Harry Potter og álagabarnið

Harry Potter og álagabarnið

Höskuldarviðvörun: Þau sem eiga eftir að lesa bókina Harry Potter and the cursed child ættu að hætta hér.

Bókarkápa: Harry Potter and the cursed child
Harry Potter and the Cursed child. Mynd fengin af Wikipediu.

Í nýjustu Harry Potter bókinni, Harry Potter and the cursed child (sem á íslensku gæti útlagst sem Harry Potter og álagabarnið) er Harry Potter orðinn fullorðinn – fjölskyldufaðir um fertugt, sem þarf að takast á við áhyggjur sínar af vinnunni, fjölskyldunni og einkalífinu. Sagan hefst nítján árum eftir að upprunalegu bókaröðinni lýkur. Nú er Albus Severus Potter, sonur Harrys og Ginny, í aðalhlutverki ásamt besta vini sínum, Scorpius Malfoy (syni Dracos Malfoy). Sagan er ekki í skáldsöguformi, heldur er þetta handrit að samnefndu leikriti. Bókin er því frekar fljótlesin.

Við könnumst við fyrsta atriði sögunnar, sem gerist á King’s cross lestarstöðinni, úr síðasta kafla, eða eftirmála Dauðadjásnanna. Albus er að hefja sitt fyrsta ár í Hogwarts galdraskólanum. Það er einnig frænka hans, Rose Granger-Weasley. Í lestinni á leiðinni í skólann hitta þau Scorpius Malfoy. Þarna býst maður við að komið sé nýtt þríeyki til sögunnar, eins og Harry, Ron og Hermione, en svo er ekki, því Rose kemur lítið sem ekkert meir við sögu.

Árin líða. Albus (sem er í Slytherin-heimavistinni) kemst á unglingsárin. Samskipti hans við foreldrana versna og hann á erfitt uppdráttar í skólanum, en hann á vin og sálufélaga í Scorpius Malfoy. Þeir komast í kynni við Delphi, galdrastelpu um tvítugt, sem hefur aldrei verið í Hogwarts skólanum. Hún er kynnt sem frænka Cedrics Diggory og hjúkrunarkona föður hans á elliheimilinu sem hann býr á. En síðar í sögunni kemur hennar sanna eðli í ljós.

Eins og við munum úr bókaflokknum dó Cedric Diggory í þrígaldraleikunum (sem sagt er frá í Eldbikarnum). Albus, Scorpius og Delphi ákveða að reyna að ferðst aftur í tímann og koma í veg fyrir að Cedric deyi. Með aðstoð ummyndunardrykksins stela þau tímastilli af skrifstofu Hermione Granger (sem nú er galdramálaráðherra) og þar með fer atburðarásin af stað. Við könnumst við tímastillinn úr Fanganum frá Azkaban. Strákarnir ferðast aftur í tímann, breyta gangi sögunnar og þar með lífi sínu og foreldra sinna.

Ég hef lengi verið pínulítið veikur fyrir sögum og ævintýrum þar sem tímaflakk eða fikt í tímanum kemur við sögu. (Meðal annars þess vegna finnst mér Fanginn frá Azkaban sú besta af Harry Potter bókunum). En þetta var bara of mikið fyrir mig. Samtals ferðast strákarnir fjórum sinnum til fortíðarinnar og aftur til nútímans. Tímaferðalögin virðast ekki hafa neinn tilgang í sögunni annan en þann að leyfa okkur að sjá gamalkunnar persónur og atburði. Við endurupplifum þrígaldraleikana; Cedric Diggory, Severus Snape, Rubeus Hagrid og Dumbledore skólastjóri koma aftur við sögu (sá síðastnefndi þó bara sem málverk), auk annarra persóna og atburða sem við þekkjum úr fyrri bókum.

