Browsed by
Tag: Myndaannáll

Myndaannállinn 2024

Myndaannállinn 2024

Þetta er búið að vera skrýtið ár. Skemmtilegt og leiðinlegt í bland. Það hafa skipst á skin og skúrir. Árið gaf og árið tók. Eins og venjulega hef ég lagt mig fram við að fylgjast ekkert með fréttum. Því það að fylgjast með fréttum er bara ávísun upp á leiðindi og þunglyndi. En ég kemst þó ekki hjá því að vita hvað er að gerast í þjóðfélaginu.

Á alþjóðavettvangi: Stríð í Úkraínu. Þjóðarmorð í Palestínu. Og þetta á bara eftir að versna! Appelsínuguli karlinn aftur að verða forseti í Ameríkuhreppi. Of mikið af geðsjúklingum og brjálæðingum við völd í heiminum. Meira kynþáttahatur, meira hatur gagnvart minnihlutahópum. Útlendingar óvelkomnir allsstaðar – og sérstaklega þeir sem hafa ekki rétta húðlitinn.

Á Íslandi: Útlendinga-„vandamál“. Sem er samt ekkert vandamál, heldur bara skilgreint sem vandamál af þeim sem vilja ekki útlendinga á Íslandi, og vilja kenna útlendingum um allt sem aflaga fer í stjórnkerfi landsins. Nokkur eldgos. Veit ekki hversu mörg. Hnífaárásir. Ung stúlka myrt í miðbæ Reykjavíkur. Íslensk ungmenni að vopnbúast og særa og drepa hvert annað. Verðhækkanir framundan. Verðbólgan étur launin okkar. Nýr forseti. Alþingiskosningar. Ný ríkisstjórn. Sjáum til hvernig henni gengur. Ríku- og frekukallarnir eiga samt eftir að fara á yfirsnúning af reiði út af henni. Sem er gott á þá!

Ég man ekki meira, og vil ekki rifja upp fleiri fréttir úr fjölmiðlum.

Fyrir mig hefur þetta þó verið ágætis ár, þrátt fyrir allt, svona þannig séð. Það hefur dálítið einkennst af ferðalögum. Hef aldrei farið í jafn margar flugferðir á einu ári. Flugviskubitið dálítið farið að segja til sín.

En rifjum upp hvernig þetta ár hefur verið hjá mér. Sem er tilgangurinn með þessari árlegu færslu. Því þetta er ekki vettvangur fíflagangs. Það er ekkert gamanmál hér á ferðinni. Hér er mynda- og myndbandaannáll ársins 2024.

Það byrjaði á sama stað og 2023 endaði, í Birkiberginu í Hafnarfirði.

Flugeldar og svifriksmengun yfir hrauninu í Setbergshverfinu í Hafnarfirði.
Flugeldar og svifryksmengun yfir Hafnarfirði. Þetta fór beint í lungun á mér og ég var hóstandi og með kvef í tvær–þrjár vikur eftir þetta. Note to self: Fara ekki út í kvöld að fylgjast með flugeldunum!

Amma kvaddi okkur í upphafi ársins.

Herdís Guðmundsdóttir, 1930–2024.
Herdís Guðmundsdóttir, 11. desember 1930 – 22. janúar 2024

Mætti á þessa tónleika í Hörpu.

Tónleikar í Hörpu 26. janúar 2024.
Egill Ólafsson heiðraður í Hörpu 26. janúar.

Fylgdist með mótmælum á Austurvelli.

Mótmæli á Austurvelli gegn þjóðarmorðum í Palestínu 5. febrúar 2024
Mótmæli vegna þjóðarmorða í Palestínu.

Tók reglulega sundspretti í Vesturbæjarlauginni.

Vesturbæjarlaugin í Reykjavík á sólríkum vetrardegi.
Vesturbæjarlaugin á köldum en björtum vetrardegi.

Fylgdist með nokkrum eldgosum. Veit ekki hversu mörgum.

Háskólatorg og Lögberg. Fyrir miðri mynd sést mökkur af eldgosi.
Fyrir miðri mynd sést í mökkinn af febrúareldgosinu frá Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Mætti á árshátíð í Hörpu.

Á árshátíð Háskóla Íslands í Hörpu 9. febrúar 2024
Árshátíðarfínn í Hörpu, á árshátíð Háskóla Íslands 9. febrúar.

Mætti á þorrablót með þessu fólki (og fleirum).

Þorrablót Syðr-Lónsættar 2024.
Á þorrablóti Syðra-Lónsættar 10. febrúar.

