Browsed by
Category: Myndbönd

Myndaannállinn 2024

Myndaannállinn 2024

Þetta er búið að vera skrýtið ár. Skemmtilegt og leiðinlegt í bland. Það hafa skipst á skin og skúrir. Árið gaf og árið tók. Eins og venjulega hef ég lagt mig fram við að fylgjast ekkert með fréttum. Því það að fylgjast með fréttum er bara ávísun upp á leiðindi og þunglyndi. En ég kemst þó ekki hjá því að vita hvað er að gerast í þjóðfélaginu.

Á alþjóðavettvangi: Stríð í Úkraínu. Þjóðarmorð í Palestínu. Og þetta á bara eftir að versna! Appelsínuguli karlinn aftur að verða forseti í Ameríkuhreppi. Of mikið af geðsjúklingum og brjálæðingum við völd í heiminum. Meira kynþáttahatur, meira hatur gagnvart minnihlutahópum. Útlendingar óvelkomnir allsstaðar – og sérstaklega þeir sem hafa ekki rétta húðlitinn.

Á Íslandi: Útlendinga-„vandamál“. Sem er samt ekkert vandamál, heldur bara skilgreint sem vandamál af þeim sem vilja ekki útlendinga á Íslandi, og vilja kenna útlendingum um allt sem aflaga fer í stjórnkerfi landsins. Nokkur eldgos. Veit ekki hversu mörg. Hnífaárásir. Ung stúlka myrt í miðbæ Reykjavíkur. Íslensk ungmenni að vopnbúast og særa og drepa hvert annað. Verðhækkanir framundan. Verðbólgan étur launin okkar. Nýr forseti. Alþingiskosningar. Ný ríkisstjórn. Sjáum til hvernig henni gengur. Ríku- og frekukallarnir eiga samt eftir að fara á yfirsnúning af reiði út af henni. Sem er gott á þá!

Ég man ekki meira, og vil ekki rifja upp fleiri fréttir úr fjölmiðlum.

Fyrir mig hefur þetta þó verið ágætis ár, þrátt fyrir allt, svona þannig séð. Það hefur dálítið einkennst af ferðalögum. Hef aldrei farið í jafn margar flugferðir á einu ári. Flugviskubitið dálítið farið að segja til sín.

En rifjum upp hvernig þetta ár hefur verið hjá mér. Sem er tilgangurinn með þessari árlegu færslu. Því þetta er ekki vettvangur fíflagangs. Það er ekkert gamanmál hér á ferðinni. Hér er mynda- og myndbandaannáll ársins 2024.

Það byrjaði á sama stað og 2023 endaði, í Birkiberginu í Hafnarfirði.

Flugeldar og svifriksmengun yfir hrauninu í Setbergshverfinu í Hafnarfirði.
Flugeldar og svifryksmengun yfir Hafnarfirði. Þetta fór beint í lungun á mér og ég var hóstandi og með kvef í tvær–þrjár vikur eftir þetta. Note to self: Fara ekki út í kvöld að fylgjast með flugeldunum!

Amma kvaddi okkur í upphafi ársins.

Herdís Guðmundsdóttir, 1930–2024.
Herdís Guðmundsdóttir, 11. desember 1930 – 22. janúar 2024

Mætti á þessa tónleika í Hörpu.

Tónleikar í Hörpu 26. janúar 2024.
Egill Ólafsson heiðraður í Hörpu 26. janúar.

Fylgdist með mótmælum á Austurvelli.

Mótmæli á Austurvelli gegn þjóðarmorðum í Palestínu 5. febrúar 2024
Mótmæli vegna þjóðarmorða í Palestínu.

Tók reglulega sundspretti í Vesturbæjarlauginni.

Vesturbæjarlaugin í Reykjavík á sólríkum vetrardegi.
Vesturbæjarlaugin á köldum en björtum vetrardegi.

Fylgdist með nokkrum eldgosum. Veit ekki hversu mörgum.

Háskólatorg og Lögberg. Fyrir miðri mynd sést mökkur af eldgosi.
Fyrir miðri mynd sést í mökkinn af febrúareldgosinu frá Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Mætti á árshátíð í Hörpu.

