Browsed by
Author: Atli

Meirihlutinn og minnihlutinn

Meirihlutinn og minnihlutinn

Nú eru menn allsstaðar á landinu að mynda meirihluta. Þessar meirihlutamyndanir eru afleiðingar þess að á laugardaginn voru kosnir fulltrúar til að sitja í stjórnum sveitarfélaga.

Dæmi 1: Í Reykjavík voru kosnir 23 borgarfulltrúar. Nú hafa borist fréttir af því að 12 af þeim vilji hugsanlega vinna saman.

Dæmi 2: Í Hafnarfirði voru kosnir 11 bæjarfulltrúar. 6 þeirra hafa samþykkt að vinna saman.

Við (þ.e. við sem mættum á kjörstað á annað borð) vorum að kjósa ákveðinn fjölda fulltrúa til að vinna saman í stjórn viðkomandi sveitarfélags. Við vorum ekki að kjósa þessa 12 eða 6 til að vinna saman og 11 eða 5 til að sitja hjá og firra sig ábyrgð af því að þeir eru í minnihluta.

Það ætti ekki að þurfa að hafa ákveðna meiri- eða minnihluta í sveitarstjórnum. Enga stjórn eða stjórnarandstöðu. Þessir 23 eða 11, eða hver sem fjöldi fulltrúa er, eiga bara að vinna saman. Allir. Til þess voru þau kosin.

Þetta er ekki eins og á alþingi, þar sem meirihluti þess verður að styðja, eða a.m.k. að sætta sig við ríkisstjórnina.

Ég finn a.m.k. ekkert við lauslega yfirferð á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 um að í stjórn sveitarfélags skuli vera fyrirfram skilgreindir meiri- og minnihlutar. Ef einhver getur bent mér á hvar það stendur í lögum skal ég kannski skipta um skoðun.

Svo eru sveitarstjórnarfulltrúar að fjalla um málefni sem þeir eru 90% sammála um. Held ég. Um hin 10 prósentin mega menn svo rífast og komast að einhverju samkomulagi um.

Þannig að:
Vinnið meira saman.
Því það er meira gaman.

Annállinn 2017

Annállinn 2017

Þetta er búið að vera ömurlegt ár, svona í stóra samhenginu. Trump forseti í Bandaríkjunum. Kim leiðtogi í Norður-Kóreu. Þjóðernispopúlismi, einræðistilburðir og skoðanakúgun ráðandi meðal stjórnmálamanna í heiminum. Við virðumst ekki ætla að læra neitt af sögunni.

Og ekki var það betra á Íslandi. Ung kona myrt eftir djamm í miðbæ Reykjavíkur og líkinu komið fyrir á afviknum stað. Ungur maður myrtur á Austurvelli. Æðstu embættismenn þjóðarinnar hylma yfir með barnaníðingum og kynferðisafbrotamönnum. Íslendingar fá tækifæri til breytinga, en glutra því niður og kjósa bara það sama yfir sig aftur.

Þetta var 2017 í grófum dráttum.

En fyrir mig hefur þetta samt verið ágætis ár. Heilsan hefur verið fín, ég hef haft nóg að gera og tímar til að gleðjast í góðra vina hópum hafa verið fjölmargir.

Ég hef ekki tekið myndir af því öllu. Því stundum er betra að njóta augnabliksins án þess að heimurinn og samfélagsmiðlar fái að vita af því.

En svona var árið 2017 í myndum:

Það hófst í Borgarnesi, eins og venjulega.

Áramótaflugeldar í Borgarnesi
Áramótaflugeldar í Borgarnesi

Mætti á árlegt ættarþorrablót, m.a. með þessum:

Af þorrablóti Syðra-Lónsættar 2017
Af þorrablóti Syðra-Lónsættar 2017

Útskrifaðist með tvær háskólagráður. Vantar nú tvær í viðbót til að verða eins og Georg.