Mætti á Háskóladaginn.

Háskóladagurinn á Háskólatorgi 2024.
Háskóladagurinn á Háskólatorgi 2. mars.

Hélt upp á páskana með súkkulaðiáti.

Súkkulaði. Því ég nenni ekki lakkrís og hlaupi sem er í öllum páskaeggjum í dag.

Fór til Kaupmannahafnar 16.-21. apríl. Það voru nítján ár síðan síðast. Sama dag og ég kom þangað varð stórbruni í kauphöllinni Børsen. Ég var samt ekki að fikta með eld þarna. Hrós til íslenksra fjölmiðla sem notuðu fyrirsögnina Eldur í Kaupinhafn. (Samstöðin, Viðskiptablaðið).

Hluti af Kaupmannahöfn séður frá toppi Sívalaturnsins.

Með nokkrum af bestu vinnufélögum í heimi á NUASkom-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn (þeim sem ég náði á mynd):

Samsett mynd. Björn, Hlín, Jón Örn, Sigfús, Linda, Marta, Bryndís, Kolbrún og Guðmundur.

Meira frá Kaupinhöfn:

Aðalbygging Kaupmannahafnarháskóla
Bragðað á bjórframleiðslu heimamanna í Kaupmannahöfn. Næstum því endalaust úrval af kraftbjór!
Nýhöfn.
Kóngsins nýjatorg
Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn. Þar sem Jónas H. drakk sinn síðasta sopa. Hvids vinstue.
Þarna endaði Jónas okkar svo ævi sína, e.t.v. eftir of marga sopa hjá Hvít.

Frá Kaupmannahöfn lá leiðin til Münchenar. Aðalmarkmið með komunni þangað var að heimsækja Frühlingsfest, sem er n.k. litla systir Októberfests.

Ráðhúsið í München.
Frühlingsfest á Theresienwiese í München. Litla systir Októberfestsins.
Augustiner-tjaldið á Frühlingsfest í München.

Sá DJ Ötzi eitt kvöldið á Frühlingsfestinu.

DJ Ötzi tryllir lýðinn!

Þessi mættu líka til Münchenar, en án hljóðfæranna:

Nokkur af humlavinum Lúðrasveitar Hafnarfjarðar: Andrés, Brynjar, Ragnar, Egill, Eiríkur og Helena.

Spilaði fullt með þessu fólki, s.s. í skrúðgöngum, októberfestum, á tónleikum og allskonar.

Besta lúðrasveit landsins: Lúðrasveit Hafnarfjarðar.

Söng með þessu fólki:

Kammerkór Hafnarfjarðar á æfingu fyrir tónleika í Hafnarfjarðarkirkju.

Passaði þessa í smá stund.

Katla.

Skoðaði Þingvelli – í leiðindaroki og rigningu. Íslenska sumarveðrinu.

Almannagjá á Þingvöllum.

Labbaði nokkrum sinnum upp á Helgafell, eftir því sem veður leyfði þetta sumarið. Mun þó ekki hafa komið þangað upp nema 18 sinnum á árinu.

Undirritaður uppi á Helgafelli í Hafnarfirði.

Hélt líka áfram að hjóla. Komst upp í rúmlega 7000 kílómetra á árinu. Þeir hefðu getað orðið rúmlega 8000. En það hlaut sviplegan endi 4. október þegar það var keyrt á mig og hjólið fór í hakk. Hef varla snert það síðan, einkum vegna veðurs og færðar. Það er samt allt í lagi með mig – og hjólið, eftir að það var búið í viðgerð og uppherslu. Tek þráðinn almennilega upp aftur þegar snjóa leysir og ófærðin verður yfirstaðin. Því það er ekki gert ráð fyrir öðru en bílaumferð yfir vetrartímann á Íslandi.

Hjólið á meðan allt lék í lyndi. 7000 kílómetrar hjólaðir 26. ágúst.

Hékk í Tjaldinu í Hjarta Hafnarfjarðar næstum því alla daga sem það var opið í júlí.

Fyrir utan Tjaldið í Hjarta Hafnarfjarðar í júlí.
Paparnir í Hjarta Hafnarfjarðar.
Með nokkrum fastagestum í Tjaldinu.
Fjörðurinn fagri eitt sumarkvöld í júlí.

Tók þátt í lúðrabardaga á menningarnótt. Og vann!

Við svilarnir með Svaninum á menningarnótt. Atli og Sonja.

Fór með þessu fólki til Bad Orb í Þýskalandi:

Hluti af lúðrasveitinni Svaninum að gera sig tilbúna fyrir marseringu í Bad Orb.