Á árshátíð Háskóla Íslands í Hörpu 9. febrúar 2024
Árshátíðarfínn í Hörpu, á árshátíð Háskóla Íslands 9. febrúar.

Mætti á þorrablót með þessu fólki (og fleirum).

Þorrablót Syðr-Lónsættar 2024.
Á þorrablóti Syðra-Lónsættar 10. febrúar.

Mætti á Háskóladaginn.

Háskóladagurinn á Háskólatorgi 2024.
Háskóladagurinn á Háskólatorgi 2. mars.

Hélt upp á páskana með súkkulaðiáti.

Súkkulaði. Því ég nenni ekki lakkrís og hlaupi sem er í öllum páskaeggjum í dag.

Fór til Kaupmannahafnar 16.-21. apríl. Það voru nítján ár síðan síðast. Sama dag og ég kom þangað varð stórbruni í kauphöllinni Børsen. Ég var samt ekki að fikta með eld þarna. Hrós til íslenksra fjölmiðla sem notuðu fyrirsögnina Eldur í Kaupinhafn. (Samstöðin, Viðskiptablaðið).

Hluti af Kaupmannahöfn séður frá toppi Sívalaturnsins.

Með nokkrum af bestu vinnufélögum í heimi á NUASkom-ráðstefnunni í Kaupmannahöfn (þeim sem ég náði á mynd):

Samsett mynd. Björn, Hlín, Jón Örn, Sigfús, Linda, Marta, Bryndís, Kolbrún og Guðmundur.

Meira frá Kaupinhöfn:

Aðalbygging Kaupmannahafnarháskóla
Bragðað á bjórframleiðslu heimamanna í Kaupmannahöfn. Næstum því endalaust úrval af kraftbjór!
Nýhöfn.
Kóngsins nýjatorg
Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn. Þar sem Jónas H. drakk sinn síðasta sopa. Hvids vinstue.
Þarna endaði Jónas okkar svo ævi sína, e.t.v. eftir of marga sopa hjá Hvít.

Frá Kaupmannahöfn lá leiðin til Münchenar. Aðalmarkmið með komunni þangað var að heimsækja Frühlingsfest, sem er n.k. litla systir Októberfests.

Ráðhúsið í München.
Frühlingsfest á Theresienwiese í München. Litla systir Októberfestsins.
Augustiner-tjaldið á Frühlingsfest í München.

Sá DJ Ötzi eitt kvöldið á Frühlingsfestinu.

DJ Ötzi tryllir lýðinn!

Þessi mættu líka til Münchenar, en án hljóðfæranna:

Nokkur af humlavinum Lúðrasveitar Hafnarfjarðar: Andrés, Brynjar, Ragnar, Egill, Eiríkur og Helena.

Spilaði fullt með þessu fólki, s.s. í skrúðgöngum, októberfestum, á tónleikum og allskonar.

Besta lúðrasveit landsins: Lúðrasveit Hafnarfjarðar.

Söng með þessu fólki:

Kammerkór Hafnarfjarðar á æfingu fyrir tónleika í Hafnarfjarðarkirkju.

Passaði þessa í smá stund.

Katla.

Skoðaði Þingvelli – í leiðindaroki og rigningu. Íslenska sumarveðrinu.

Almannagjá á Þingvöllum.

Labbaði nokkrum sinnum upp á Helgafell, eftir því sem veður leyfði þetta sumarið. Mun þó ekki hafa komið þangað upp nema 18 sinnum á árinu.

Undirritaður uppi á Helgafelli í Hafnarfirði.

Hélt líka áfram að hjóla. Komst upp í rúmlega 7000 kílómetra á árinu. Þeir hefðu getað orðið rúmlega 8000. En það hlaut sviplegan endi 4. október þegar það var keyrt á mig og hjólið fór í hakk. Hef varla snert það síðan, einkum vegna veðurs og færðar. Það er samt allt í lagi með mig – og hjólið, eftir að það var búið í viðgerð og uppherslu. Tek þráðinn almennilega upp aftur þegar snjóa leysir og ófærðin verður yfirstaðin. Því það er ekki gert ráð fyrir öðru en bílaumferð yfir vetrartímann á Íslandi.