Tvö útskriftarskírteini
Útskriftarskírteinin

Eignaðist þessa litlu frænku:

Anna Jakobína
Anna Jakobína

Mætti á árshátíð í þessari múnderingu:

Á leið á 80s árshátíð
Á leið á 80s árshátíð Kammerkórs Hafnarfjarðar

Gekk upp á Helgafell. Samtals mun ég hafa komið þangað á toppinn 80 sinnum á árinu.

Á Helgafelli 30. mars.

Byrjaði að vinna þarna:

Neshagi 16, húsnæði Reiknistofnunar Háskóla Íslands.
Neshagi 16, húsnæði Reiknistofnunar Háskóla Íslands.

Klæddist fjólubláa búningnum reglulega á vordögum.

Á sjómannadaginn.
Á sjómannadaginn.

Fór með þessu fólki til Münchenar, Salzburgar og nágrennis…

Lúðrasveit Hafnarfjarðar og fylgihlutir í Salzburg.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar og fylgihlutir í Salzburg.

…spilaði á trompet…

Á tónleikum í Mirabell-garðinum í Salzburg.
Á tónleikum í Mirabell-garðinum í Salzburg.

…og drakk ógrynnin öll af bjór.

Enn ein krúsin tæmd í Augustiner-bjórgarðinum í München.
Enn ein krúsin tæmd í Augustiner-bjórgarðinum í München.

Færði mig um set í vinnunni og flutti þangað:

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands.

Naut útsýnis í vinnunni inn á milli skyldustarfa.

Öskjuhlíð og nágrenni, séð út um glugga á aðalbyggingu Háskóla Íslands.
Öskjuhlíð og nágrenni, séð út um glugga á aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Fór með þessu fólki í söngferðalag í Borgarfirði:

Hluti af Kammerkór Hafnarfjarðar.
Hluti af Kammerkór Hafnarfjarðar.

Aðstoðaði við pallasmíði í Borgarnesi:

Pallur í smíðum í Klettavík í Borgarnesi.
Pallur í smíðum í Klettavík í Borgarnesi.

Fór í bæinn á menningarnótt

Menningarnótt í Reykjavík.
Menningarnótt í Reykjavík.

Sá Hringadróttinssögu í Hörpu.

Bíótónleikar í Hörpu
Bíótónleikar í Hörpu

Fór á Laugarvatn.

Hestur á túni fyrir utan héraðsskólann á Laugarvatni.
Hestur á túni fyrir utan héraðsskólann á Laugarvatni.

Spilaði á nokkrum októberfestum víðs vegar um bæinn.

Októberfest
Októberfest

Synti í Vesturbæjarlauginni.

Vesturbæjarlaug
Vesturbæjarlaug

Fór í nokkra göngutúra um Ægisíðuna:

Göngustígur við Ægisíðu.
Göngustígur við Ægisíðu.

Átti í nokkrum samskiptum við þennan vinnufélaga:

Rósalind háskólaköttur.
Rósalind háskólaköttur.

Spilaði á tónleikum með þessu fólki:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Flensborgarkórinn.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Flensborgarkórinn.

Hélt upp á jól og hækkandi sólargang undir lok ársins, með tilheyrandi letikasti og ofáti.

Jólatré
Jólatréð 2017

Þannig var nú það.

Ég þakka að lokum samveru og samskipti á árinu 2017, hversu mikil eða lítil sem þau voru.

Með von um að 2018 verði miklu betra og skemmtilegra.

Byrjunarreiturinn

Byrjunarreiturinn

Byrjunarreiturinn
Helgafell og Kaldárbotnar á fallegu síðsumarkvöldi.

Þessi staður er upphaf og endir alls, þ.e. þegar maður gengur upp á Helgafell í Hafnarfirði.

Þetta árlega

Þetta árlega

Það er komið að hinum árlega dagskrárlið hér að pirra unga sjálfstæðis- og frjálshyggjumenn og birta upplýsingar úr álagningarseðlinum.