Persónusköpunin og söguþráðurinn líða dálítið fyrir allt þetta tímaflakk. Ron Weasley er t.d. of mikið bara-grínkarakter. Hans eina hlutverk í þessari sögu er að gera hana fyndna. Það var þó gaman að sjá hvað var orðið um aðalpersónurnar þrjár eftir að við skildum við þau síðast. Ég hefði viljað sjá meiri áherslu á nýju persónurnar (Potter- og Malfoy-synina og Delphi). Sagan nær ekki almennilegu flugi fyrr en kannski við lok þriðja og upphaf fjórða þáttar, þegar við fáum að vita hverra manna (eða hverra anda?) Delphi er. Í heild er of mikill aðdáendabragur (fan-fiction-bragur) yfir sögunni. Ég samþykki hana ekki alveg sem hluta af Harry Potter kanónunni. Mér leiddist þó aldrei lesturinn og las bókina næstum því í einum rykk.

En það má ekki gleyma því að eitt er að lesa leikrit, þar sem maður þarf að sjá persónur og atburði fyrir sér sjálfur. Annað er að horfa á leikrit þar sem allt er ljóslifandi fyrir framan mann. Ég get ímyndað mér að þetta sé flott sýning þó að sagan sé kannski ekkert sérstök. Það kæmi mér ekki á óvart að þetta verði sýnt í Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu innan fimm til tíu ára. (Geta íslenskir Harry-Potter-nördar ekki þrýst á leikhússtjórana að taka þetta til sýningar?) Þá ætla ég a.m.k. að mæta í leikhúsið.

Álagningarseðillinn

Álagningarseðillinn

Þá er komið að því að pirra unga sjálfstæðismenn og frjálshyggjupésa og birta upplýsingar úr álagningarseðlinum. Hér eru minn hluti.

Gjöld:
Útsvar og tekjuskattur: -84.720 kr.
Fjármagnstekjuskattur: -3.370 kr.
Samtals: -88.090.

Samtals á ég því inni 88.090 krónur þetta árið hjá skattinum. Sem kemur sér vel á þessum síðustu og verstu tímum, þegar maður er fátækur námsmaður.

Lilli api

Lilli api

Lilli api var átrúnaðargoð æsku minnar.

Ég átti í ástar-haturssambandi við hann.

Platan með Brúðubílnum var spiluð í gegn þegar ég var 5-6 ára.
Hún er enn greypt í huga mér. Því mér detta reglulega í hug einhverjar tilvitnanir af plötunni.

Svo varð ég níu ára.
Þá byrjaði Lilli api í sjónvarpinu – í Stundinni okkar.
Mér fannst það ekki skemmtilegt og hætti smám saman að horfa á Stundina.

Í dag sá ég svo Lilla við æfingar í Hallargarðinum í miðbæ Reykjavíkur.
Ég hef aftur tekið hann í sátt eftir allt saman.

Lilli api
Lilli api

Föndrið

Föndrið

Á vorin koma skólakrakkar heim með allt föndrið úr skólanum sem þeir hafa gert yfir veturinn. Þannig er það líka í Háskóla Íslands.

Hér er megnið af því sem ég hef gert í vetur, ýmist einn eða með öðrum – og allt sem verður birt opinberlega:

Hlaðvarp: Allt um októberfest

Októberfest er meira en bara bjór, þó að hann sé vissulega mikilvægur hluti af hátíðinni. Ef vel á að takast til þarf líka að hafa viðeigandi tónlist, viðeigandi föt og viðeigandi mat. Hér er fjallað um það helsta sem þarf að vera til staðar til að skapa rétta andann fyrir októberfestið.

Lífssagan: Ég lít á þetta sem geðrækt – Gréta og gærurnar

Gréta Pálsdóttir (mamma) hefur frá unga aldri verið áhugamanneskja um ull og ullarvinnslu. Hún hefur unnið með ullina á öllum stigum, allt frá því hún kemur af skepnunni þar til hún verður að fullkláraðri afurð. Hér spjallar hún um þetta áhugamál sitt og sýnir okkur ullina á nokkrum ólíkum framleiðslustigum.

Hugvekja: Gargandi snilld

Unnið ásamt þeim sem nefnd eru í kreditlistanum í lok þáttarins.

Kynningarmyndband fyrir Bókhlöðuna

Unnið ásamt Áslaugu Tóku Gunnlaugsdóttur, í samvinnu við Bókhlöðuna.

Hvað er máltækni og hvaða máli skiptir hún fyrir íslensku?

Unnið ásamt Viðari Snæ Garðarssyni, í samvinnu við Vísindavefinn og Eirík Rögnvaldsson.