Meira frá Bad Orb, í formi Instagram-sögu

Mætti til Egilsstaða með þessu fólki, og fleirum, á landsmót lúðrasveita.

Fór til Akureyrar í október.

Á Akureyri

Sá Litlu hryllingsbúðina í Samkomuhúsinu á Akureyri

Plantan Auður II í hryllingsbúðinni á Akureyri.

Undirbjó jólin, eftir því sem ég nennti.

Ósteikt laufabrauð.

Fór með þessu fólki til Glasgow, og smá til Edinborgar rétt fyrir jólin:

Á jólamarkaði í Glasgow. Atli, Gunnhildur, Íris, Gréta (mamma) og Snorri.

Sá Travis á tónleikum í Glasgow.

Á Travis-tónleikum í OVO Hydro í Glasgow, 21. desember.

Meira frá Glasgow (og Edinborg) samsett úr Instagram-sögu.

Hélt svo samkvæmt venju upp á jól og hækkandi sólargang síðustu viku ársins, með tilheyrandi letikasti, ofáti og öllu sem ég leyfi mér ekki að gera svona dags- daglega…

Gleðileg jól!

…eins og að borða Kókópuffs með Baileys útá.

Kókópuffs – Bara um jólin. Það er samt betra með mjólk útá!

Og þannig var nú það.

Þakka ykkur öllum fyrir samskipti og samveru á árinu sem senn er liðið, hversu mikil eða lítil sem þau voru. Með von um að þau verði enn betri, meiri og skemmtilegri á næsta ári. Og bara allt saman.

Munið svo að missa ykkur ekki alveg í flugeldageðveikinni í kvöld. Því sum okkar hata flugelda og geta ekki þetta svifryk! Það er sko hægt að gera meira en kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitir. Eins og að kaupa rótarskot. Eða bara styrkja þær án þess að fá nokkuð í staðinn, nema gleðina og ánægjuna.

Ást og friður til ykkar allra.
Gangið hægt um gleðinnar hurð.
Gerið allt á næsta ári sem ég mundi gera!

Á sama tíma að ári!

Myndaannállinn 2020

Myndaannállinn 2020

Kæra 2020.

Takk fyrir ekkert. Þú varst ömurlegt ár.

Verkföll. Jarðskjálftar. Aurskriður. Snjóflóð. Næstum því eldgos. Deyfð og dapurleiki yfir þjóðfélaginu. Veira. Covid. Kreppa. Gjaldþrot. Atvinnuleysi. Drepsóttir. Kynþáttafordómar. Öfgaþjóðernishyggja. Nasismi að rísa upp aftur. Fengum ekki að hittast nema á fjarfundum. Urðum að vera ein heima og máttum ekki gera neitt skemmtilegt. Öllu frestað eða aflýst nema sumum íþróttum.

Ég vona að arftaki þinn verði betri. Það þarf nú ekki mikið til að toppa þig.

En jæja, ókei þá. Sumt af því sem þú bauðst upp á, kæra 2020, var gott. Appelsínuguli maðurinn í hvíta húsinu kosinn í burtu. Rafrænum samskiptaleiðum fleytir fram. Íslenskar verslanir virðast vera að læra að það er líka hægt að versla á netinu. Og það er byrjað að bólusetja fók fyrir Veirunni. Það er nú eitthvað.

Þú hefur líka alveg stundum verið gott við mig, þrátt fyrir allt. Ég fékk (líklega) ekki Covid. Þurfti ekki að vera í sóttkví – nema sjálfskipaðri. Hef ekki misst neinn nákominn úr Veirunni. Og hef haft nóg að gera allt árið.

Introvertinn ég var m.a.s. að mörgu leyti ánægður með „ástandið í þjóðfélaginu“. Hraðinn minnkaði í samfélaginu á tímabili. Því það þurfti ekki að mæta neitt. Þurfti ekki að skálda upp afsakanir fyrir því að nenna ekki að mæta á samkomur eða viðburði. Því stundum er gott að vera bara einn heima að glápa á Netflix.

En mig langar samt alveg líka að fara út og hitta fólk annars staðar en bara á Teams- eða Zoom. Ég vil mæta til vinnu og fá mér kaffi með vinnufélögum. Ég vil fara á barinn og vera þar til kl. 3. Ég vil fara í partý eins og allir ráðherrar mega, fara síðastur heim úr partýinu og fara ekki að sofa fyrr en klukkan 6 að morgni! Því ég hef verið of mikið aleinn heima allt árið. Hef ekki haft neinn félagsskap og er búinn að gleyma hvernig á að hafa mannleg samskipti í þrívíddarheiminum. Og mig langar til útlanda, því við erum of einangruð á þessu landi!

