Browsed by
Tag: Gagnrýni

Harry Potter og álagabarnið

Harry Potter og álagabarnið

Höskuldarviðvörun: Þau sem eiga eftir að lesa bókina Harry Potter and the cursed child ættu að hætta hér.

Bókarkápa: Harry Potter and the cursed child
Harry Potter and the Cursed child. Mynd fengin af Wikipediu.

Í nýjustu Harry Potter bókinni, Harry Potter and the cursed child (sem á íslensku gæti útlagst sem Harry Potter og álagabarnið) er Harry Potter orðinn fullorðinn – fjölskyldufaðir um fertugt, sem þarf að takast á við áhyggjur sínar af vinnunni, fjölskyldunni og einkalífinu. Sagan hefst nítján árum eftir að upprunalegu bókaröðinni lýkur. Nú er Albus Severus Potter, sonur Harrys og Ginny, í aðalhlutverki ásamt besta vini sínum, Scorpius Malfoy (syni Dracos Malfoy). Sagan er ekki í skáldsöguformi, heldur er þetta handrit að samnefndu leikriti. Bókin er því frekar fljótlesin.

Við könnumst við fyrsta atriði sögunnar, sem gerist á King’s cross lestarstöðinni, úr síðasta kafla, eða eftirmála Dauðadjásnanna. Albus er að hefja sitt fyrsta ár í Hogwarts galdraskólanum. Það er einnig frænka hans, Rose Granger-Weasley. Í lestinni á leiðinni í skólann hitta þau Scorpius Malfoy. Þarna býst maður við að komið sé nýtt þríeyki til sögunnar, eins og Harry, Ron og Hermione, en svo er ekki, því Rose kemur lítið sem ekkert meir við sögu.

Árin líða. Albus (sem er í Slytherin-heimavistinni) kemst á unglingsárin. Samskipti hans við foreldrana versna og hann á erfitt uppdráttar í skólanum, en hann á vin og sálufélaga í Scorpius Malfoy. Þeir komast í kynni við Delphi, galdrastelpu um tvítugt, sem hefur aldrei verið í Hogwarts skólanum. Hún er kynnt sem frænka Cedrics Diggory og hjúkrunarkona föður hans á elliheimilinu sem hann býr á. En síðar í sögunni kemur hennar sanna eðli í ljós.

Eins og við munum úr bókaflokknum dó Cedric Diggory í þrígaldraleikunum (sem sagt er frá í Eldbikarnum). Albus, Scorpius og Delphi ákveða að reyna að ferðst aftur í tímann og koma í veg fyrir að Cedric deyi. Með aðstoð ummyndunardrykksins stela þau tímastilli af skrifstofu Hermione Granger (sem nú er galdramálaráðherra) og þar með fer atburðarásin af stað. Við könnumst við tímastillinn úr Fanganum frá Azkaban. Strákarnir ferðast aftur í tímann, breyta gangi sögunnar og þar með lífi sínu og foreldra sinna.

Ég hef lengi verið pínulítið veikur fyrir sögum og ævintýrum þar sem tímaflakk eða fikt í tímanum kemur við sögu. (Meðal annars þess vegna finnst mér Fanginn frá Azkaban sú besta af Harry Potter bókunum). En þetta var bara of mikið fyrir mig. Samtals ferðast strákarnir fjórum sinnum til fortíðarinnar og aftur til nútímans. Tímaferðalögin virðast ekki hafa neinn tilgang í sögunni annan en þann að leyfa okkur að sjá gamalkunnar persónur og atburði. Við endurupplifum þrígaldraleikana; Cedric Diggory, Severus Snape, Rubeus Hagrid og Dumbledore skólastjóri koma aftur við sögu (sá síðastnefndi þó bara sem málverk), auk annarra persóna og atburða sem við þekkjum úr fyrri bókum.

Persónusköpunin og söguþráðurinn líða dálítið fyrir allt þetta tímaflakk. Ron Weasley er t.d. of mikið bara-grínkarakter. Hans eina hlutverk í þessari sögu er að gera hana fyndna. Það var þó gaman að sjá hvað var orðið um aðalpersónurnar þrjár eftir að við skildum við þau síðast. Ég hefði viljað sjá meiri áherslu á nýju persónurnar (Potter- og Malfoy-synina og Delphi). Sagan nær ekki almennilegu flugi fyrr en kannski við lok þriðja og upphaf fjórða þáttar, þegar við fáum að vita hverra manna (eða hverra anda?) Delphi er. Í heild er of mikill aðdáendabragur (fan-fiction-bragur) yfir sögunni. Ég samþykki hana ekki alveg sem hluta af Harry Potter kanónunni. Mér leiddist þó aldrei lesturinn og las bókina næstum því í einum rykk.

En það má ekki gleyma því að eitt er að lesa leikrit, þar sem maður þarf að sjá persónur og atburði fyrir sér sjálfur. Annað er að horfa á leikrit þar sem allt er ljóslifandi fyrir framan mann. Ég get ímyndað mér að þetta sé flott sýning þó að sagan sé kannski ekkert sérstök. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta verði sýnt í Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu innan fimm til tíu ára. (Geta íslenskir Harry-Potter-nördar ekki þrýst á leikhússtjórana að taka þetta til sýningar?) Þá ætla ég a.m.k. að mæta í leikhúsið.