Reykjavík

Ljósmyndabók, þar sem skoðuð eru áhrif ferðamennsku á Reykjavík. Einnig er borgin skoðuð með augum ferðamanna.
Smelltu hér til að sækja bókina á PDF-formi.

Tónleikatilkynning

Tónleikatilkynning

Auglýsingaplakat Kammerkórs Hafnarfjarðar, vor 2016
Fuglar og fiðrildi – og aðrir vorboðar
Vortónleikar Kammerkórs Hafnarfjarðar verða haldnir í Hafnarborg í Hafnarfirði í kvöld, sunnudaginn 8. apríl og hefjast klukkan 20:00.

Miðaverð er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir námsmenn og eldri borgara.

Á tónleikunum verða fluttir vorboðar af ýmsum toga, allt frá frönskum madrígölum til laga eftir Billy Joel og Bítlana.

Stjórnandi Kammerkórs Hafnarfjarðar er sem fyrr Helgi Bragason.

Fiðrildið er eitt af lögunum sem verður á dagskránni:

Tilkynning dagsins

Tilkynning dagsins

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju á morgun, laugardaginn 9. apríl kl. 14.

Stærsta verkið á efnisskránni að þessu sinni er Sinfóníetta nr. 3 eftir góðvin sveitarinnar, Philip Sparke, en einnig má nefna verk eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og marsa eftir Árna Björnsson, John Philip Sousa og Kenneth Alford. Þá stígur brasskvintett fram og leikur gamla ragtime slagarann That’s a plenty við undirleik lúðrasveitarinnar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Athugið að það verður ekki posi á staðnum.

Hér er sýnishorn af því sem verður á dagskránni:

Minnispunktar

Minnispunktar

Minni karla og kvenna
Minni karla og kvenna.
(Mynd fengin af mybraintest.org)
Þorrinn er nú í hámarki, með tilheyrandi þorrablótum og skemmtunum. Á þorrablótum eru gjarnan fluttar ræður um minni karla og kvenna. Í tilefni þorrablóta- og árshátíðavertíðarinnar er hér hugmynd að rannsóknarefni, t.d fyrir þjóðfræðinga, sagnfræðinga eða bókmenntafræðinga.

Rannsóknarspurningin gæti orðið: Hefur orðið einhver þróun eða breyting á ræðum um minni kvenna og minni karla í gegnum árin? Og ef svo er, hvernig er þá þróunin?

Er til dæmis endalaust hægt koma með orðaleiki í ræðum um minni kvenna um það hversu gott minni konur hafa, (skammtíma- eða langtímaminni) eða hvernig ræðan á einkum að höfða til minni kvenna, en ekki stærri kvenna? Eða telja upp ástæður fyrir því að bílar/bjór/hundar eru betri en konur?

Skrípamynd
Úr Heimilistímanum 14. mars 1974.
Og í ræðum um minni karla; er endalaust hægt að segja klisjukennda brandara, eins og úr blöðum og tímaritum frá um 1970-1980, um samskipti kynjanna, um samskipti kúgaðra eiginmanna við ráðríkar eiginkonur og tengdamæður? (Svona brandara um konur sem berja mennina sína með kökukefli þegar þeir koma fullir heim). Eða brandara um það að karlar séu „sterkara kynið“ af því að konur leyfa þeim að halda það, greyjunum?

Eða er ennþá, árið 2016, hægt að tala um það í ræðum um minni karla, að konur eigi að vera körlum undirgefnar, þær eigi að þóknast eiginmönnum sínum á allan hátt og stjana endalaust við þá, þá verði allt í lagi með ástarsambandið/hjónabandið? (Þær eigi að vera tilbúnar með matinn þegar karlinn kemur heim, ekki hringja í hann þegar hann er í vinnunni, ekki láta hann sjá þig í morgunsloppnum o.s.frv.) Ég sat í alvöru undir svoleiðis ræðu á þorrablóti fyrir einu ári. Og það var kona sem flutti hana. 100 ára kvennabarátta fór í vaskinn á nokkrum mínútum.

Hér er hugmyndin komin, fræðimenn framtíðarinnar. Ykkar er að nota hana og vinna úr henni.