Þó að stafræn samskipti og fjarfundir séu oft góð er þreytandi að hitta fólk bara í rafrænu formi. Tæknin kemur aldrei í staðinn fyrir mannlegu nándina.

Ég gerði samt mitt besta, kæra 2020, til að gera þig bærilegt. En það er bara nóg komið af þér. Og ég vil bara láta þig vita að þér er hér með sagt upp störfum frá og með miðnætti í kvöld!

En svona varstu fyrir mér:

Þú byrjaðir í Borgarnesi, eins og síðustu 20-30 forverar þínir.

Áramótaflugeldar í Borgarnesi.

Hélt áfram störfum í Háskólanum. Hafði m.a.s. of mikið að gera þar, í 150-160% starfi framan af árinu, sem er ákveðið lúxusvandamál á þessum síðustu og verstu tímum.

Útsýnið frá skrifstofuglugganum í þoku í janúar.

2007 kom aftur í janúar, þegar ég keypti sjónvarp.

Bjór, popp og Netflixgláp

Mætti á árlega ættarþorrablótið í febrúar – að þessu sinni í Borgarnesi

Gestir á þorrablóti Syðra-Lónsættar

Náði að klæðast leðurhosunum og drekka bjór í þeim!

Einhversstaðar, einhverntíma aftur…

Og svo kom Kófið. Öllu skemmtilegu var frestað eða aflýst.

Jóhannes Reykdal sýnir gott fordæmi.

Opnaði heimaskrifstofu. Vann heima rúmlega helming ársins.

Háskóli Íslands Hafnarfirði, góðan daginn.

Bakaði súrdeigsbrauð eins og, að því er virðist, helmingur snemmmiðaldra karlmanna á Íslandi.

Súrdeigsbrauð

Og sumarið kom með betri tíð og blóm í haga. Allt varð aftur gott í smá stund. Þá klæddi ég mig í fjólublá föt og spilaði með þessu fólki:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar við Ásvallalaug 17. júní.

Náði einu góðu kvöldi/síðdegi í miðborg Reykjavíkur.

Kaldi-bar á meðan allt lék í lyndi.

Fór í ferðalag um Norðurland. Byrjaði á Akureyri.

Akureyrarkirkja og Hótel KEA.

Kom við á Húsavík.

Húsavík við Skjálfanda

Heimsótti Jaja ding dong barinn.

Líklega vinsælasti ferðamannastaður sumarsins.

Dvaldi á Syðra-Lóni í nokkra daga.

Syðra-Lón

Skoðaði Ásbyrgi.

Nestisstund í Ásbyrgi.

Heimsótti Vopnafjörð.

Vopnafjörður, eða hluti af honum.

Skoðaði Siglufjörð

Frá Siglufirði

Gisti á Ólafsfirði

Fucking Ólafsfjörður!

Að ógleymdum öllum Helgafellsgöngum sumarsins. Mun hafa komið 50 sinnum á toppinn á árinu. Sem er frekar í minna lagi miðað við undanfarin ár. Það verður þá markmið að koma þangað upp oftar á næsta ári.

Yðar einlægur á Helgafelli, í Hafnarfirði.

Og haustið kom. Veiran náði sér á strik aftur. Með fleiri samkomutakmarkanir. Allt lokað. Fór aftur að vinna heima og hef næstum því ekki mætt til vinnu, eða gert neitt síðan í september. Hef í mesta lagi farið út í búð og í göngutúra innanbæjar.

Og er búinn að klára Netflix.

Þegar ég skoða myndir sem ég hef tekið frá september til desember eru það mest einhverjar bjórmyndir! Ætla ekki að birta þær allar, því það lætur mig líta illa út!

En hér er sýnishorn:

Sumarbjór úti á svölum

Náði þó að spila nokkur jólagigg með þessu fólki:

Félagar í Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Hellisgerði. (Mynd: Rúnar Óskarsson).

Hélt svo upp á hækkandi sólargang og endalok ársins 2020 síðustu vikuna í desember.

Jólatréð í stofu stendur.

Og um það bil þannig endar þetta ár.

Ég vona að næsta ár verði myndríkara. Og viðburðaríkara.

