Tilraunaeldhúsið
Kökur dagsins eru ættaðar frá Noregi. Þær koma við sögu í einu af höfuðverkum norskra leikbókmennta: Dýrunum í Hálsaskógi. Þetta eru piparkökur Hérastubbs bakara, bakaðar eftir Piparkökusöngnum:
Þegar piparkökur bakast kökugerðarmaður tekur
fyrst af öllu steikarpottinn og eitt kíló margarín,
bræðir yfir eldi smjörið en það næsta sem hann gjörir
er að hræra kíló sykurs saman við það, heillin mín.Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjarauður
saman við og kíló hveitis hrærist og í potti vel.
Síðan á að setja í þetta eina litla teskeið pipar,
svo er þá að hnoða deigið, breiða það svo út á fjöl.
Þetta er dálítið stór uppskrift, enda notuð af faglærðum bakara í bakaríi. Hér er búið að minnka hana niður í 1/8 af því sem segir í söngnum og þá lítur hún svona út:
125 g smjör
125 g sykur
1 eggjarauða
125 g hveiti
1/8 tsk pipar
1. Smjörið brætt í potti ef það er ekki lint.
2. Smjör og sykur hrærð saman.
3. Eggjarauðunni bætt út í.
4. Hveitið sett saman við og allt hrært vel.
5. Pipar bætt við.
6. Deigið sett á bökunarplötu með teskeið. U.þ.b. ein teskeið fyrir hverja köku. (Það er ekki hægt að fletja það út, eins og gert var í leikritinu og ekki heldur hægt að móta karla og kerlingar úr deiginu).
7. Bakað við 180° í 10-12 mínútur.