Svona lítur hann út þetta árið:

Gjöld:
Ofgr. staðgr. fjárm.tsk og álag: -2.625

Inneign til útborgunar 30. júní, kr. 2.625

Ég ætla ekki að segja nei við þessum peningum – en líður samt eins og ég hafi verið að svíkja milljónir undan skatti við þessa endurgreiðslu.

Palli var einn í heiminum

Palli var einn í heiminum

Eru allir farnir í sumarfrí?
Ég sit í strætó klukkan átta – á leið 1 – á leið til Reykjavíkur og það er enginn hér – fyrir utan bílstjórann.
Venjulega er þetta álagstími og vagninn stappfullur.

Vildi næstum því óska að hann væri fullur og ég þyrfti að standa.

Fluttur

Fluttur

Það er komið að leiðarlokum hér. Ég er hættur að tjá mig á þessum vettvangi. Þessum vef verður þó ekki lokað – hann verður bara fluttur.

Því ég vil áfram eiga möguleika á því að láta rödd mína heyrast á internetinu. Því fer þó fjarri að ég ætli að gerast moggabloggari eða það sem verra er: virkur í athugasemdum. Þið vitið hvaða skoðun ég hef á svoleiðis fólki.

Lénið atlityr.com, verður látið deyja drottni sínum í lok sumarsins, þ.e. í byrjun september næstkomandi. Því það er óþarfi að eiga tvö lén ef maður er ekki fyrirtæki eða stofnun úti í bæ.

Við tekur vefurinn orðabókin.is. Þar má skoða íslensk slangurorð og nýyrði og koma með tillögur og uppástungur að viðbótum.

Svo eru vonandi allir að fylgjast með málfarslögreglunni, bæði á Facebook og Twitter. Því þar eru hlutirnir að gerast.

Mitt persónulega rövl má svo lesa áfram á vefnum atli.odabokin.is.

Útskrifaður/útskúfaður

Útskrifaður/útskúfaður

Námstörninni sem staðið hefur yfir frá því í september 2015 lauk um síðustu helgi með tvöfaldri útskrift.

Lokaverkefnið var vefurinn Orðabókin.is ásamt greinargerð um vinnslu vefsins.

En þó að vefnum hafi verið skilað sem lokaverkefni fær hann núna að öðlast sjálfstætt líf.
Hægt er að fylgjast með fréttum af verkefninu á vefnum blogg.ordabokin.is, á Facebook-síðu undir nafninu Málfarslögreglan eða á Twitter-síðunni malfarslogregla.

Og nú þegar verndaðs umhverfis skólans nýtur ekki lengur við er kominn tími til að fara aftur út í þetta raunverulega líf og leita að einhverri almennilegri vinnu.

Ef einhver þarna úti vill ráða til sín íslenskufræðing, menningarmiðlara og vefmiðlara, sem hefur reynslu af textagerð, miðlun og vinnslu efnis fyrir vefinn og ýmislegu fleira, má hafa samband hér.

Tvö útskriftarskírteini
Útskriftarskírteinin
Annállinn 2016

Annállinn 2016

Þetta hefur kannski ekki verið gott ár á alþjóðavettvangi. Til dæmis allir þessir listamenn sem hafa yfirgefið sviðið á árinu. Flóttamannavandi, stríð í Sýrlandi, þjóðernishyggja, hryðjuverk, kynþátta- og útlendingahatur úti um allan heim, Brexit í Bretlandi, Donald Trump í Bandaríkjunum, sjálfhverfir og gleymnir íslenskir kjósendur, þrælslundaðir Íslendingar sem láta endalaust vaða yfir sig og kjósa sama skítinn yfir sig aftur og aftur…

En við tölum ekki um pólitík hér!

Fyrir mig hefur þetta samt verið ágætt ár þrátt fyrir allt. Heilsan hefur verið fín, sem maður getur verið þakklátur fyrir, kominn á þennan aldur. Og það hefur verið nóg að gera. Til að sýna fram á það er hér hinn árlegi myndaannáll.