Ef þið saknið einhvers úr þessu yfirliti er það líklega af því að ég á ekki myndir af því. Og það leiðir mig að einu af markmiðum næsta árs: Að ganga meira með og taka fleiri myndir með alvöru myndavél, en ekki bara símanum. Því ég hef komist að því að ég vanda mig miklu betur við að taka myndir með alvöru myndavél heldur en síma.

Þakka ykkur að lokum öllum fyrir samskipti og samveru á árinu, þrátt fyrir allt, hvort sem þau voru rafræn eða raunveruleg. Ég vona að við fáum að vera meira saman í þrívídd árið 2021 en við fengum að vera á þessu ári!

Njótið gamlárskvöldsins, hvar sem þið eruð. Munið að þið þurfið ekki að kaupa flugelda ef þið viljið styrkja björgunarsveitirnar. Þið getið líka gefið þeim pening án þess að þurfa að fá nokkuð í staðinn, nema gleðina og ánægjuna. Gangið bara hægt um gleðinnar hurð.

Og vonandi verður 2021 miklu skemmtilegra. Ég held að það sé engin hætta á öðru! Við erum öll (nema sum) í þessari baráttu saman!

Myndaannállinn 2019

Myndaannállinn 2019

Það er þess virði að halda úti þessum vef þó ekki sé nema bara vegna hins árlega myndaannáls.

Ég man ekkert hvað hefur verið í fréttum á árinu. Það er því ekki tilefni til að vera með vangaveltur um þjóðfélags- eða dægurmálaumræðu. Enda er þetta ekki vettvangur fíflagangs. Þið getið fengið nóg af svoleiðis á fréttamiðlum og í umræðum meðal virkra í athugasemdum.

Fyrir mig hefur þetta verið ágætis ár. Ferðalög innanlands og utan komu við sögu. Þetta var ár breytinga. Þetta var ár nýrra verkefna. Þetta var ár tækifæra. Þetta var ár áskorana. Þetta var ár flutninga. En byrjum á byrjuninni.

Árið hófst í Borgarnesi, á sama stað og því síðasta lauk, eins og árin á undan.

Flugeldar um áramót
Flugeldar og svifryksmengun yfir Borgarnesi.

Hélt áfram að vinna í Háskólanum. Varð fastráðinn þar í mars/apríl.

Loftið og gluggarnir í Aðalbyggingu Háskóla Íslands
Listræn mynd af Aðalbyggingu Háskóla Íslands

Fór niður í Raufarhólshelli.

Raufarhólshellir
Niðri í dimmum Raufarhólshelli.

Mætti á ættarþorrablót, samkvæmt venju.

Ættarþorrablótið 2019
Stuð á þorrablóti Syðra-Lónsættar

Fór á UT-messuna í Hörpu. Sá risaeðlu.

Risaeðla á göngum Hörpu
Risaeðla mynduð í bak og fyrir

Og skoðaði tunglið.

Tunglið í Hörpu
Tunglið

Spilaði með Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Pollapönki og Kór Öldutúnsskóla á tónleikum.

Kór Öldutúnsskóla, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Pollapönk hita upp.
Kór Öldutúnsskóla, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Pollapönk

Gekk reglulega upp á Helgafell. Mun hafa komið á toppinn sjötíuogtvisvar sinnum á árinu.

Uppi á Helgafelli
Yðar einlægur á toppi Helgafells.

Sá Jesus Christ Superstar í Hörpu um páskana.

Jesus Christ Superstar í Hörpu.
Biblían – The Musical.

Fór í Costco í fyrsta sinn.

Costco í Garðabæ
Kaupfélag Garðabæjar

Eignaðist svona tímabundinn nágranna á vordögum.

Þröstur og ungar í hreiðri
Þröstur minn góður…

Fór út í Viðey.

Viðeyjarstofa
Viðeyjarstofa

Fór með þessu fólki til Münchenar og Ítalíu.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Desenzano á Ítalíu.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Drakk bjór í Augustiner-bjórgarðinum.

Augustiner bjór.
Augustiner bjór. Það þarf ekkert meira.

Kom við í Innsbruck

Í Innsbruck
Í Innsbruck.

Sigldi á Garda-vatninu.

Sigling á Garda-vatninu.
Á Garda-vatninu.

Fór til Feneyja.

Í þröngu húsasundi í Feneyjum.
Í einu af þröngum húsasundum í Feneyjum.

Kom við í Mílanó.

Atli. Dómkirkjan í Mílanó í bakgrunni.
Fyrir utan dómkirkjuna í Mílanó

Fór í innanlandsflug í fyrsta skipti í þrjátíu ár. Fékk samt ekkert flugviskubit. Síðast var það til Ísafjarðar. Í þetta sinn var það líka til Ísafjarðar.

