Völvuspáin 2015
Það verða einhverjar náttúruhamfarir, m.a. stór jarðskjálfti á suðurlandi eða á Reykjanesi og snjóflóð á Vestfjörðum. Engar þeirra valda þó manntjóni, en eignatjón gæti orðið eitthvað. Eldgosinu í Holuhrauni lýkur á seinni hluta ársins. Bárðarbunga lætur áfram á sér kræla. Jarðskjálftar þar verða daglegt brauð eitthvað fram eftir árinu.
Það verður snjór fram í apríl. Sumarið verður rigningasamt, a.m.k. á suðvesturhorni landsins en nokkuð kalt á norðanverðu landinu. Haustið verður milt, en kalt.
Það koma einhverjir brestir í ríkisstjórnarsamstarfið. Bjarni Ben og Sjálfstæðisflokkurinn verða sífellt ósáttari við að vera númer tvö, bara hjól undir vagni Framsóknarflokksins. Árið verður Sigmundi Davíð forsætisráðherra líka erfitt og álagið á hann verður mikið. Hann fer í veikindafrí sem eftir verður tekið. Þegar hann er ekki í veikindafríi verður hann mikið í felum, sýnir af sér hroka sem aldrei fyrr og gefur ekki kost á sér í viðtöl við fjölmiðla. Stjórnarþingmenn og aðrir ráðherrar munu apa þessa takta upp eftir honum. Ríkisstjórnin lifir árið samt af, því stjórnarandstaðan á alþingi verður aum og næstum því ósýnileg.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, verður lítið í sviðsljósinu, fyrir utan hefðbundin embættisstörf. Hann er orðinn þreyttur og aldurinn farinn að segja til sín. Hann gefur samt í skyn að hann ætli að bjóða sig fram til endurkjörs einu sinni enn árið 2016. Hann gefur einnig í skyn að hann muni ekki bjóða sig fram árið 2016. Jón Gnarr mun láta í ljós sífellt meiri áhuga á að gerast eftirmaður hans.
Verkföll verða áberandi. Hver stéttin af annarri fer í verkfall og krefst betri kjara. Stórt allsherjarverkfall verður á seinni hluta ársins. Allsherjarverkfallið mun lama allt þjóðfélagið og valda því skaða sem ekki verður bættur næstu tvö til þrjú árin. Launadeila lækna mun leysast á fyrri hluta ársins, en heilbrigðiskerfið mun samt halda áfram að hrynja.
Margir hafa fengið sig fullsadda á framkomu ráðamanna og því hvernig landinu er stjórnað. Mótmæli gegn ríkisstjórninni og alþingi færast í aukana, og þá ekki bara mótmæli sem fara fram á netinu, Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, heldur verða líka hávær mótmæli á Austurvelli, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum. Þessi mótmæli komast í fréttir en ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar munu hundsa þau og/eða snúa út úr tilgangi þeirra.
Það verður blóðugur niðurskurður á RÚV. Starfsmenn til margra ára verða látnir fjúka. Stjórnendur þar munu segja upp störfum. Gamalkunnir sjónvarps- og útvarpsþættir verða teknir af dagskrá. Rás eitt verður enn markaðsvænni og leiknum auglýsingum þar verður fjölgað. Dagskrárliðir á rás eitt og tvö verða sameinaðir.
Hefðbundnar sjónvarps- og útvarpsstöðvar (ekki bara RÚV) munu eiga undir högg að sækja vegna nýrri miðla og aðferða við að nálgast afþreyingarefni. Það styttist í að Netflix verði löglega í boði á Íslandi. Það er þó nokkur móða yfir því í kúlunni, þannig að það verður kannski ekki á þessu ári.
Þekktur íslenskur rithöfundur hlýtur aukna frægð erlendis. Fyrir jólin verður gefin út metsölubók sem vekur nokkurt umtal og hneyksli. Annars verður nokkur lægð yfir íslenskri bókaútgáfu og óvenju fáar nýjar bækur verða gefnar út á árinu.
Stórt, alþjóðlegt fyrirtæki mun vekja athygli landsmanna á árinu fyrir óvenjulegt uppátæki.
Íslenskir íþróttamenn munu vekja athygli á árinu. Einkum er hér um að ræða íslenska íþróttamenn á erlendum vettvangi sem Íslendingar fylgjast með og halda þar af leiðandi að öll heimsbyggðin taki eftir. Það verða engir meiriháttar stórsigrar á íþróttasviðinu. Landskunnur og vinsæll íþróttamaður ákveður að draga sig í hlé frá íþrótt sinni.
Íslenskir listamenn munu vekja athygli á erlendri grundu. Þeir eru lítt þekktir á Íslandi þangað til þeir fá athygli erlendis.
Ísland tekur þátt í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þrátt fyrir niðurskurð á RÚV, en nær ekki árangrinum sem vonast verður eftir (sem sagt einu af fimm efstu sætunum). Í kjölfarið spretta upp umræður um fyrirkomulag keppninnar og hvort Íslendingar skuli hætta þátttöku í henni. Engin niðurstaða fæst út úr þessari umræðu.
Stórt hneykslismál skekur þjóðina á árinu. Virkir í athugasemdum láta áfram í sér heyra. Ýmsar misgáfulegar athugasemdir verða látnar fjúka, einkum um þjóðernis-, kynþáttahyggju og trúmál. Þessi háværi minnihluti á eftir að hafa óþarflega mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Fyrir jólin verður rætt um hvort heimsóknir grunnskólabarna í kirkjur á aðventunni eigi rétt á sér. Forsvarsmenn þjóðkirkjunnar munu spila sig sem fórnarlömb í þessari umræðu.
Nýir „Íslandsvinir“ munu koma til sögunnar, í formi stórstjarna sem heimsækja landið.
Þekktur Íslendingur úr skemmtana- og afþreyingabransanum deyr á árinu. Einnig deyr þekktur fyrrverandi stjórnmálamaður.
Annar þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum gengur í hjónaband.
Og enn einn úr bransanum eignast barn.