Tár í auga trúðsins

Tár í auga trúðsins

Ath.: Inniheldur spilli um nýjasta þátt Simpson-fjölskyldunnar. Lesendur sem vilja ekki vita hvað gerist í þættinum ættu ekki að lesa lengra.

Trúðurinn Krusty
Trúðurinn Krusty

Tuttugasta og sjötta þáttaröð Simpson-fjölskyldunnar er byrjuð. Alveg frá því að 25. þáttaröð lauk í vor hafa verið byggðar upp væntingar til fyrsta þáttarins í röðinni með því að greina frá því að einhver persóna úr þáttunum muni deyja, allt til þess að laða sem flesta áhorfendur að skjánum. Dauðsfallið í fyrsta þættinum var líklega það sem flestir biðu eftir.

Trúðurinn Krusty er í aðalhlutverki í þættinum. Hann er hér í hlutverki útbrunna skemmtikraftsins sem engum finnst fyndinn lengur – allir gera grín að honum fyrir það hvað hann er ófyndinnn. Bart Simpson stendur þó með Krusty og ráðleggur honum að tala við rabbínann föður sinn til að hressa sig. Í miðju samtali feðganna gefur faðir Krustys upp öndina.

Í jarðarförinni byrjar Lísa Simpson að fá áhyggjur af heilsu föður síns. Aukasagan segir frá tilraunum Lísu til að vernda Hómer og breyta heilsu hans til betri vegar, meðal annars með því að pakka honum inn í bóluplast.

Krusty þarf að lifa með því að ekki einu sinni föður hans þótti hann fyndinn og ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Í draumi hittir Krusty föður sinn í gyðingahimnaríki, sem segir honum að vakna til lífsins og hjálpa fólki. Að lokum kemst Krusty að því að föður hans þótti hann fyndinn þrátt fyrir allt.

Í þessum þætti má finna stef úr eldri Simpsons-þáttum. Krusty ákveður að hætta í skemmtanabransanum. Faðir hans er ekki ánægður með starfsvettvang hans. Þetta var bara venjulegur þáttur um Krusty og ekki sá besti. Meira að segja hálfþunn byrjun á þáttaröðinni. Gullaldarár Simpson-fjölskyldunnar eru liðin fyrir löngu. Kannski ekki við öðru að búast af sjónvarpsþáttum sem hafa enst í 25 ár samfleytt. Þetta margumtalaða dauðsfall var frekar átakalaust og auðvelt þegar allt kom til alls. Hyman Krustofsky var aldrei neinn af mínum uppáhalspersónum. Kannski má líta á Krusty í þessum þætti sem einhvers konar tákn fyrir þættina um Simpson-fjölskylduna og Bart er þá tákn fyrir harða aðdáendur þáttanna, sem fylgjast með þeim hvað sem á dynur.

Það voru samt líka nokkrir góðir smellir í þættinum. Sófabyrjunin var sú furðulegasta sem sést hefur. Svo var til dæmis fyndið að sjá Arthur Crandall og Gabbo ganga út af meðferðarstöð fyrir sorgmædda trúða.

Eins og Bart Simpson er einlægur aðdáandi trúðsins Krusty er ég einlægur aðdáandi Simpson-fjölskyldunnar og reyni að sjá nýja þætti eins fljótt og ég get. Þó að ég sé kannski hættur að búast við einhverjum stórvirkjum hlakka ég samt til í hvert skipti sem nýr Simpsons-þáttur birtist á skjánum.

Comments are closed.