Ísafjörður
Ísafjörður

Heimsótti Gamla bakaríið.

Ford fyrir utan Gamla bakaríið á Ísafirði
Ford fyrir utan Gamla bakaríið

Fór á tvær bæjarhátíðir á Vestfjörðum.

Dýrafjarðardagar á Þingeyri. Jói Pé og Króli trylla lýðinn.
Dýrafjarðardagar á Þingeyri. Jói Pé og Króli trylla lýðinn.
Markaðsdagar á Bolungarvík
Markaðsdagar á Bolungarvík

Fór upp á Bolafjall. Tvisvar sinnum. Í annað skiptið í þoku, í hinu í sólskini og fögru útsýni.

Ratsjárstöðin á Bolafjalli.
Ratsjárstöðin á Bolafjalli
Ísafjarðardjúp, séð frá Bolafjalli.
Stórkostlegt útsýni yfir Djúpið frá Bolafjalli.

Fór í bíó á Ísafirði.

Ísafjarðarbíó
Ísafjarðarbíó

Borðaði á Tjöruhúsinu.

Tjöruhúsið á Ísafirði
Tjöruhúsið á Ísafirði

Frá Ísafirði lá leiðin norður. Stoppaði í Brynjuís á Akureyri

Ísbúðin Brynja á Akureyri
Brynjuís. Nauðsynlegur áfangastaður fyrir túrista á Akureyri.

Stoppaði á Húsavík.

Húsavík
Hafnarsvæðið á Húsavík

Kom við í Ásbyrgi.

Ásbyrgi
Ásbyrgi

Gisti á Syðra-Lóni.

Syðra-Lón á Langanesi
Syðra-Lón á Langanesi

Tíndi dún í æðarvarpinu á Syðra-Lóni.

Æðarkolla á hreiðri
Æðarkolla á hreiðri.
Æðarungar
Litlu sætu æðarungarnir.

Fór út á Font á Langanesi.

Fontur á Langanesi.
Fontur. Lengra verður ekki komist á Íslandi.

Fór út að Skálum.

Húsarústir að Skálum á Langanesi.
Skálar. Eitt sinn blómlegt fiskiþorp. Nú húsarústir sem bíða þess að verða veðri og vindum að bráð.

Skoðaði hesta á Syðra-Lóni

Hestar
Hestar á Syðra-Lóni.

Skoðaði gamla bæinn að Bustarfelli

Bustarfell í Vopnafirði
Bustarfell í Vopnafirði.

Kynnti mér skemmtanalífið á Þórshöfn.

Báran á Þórshöfn.
Báran á Þórsöfn

Fór upp í Reykholt.

Reykholtskirkja í Borgarfirði
Reykholtskirkja

Fór í bað í Kraumu.

Krauma spa í Borgarfirði
Krauma í Borgarfirði.

Heimsótti álverið í Straumsvík. Og spilaði þar líka.

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík

Fór í jazzgöngu í Reykjavík

Skrúðganga í Reykjavík. Café París í bakgrunni.
Jazzganga í tilefni Jazzhátíðar í Reykjavík.

Gerðist stundakennari við Háskóla Íslands og kenndi u.þ.b. hálft námskeið. Eitthvað sem ég sá aldrei fyrir mér að gera í upphafi ársins.

Fyrsti kennslutíminn.
Fyrsti kennslutíminn.

Fór í vinnuferð á Laugarvatn.

Laugarvatn
Laugarvatn

Ákvað að gerast þræll banka og lífeyrissjóða um ókomin ár og keypti íbúð. Í miðbæ Hafnarfjarðar.

Lyklar
Lyklarnir afhentir 25. september.
Strandgata 31-33, Hafnarfirði
101 Hafnarfjörður. Strandgata 31-33.

Spilaði á nokkrum októberfestum.

Októberfest á fjörukránni
Ein Prosit.

Heimsótti Jólaþorpið í Hafnarfirði

Jólaþorpið í Hafnarfirði að kvöldi.
Jólaþorpið

Hélt upp á jól og hækkandi sólargang undir lok ársins.

Jólin.

Og þannig var nú það. Fleira markvert hefur svo sem gerst á árinu. En myndavélin hefur oft gleymst, ýmist heima eða í vasanum, og þess vegna eru sumir atburðir ekki skráðir hér.