Hjólið á meðan allt lék í lyndi. 7000 kílómetrar hjólaðir 26. ágúst.

Hékk í Tjaldinu í Hjarta Hafnarfjarðar næstum því alla daga sem það var opið í júlí.

Fyrir utan Tjaldið í Hjarta Hafnarfjarðar í júlí.
Paparnir í Hjarta Hafnarfjarðar.
Með nokkrum fastagestum í Tjaldinu.
Fjörðurinn fagri eitt sumarkvöld í júlí.

Tók þátt í lúðrabardaga á menningarnótt. Og vann!

Við svilarnir með Svaninum á menningarnótt. Atli og Sonja.

Fór með þessu fólki til Bad Orb í Þýskalandi:

Hluti af lúðrasveitinni Svaninum að gera sig tilbúna fyrir marseringu í Bad Orb.

Meira frá Bad Orb, í formi Instagram-sögu

Mætti til Egilsstaða með þessu fólki, og fleirum, á landsmót lúðrasveita.

Fór til Akureyrar í október.

Á Akureyri

Sá Litlu hryllingsbúðina í Samkomuhúsinu á Akureyri

Plantan Auður II í hryllingsbúðinni á Akureyri.

Undirbjó jólin, eftir því sem ég nennti.

Ósteikt laufabrauð.

Fór með þessu fólki til Glasgow, og smá til Edinborgar rétt fyrir jólin:

Á jólamarkaði í Glasgow. Atli, Gunnhildur, Íris, Gréta (mamma) og Snorri.

Sá Travis á tónleikum í Glasgow.

Á Travis-tónleikum í OVO Hydro í Glasgow, 21. desember.

Meira frá Glasgow (og Edinborg) samsett úr Instagram-sögu.

Hélt svo samkvæmt venju upp á jól og hækkandi sólargang síðustu viku ársins, með tilheyrandi letikasti, ofáti og öllu sem ég leyfi mér ekki að gera svona dags- daglega…

Gleðileg jól!

…eins og að borða Kókópuffs með Baileys útá.

Kókópuffs – Bara um jólin. Það er samt betra með mjólk útá!

Og þannig var nú það.

Þakka ykkur öllum fyrir samskipti og samveru á árinu sem senn er liðið, hversu mikil eða lítil sem þau voru. Með von um að þau verði enn betri, meiri og skemmtilegri á næsta ári. Og bara allt saman.

Munið svo að missa ykkur ekki alveg í flugeldageðveikinni í kvöld. Því sum okkar hata flugelda og geta ekki þetta svifryk! Það er sko hægt að gera meira en kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitir. Eins og að kaupa rótarskot. Eða bara styrkja þær án þess að fá nokkuð í staðinn, nema gleðina og ánægjuna.

Ást og friður til ykkar allra.
Gangið hægt um gleðinnar hurð.
Gerið allt á næsta ári sem ég mundi gera!

Á sama tíma að ári!

Segulbandstækið

Segulbandstækið

Brúnt Fisher price segulbandstæki
Fisher price segulbandstæki. Mynd fengin af postcardsfromwonderland.com
Árið 1984 eða 1985 fór ég í aðgerð á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ég vil segja að það hafi verið hálskirtlataka, en er þó ekki viss. Ég var a.m.k. svæfður fyrir aðgerðina.

Það sem mestu máli skiptir er að eftir aðgerðina gáfu pabbi og mamma mér forláta Fisher-Price segulbandstæki fyrir að vera duglegur á sjúkrahúsinu. Þannig er sagan a.m.k. í minningunni af því hvernig ég fékk kassettutækið, en mig gæti þó verið að misminna.

Segulbandstækið var rafhlöðudrifið. Það var bæði hægt að hlusta á og taka upp spólur með því. Aftan á því var hátalari en framan á því var lítill hljóðnemi. Ég notaði það mikið næstu árin.

Með tækinu fylgdi gul segulbandsspóla með nokkrum lögum. Hún entist lengi eftir að segulbandstækið varð ónýtt og ég hætti að nota það. Í fyllingu tímans tók ég yfir lögin sem voru á henni. Ekki man ég hvað það var.

