Völvuspáin 2016
Á þessum árstíma er í tísku að birta völvuspár fyrir árið. Hér er ein:
Stjórnmálin
Ólafur Ragnar Grímsson hættir við að hætta vegna fjölda áskorana og verður kosinn forseti Íslands til fjögurra ára í viðbót. Hann fær stuðning úr óvæntri átt. Í aðdraganda kosninganna í sumar láta bloggarar og virkir í athugasemdum í sér heyra. Skítkast, skætingur og dónaskapur í umræðum þeirra rata í fréttir og verða til þess að venjulegir Íslendingar nenna ekki að fylgjast með umræðunni. Þetta bitnar á kjörsókninni, sem verður afar dræm.
Aðrir frambjóðendur eiga ekki séns í Ólaf. Þrýst verður á Katrínu Jakobsdóttur að bjóða sig fram í embættið, en hún verður ekki við þeim áskorunum.
Ríkisstjórnin heldur vitleysisgangi sínum áfram. Ríkir verða ríkari og fátækir fátækari, en þingmenn hennar og ráðherrar þræta fyrir það og segja að allt sé í lagi. Ísland – bezt í heimi. Haldið verður áfram í átt að einkavæðingu ríkisstofnana. Ríkisstjórnin lifir árið af, því stjórnarandstaðan á alþingi er aum og ósýnileg og gerir ekki neitt.
Nokkrir mótmælafundir verða haldnir á Austurvelli en þeir minna fremur á 17.-júní-samkomu heldur en mótmæli.
Píratar halda sigurgöngu sinni áfram í skoðanakönnunum. Það kemur smá bakslag hjá þeim á vormánuðum, en þeir rétta úr kútnum með haustinu. Fylgið heldur áfram að hrynja af Samfylkingunni. Árni Páll formaður verður hvattur til að segja af sér með haustinu, en situr sem fastast út árið. Björt framtíð og Samfylkingin ræða samstarf eða sameiningu sín á milli en ekkert verður úr þeim áformum.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra sýnir af sér hroka og dónaskap og sakar fjölmiðla og fréttamenn um eineltistilburði í garð Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn apa þetta háttarlag upp eftir honum.
Íslenskur stjórnmálamaður vekur athygli fyrir fremur óvenjulegt uppátæki.
Náttúran
Það verða jarðskjálftar á suðurlandi eða á Reykjanesi og hugsanlega á norðurlandi. Þeir valda litlu tjóni. Það verður lítið eldgos einhversstaðar á sunnanverðu landinu.
Mikið verður um lægðir og óveður fram á vorið og fá íbúar á norðan- og austanverðu landinu og á Vestfjörðum einkum að kenna á þeim. Á höfuðborgarsvæðinu verður snjór þangað til í apríl. Það snjóar líka í maí. Sumarið verður kalt og nokkuð votviðrasamt sunnan til á landinu. Það verður samt líka gott veður stundum. Það verður ekki eins blautt á norðurlandi. Haustið verður milt, en í desember skellur veturinn á af fullum þunga.
Lista- og menningarlífið
Íslenskur listamaður hlýtur stóra alþjóðlega viðurkenningu á árinu. Útrás íslenskra tónlistarmanna heldur áfram. Þekktar íslenskar hljómsveitir verða á tónleikaferðalögum í Bandaríkjunum og í Evrópu.
Ísland tekur þátt í Júróvísjón samkvæmt venju, en árangurinn verður ekki jafn góður og búist verður við.
Erlendar stórstjörnur og listamenn halda áfram að heimsækja landið. Justin Bieber heldur tónleika á landinu í september. Einhverjir embættismenn verða ósáttir við að fá ekki frímiða á tónleikana í krafti embættis síns. Meðan á dvöl Biebers hér stendur sýnir hann af sér hegðun sem eftir verður tekið. Íslendingar verða hneykslaðir af framkomu hans.
Erlendir kvikmyndagerðarmenn sýna landinu áhuga. Í það minnsta ein stórmynd verður tekin upp að hluta til hér á landi í sumar eða í haust. Íslenskir leikarar fá bitastæð hlutverk í fleiri erlendum stórmyndum og sjónvarpsþáttum.
Eldri tónlistarmenn sem lítið hafa verið í sviðsljósinu undanfarin ár vekja athygli á sér hér heima. Mikið verður um hvers konar afmælis- og endurkomutónleika.
Færri íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar á árinu en á síðasta ári. Bókaútgáfa verður í meðallagi, en engin stórtíðindi gerast á því sviði. Arnaldur og Yrsa keppa áfram um hylli lesenda. Nokkur lægð verður yfir útgáfu nýrrar íslenskrar tónlistar, en gömul tónlist, safnplötur og endurútgefið íslenskt efni seljast sem aldrei fyrr.
Fjölmiðlar
Lestur dagblaða minnkar, sem og áhorf á hefðbundna, línulega sjónvarpsdagskrá, einkum hjá yngra fólki.
Það verða áfram niðurskurður og uppsagnir hjá ríkisútvarpinu. Hefðbundnum sjónvarpsstöðvum og útvarpsstöðvum gengur illa vegna nýrri leiða til að nálgast afþreyngarefni. Dagskrárgerð flyst í auknum mæli yfir á internetið.
Virkir í athugasemdum og hlustendur Útvarps sögu fá óþarflega mikla athygli. Mikið verður um kynþáttafordóma þeirra á meðal í tengslum við umræður um trúarbrögð, innflytjendamál og jafnréttismál.
Íþróttir
Íslendingar keppa á EM í handbolta í janúar, en árangur þeirra verður lakari en oft áður.
Nokkrir Íslendingar keppa á ólympíuleikunum, en komast ekki á verðlaunapalla.
Íslendingar fara á EM í fótbolta í sumar. Árangurinn verður ekki í samræmi við væntingar. Íslendingar líta þó á hann sem sigur, hvernig sem úrslitin verða og kemur höfðatalan þar við sögu. Íþróttaspekúlantar réttlæta árangurinn með því að minnast á að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt karlalandslið tekur þátt í keppni af þessari stærð.
Að minnsta kosti einn íslenskur íþróttamaður vinnur þó sigur erlendis, en af því að viðkomandi er ekki í boltaíþróttum vekur það litla sem enga athygli.
Fræga fólkið
Fyrrverandi stjórnmálamaður deyr á árinu. Einnig einstaklingur sem hefur verið viðloðandi skemmtanabransann.
Þekktur sjónvarpsmaður gengur í hjónaband á árinu. Einnig þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum.
Einhver frægur eignast barn á árinu.
Einhver annar frægur skiptir um starfsvettvang.
Íslenskt par eða hjón sem hafa verið milli tannanna á fólki slíta samvistum á árinu.