Munið að lokum að þið þurfið ekki að kaupa flugelda til að styðja björgunarsveitirnar. Til dæmis má kaupa Rótarskot eða gerast Bakvörður. En gangið hægt um gleðinnar dyr á gamlárskvöld.

Takk fyrir samskipti og samveru á árinu 2019. Með von um að árið 2020 verði ennþá betra og skemmtilegra.

Myndaannállinn 2018

Myndaannállinn 2018

Ég man næstum því ekki eftir neinu sem hefur verið í fréttum á þessu ári.

Eins hjá flestum Íslendingum nær fréttaminni mitt ekki lengra en tvo mánuði aftur í tímann. Þannig að lykilatriði ársins eru:

Sigmundur Davíð og aðdáendur fóru á afdrifaríkt fylleríi. Aðdáendaklúbbur hans gerir sér ekki grein fyrir því að þeirra er ekki óskað lengur. Stjórnvöld í Reykjavík byggðu allt of dýran bragga. Dýr afmælisveisla á Þingvöllum. Þingmenn senda þjóðinni reikning vegna bílferða. Flugfélög fóru á hausinn. Hópuppsagnir. Stéttaskipting. Túristabransinn að hrynja. Ný kreppa í uppsiglingu, allt íslensku krónunni að þakka. Ísland – bezt í heimi!

Leiðinlegir, gamlir, frekir, hræddir sjötugir og eldri karlar (á öllum aldri, af öllum kynjum) sem óttast breytingar og vilja hafa landið sem mest einangrað frá umheiminum ráða of miklu á landinu. Svona viljum við hafa það. Ekkert vesen og allt í góðu lagi. Þetta var tvöþúsundogátján.

En ég ætla ekki út í frekari pólitíska umræðu. Læt misvitrum Moggabloggurum og virkum í athugasemdum það eftir.

Fyrir mig hefur þetta verið ágætt ár. Heilsan hefur verið í góðu lagi, sem maður má þakka fyrir, kominn á þennan aldur. Það hefur verið nóg að gera hjá mér. Ég skoðaði heiminn og kom á marga staði sem ég hafði aldrei komið til áður. Ég nýtti mér minn skerf af góðærinu, svona rétt áður en það leið undir lok.

Til að skoða árið betur er kominn tími til líta á nokkrar myndir. Það er þess virði að halda þessum vef úti bara fyrir þennan árlega myndaannál. Svona var árið 2018 í myndum:

Það hófst í Borgarnesi, eins og síðustu 20-30 ár á undan.

Flugeldar
Áramótaflugeldar í Borgarnesi.

Skoðaði gervitungl á Háskólatorgi. Fékk líka að halda á því. Þetta er líklega dýrasti hlutur sem ég hef handleikið.

Gervitungl á Háskólatorgi. Rósalind skoðar það líka.

Spilaði Trivial.

Trivial Pursuit
Trivial.

Sá vélmenni á UT-messunni í Hörpu.

Vélmenni
Vélmenni

Mætti á ættarþorrablót ásamt þessum (og fleira fólki sem er ekki á myndinni).

Þjóðbúningar
Á þorrablóti Syðra-Lónsættar 3. febrúar.

Hélt upp á öskudaginn.

Með Drakúla-grímu á öskudaginn.

Gekk upp á Helgafell. Mun hafa komið á toppinn sextíuogþrisvar sinnum á árinu, frá 24. mars til 26. desember.

Helgafell
Á Helgafelli 24. mars.

Spilaði á tónleikum með þessu fólki.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar fyrir utan Víðistaðakirkju
Lúðrasveit Hafnarfjarðar eftir tónleika í Víðistaðakirkju 21. apríl.

Söng á tónleikum í Skálholtskirkju.

Skálholtskirkja
Skálholtskirkja

Fór með þessu fólki til Barcelona…

Kammerkór Hafnarfjarðar í Santa Maria del Pi
Undirritaður og Kammerkór Hafnarfjarðar eftir tónleika í Santa Maria del Pi, í Barcelona.

… Söng þarna…

Sagrada Familia
Sagrada Familia í Barceolona.

…skoðaði Montserrat…

Montserrat
Montserrat

…heilsaði upp á Svörtu Maríu…

Svarta María í Montserrat
Svarta María í Montserrat.

…og naut útsýnis yfir Barcelóna.

Sjálfa í Barcelona.
Undirritaður með hluta af Barcelona í baksýn.

Frá Barcelona lá leiðin til Parísar. Skoðaði Eiffelturninn…

Hjá Eiffelturninum
Á Champ de Mars með Eiffelturninn í baksýn.