En þökk sé nútímatækni rakst ég á þessa spólu á dögunum. Því einhver snillingur hefur sett hana á Youtube. Ég tengi lögin ennþá við að liggja veikur uppi í rúmi.

Fyrsti hluti:

Annar hluti:

Þriðji hluti:

Föndrið

Föndrið

Á vorin koma skólakrakkar heim með allt föndrið úr skólanum sem þeir hafa gert yfir veturinn. Þannig er það líka í Háskóla Íslands.

Hér er megnið af því sem ég hef gert í vetur, ýmist einn eða með öðrum – og allt sem verður birt opinberlega:

Hlaðvarp: Allt um októberfest

Októberfest er meira en bara bjór, þó að hann sé vissulega mikilvægur hluti af hátíðinni. Ef vel á að takast til þarf líka að hafa viðeigandi tónlist, viðeigandi föt og viðeigandi mat. Hér er fjallað um það helsta sem þarf að vera til staðar til að skapa rétta andann fyrir októberfestið.

Lífssagan: Ég lít á þetta sem geðrækt – Gréta og gærurnar

Gréta Pálsdóttir (mamma) hefur frá unga aldri verið áhugamanneskja um ull og ullarvinnslu. Hún hefur unnið með ullina á öllum stigum, allt frá því hún kemur af skepnunni þar til hún verður að fullkláraðri afurð. Hér spjallar hún um þetta áhugamál sitt og sýnir okkur ullina á nokkrum ólíkum framleiðslustigum.

Hugvekja: Gargandi snilld

Unnið ásamt þeim sem nefnd eru í kreditlistanum í lok þáttarins.

Kynningarmyndband fyrir Bókhlöðuna

Unnið ásamt Áslaugu Tóku Gunnlaugsdóttur, í samvinnu við Bókhlöðuna.

Hvað er máltækni og hvaða máli skiptir hún fyrir íslensku?

Unnið ásamt Viðari Snæ Garðarssyni, í samvinnu við Vísindavefinn og Eirík Rögnvaldsson.

Reykjavík

Ljósmyndabók, þar sem skoðuð eru áhrif ferðamennsku á Reykjavík. Einnig er borgin skoðuð með augum ferðamanna.
Smelltu hér til að sækja bókina á PDF-formi.

Tónleikatilkynning

Tónleikatilkynning

Auglýsingaplakat Kammerkórs Hafnarfjarðar, vor 2016
Fuglar og fiðrildi – og aðrir vorboðar
Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hafnarborg í Hafnarfirði í kvöld, sunnudaginn 8. apríl og hefjast klukkan 20:00.

Miðaverð er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir námsmenn og eldri borgara.

Á tónleikunum verða fluttir vorboðar af ýmsum toga, allt frá frönskum madrígölum til laga eftir Billy Joel og Bítlana.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Fiðrildið er eitt af lögunum sem verður á dagskránni:

Tilkynning dagsins

Tilkynning dagsins

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju á morgun, laugardaginn 9. apríl kl. 14.

Stærsta verkið á efnisskránni að þessu sinni er Sinfóníetta nr. 3 eftir góðvin sveitarinnar, Philip Sparke, en einnig má nefna verk eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og marsa eftir Árna Björnsson, John Philip Sousa og Kenneth Alford. Þá stígur brasskvintett fram og leikur gamla ragtime slagarann That’s a plenty við undirleik lúðrasveitarinnar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Athugið að það verður ekki posi á staðnum.

Hér er sýnishorn af því sem verður á dagskránni:

Edinborg á aðventunni

Edinborg á aðventunni

Um síðustu helgi, frá fimmtudegi til þriðjudags, var ég í Edinborg ásamt stórfjölskyldunni. Hér eru tíu handahófskenndar staðreyndir sem ég komst að um Edinborg og Skotland í þessari ferð:

      1. Edinborgarbúum virðist vera alvara með að ganga í jólapeysum á þessum árstíma.

      2. Elsta bygging borgarinnar er í Edinborgarkastala. Það er St. Margrétarkapellan, byggð um 1130.

      Margrétarkapellan (St. Margarets Chapel), elsta bygging í Edinborgarkastala
      Margrétarkapellan (St. Margarets Chapel), elsta bygging í Edinborgarkastala

      3. Á salernunum á barnum Whistlebinkies er hægt að kaupa kynlífsleiktæki.

      Sjálfsali með hjálpartækjum ástarlífsins
      Hjálpartæki ástarlífsins í sjálfsala.

      4. Skotar eru stoltir af þjóðarréttum sínum, á borð við haggis. Þar er hægt að fá ýmis tilbrigði við haggis, allt frá djúpsteiktu á veitingastöðum yfir í innpakkað í umbúðir fyrir túrista. Eitthvað sem Íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar, í stað þess að bjóða endalaust upp á pizzur, hamporgara og samlokur.

      5. Alvöru sekkjapípur kosta allt að 1000 pundum. Það er líka hægt að fá byrjendahljóðfæri sem kosta um 120 pund og hljóðfæri í barnastærð, sem kosta um 20 pund. Ég fékk mér eina fyrir byrjendur.

      Sekkjapípa
      Sekkjapípa fyrir byrjendur.

      6. Skemmtanamenningin er öðruvísi en á Íslandi. Í Edinborg mæta menn á djammið snemma um kvöldið. Flestum vínveitingahúsum og krám er lokað á miðnætti. Aðeins klúbbar með háværri danstónlist eru opnir lengur.

      7. Það var óvenjuleg hitabylgja í Edinborg fyrir þennan árstíma. Rigning og rok og fimm til tíu stiga hiti er ekki venjulegt veður í Edinborg fyrir jólin.

      8. Það er til hljómsveit sem heitir Red hot chilli pipers. Meðlimir hennar eru þrír og spila allir á sekkjapípur.

      9. Á jólamarkaðnum og í búðum hljómar stanslaust sama jólatónlistin. Um eina helgi fyrir jólin í Edinborg er vel hægt að fá of stóran skammt af jólalögum.

      10. Þekktasti bjór borgarinnar er Tennents. Einu sinni var tekin upp auglýsing fyrir hann á Íslandi.

Októberfest

Októberfest

Eina alvöru októberfestið í Hafnarfirði verður haldið næstkomandi laugardag.

Októberfest snýst ekki bara um að drekka bjór í október, þó að hann sé vissulega mikilvægur. Það snýst líka um leðurhosur, dirndla og þýska þjóðlagatónlist.

Öll þessi blanda verður á Ölstofu Hafnarfjarðar (áður Enska barnum í Hafnarfirði) laugardaginn 10. október, þegar Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur sitt árlega októberfest. Talið verður í fyrsta lagið klukkan 20:00.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Í þetta skiptið mætir stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson á svæðið og syngur með!

Aðgangur er ókeypis.

Anton frá Týról verður á staðnum.

17. maí

17. maí

Í dag er þjóðhátíðardagur Norðmanna.
Fyrirheitna landsins.
Því ber að fagna.

Vorið eftir Grieg verður til dæmis flutt á tónleikum Kammerkórs Hafnarfjarðar sem hefjast kl. 20:30 í kvöld. Sissel verður ekki með, en Hallveig Rúnarsdóttir syngur með í staðinn.

Í dag er líka alþjóðlegur bökunardagur.
Þá er ætlast til þess að fólk baki kökur handa vinum og vandamönnum.

Túbudagurinn

Túbudagurinn

Það er ekki bara verkalýðsdagurinn í dag.

Í dag er líka alþjóðlegi túbudagurinn.
Hann hefur verið haldinn árlega, fyrsta föstudag í maí síðan árið 1979, til að heiðra túbuleikara, sem þurfa að ganga í gegnum allt vesenið sem fylgir því að spila á túbu, til dæmis það að ferðast með þetta þunga hljóðfæri. Dagurinn er líka haldinn til að minnast þess að túban er ekki bara hljóðfæri sem spilar ómerkilegt úm-pa úm-pa í skrúðgöngum, og til að berjast á móti staðalímyndum sem túbuleikarar hafa á sér, t.d. þeirri að vera ekki alvöru tónlistarmenn heldur bara stórir feitir karlar með bollukinnar og sterk lungu.

Enda ekki vanþörf á.

Túbuleikarar eru líka fólk!

Til hamingju með daginn, túbuleikarar.