eftir að landi er náð. Þættinum lýkur á skemmtilegum sjómannasöng. (Skyldi annars ekki vera komið nóg efni í nýjan disk með lögum úr þáttunum?) Það hefði mátt gera meira úr aukapersónunum sem voru með á skipinu: Cletus, Flanders og Apu. Þátturinn er betri en sá fyrsti í þáttaröðinni. Hann er ágætis skemmtun, en svossum ekkert meira. Hann er þó bara í meðallagi miðað við gömlu góðu klassísku Simpsons-þættina.