Súkkulaðikaka

Súkkulaðikaka

Áður en árstíðabundið heilsuátak byrjar eftir jólin er vel þess virði að smakka þessa kaloríusprengju. Upphaflega er þetta After eight kaka, fengin héðan. Uppskriftinni hefur verið breytt lítillega, vegna þess að svo virðist sem After eight sé ófáanlegt á þessum árstíma. Þess vegna var notað Pipp með piparmyntubragði í staðinn.

Súkkulaðikaka, skreytt með jarðarberjum
Súkkulaðikaka

Innihald:
200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
3 egg
2 1/2 dl sykur
3 dl hveiti
nokkur jarðarber, til skreytingar

krem:
25 gr smjör
1 dl rjómi
200 gr Pipp með piparmyntubragði

Aðferð:

  1. Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman í skál yfir vatnsbaði.
  2. Þeytið egg og sykur vel saman.
  3. Bætið hveitinu við blönduna og hrærið saman við.
  4. Bætið loks súkkulaðibræðingnum við og hrærið vel.
  5. Setjið deigið í smurt, kringlótt form, sem er u.þ.b. 24 cm í þvermál.
  6. Bakið við 175°C í 25-30 mínútur. Kakan á að vera nokkuð blaut.
  7. Bræðið innihald kremsins saman í skál yfir vatnsbaði.
  8. Smyrjið kreminu á kökuna.
  9. Skreytið með jarðarberjum.
Völvuspáin 2016

Völvuspáin 2016

Á þessum árstíma er í tísku að birta völvuspár fyrir árið. Hér er ein:

Spákona með kristalskúlu
Völvan sér ýmislegt í kúlunni fyrir þetta ár.

Stjórnmálin

Ólafur Ragnar Grímsson hættir við að hætta vegna fjölda áskorana og verður kosinn forseti Íslands til fjögurra ára í viðbót. Hann fær stuðning úr óvæntri átt. Í aðdraganda kosninganna í sumar láta bloggarar og virkir í athugasemdum í sér heyra. Skítkast, skætingur og dónaskapur í umræðum þeirra rata í fréttir og verða til þess að venjulegir Íslendingar nenna ekki að fylgjast með umræðunni. Þetta bitnar á kjörsókninni, sem verður afar dræm.

Aðrir frambjóðendur eiga ekki séns í Ólaf. Þrýst verður á Katrínu Jakobsdóttur að bjóða sig fram í embættið, en hún verður ekki við þeim áskorunum.

Ríkisstjórnin heldur vitleysisgangi sínum áfram. Ríkir verða ríkari og fátækir fátækari, en þingmenn hennar og ráðherrar þræta fyrir það og segja að allt sé í lagi. Ísland – bezt í heimi. Haldið verður áfram í átt að einkavæðingu ríkisstofnana. Ríkisstjórnin lifir árið af, því stjórnarandstaðan á alþingi er aum og ósýnileg og gerir ekki neitt.

Nokkrir mótmælafundir verða haldnir á Austurvelli en þeir minna fremur á 17.-júní-samkomu heldur en mótmæli.

Píratar halda sigurgöngu sinni áfram í skoðanakönnunum. Það kemur smá bakslag hjá þeim á vormánuðum, en þeir rétta úr kútnum með haustinu. Fylgið heldur áfram að hrynja af Samfylkingunni. Árni Páll formaður verður hvattur til að segja af sér með haustinu, en situr sem fastast út árið. Björt framtíð og Samfylkingin ræða samstarf eða sameiningu sín á milli en ekkert verður úr þeim áformum.

Sigmundur Davíð forsætisráðherra sýnir af sér hroka og dónaskap og sakar fjölmiðla og fréttamenn um eineltistilburði í garð Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar. Aðrir ráðherrar og stjórnarþingmenn apa þetta háttarlag upp eftir honum.

Íslenskur stjórnmálamaður vekur athygli fyrir fremur óvenjulegt uppátæki.

Náttúran

Það verða jarðskjálftar á suðurlandi eða á Reykjanesi og hugsanlega á norðurlandi. Þeir valda litlu tjóni. Það verður lítið eldgos einhversstaðar á sunnanverðu landinu.

