Sjúkrasagan
Frétt í framvindu
Hvernig byrjaði þetta?
Það var fimmtudaginn 5. maí 2022.
Ég var búinn að vera með smá verk í hnénu þennan dag, eins og ég fæ stundum. Kannski eitthvað vitlaust álag eftir sundið sem ég fór í daginn áður. Ég fór í göngutúr eftir vinnu, til að reyna að ná verknum úr mér, eins og hefur virkað þegar þessi verkur tekur sig upp.
Ég var kominn niður á Austurvöll. Þá finn ég að það brakar og brestur eitthvað í hnénu. Eins og ég sé að fara úr lið, eða eitthvað. Og það verður allt í einu ógeðslega vont að stíga í fótinn.
Ég náði þó að skakklappast yfir í Stóra gula bílinn og fara með honum heim. Þegar heim var komið setti ég eitthvað teygjuband utan um hnéð. Það styður aðeins við. En ég er ennþá jafn aumur.
Slysó
Helgina notaði ég til að spila á tónleikum og fara í partý eftir tónleikana. Það kom ekki til greina að sleppa þessum viðburðum þrátt fyrir meiðslin. Ég var búinn að komast að því hvernig ég ætti að stíga í fótinn án þess að það yrði sárt.
Mánudaginn 9. maí fór ég svo upp á bráðamóttöku til að láta líta á þetta. Ég fór í röntgenmyndatöku. Niðurstöður hennar voru þær að þetta væri svokölluð liðmús. Þ.e. bein- eða brjóskflís sem flækist út í liðamótin.
Læknirinn á bráðamóttökunni ráðlagði mér að panta tíma hjá heimilislækni, til að fá vísun til bæklunarlæknis. Nánast strax við heimkomu panta ég tíma hjá heimilislækninum. En bara símatíma. Því ég held að það sé nóg. Líður nú og bíður.
Hvað segir læknirinn?
Níu dagar. Ég er misjafn. Get stundum gengið með teygjubandið utan um mig. En bara hægt. Jafnvel gengið stuttar vegalengdir innandyra án þess að vera með hlífina. Get tekið til, þurrkað af, ryksugað og skúrað heima hjá mér. Aðrir dagar eru verri. Þá vildi ég helst vera með staf, hækju eða hjólastól.
Að morgni miðvikudagsins 18. maí hringir læknirinn í mig. Ég falast strax eftir þessari tilvísun sem bráðamóttökulæknirinn mælti með. En heimilislæknirinn hefur strax sínar efasemdir.
Það er margra mánaða bið eftir að komast að hjá bæklunarlækni. Næsta skref er því að fara í segulómskoðun á heilsugæslunni til að skoða þetta betur. Því röntgenmyndir segja ekki endilega alla söguna. Enn tekur við bið, takk fyrir. Eða fram til 30. maí. Og ég hef á tilfinningunni að þetta sé ekki síðasta biðin í þessari sögu.
Hjá Heilsugæslunni
Bið, endalaus bið, sem bara styttist ei neitt.
Þessir tólf dagar líða. En ég er samt allur að skána. Er samt alltaf með stuðningshlífina utan um hnéð.
Ég get gengið sífellt lengri vegalengdir innanbæjar, á jafnsléttu, og líka stuttar, aflíðandi brekkur. Get líka gengið upp og niður tröppur, og jafnvel án þess að styðja mig við handrið. Fer í stutta göngu úti í guðsgrænni náttúrunni einn daginn.
Er sífellt minna og minna haltrandi ef ég er með stuðningshlífina. En stíg samt ennþá laust í fótinn. Treysti mér líka til að vera án hlífarinnar innanhúss, heima hjá mér.
Og það kemur að læknisheimsókninni.
Ég afklæðist og sýni lækninum hnéð. Hún þuklar það, beygir og sveigir, en ég finn ekkert til á meðan. Hún sér því ekki ástæðu til að ég fari í áðurnefnda segulómskoðun – a.m.k. ekki strax. Tekur þó eftir einhverri bólgu eða liðvökva og skrifar upp á bólgueyðand lyf. Vill ekki fara út í frekari aðgerðir, t.d. stinga á bólguna, af ótta við að það geri illt verra. Gefur mér líka tilvísun í myndgreiningu. Ég ætti þó ekki að nýta mér hana strax. Heldur bíða og sjá hvernig þetta þróast með sumrinu.
Ég ætti því að geta haldið áfram að ganga – jafnvel farið í sund og fjallgöngur aftur – ef ég bara byrja rólega – eftir því sem tíminn líður.
Framhald síðar.