Vandræðalegt vökvabrot
Fimmti þáttur í 26. þáttaröð Simpson-fjölskyldunnar tekur á svokölluðu fracking (vökvabroti), sem er umdeild aðferð við að vinna gas (og olíu og heitt vatn) úr jörðinni. Aðferðin felst í stuttu máli í því að vatni er dælt ofan í borholur, sem liggja láréttar þegar ákveðnu dýpi er náð. Vatnið sprengir upp bergið og losar um vökvann (gasið/olíuna/heita vatnið), sem annars sæti fastur ofan í jörðinni. Aðferðin hefur verið umdeild, m.a. vegna þess að hún gæti mengað vatnsból sem notuð eru til manneldis. (Heimild: Wikipedia)
Það er ekkert sófaatriði – bara byrjað beint á þættinum. Marge dekrar við Hómer því að systur hennar, Patty og Selma þurfa að gista heima hjá þeim í nokkra daga. Hómer er ekki ánægður með að þær reyki í kringum börnin og bannar þeim að reykja í húsinu. Hann setur upp reykskynjara úti um allt hús til að fylgjast nógu vel með þeim. Þær stelast samt til að reykja inni á klósetti (sem er inni í rými þar sem hingað til hefur verið geymsla eða skápur, þar sem gjarna sjást ýmsir hlutir tengdir eldri þáttum). Því að inni á klósetti er enginn reykskynjari.
Þetta leynimakk fer ekki betur en svo að herbergið springur vegna óvæntrar gasmengunar og það kviknar í kranavatninu. Hómer hendir systrunum út; fer með þær á hundaveðhlaupabrautina og skilur þær þar eftir fyrir utan hjá öllu hinu reykingafólkinu.
Lísa ákveður að grafast fyrir um hvers vegna kranavatnið brennur. Hana grunar að einhver sé að beita vökvabrotsaðferð undir hverfinu til að bora eftir gasi og hugsar um ríka Texasbúann. Hann er hins vegar saklaus. (Ef það er ekki hægt að dansa undir því er það ekki þess virði að bora eftir því).
Með aðstoð Oogle-maps finnur Lísa vinnslustöðina í hverfinu, sem reynist vera dulbúin sem frægðarhöll körfuboltakvenna. Eigandi stöðvarinnar er hr. Burns. Lísa ákveður að fá Maxine Lombard (leikin af Jane Fonda), stjórnmálakonu og umhverfisverndarsinna, í lið með sér til að stöðva gasvinnslu hr. Burns. Frú Lombard kemur til Springfield með rafmagnsbíl.
Burns er kallaður á fund nefndar undir forystu frú Lombard, en hann neitar ásökunum. Þrátt fyrir það lætur hún loka gasvinnslunni. Burns fer á fund hennar, sem verður til þess að þau verða ástfangin. Þau ákveða hins vegar að vera áfram óvinir opinberlega en halda ást sinni og vináttu á bakvið tjöldin.
Burns ákveður að fá leyfi allra íbúanna í hverfinu til að halda gasvinnslunni áfram. Hann fær Hómer til að kynna gasvinnsluna og kosti hennar fyrir íbúum hverfisins og fá þá til að samþykkja vinnsluleyfið. Lísa og Marge mótmæla þessu harðlega og, að því er virðist, allir íbúar hverfisins eru á móti því að Burns fái vinnsluleyfi, þangað til Hómer lofar hverjum sem skrifar undir leyfið 5000 dölum. Loforðið um peninga verður til þess að allir samþykkja leyfið.
Þó að leyfið sé fyrir hendi er Burns með hugann við það hvernig hann á að vinna ástir frú Lombard. Hann hefur áhyggjur af því að þau eigi ekkert sameiginlegt og biður Hómer um að hjálpa sér. Hómer gefur honum þau heilræði að einhver muni fara særður út úr sambandinu og því sé best að slíta því.
Þar næst er komið að enduropnun gasvinnslustöðvarinnar. Rétt áður en stöðin er tekin í notkun kemur í ljós að Marge hefur ekki skrifað undir leyfið. (Allir íbúar verða að samþykkja leyfið til að stöðin fái að starfa). Allir verða óánægðir með það, því nú fær enginn pening frá hr. Burns. Og Hómer verður reiður við Marge. Burns verður sömuleiðis reiður við frú Lombard.
Hómer fer til Burns og segir kynningarstarfi sínu lausu. Hann kennir Marge um öll mistökin, því þau eigi ekkert sameiginlegt. Á meðan Hómer útskýrir vandamálið fyrir hr. Burns er byrjað að rífa Burns-höllina, því samkvæmt skipun frú Lombard á að breyta henni í umhverfisverndarmiðstöð. Þetta gerir hún til að hefna sín á því að Burns skildi slíta ástarsambandi þeirra.
Burns ákveður að hefna sín á hefndinni og setur gasvinnslustöðina í gang með aðstoð Hómers, þrátt fyrir að leyfið vanti. Vatnsdælingin framkallar stóran jarðskjálfta. Eftir að vinnslustöðin hrynur hlustar Hómer loks á mótmælin í Marge og ákveður að rústa því sem eftir er af vinnslustöðinni og allir verða sáttir á ný.
Þessi þáttur tekur á umhverfismálum og baráttu stóriðju gegn umhverfisverndarsinnum. Þarna sjáum við líka ástfanginn hr. Burns. (Ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti). Við sjáum baráttu á mili kynjanna (Hómer og Burns á móti Marge og frú Lombard). Samband Hómers og Marge í þættinum er hliðstæða við samband Burns og frú Lombard. Og þarna sést líka heimskur ginkeyptur almenningur sem samþykkir öll rök þegar ókeypis peningum er lofað. (Við könnumst við það frá Íslandi síðasta eitt og hálfa árið).
Nokkur brosleg atriði komu í þessum þætti. Til dæmis var fyndið að sjá fiskana deyja smám saman eftir að Patty og Selma hentu sígarettunum í fiskabúrið. Eða Bart að brenna plasthermann með loganum frá vatninu. Svo sést Ríki Texasbúinn að pússa 100 dala seðil. Hómer les tímaritið Food hider, sem inniheldur m.a. greinina The drumstick issue (Vandamálið með kjúklingalæri), á meðan hann situr með fötu af kjúklingalærum í fanginu. Frú Lombard lætur taka mynd af sér með barni (Maggie) hjá brennandi vatninu. (Dæmigert atferli stjórnmálamanna). Og Hómer hendir sjálfum sér út gegnum fallhlerann á skrifstofu hr. Burns.
En þrátt fyrir þessi atriði vantar alveg húmorinn í þennan þátt. Húmorinn víkur eiginlega algjörlega fyrir söguþræðinum og of pólitísku umfjöllunarefni þáttarins. Þættinum lýkur á vandræðalegu samtali hr. Burns og frú Lombard, þar sem þau sitja uppi í rúmi, hvort með sína spjaldtölvuna. Ég vissi eiginlega ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta yfir þessu atriði. Þetta er án efa versti þáttur 26. þáttaraðar hingað til.
Það hlýtur að vera hægt að gera betur.