Vandræði í veitingabransanum
Í þriðja þætti tuttugustu og sjöttu þáttaraðar um Simpson-fjölskylduna er engin aukasaga. Bara ein aðalsaga. Enginn gestaleikari. Fjölskyldan fær að njóta sín saman, með Marge í forgrunni.
Eftir að Ned Flanders kemst að því að Hómer notar rafmagnið hans, m.a. til að halda frystikistunni hans í gangi, neyðist Marge til þess að búa til samlokur úr öllu kjötinu úr frystinum, sem annars hefði farið til spillis.
Samlokurnar verða vinsælar. Bart og Lísa taka upp á því að selja samlokurnar í skólanum í skiptum fyrir ýmislegt annað (m.a. sígarettur). Varaforstjóri samlokukeðju fær Marge til að opna samlokuveitingastað undir merkjum keðjunnar og telur henni trú um að fjárhagur hennar muni batna.
Starfsmenn veitingastaðarins eru Shauna, „Squeeky voiced teen“ og Gil. Prófessor Frink kemur einnig í atvinnuviðtal, en er ekki ráðinn. Enginn starfsmannanna stendur sig nógu vel og missa þau því öll vinnuna. Marge fær því alla fjölskylduna til þess að hlaupa í skarðið.
Viðskiptin ganga vel til að byrja með, eða þangað til nýr staður undir sömu keðju tekur til starfa hinum megin við götuna. Sá staður er rekinn af Cletus og fjölskyldu hans.
Brátt fer að ganga svo illa að Marge ákveður að skreppa á krána til Moe. Moe gefur Marge góð ráð til að hætta rekstrinum án þess að tapa á því. Fjölskyldan setur upp leikrit fyrir varaforstjóra keðjunnar. Hómer er í hlutverki óheppins viðskiptavinar sem fær lélega þjónustu hjá óþjálfuðu afgreiðslumönnunum Bart og Lísu. Að sögn varaforstýrunnar ber keðjan ekki ábyrgð á óförum Hómers, heldur eigandi staðarins. Marge snýr hins vegar á varaforstýruna og segir að samkvæmt rekstrarsamningnum skuli keðjan útvega starfsmönnum viðeigandi þjálfun, sem Bart og Lísa hafa ekki fengið. Þannig fær Marge leyfisféð sitt endurgreitt af því að keðjan hefur ekki staðið við samninginn. Og fjölskyldan verður sátt að lokum.
Það var gott við þennan þátt að þurfa ekki að fylla upp í söguþráðinn með aukasögu. Það var fátt sem kom á óvart í þættinum en samt nokkur atriði sem var hægt að brosa yfir. Til dæmis Hómer að skemmta sér við að hlusta á tónlistina úr parísarhjólinu. Hómer öfundar hundinn yfir að vita ekki hvenær hann á að hætta að éta. Flanders sér eftir því að taka frystikistuna sína frá Hómer og leyfir fjölskyldunni að geyma samlokurnar í frystikistunni. Hómer setur Pizza-Hut á hausinn með því að misnota ókeypis áfyllingu af gosi. Marge gleðst yfir sínum eigin steikarspaða. Gil í fötunum sem pabbi hans var í þegar hann dó. Dr. Frink að reyna að koma frá sér setningu án furðuorða. Að minnsta kosti fyrstu ellefu dalirnir sem Marge græðir eru hengdir innrammaðir upp á vegg. Afinn að vinna í bílalúgunni – en það er engin bílalúga á staðnum. Og það er alltaf fyndið þegar það er gert grín að FOX-sjónvarpsstöðinni í Simpsons-þáttunum. („Það er sem þeim sé sama þótt þú græðir á meðan þeir græða. Hvers konar stórfyrirtæki gerir slíkt?“ Spurningunni er svarað með broti úr 20th century fox-stefinu.)
Það virðist vera ný þróun í þáttunum að láta þá enda á stuttum, sjálfstæðum þætti eða atriði, oft einhverju sem tengist efni aðalþáttarins. (Fyrsta slíka sagan mun hafa verið „Everyone loves Ned Flanders“). Í þetta skipti er Hómer í hlutverki steinaldarmanns sem finnur upp samlokuna.
Maður er kannski hættur að búast við einhverju frumlegu og fyndnu frá Simpson-fjölskyldunni. Nema kannski í sófaatriðinu í upphafi þáttanna. (Í þetta sinn heyrðist lagið Tea for the Tillerman með Cat Stevens). Þættirnir eru farnir að endurtaka sig dálítið. Við höfum til dæmis séð Marge áður í veitingarekstri, bæði með stuðnings mafíunnar og án hans. Þetta er þó besti þátturinn í 26. þáttaröðinni – hingað til. Sjáum til hvort hrekkjavökuþátturinn getur skákað honum í næstu viku.