Mikið verður um lægðir og óveður fram á vorið og fá íbúar á norðan- og austanverðu landinu og á Vestfjörðum einkum að kenna á þeim. Á höfuðborgarsvæðinu verður snjór þangað til í apríl. Það snjóar líka í maí. Sumarið verður kalt og nokkuð votviðrasamt sunnan til á landinu. Það verður samt líka gott veður stundum. Það verður ekki eins blautt á norðurlandi. Haustið verður milt, en í desember skellur veturinn á af fullum þunga.

Lista- og menningarlífið

Íslenskur listamaður hlýtur stóra alþjóðlega viðurkenningu á árinu. Útrás íslenskra tónlistarmanna heldur áfram. Þekktar íslenskar hljómsveitir verða á tónleikaferðalögum í Bandaríkjunum og í Evrópu.

Ísland tekur þátt í Júróvísjón samkvæmt venju, en árangurinn verður ekki jafn góður og búist verður við.

Erlendar stórstjörnur og listamenn halda áfram að heimsækja landið. Justin Bieber heldur tónleika á landinu í september. Einhverjir embættismenn verða ósáttir við að fá ekki frímiða á tónleikana í krafti embættis síns. Meðan á dvöl Biebers hér stendur sýnir hann af sér hegðun sem eftir verður tekið. Íslendingar verða hneykslaðir af framkomu hans.

Erlendir kvikmyndagerðarmenn sýna landinu áhuga. Í það minnsta ein stórmynd verður tekin upp að hluta til hér á landi í sumar eða í haust. Íslenskir leikarar fá bitastæð hlutverk í fleiri erlendum stórmyndum og sjónvarpsþáttum.

Eldri tónlistarmenn sem lítið hafa verið í sviðsljósinu undanfarin ár vekja athygli á sér hér heima. Mikið verður um hvers konar afmælis- og endurkomutónleika.

Færri íslenskar kvikmyndir verða frumsýndar á árinu en á síðasta ári. Bókaútgáfa verður í meðallagi, en engin stórtíðindi gerast á því sviði. Arnaldur og Yrsa keppa áfram um hylli lesenda. Nokkur lægð verður yfir útgáfu nýrrar íslenskrar tónlistar, en gömul tónlist, safnplötur og endurútgefið íslenskt efni seljast sem aldrei fyrr.

Fjölmiðlar

Lestur dagblaða minnkar, sem og áhorf á hefðbundna, línulega sjónvarpsdagskrá, einkum hjá yngra fólki.

Það verða áfram niðurskurður og uppsagnir hjá ríkisútvarpinu. Hefðbundnum sjónvarpsstöðvum og útvarpsstöðvum gengur illa vegna nýrri leiða til að nálgast afþreyngarefni. Dagskrárgerð flyst í auknum mæli yfir á internetið.

Virkir í athugasemdum og hlustendur Útvarps sögu fá óþarflega mikla athygli. Mikið verður um kynþáttafordóma þeirra á meðal í tengslum við umræður um trúarbrögð, innflytjendamál og jafnréttismál.

Íþróttir

Íslendingar keppa á EM í handbolta í janúar, en árangur þeirra verður lakari en oft áður.

Nokkrir Íslendingar keppa á ólympíuleikunum, en komast ekki á verðlaunapalla.

Íslendingar fara á EM í fótbolta í sumar. Árangurinn verður ekki í samræmi við væntingar. Íslendingar líta þó á hann sem sigur, hvernig sem úrslitin verða og kemur höfðatalan þar við sögu. Íþróttaspekúlantar réttlæta árangurinn með því að minnast á að þetta sé í fyrsta sinn sem íslenskt karlalandslið tekur þátt í keppni af þessari stærð.

Að minnsta kosti einn íslenskur íþróttamaður vinnur þó sigur erlendis, en af því að viðkomandi er ekki í boltaíþróttum vekur það litla sem enga athygli.

Fræga fólkið

Fyrrverandi stjórnmálamaður deyr á árinu. Einnig einstaklingur sem hefur verið viðloðandi skemmtanabransann.

Þekktur sjónvarpsmaður gengur í hjónaband á árinu. Einnig þekktur Íslendingur úr skemmtanabransanum.

Einhver frægur eignast barn á árinu.
Einhver annar frægur skiptir um starfsvettvang.

Íslenskt par eða hjón sem hafa verið milli tannanna á fólki slíta samvistum á árinu.