…sá Mónu Lísu á Louvre-safninu…

Mona Lisa
Mona Lisa

…skoðaði Notre Dame-kirkjuna…

Notre Dame í París.
Notre Dame í París.

…fór upp í Sigurbogann…

Sigurboginn í París
Sigurboginn í París.

…og naut útsýnis yfir París.

Sjálfa í París
Uppi í Sigurboganum, með París í baksýn.

Fór frá París til London:

Turnbrúin í London
Að benda á Turnbrúna í London.

Keypti fjólubláan plasttrompet…

Fjólublár plasttrompet
Fjólublár plasttrompet.

…sá Bat out of hell

Bat out of hell
Á mótorhjóli í Dominion Theatre í London.

Harry Potter og bölvun barnsins

Fyrir utan Palace Theatre í London.
Fyrir utan Palace Theatre í London.

…og Vesalingana.

Vesalingarnir í Queen's Theatre í London.
Vesalingarnir í Queen’s Theatre í London.

Skoðaði sirkustjaldið í Reykjavík. Þó bara að utan – ekki að innan.

Sirkustjald í Reykjavík.
Sirkustjald í Reykjavík.

Heimsótti geitur á Háafelli.

Geit á Háafelli
Geit á Háafelli.

Fór í spa í Borgarfirði.

Krauma spa í Borgarfirði.
Jarðhitaböðin í Kraumu í Borgarfirði.

Sá Hringadróttinssögu í Hörpu.

Hringadróttinssaga - Tveggja turna tal.
Hringadróttinssaga – Tveggja turna tal.

Hélt upp á stóra 4-0 afmælið í München.

Í Augustiner-bjórgarðinum í München.
Í Augustiner-bjórgarðinum í München.

Heimsótti Augustiner-bjórgarðinn:

Augustiner-garðurinn.
Systkinin sæl og glöð í Gústa.

Skoðaði dýragarðinn í München…

Ljón
Ljón í dýragarðinum í München.

…fór upp í Ólympíuturninn…

Uppi í Ólympíuturninum í München.
Uppi í Ólympíuturninum með Ólympíuþorpið og nágrenni í baksýn.

…heimsótti Bavaria Filmstadt…

Das Boot
Líkanið af kafbátnum úr Das Boot.

…og kannaði slóðir Lúðvíks II. konungs af Bæjaralandi.

Neuschwanstein-kastali.
Neuschwanstein, kastalinn hans Lúlla kóngs.

Spilaði á nokkrum októberfestum á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

Októberfest
Á einu af októberfestum haustsins. Þetta er nú engin maß-krús. Og þetta er nú enginn Gústi.

Djammaði með vinnufélögum.

Starfsfólk MarkSam HÍ á góðri stundu.
Starfsfólk MarkSam HÍ á góðri stundu.

Skoðaði hafpylsuna á Reykjavíkurtjörn.

Hafpylsan á Reykjavíkurtjörn og Ráðhúsið.
Hafpylsan á Reykjavíkurtjörn og Ráðhúsið.

Fór á WebSummit, risastóra vefráðstefnu í Lissabon…

Websummit 2018
Tim Berners Lee, höfundur internetsins eins og við þekkjum það, heldur ræðu.

…með þessu fólki.

Í Lissabon
Hlín, Bryndís og Sigfús í Lissabon.

Keypti nýja tölvu. Það er þá staðfest: Næsta hrun verður mér að kenna. Þess vegna gef ég leyfi fyrir því að láta tjarga mig og fiðra þegar þar að kemur.

Ny tölva
Ný tölva.

Fór á jólatónleika Baggalúts í Háskólabíói.

Baggalútur
Baggalútur á jólatónleikum í Háskólabíói.

Söng í Hörpu.

Harpa.
Harpa í íslensku fánalitunum á 100 ára afmæli fullveldisins.

Skoðaði jólaköttinn í miðbæ Reykjavíkur.

Jólakötturinn
Þið kannist við jólaköttinn.

Mótmælti á Austurvelli.

Mótmæli á Austurvelli
Þetta alþingi er áfall.

Skoðaði alþingishúsið.

Alþingi
Forsetastóllinn í alþingishúsinu

Hélt upp á jól og hækkandi sólargang í lok ársins.

Jólatré
Jólakötturinn við jólatréð.

Og nokkurn veginn þannig lýkur árinu.

Ég þakka öllum hlutaðeigandi fyrir samskipti og samveru á árinu, með von um að 2019 verði miklu betra og skemmtilegra. Megi nýja árið færa ykkur fullt af allskonar.