Árið 2016 var árið sem ég:

Byrjaði í Borgarnesi, eins og venjulega.

Flugeldur yfir Borgarnesi
Flugeldur

Bakaði þessa súkkulaðiköku.

Súkkulaðikaka, skreytt með jarðarberjum
Súkkulaðikaka

Mætti í eins árs afmæli hjá þessari dömu:

Ósk litla eins árs
Ósk litla eins árs

Hékk þarna stóran hluta ársins.

Bókhlaðan, snjór úti.
Bókhlaðan

Og hékk á þessu svæði.

Háskóli Íslands, aðalbygging séð að framan að vetri til.
Háskóli Íslands

Tók þátt í bingói…

Bingóspjald
Bingóspjald

…og vann þessa vinninga.

Bingóvinningar
Ekki vinningar af verri endanum!

Tók upp myndband fyrir bókhlöðuna…

Myndavél uppi á þaki Hótel Sögu.
Myndavél

…meðal annars ofan af þaki Hótel Sögu.

Bókhlaðan séð ofan af Hótel Sögu.
Bókhlaðan séð ofan af Hótel Sögu.

Mætti á þorrablót með þessu fólki (og fleiri ættingjum).

Nokkrir ættingjar á þorrablóti Syðra-Lónsættar.
Þorrablót Syðra-Lóns-ættar 2016.

Heimsótti RÚV

Inngangur að húsi ríkisútvarpsins
Ríkisútvarpið.

Mætti á æfingar og spilaði á tónleikum með þessu fólki

Lúðrasveit Hafnarfjarðar
Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Fékk mér far um Reykjavík með útsýnisstrætó…

Rauður útsýnisstrætó fyrir utan Hörpu.
Rauður útsýnisstrætó fyrir utan Hörpu.

…fór upp í turn Hallgrímskirkju…

Hallgrímskirkja
Hallgrímskirkja

…í Perluna…

Perlan
Perlan

…og fór í nokkra myndagöngutúra um miðborg Reykjavíkur til að búa til þessa ljósmyndabók. Gaf hana út í einu prentuðu eintaki.

Lækjartorg og Bankastræti í Reykjavík.
Í miðborg Reykjavíkur sumardaginn fyrsta.

Mætti á ársátíð í kúrekabúningi.

Kúrekabúningur
Yðar einlægur í kúrekabúningi.

Mótmælti á Austurvelli…

Alþingishúsið
Mótmæli fyrir utan Alþingishúsið.

…meðal annars út af þessum:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson með svínstrýni
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Tók þátt í fyrsta-maí-göngu í Hafnarfirði samkvæmt venju.

Kröfuspjöld fyrir utan Súfistann í Hafnarfirði
Sömu gömlu kröfuspjöldin

Söng á tónleikum með þessu fólki.

Kammerkór Hafnarfjarðar í Hafnarborg
Kammerkór Hafnarfjarðar

Gekk upp á Helgafell allt sumarið, samkvæmt venju.
Samtals mun ég hafa komið í 72 skipti upp á toppinn á þessu ári.

Uppi á Helgafelli
Yðar einlægur uppi á Helgafelli í Hafnarfirði.

Hitti Lilla apa í návígi!!!
OMG!!! Starstruck!

Lilli api
Lilli api

Spilaði með þessu fólki í sjónvarpsupptöku

Lúðrasveit Hafnarfjarðar
Lúðrasveit Hafnarfjarðar við upptökur á Borgarstjóranum.

Náði í þyrlu uppi á Helgafelli.

Þyrla á Helgafelli
Yðar einlægur með þyrlu á Helgafelli

Fór með þessu fólki í ferðalag um Suðurland.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar
Lúðrasveit Hafnarfjarðar við Hótel Geysi

Hékk þarna mest allt sumarið vegna vinnu.

Landspítali - Landakoti
Landspítali – Landakoti

Naut útsýnisins úr vinnunni.

Reykjavík
Útsýnið af fimmtu hæð Landakotsspítala.

Mætti á menningarnótt í Reykjavík.

Menningarnótt í Reykjavík
Mannfjöldi í miðborg Reykjavíkur á menningarnótt.

Mætti á ljósanótt í Reykjanesbæ með þessu fólki:

Lúðrasveit Hafnarfjarðar
Lúðrasveit Hafnarfjarðar enn einu sinni – nú á ljósanótt í Reykjanesbæ.

Spilaði á tónleikum og mætti í partý með þessu fólki (og fleirum sem eru ekki á myndinni):

Samband íslenskra lúðrasveita
Eitthvað lúðrasveitafólk að spila í Mosfellsbæ.

Fór í bústaðarferð með þessum vitleysingum:

Bassar og terónar
Nokkrir bassar og terónar úr Kammerkór Hafnarfjarðar

Spilaði á októberfesti.

Októberfest
Yðar einlægur í októberfestgallanum.

Fór á Baggalútstónleika í Háskólabíói.

Baggalútur og Ómar Ragnarsson
Baggalútur og Ómar Ragnarsson á tónleikum í Háskólabíói.

Hélt svo upp á hækkandi sólargang og jólin í lok ársins.

Jólatré
Jólatré

Og þannig var nú það.

Ef þið saknið mynda frá einhverjum atburðum þá er það af því að ég hef ekki verið nógu duglegur að taka myndir, svona almennt. Ég lofa að vera duglegri í myndatökum á næsta ári.

Ég vil þakka öllum sem með einum eða öðrum hætti hafa komið við sögu í lífi mínu á þessu ári – sama hversu stórt eða lítið hlutverk það hefur verið. Þið vitið hver þið eruð. Takk fyrir samveru og samskipti – með von um að næsta ár verði enn betra og skemmtilegra en það sem nú er senn á enda.

Takk, krakkar mínir!

Er bloggið dautt?

Er bloggið dautt?

Nei. Það er bara í pásu.

Þó að þessi vefur hafi verið óvirkur undanfarnar vikur hef ég samt verið duglegur að tjá mig á öðrum vettvangi; nefnilega á þessum vef, þar sem fluttar eru fréttir af gangi lokaverkefnisins sem ég er að vinna að í skólanum.

Lokaafurð verkefnisins verður vefurinn orðabókin.is, auk greinargerðar um framkvæmd og vinnslu vefsins. Þetta á allt saman að verða tilbúið til afhendingar 16. janúar næstkomandi og verður því í vinnslu þangað til.

Segulbandstækið

Segulbandstækið

Brúnt Fisher price segulbandstæki
Fisher price segulbandstæki. Mynd fengin af postcardsfromwonderland.com
Árið 1984 eða 1985 fór ég í aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég vil segja að það hafi verið hálskirtlataka, en er þó ekki viss. Ég var a.m.k. svæfður fyrir aðgerðina.

Það sem mestu máli skiptir er að eftir aðgerðina gáfu pabbi og mamma mér forláta Fisher-Price segulbandstæki fyrir að vera duglegur á sjúkrahúsinu. Þannig er sagan a.m.k. í minningunni af því hvernig ég fékk kassettutækið, en mig gæti þó verið að misminna.

Segulbandstækið var rafhlöðudrifið. Það var bæði hægt að hlusta á og taka upp spólur með því. Aftan á því var hátalari en framan á því var lítill hljóðnemi. Ég notaði það mikið næstu árin.

Með tækinu fylgdi gul segulbandsspóla með nokkrum lögum. Hún entist lengi eftir að segulbandstækið varð ónýtt og ég hætti að nota það. Í fyllingu tímans tók ég yfir lögin sem voru á henni. Ekki man ég hvað það var.

En þökk sé nútímatækni rakst ég á þessa spólu á dögunum. Því einhver snillingur hefur sett hana á Youtube. Ég tengi lögin ennþá við að liggja veikur uppi í rúmi.

Fyrsti hluti:

Annar hluti:

Þriðji hluti: